Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019
20.3.2019 | 18:39
Brexit frestað til loka kjörtímabils Evrópu(sambands)þingsins?
Nú hefur Theresa May óskað eftir frestun á útgöngu til 30. júní. Dagsetningin er líklegast ekki tilviljun, enda rennur kjörtímabil Evrópu(sambands)þingsins út þann dag.
Þó að kosningarnar séu haldnar seint í maí, og þingfundir hætti stuttu áður er kjörtímabilið út júní og nýtt þing kemur að mig minnir saman 1. júlí.
Hvort að þessi dagsetning yrði talin duga til þess að Bretar myndu ekki kjósa sér þingmenn í lok maí, ætla ég ekki að fullyrða um, en þó myndi ég telja að þeir yrðu að kjósa, enda yrðu þeir ennþá "þegnar" í "Sambandinu" þegar kosningin færi fram.
En þeirra þingmenn yrðu þá líklega "afskráðir" áður en til þess kæmi að þeir tækju sæti á þinginu. Þannig að kosningin myndi líklega falla "dauð".
Það gæti hins vegar gefið undarleg úrslit, því áhuginn á kosningunum gæti verið lítill, sem og áhugi stjórnmálaflokka að eyða miklu fé í framboðsbaráttu.
En það er auðvitað ekki gefið að "Sambandið" samþykki þessa frestun og Frakkar eru þegar byrjaðir að gefa slíkt í skyn og vilja setja skilyrði.
Eins og staðan er í Breska þinginu get ég ekki séð að May geti auðveldlega gefið "tryggingar" fyrir því að samningar verði samþykktir.
Slík "trygging" er ekki mikils virði fyrr en samþykktin liggur fyrir.
Það er því varla hægt að segja að líkurnar á "hörðu Brexit" hafi minnkað, en ef til vill þykir May það einhvers virði pólítískt ef að "höfnunin" færist yfir til "Sambandsins".
Hún verður þá trauðla sökuð um að hafa ekki reynt til þrautar.
May óskar eftir að fresta Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2019 | 18:14
Tvær vísbendingar um að lægra verð virki
Það hefur eins lengi og ég man eftir mér alltaf verið mikið rætt um verðlag á Íslandi. Gjarna um að það sé alltof hátt.
Hér eru hinsvegar tvo dæmi um að lækkun verðs virki, annars vegar í þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við og fjallar um Þrjá Frakka og svo hinsegar í þessari frétt, þar sem sagt er frá stórfelldri verðlækkun á Stella Artois bjór.
Nú ætla ég ekkert að fullyrða að allir geti lækkað verð með svo myndarlegum hætti, en það er þekkt staðreynd að verð spilar stóra rullu í ákvörðunum væntanlegra viðskiptavina um hvar viðskipti þeirra enda.
Flestir líklega að leita að hinu þekkta jafnvægi gæða og verðs, sem vitanlega er misjafnt eftir einstaklingum hvar liggur.
En það er líka ljóst að launakostnaður sem hlutfall af sölu lækkar með aukinni traffík og aukin sala styrkir sömuleiðis stöðuna gagnvart birgjum og getur hugsanlega leitt til hagstæðara innkaupsverðs.
Nú þegar veitingamenn kvarta undan samdrætti, þykir mér líklegta að eitthvað verði undan að láta, ekki hvað síst fjöldi veitingastaða.
Þá munu líklega þeir lifa sem lækka verð og laðað að sér fleiri viðskiptavini. Þeir sem ganga á undan eiga mun meiri möguleika og ekki skaðar að fá feiknagóða umfjöllun í fjölmiðlum um lækkanirnar.
Margir veitingastaðir eru þó líklega í nokkurs konar "gildru", þar sem leiga tengist veltu, meira velta þýðir þá því hærri leigu.
Þeir munu eiga erfitt uppdráttar.
Umferðin jókst um 30% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2019 | 18:09
Hamingjusamir Finnar og sundlaugarpartýi
Finnskur kunningi minn sendi mér tölvupóst í morgunn þar sem hann sagði að þó að Finnar yrðu líklega seint taldir brosmildasta þjóð í heimi, þá væru þeir nú sú hamingjusamasta.
Hann taldi að það gæti ekki verið nema ein skýring á þessari hamingju, það væru sundlaugarpartýin þeirra og svo saunan.
Finnar hamingjusamastir þjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2019 | 01:29
Bretar vilja úr "Sambandinu"
Vissulega er affarasælast að reyna samningaleið, ef hún er í boði. En Íslendingar ættu að minnast þess, og vita, að enginn samningur er betri kostur en slæmur samningur.
Bretar ættu að vita það líka og ef marka má þessa skoðanakönnun þá er það svo.
En "Brexit" hefur klofið Breska stjórnmálaflokka og hefur sömuleiðis ítrekað sýnt fram á "gjá" á milli kjósenda og þeirra sem þeir kusu til þingsetu.
Ég er sammála þeirri skoðun sem kemur fram í skoðanakönnuninni, að hagsmunum Breta verði til langframa betur borgið með því að yfirgefa "Sambandið" án samnings, en það mun taka lengri tíma heldur en ef samið yrði með sameiginleg viðskipti að leiðarljósi.
En hvernig til tekst með viðskilnaðinn ræðst auðvitað ekki síst af því hvernig Bretar halda á spöðunum á næstu árum. Ástandið í Breskum stjórnmálum gefur í sjálfu sér ekki tilefni til mikillar bjartsýni.
Þar eru "flestar hendur" upp á móti hvor annari og erfitt að sjá að ríkisstjórn Teresu May takist að fylkja þingmönnum að baki sér.
Þingkosningar þurfa ekki að fara fram fyrr en í maí 2022, en það er auðvelt að sjá fyrir sér að þær verði haldnar fyrr.
En í vor (maí) verður gengið til kosninga í fjölmörgum sveitarstjórnum og þó "Brexit" sé ef til vill ekki stærsta málið þar, er ekki ólíklegt að frammistaða stjórnmálaforingja skipti þar máli.
Aðrar kosningar sem enginn veit svo nákvæmlega hvernig á að höndla, ef Bretar fara að fresta útgöngu, eru kosningar til Evrópu(sambands)þingsins í vor. Flestir eru þó sammála um að ef Bretar eru ekki formlega komnir úr "Sambandinu" fyrir þær kosningar, hljóti þeir að kjósa sér fulltrúa eins og aðrar "Sambandsþjóðir".
Margir innan "Sambandsins" óttast að ef Bretar muni kjósa þingmenn, komi til stórsigurs "Euroskeptika", enda ljóst að stór hluti Breskra kjósenda er ekki ánægður með framgöngu "stjórnmálastéttarinnar" í hvað varðar "Brexit".
Persónulega á ég erfitt með að sjá hvað muni ávinnast með frestun, mér þykir ólíklegt að samningum sem búið er að vinna að í um tvö ár, verði breytt á fáum mánuðum.
Ég sé heldur ekki fyrir mér að Bretar efni til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu, þó að ekki sé hægt að útiloka slíkt.
En það er spurning hvernig verður höggvið á þá pattstöð sem nú ríkir.
Breska þingið virðist ekki sammála um neitt, nema að engin leið sé fær.
En ef ekkert er að gert, hlýtur að koma til útgöngu - án samnings.
Óttast ekki Brexit án samnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2019 | 00:39
Að þroska ost með tónlist
Einhver skemmtilegasta frétt sem ég hef lesið um nokkra hríð, var að finna í The National Post, nú fyrir skemmstu.
Þar er fjallað um rannsóknir Svissneskra vísindamanna á því að spila mismunandi tegundir tónlistar á meðan ostur þroskast.
Notast var við stór "hjól" af Emmental og látlaust spiluð tónlist í hljóðeinangruðum boxum.
Lögin sem notast var við voru: Yello - Monolith (ambient), Mozarts The Magic Flute (klassík), A Tribe Called Quests Jazz (Weve Got) (hip-hop), Led Zeppelins Stairway to Heaven (rokk), and Vrils UV (teknó).
Lagaspilunin tók 6. mánuði og niðurstaðan er sú að tónlistin hafi marktæk áhrif á ostinn.
Ostur sem naut tónlistar þótti mildari og bragðbetri en ostur sem engrar tónlistar naut.
Bestur þótti ostur sem var spilað hip-hop fyrir, eða lagið "Jazz (We´ve Got), með A Tribe Called Quest, frá því snemma á 10. áratugnum.>Lagið er hrein snilld, og ekki að undra að það hafi góð áhfrif á ostinn.
Svo er spurning hvort að Osta og smjörsalan eigi ekki eftir að notfæra sér þetta. Gæti orðið búbót fyrir tónlistarmenn einnig.
6 mánaða "Hatari" gæti orðið góð söluvara, 45% "Bubbi" og þeim þjóðlegri væri boðið upp á ost sem hefði þroskast undir rímum.
9.3.2019 | 15:27
Eignamunur - breyta sem skiptir máli
Ég bloggaði fyrir nokkru um þær áhyggjur sem margir hafa af breikkandi bili hvað varðar eignaskiptingu á Íslandi og versnandi stöðu tekjulægstu hópanna.
Þá bloggfærslu má finna hér.
Þar nefndi ég nokkrar ástæður sem gætu útskýrt vaxandi eignamun að hluta, t.d. aukin fjölda innflytjenda.
Færslan endaði á þessum orðum: "Það er ekkert óeðllilegt að mikill fjöldi innflytenda hafi áhrif á eignaskiptingu, en hversu mikil þau áhrif eru veit ég ekki, og man ekki eftir því að hafa séð tölur um slíkt, en það væri vissulega þarft rannsóknarefni."
Á flakki mínu um netið rakst ég á umfjöllun sem tengist þessu efni. Á vef Viðskiptablaðsins er fjallað um þær upphæðir sem erlent starfsfólk hefur sent frá Íslandi undanfarin ár.
Þar kemur fram að að á síðastliðnum 7 árum er upphæðin sem send hefur verið úr landi nemur 75 milljörðum Íslenskra króna.
Á sama tíma hefur erlent starfsfólk sent 16 milljarða til Íslands.
Munurinn er því 59 milljarðar króna. Á síðasta árið nam munurinn 20 milljörðum, en þá sendi erlent starfsfólk 25 milljarða frá Íslandi.
Það má því ljóst vera að þessi þáttur hefur áhrif á eignamyndum á Íslandi, og ef ég leyfi mér að segja að stærstur hluti erlendra starfsmanna sé í eignaminnsta hópnum, þá blasir við að áhrifin þar hljóta að vera veruleg.
7.3.2019 | 20:30
Sænska krónan og euroið
Ég hef ekki tölu á því lengur hve oft ég hef heyrt það fullyrt í fjölmiðlum á Íslandi að Sænska krónan sé tengd við euroið. Að Svíar taki þátt í ERM II gengissamstarfi.
Ég hef meira að segja heyrt formann Íslensks stjórnmálaflokks fullyrða slíkt í fjölmiðli.
En þetta er ekki rétt.
Vissulega skuldbundu Svíar sig til að taka upp euro (einhvern tíma í framtíðinni) þegar þeir gengu í Evrópusambandið, en þeir hafa passað sig vel og vendilega á því að gera það ekki.
Sænskir kjósendur höfnuð euroupptöku í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003, og fáir hafa lýst áhuga sínum á því að endurtaka slíka atkvæðagreiðslu.
Áhugi á euroupptöku enda ekki verið mikill hjá Sænskum almenningi.
Samt sem áður má reglulega heyra áðurnefnda fullyrðingu í setta fram í Íslenskum fjölmiðlum án þess að fjölmiðlamenn hreyfi andmælum.
Ekki veit ég hvort þessar fullyrðingar eru settar fram í blekkingaskyni eða af vanþekkingu, en tilhugsun um hvoru tveggja vekur ekki upp bjartsýni um "umræðuna" í Íslenskum stjórnmálum.
Hér fyrir neðan má svo sjá gengisþróun á milli euros og Sænskrar krónu síðustu 10 árin. Eins og sjá á eru engin "ERM II" vikmörk á milli myntanna, enda þær bæðar "fljótandi".