Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019

Air Berlínarleiðin

Það er eðlilegt að velt sé upp ýmsum flötum þegar rætt er um gjaldþrot WOW. Einn flöturinn sem hefur komið upp nokkrum sinnum er svokölluð "Air Berlínarleið", þar sem Þýska ríkið kom inn og ábyrgðist lán til að framlengja reksturinn og vinda ofan af flugfélaginu.

Þó endaði það með nokkuð snöggu gjaldþroti, fyrr en áætlað hafði verið.  En þó var smá fyrirvari á því að flugi væri hætt.

Það má finna einhver líkindi með Air Berlínarsögunni og WOW, bæði flugfélögin lentu í vandræðum með breiðþotur og lengri flugleiðir og bæði voru næst stærsta flugfélagið (WOW á einhverjum tíma það stærsta?) og kepptu við rótgróin flugfélög (Icelandair og Lufthansa) á heimamarkaði.  Oft var talað um bæði WOW og Air Berlin sem "semi-budget" flugfélög.

Þó að ég sé ekki á nokkurn hátt sérfræðingur í flugrekstri held ég samt að ólíku sé saman að jafna.

Air Berlin átti (þó að þær hafi líklega verið veðsettar vængenda á milli) vel á annað hundrað flugvélar þegar Þýska ríkið kom til sögunnar í ágúst 2017.  150 milljón euro sem ríkið ábyrgðist frestuðu gjaldþrotinu um 2. mánuði.

Það er talað um að Þýska ríkið hafi tapað fjármunum á þessu, en ég hef hvergi getað séð um hvað háa fjárhæð hafi verið að ræða.

Það má svo velta fyrir sér dagsetningum í þessu máli. Air Berlin er gjaldþrota í ágúst 2017, Þýska ríkið kemur með "brúarlán", en endanlegt gjaldþrot verður í október sama ár (ef ég man rétt var meiningin að enda í nóvember).

En hvað gerðist í millitíðinni?  Jú, í september 2017 voru þingkosningar í Þýskalandi. Kosningabarátta er ef til vill ekki jafn spennandi ef tugþúsundir kjósenda eru "strandaglópar" víðs vegar um heiminn.

Þýska ríkisstjórnin var einnig ásökuð um að hafa bakvið tjöldin stýrt flugvélum (og leiðum) til Lufthansa til að halda þeim innanlands.

Það er vert að hafa í huga að í febrúar í ár, þegar flugfélagið Germania varð gjaldþrota var ekkert brúarlán í boði frá Þýsku ríkisstjórninni.

En það nefnir enginn sem fordæmi.

Það er því ekki laust við að hugrenningar um pólítíska spillingu vakni þegar gjaldþrot Air Berlin er haft í huga.  En um slíkt er ekkert hægt að fullyrða.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hafi verið óundirbúin undir fall WOW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef það aldrei hefði orðið?

Gjaldþrot WOW kom flestum á óvart en samt ekki.  En eins og oft var það ekki fyrr en það skall á, sem flestum þótti það augljóst að það hefði legið í loftinu.

En hættumerkin voru vissulega til staðar.

En þegar stór fyrirtæki fara á höfuðið er eðlilegt að menn velti fyrir sér hugsanlegum afleiðingum, og í tilfelli WOW geta þær orðið margvíslegar þó að enn sé of snemmt að segja til um hverjar þær verða.

Það er ljóst að fjöldi mun missa vinnuna.  Ferðaþjónustufyrirtæki munu líklega verða fyrir skelli, rútufyrirtæki, veitingastaðir, bílaleigur, o.s.frv. Einhverjir munu hugsanlega sameinast, aðrir fara á höfuðið.

Íslenska krónan gæti sigið, hagvöxtur horfið, verðbólga aukist, kaupmáttur dregist saman og þar fram eftir götunum.

Þá byrjar umræðan um hvernig þetta gat eiginlega gerst?  Hvers vegna var þetta ekki stöðvað?  Út af hverju er einu fyrirtæki leyft að verða svona stórt og svona mikilvægt?

Undir svona kringumstæðum virðist trú á því að nauðsynlegt (og mögulegt) sé að handstýra efnahagslífinu fá byr undir bæða vængi, ef ekki fleiri.

Ég veit ekki hver sá aðili er sem þessir aðilar telja hæfa um slíkt, hvort það er ríkisstjórn, Alþingi, eða hvort að einhver "stofan" ætti að taka þetta að sér.

En er ekki möguleiki að tilvera WOW hafi á undanförnum árum stuðlað að auknum hagvexti, lægri verðbólgu, meiri kaupmætti, aukinni atvinnu?  Jafnvel svo að Íslenskt þjóðfélag standi betur þó að WOW hverfi á braut, heldur en ef það hefði aldrei komið til sögunnar?

Er þetta svipað og spurningin hvort sé verra að vera í ástarsorg, eða hafa aldrei elskað?

Persónulega hef ég trú á því, þó að ég hafi enga útreikninga til þess að byggja á.  WOW kom til sögunnar á erfiðum tíma og jafði gríðarlega jákvæð áhrif á efnahagslífið.  Tölfræðin segir að yfir 66% fyrirtækja nái því ekki að verða 10 ára.  WOW er í þeim hópi.

Þar með er ekki sagt að þau leggi ekki margt til þjóðfélagsins.  Ekki síst aukna þekkingu og reynslu sem nýtist í starfsemi annarra fyrirtækja, sem stundum verða langlífari.

En ég náði því aldrei að fljúga með WOW.

 


mbl.is Missi ekki trú á markaðsöflunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgir ábyrgð eftirliti?

Þegar eitthvað á bjátar eru koma gjarnan fram upphrópanir um að "hér" þurfi að efla og stórauka eftirlit.

Það þurfi að fylgjast betur með og tryggja "hagsmuni" almennings.

Margir virðast trúa því að með nægum lagasetningum og reglulerðum megi koma í veg fyrir flest, ef ekki allt, sem óæskilegt sé.

Það er þó borin von.

En það er eðlilegt líka að velta upp spurningu á við þá hvort að ábyrgð fylgi eftirliti?  Sérstaklega ef ætla má að eftirlitinu hafi verið ábótavant.

Ef að gott og virkt eftirlit er til staðar er "allt í sómanum", eða hvað?

Ef flugfélag hefur rekstrarleyfi á Íslandi þá er rekstur þess tryggur í það minnsta þrjá mánuði, eða er það ekki?

Er það ekki það sem eftirlitið á að tryggja?

Fylgir því einhver ábyrgð að senda slík skilaboð út í "kosmósið"?

Eða virkar eftirlitið bara þegar "allt er í góðu"?

Auðvitað er þessi mál erfið viðfangs og ákvörðunum fylgja afleiðingar, stundum alvarlegar.

En það er ekki til lítils að setja lög og reglugerðir ef þeim er vísvitandi ekki fylgt.

Aukið eftirlit breytir engu, að farið sé eftir lögum og reglugerðum getur hins vegar gert það.

 


mbl.is Seldu miða allt til hins síðasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun hjá May

Það hefur verið nokkuð ljóst frá upphafi að Breska þingið studdi ekki Brexit í sama hlutfalli og kjósendur. Þar höfðu "Sambandssinnar" meirihluta.  Þar á meðal var Theresa May.

Ég held að það sé ljóst að meirihluti kjósenda á Bretlandi er óánægður með hvernig haldið hefur verið á málum.  Líklega er það eitt af því fáa sem sameinar þá sem kusu "Brexit" og og "Sambandssinna".

Atburðarásin hefur sýnt að May nýtur takmarkaðs traust, bæði á þinginu og í eigin flokki.

Hlutskipti hennar hefur auðvitað ekki verið auðvelt, hún hefur ekki náð að fylkja sínum eigin flokki að baki sér og efndi til vanhugsaðra kosninga sem veiktu stöðu hennar og svigrúm umtalsvert.

Líklega er það því affarasælast að hún víki úr embætti, enda vandséð að hún komi málinu lengra, þá og ef samningur hennar verður samþykktur.

Hver tekur við er vandi að spá um, og hvort það verður "Brexitsinni" eða "Sambandssinni", en staða "Sambandssinna" er enn sterk, ekki síst innan þingflokksins.

En margir tala af mikilli samúð um May, að hún hafi fengið þetta erfiða viðfangsefni "í fangið", jafnvel eiginlega gegn eigin vilja.

Það er auðvitað langt frá sanni, hún sóttist eftir embættum formanns Íhaldsflokksins og forsætisráðherra, eftir að ljóst var hvernig í pottinn var búið.

Henni hefði átt að vera fullkomlega ljóst hvað var framundan og að ekki væri um auðvelt verkefni að ræða.

Hún hefur verið þrautseig og seiglast áfram, en hvort að árangurinn sé góður eru vissulega skiptar skoðanir um.  Einhvern veginn hallast ég að því að eftirmæli hennar í embætti verði frekar neikvæð.

En vissulega verður það nokkuð afrek að koma samningnum í gegnum þingið, ef það tekst.

 

 

 

 

 


mbl.is May víkur þegar samningurinn er í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi skemmtiferðaskipa er ekki vandi Íslendinga

Þó að Íslendingar myndu að sjálfsögðu gera allt sem í þeirra valdi stæði, ef skemmtiferðaskip væri í vandræðum undan ströndum landsins, er engan veginn hægt að ætlast til þess að Íslendingar kaupi björgunartæki sem dugi fyrir stærstu skip, eða hafi stórar sveitir reiðubúnar ef svo illa færi.

Ábyrgðin á farþegum skipanna liggur hjá skipstjóra þeirra og útgerðum. Þau vonandi búinn besta hugsanlegum öryggisbúnaði og nægum bátum til að taka alla farþega.

Það er tómt mál að tala um að Íslendingar beri ábyrgð á þeim sem sigla um lögsöguna eða kjósa að koma til hafnar.

Það er ástæða til þess að huga að mengunarvörnum, því stór skip hafa gríðarmagn af olíu og öðrum efnum um borð.

Það má velta fyrir sér þeirri spurningu hvort að ástæða sé til að leggja sérstakan skatt á skip sem hingað koma til að standa straum af hluta kostnaðar við slíkt.

Einnig þarf að byggja upp rafmagnstengingu á helstu viðkomuhöfnum, og krefjast þess að skipin tengist á meðan þau eru við bryggju.

En það hefur nokkuð verið deilt um ábatann af komu slíkra skipa til landsins, miðað við tekjur og álag/mengun sem þau skapa.

Það er ábyggilega umræða sem vert er að taka.

 

 

 


mbl.is Öryggi farþega háð fiskiflotanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kurteisi borgar sig

Það er rétt af Baldvini Þorsteinssyni að biðjast afsökunar á framgöngu sinni og orðavali. Það er nauðsynlegt að ganga fram af kurteisi og hógværð undir kringumstæðum sem þessum.

Leiðinleg framkoma og dónaskapur dregur athygli frá góðum málstað og gerir ekkert nema að færa andstæðingum betri vígstöðu.

En mér þykir þó ótrúlega mikið gert úr þessu atviki. Talað er um að lagðar hafi verið hendur á seðlabankastjóra og þar fram eftir götunum.

Það þykir vel í lagt og augljóslega verið að reyna að magna upp storm í tebolla þjóðfélagsins.

En hitt er rétt að hafa í huga að kurteisi kostar ekkert og er því yfirleitt fljót að borga sig.

En Baldvin biðst afsökunar á framgöngu sinni.

Er það ekki meira en seðlabankastjórinn hefur gert?


mbl.is „Kumpánlegur“ bankastjóri óviðeigandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgar á Íslandi, en meiri sundurgreining væri fróðleg

Það er gott að lesa að það fjölgi á Íslandi, ég held að það sé landi og þjóð til heilla.

Eins og kemur fram í þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, er svo gott sem jafnvægi á milli Íslendinga sem búa erlendis og þeirra erlendu ríkisborgara sem búa á Íslandi.

Íslendingarnir erlendis hafa þó vinningin sem nemur 3000 einstaklingum.

En það væri fróðlegt að vita meira um báða þessa hópa. 

Hvernig skiptast þeir á milli kvenna og karla?  Hversu margir innan hópanna eru undir 18. ára aldri?  Hvað margir eru undir 30. ára aldri?

Það kemur fram hjá Hagstofunni að karlmönnum fjölgar hraðar en konum og eru þeir all nokkuð fleiri.

Síðan má velta fyrir sér upplýsingum eins og hve margir af hópunum bjuggu á Íslandi, fyrir 3. árum, fyrir 5. árum, fyrir 10. árum?

Einnig má velta fyrir sér upplýsingum eins og hve margir af þeim Íslendingum sem búa erlendis hafa erlendan uppruna?

Því meiri upplýsingar sem eru á reiðum höndum er auðveldara að gera sér grein fyrir samsetninug þeirra og hvað er hægt að gera til mæta þörfum þeirra.

Eða hvort að það er ástæða til.


mbl.is 47 þúsund Íslendingar búa erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn mun gera yður frjálsa

Einhvern veginn finnst mér að hvert tækifæri sé notað til að hneykslast, finna einhverju til foráttu, ata einhvern auri, eða hrekja einhvern úr starfi.

Það er nú svo að býsna margt, til dæmis mörg tákn tengjast einhverju miður þekkilegu í fortíðinni.

Það sama má segja um alls kyns orðalag og "kvót". Skemmti- og eftirminnileg orðnotkun er ekkert endilega bundin við "gott fólk".

Að segja að "hagnaður gerir yður frjálsa", er ef til vill ekki eftirbreytnivert, en því má ekki síður líkja við þá bíblíutilvitnun sem ég setti hér í fyrirsögn, eins og hina illa þokkuðu yfirskrift hliða fangabúða nazista.

Reyndar á þetta "kvót" nazistanna, eins og margt annað sem þeir gerðu að sínu, lengri sögu, í það minnsta eitthvað aftur á 19. öldina og hefur verið notað á ýmsum tungumálum.

Það sama má segja um t.d. rúnir og hakakrossinn, eins og flestir þekkja líklega.

Hitt er svo, að það er ekkert að því að koma því á framfæri, ef einhverjum mislíkar orðanotkun, og benda kurteislega á að slíkt kunni að vekja óþægileg tilfinningatengsl.

Málfrelsi virkar best þegar það er í allar áttir.

En það er ómaklegt að mínu mati að fara fram með kröfur um starfs- og helst ærumissi.

 

 

 

 

 


mbl.is „Fáránleg“ vísun til nasista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera saklaus uns sekt er sönnuð og að allir eigi rétt á verjanda, er það á undanhaldi?

Eitt af skringilegustu málum sem ég hef lesið um undanfarnar vikur, og um leið það sem minnkar trú mína á framtíðinni er krafan um að einn af "deildarforsetum" í lagadeild Harvard háskóla verði vikið úr starfi, vegna þess að hann tók að sér að verja Harvey Weinstein í komandi réttarhöldum.

Það sem er uggvænlegast er að krafan kemur frá nemendum háskólans og einhverjum kennurum, ekki veit ég hve margir þeirra séu úr lagadeildinni, en við verðum að vona að það séu fáir eða enginn.

Þeir virðast þeirrar skoðunar að setja skuli samasem merki á milli meints sakamamanns og verjenda hans.

Þeir líta ekki á svo að verið sé að verja saklausan einstakling (uns sekt hans er sönnuð), heldur eigi hann í raun ekki rétt á verjenda.

Ef til vill er þó það undarlegasta að háskólinn virðist að hluta til "dansa með" mótmælendum.

Þó að vissulega megi ekki draga of miklar ályktanir af einstaka málum færir þetta orðinu háskólasamfélag eiginlega aðra merkingu og setur það niður býsna mörg þrep.

En það má finna ýmislegt um málið á netinu, s.s. NYT, Boston Globe, HuffPost, og svo bregst Mr.Google auðvitað sjaldnast.

 


Menningarþáttur á föstudegi: Kerli og Low Steppa

Þá er hér smá menning á föstudegi, tónlist til að ylja eyrunum. Fyrra lagið er með Eistnesku söngkonunni Kerli (borið fram Gerlý, þó að Enskumælandi segi gjarna "Curly", og Íslendingum þyki líklega liggja beinast við að láta vaða með hörðu kái og jafnvel rödduðu erri.) En lagið er splunkunýtt, heitir Savage og er electróskotið popp með Eistneskum áhrifum. Persónulega verð ég að segja að mér þykir myndbandið vel gert.

Seinna lagið er svo hamingjusamt melódískt "danshús", með Breska plötusnúðnum Low Steppa og heitir "You´re My Life". Í sjálfu sér ekki mikið meira um það að segja.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband