Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019
9.2.2019 | 10:59
Hvar er frjálslyndi að finna?
Frjálslyndi er mikið í umræðunni, ég held að megi segja um víða veröld. En hvað þýðir orðið frjálslyndi og er það misjafnt eftir því hver talar, hvaða stjórnmálaskoðanir er talað fyrir og jafnvel hverrar þjóðar viðkomandi er?
Í Bandaríkjunum má segja að orðið frjálslyndur (liberal) sé alla jafna notað í merkingunni vinstrimaður. En í gegnum tíðina hefur það verið notað bæði Repúblikana og Demókrata, en er líklega aðeins notað um demókrata nú.
í Bretlandi held ég að frjálslyndur þýði nokkurn veginn miðjumaður. Það kemur til af stöðu Frjálslynda lýðræðisflokksin(Liberal Democrats) á milli stóru flokkanna tveggja. En hann á "ættir" að rekja m.a. til Liberal Party.
Í Kanada er sama sagan, þar er frálslyndur (liberal) fyrst og fremst meðlimur eða stuðningsmaður Frjálslynda flokksins (Liberal Party). Heldur vinstrisinnaður miðjusækinn flokkur.
Í Frakklandi er annað upp í teningnum, en þar vill í dag eiginlega enginn stjórnmálamaður kannast við að vera frjálslyndur nú orðið. Þar hefur merkingin breyst og að vera liberal er að vera "ultra kapítalisti", sem setur hagsmuni "elítunnar" í forgang og "treður" á verkalýðnu.
Þannig mátti lesa haft eftir Macron Frakklandsforseta síðastliðið sumar: "Europe, without a doubt, has become too ultra-liberal," he said, adding: "We need a stronger Europe that protects."
Í sömu grein fylgdi þessi útskýring: "The criticism made it sound like Macron, who used the European Union's "Ode to Joy" anthem as the soundtrack to his inauguration at the Louvre in 2017, might be turning against the EU. In France the expression "ultra-liberal" is not a positive one it refers to unrestrained capitalism that crushes the common worker and enriches elites."
Þannig að það er ljóst að það að segjast vera frjálslyndur hefur ekki sömu merkinguna eftir því hvar maður er staddur í heiminum.
En ef ég væri spurður að því hvaða merking væri lögð í frjálslyndi á Íslandi er ég ekki viss um hverju ég ætti að svara.
Annars vegar er félagslegt frjálslyndi sem stendur að ég tel nokkuð styrkum fótum á Íslandi og hefur eflst. Það má finna í öllum flokkum.
En efnhagslegt frjálslyndi er verulega sjaldgæfara og án efa að einhverju leyti misjafn skilningur sem lagður er í hugtakið.
Hvar finnst það?
8.2.2019 | 15:30
Frábært útvarpsefni - Hlustið á Harmageddon
Einhver besti útvarpsþáttur sem til er á Íslandi er á X-977, þá er ég að tala um Harmageddon. Að vísu þykir mér tónlistarvalið í þættinum ömurlegt, Máni er alltof mikill "kommi" (lol) en víðsýnin í þættinum er til fyrirmyndar. Það má treysta að heyra alls kyns sjónarmið.
Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju, þá er það að að þarf að setja efni þáttarins meira og oftar fram í "bútum", þannig að ég get hlustað á einstaka þætti og geti sleppt tónlistinni.
En í dag toppaði þátturinn sig.
Umræðan undir liðnum "fréttir vikunnar" var hreint stórkostleg. þar ræddu saman ásamt þáttarstjórnendum Frosta Logasyni og Mána Péturssyni, leikarinn Jóhannes Haukur og Börkur Gunnarsson.
Alla vegna skemmti ég mér frábærlega, ég ég verð að segja að þetta er nákvæmlega útvarp eins og ég vil hlusta á. Hæfilega óheflað, skoðanir látnar í ljós og skemmtun.
Hér má finna þessar umræður. Fréttir vikunnar byrjar þegar u.þ.b. 16:25 mínútur eru liðnar af upptökunni. (eins og oft áður er klúðrað að "klippa" þáttinn niður).
Menn þurfa ekki að vera sammála öllu því sem sagt er, en þetta er virkilega gott "útvarp".
Takk fyrir mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2019 | 14:16
Er til eitthvað sem er betra en lýðræði?
Víða hefur mátt sjá á undanförnum árum skoðanir í þá veru að lýðræði sé ekki endilega besta stjórnarfarið. Alla vegna ekki þar eða eða hér, svona eftir því hvar menn eru staddir.
Margir nefna til einstaka "einvalda" sem hefur verið velt úr sessi og í kjölfarið hefur fylgt "kaos", upplausn, og oft á tíðum hreinar hörmungar.
Og það er ekki hægt að neita því að í sumum tilfellum er þetta alveg rétt.
Rétt eins leið þeirra sem við nú köllum "lýðræðisþjóðir" er oft vörðuð ofbeldi, afturhvarfi til einveldis, og stundum borgarastyrjöld.
Við getum horft á lýðræðisþjóðir eins og Bandaríkin og Bretland, þar sem þokkalega hefur gengið að varðveita lýðræðið, en ég held að allir viti að þar er um að ræða undantekningar frekar en regluna.
Samt hefur aðeins ein fjölskylda heimild til þess að skipa í stöðu þjóðarleiðtoga Breta. Hvers kyns lýðræði eða jafnrétti er það?
Það sama gidir um þjóðir eins og Danmörku, Svíþjóð, Noreg, Holland, Spán, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjáland, Belgíu, japan og einhver fleiri ríki. Svona til gamans má reyndar geta þess, að ef ég man rétt er forseti Frakklands, altaf jafnframt prins í Andorra. Það gildir því um Macron nú ef ég hef skilið rétt.
En eru ríki í Afríku, Asíu og S-Ameríku ekki reiðubúin fyrir lýðræði?
Er betra fyrir þau að hafa "sterka landsfeður" sem eru þess umkomir að ákveða hvað er gott fyrir land sitt og þegna?
Hefur slíkt fyrirkomulag einhversstaðar gefist vel til lengri tíma? Hvar þá?
Er eftirsjá af föntum eins og Ghaddafi og Saddam Hussein?
Vissulega tryggðu þeir ákveðinn "stöðugleika". "Stöðugleika" þar sem ganga mátti að því sem vísu að stjórnarandstæðingar voru drepnir og pyntaðir, varpað á þá efnavopnum, o.s.frv.
Er það "stöðugleiki" sem er eftirsóknarverður?
Er "stöðugleiki" allt sem við sækjumst eftir?
Mörg lýðræðisríki hafa gengið í gegnum erfið tímabil. Þar má til dæmis nefna til sögunnar ríki eins og Þýskaland, Ítalíu, Spán, Portúgal, Austurríki, og Frakkland.
"Vagga lýðræðisins" eins og við oft nefnum Grikkland hefur þurft að ganga í gegnum hernám og herforingjastjórnir.
Á því tímabili sem við köllum gjarna "millistríðsárin" fækkaði lýðræðisríkjum jafnt og þétt.
En er til eitthvað betra stjórnkerfi til en lýðræði?
Eða er eitthvað til í því að lýðræði sé versta stjórnkerfið sem við getum hugsað okkur, fyrir utan öll hin stjórnkerfin sem mannkynið hefur reynt að nota?
Er ekki rétt að reyna að stefna að lýðræði sem víðast og reyna að styðja það hvar sem okkur gefst tækifæri til?
Hvort sem það er í Afríku, Asíu, S-Ameríku, eða hreinlega hvar sem er.
Sá stuðningur mun án efa ekki þýða að að allt verði slétt og fellt, eða að allir hafi það betra en áður. Ekki alltaf, eða alveg strax.
Stundum mun það þýða hörmungar, dauða, sult, og þjáningar.
En ef til lengri tíma litið þýði það að lýðræði eigi möguleika á því að skjóta einhverjum rótum, og ef til vill blómstra í framtíðinni, er það ekki þess virði?
Nú verður hver að svara fyrir sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2019 | 12:58
Menningarþáttur á föstudegi - Austur-Evrópu rapp - Tommy Cash
Ég verð líklega seint sakaður um að vera "menningarviti", þó að vissulega sé menning snar þáttur í lífi mínu.
"House"tónlist hefur verið snar þáttur af lífi mínu um áratugaskeið og einnig hefur rap og hip hop tónlist alltaf höfðað sterkt til mín.
En raptónlist er mismunandi eftir hvaðan hún kemur.
Undanfarin ár hef ég haft gaman af því að fylgjast með "local" raptónlist þar sem ég bý.
Þar á meðal er Eistneski rapparinn Tommy Cash. Hann var einmitt að vinna verðlaun á Eistnesku tónlistarverðlaunum seinni partinn í janúar, hann vann verðlaun fyrir bestu hip-hop breiðskífuna og besta myndbandið, fyrir Little Molly.
Seinna myndbandið er svo með Tommy og Rússnesku sveitinni Little Big.
Alltaf gott að víkka sjóndeildarhringinn og sjá hvernig hlutirnir gerast í öðrum löndum. Eins og stundum er sagt: Njótið.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það virðist margt vera sem hefur betur mátt fara í stjórnarháttum Reykjavíkurborgar undanfarin ár.
Kunningi minn sendi mér hlekk á frétt sem birtist á vef ríkisútvarpsins um alvarlegar ákúrur sem Persónuvernd veitir Reykjavíkurborg fyrir framgöngu hennar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Í fréttinni má lesa m.a.:
"Í úrskurðinum eru gerðar alvarlegar athugasemdir við framgöngu borgarinnar í málinu. Í bréfi sem Persónuvernd sendi borginni í júni á síðasta ári er til að mynda spurt af hverju Persónuvernd hafi aðeins verið upplýst um afmarkaðan þátt málsins og hvers vegna það hafi ítrekað gætt ósamræmis í svörum borgarinnar.
Borgin baðst afsökunar á þessu í svari sínu og sagði það ekki hafa verið ætlun sína að leyna neinu um það hvernig verkefnið yrði unnið. Þá var jafnframt beðist velvirðingar á því að ósamræmis hefði gætt í svörum.
Persónuvernd virðist ekki taka þessi svör gild. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki fengið allar upplýsingar sem óskað hafði verið eftir sérstaklega. Það sé alvarlegt að ábyrgðaraðili, sem vinni með persónuupplýsingar og sé auk þess stærsta sveitarfélag landsins, skuli láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum eftirlitsvalds. Slíkt sé ámælisvert.
Gildishlaðin smáskilaboð og óþarfa bréf
Persónuvernd er líka nokkuð afdráttarlaus varðandi sms-skilaboðin og bréfin sem send voru ungu fólki. Hún segir að texti þeirra hafi verið gildishlaðin og í bréfum, þar sem rætt var um skyldu til að kjósa, hafi hann verið rangur. Hvergi sé minnst á kosningaskyldu í íslenskum lögum. Þá segir Persónuvernd að bæði smáskilaboðin og bréfin hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á hegðun unga fólksins í kosningunum. Öll bréfin og skilaboðin hafi eingöngu verið merkt Reykjavíkurborg og því ekki gefið til kynna að einhverjir aðrir, eins og Háskóli Íslands, stæðu á bak við sendinguna. Uppruni þeirra og tilgangur hafi því ekki verið skýr.
Persónuvernd segir að bréfin sem voru send til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara hafi ekki einungis verið til upplýsinga og fræðslu heldur hafi þau einnig verið hvatning til að kjósa."
Það má jafna þessu við að borgin sé sökuð um að reyna að hafa áhrif á kosningar með gildishlöðnum skilaboðum. Jafnframt er borgin sökuð um að hafa í raun leynt upplýsingum og ósamræmi í þeim upplýsingum sem óskað var eftir.
Það er þekkt staðreynd að mismunandi flokkar hafa mismunandi fylgi innan mismunandi hópa.
Því er það alltaf verulega tvírætt og vafasamt ef stjórnvald eins og Reykjavíkurborg reynir að hafa á einhvern hátt áhrif á hegðun kjósenda. Sérstaklega þegar ákveðnir hópar eru teknir út úr.
Ríkisstjórnir, sveitarstjórnir og önnur yfirvöld eiga ekki að skipta sér af kosningum. Það vekur alltaf upp spurningar og vírkar tvímælis.
Margir hafa undanfarið lýst yfir áhyggjums sínum af því að nafnlausir aðilar reyni að hafa áhrif á einhverja hópa.
Sýnu alvarlegra högg fyrir lýðræðið er ef stjórnvöld standa fyrir slíku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2019 | 14:42
Matvara er mjög dýr á Íslandi - ekki síst landbúnaðarvörur
Það er ekki ódýrt að kaupa í matinn á Íslandi. Ég fann það ágætlega þegar ég ferðaðist um landið síðastliðið sumar.
En ef hverju er það?
Þessi niðurstaða er mikil umskipti frá því árið 2012, en þá var Ísland talið ódýrast Norðurlandana ásamt Finnlandi og ódýrast í heildkostnaði við framfærslu.
(En það er rét að hafa í huga að hér er langt í frá um sömu "körfu" að ræða, og því ekki fyllilega samanburðarhæft, þó að vissulega gefi það vísbendingar)
En margt hefur breyst síðan þá, og líklega ekki hvað síst gengið. Íslenska krónan hefur styrkst. Þannig ýkjast verðbreytingar upp þegar borið er saman við erlend verð.
Og auðvitað væri fróðlegt að sjá samanburð á breytingum á öðrum rekstrarkostnaði matvöruverslana á sama tímabili. Hvað hefur launakostnaður stigið, hvað hafa fasteignagjöld hækkað, rafmagn og hiti o.s.frv?
En það sem hjálpar til að Finnar geta verslað svona ódýrt, er að hluta til Putin að þakka, og því innflutningsbanni sem hann setti til Rússlands, var það ekki 2013.
Það hafði gríðarleg áhrif á verðlag landbúnaðarvara, sérstaklega mjólkurafurðir, enda féll útflutningur gríðarlega og hélt áfram að falla árin á eftir. Á milli 2013 og 2016, dróst útflutningur Finna á landbúnaðarafurðum til Rússlands um ríflega 70%, eða eitthvað yfir 300 milljónir euroa.
Þetta hafði gríðarleg áhrif bæði í Finnlandi og "Sambandinu" í heild, sérstaklega austan megin, enda voru fleiri lönd sem höfðu allt í einu offramboð á mörgum landbúnaðarvörum.
Það hefur líka áhrif að "risarnir" tveir á Finnskum matvörumarkaði hafa háð grimmilegt verðstríð, sem hófst á svipuðum tíma. Og það stendur enn yfir.
Bændur eru ekki hressir, enda hafa rannsóknir sýnt að hlutur þeirra í heildarverði fer minnkandi (og afkoma þeirra sömuleiðis), en það gerir reyndar hlutur verslunarinnar einnig. Það eru matvælaiðnaðurinn sem eykur sína hlutdeild.
En ég get tekið undir gagnrýni þeirra Bónusmanna að því marki að þessi könnun sýnir lítið meira en að Íslenskar landbúnaðarafurðir eru mjög dýrar.
Einstaka atriði (fyrir utan hátt verð á Íslenskum landbúnaðarafurðum)könnunarinnar vekja sérstaka athygli.
Ég bý 80 kílómetra sunnan við Helsinki, þar sem verðlag er að öllu jöfnu örlítið lægra en þar. Sjá má Finna fylla innkaupakörfurnar hér áður en þeir halda heim á leið.
En ég hef aldrei séð 500g af pasta á 26 kr, eins og boðið er upp á í Helsinki, ég hef aldrei seð lítra af appelsínusafa á 88 kr eins og hægt er að kaupa í Osló. Hrísgrjón á 108 kr eru heldur ekki á boðstólum hér.
Önnur verð kannast ég vel við, og margt heldur ódýrar en þarna er nefnt.
En svo kemur Ísland alls ekki illa út í brauði, banönum og hrisgrjónum. En verðið á gulrótum á Íslandi hlýtur svo að vera sérstakt rannsóknarefni.
En heilt yfir þykir mér munurinn oft ótrúlegur á milli borga í þessari könnun. Það er ekki langt á milli Helsinki, Stokkhólms, Osló og Kaupmannahafnar, en munurinn samt sem áður verulegur á mörgum vörum.
En það væri fróðlegt að sjá betur "balanseraða" könnun, sem væri ef til vill nær því sem hefðbundin fjölskylda kaupir inn.
Mér finnst frekar "ódýrt" hjá verkalýðsforingjum að tala eins og sá munur sem þarna kemur fram sé munur á framfærslu í Reykjavík og Helsinki.
Enn "ódýrara" að tala eins og munurinn liggi eingöngu hjá Íslenskri verslun.
En umræðan er þörf, enda velkist enginn í vafa um að matvælaverð er afar hátt á Íslandi og það skiptir máli.
Set hér að lokum, ef einhver hefur gaman af því að skoða "tilboð" í Helsinki, tengla á vefsíður, þriggja verslana, LIDL, K-Supermarket (KESKO), Prisma.
P.S. Bæti hér við 8. febrúar tengli á ágætis umfjöllun hjá Bændablaðinu. Þar er tafla sem segir að hlutfallsleg eyðsla Íslendinga (af launum) sé heldur lægri en hinna Norðurlandaþjóðanna. En líklega eru þetta tölur frá 2017.
Googlaði örlítið og fann þessar upplýsingar frá Eurostat, en þær eru frá 2017. Þær eru ekki alveg samhljóða þeim frá Bændablaðinu, en sýna þó svipaða niðurstöðu, Ísland heldur sigið niðurávið.
P.S.S. Bæti hér við 9. febrúar. Grein frá Ernu Bjarnadóttur á Vísi.is og tentill á grein frá Viðskiptaráði.
Furðar sig á samsetningu vörukörfu ASÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2019 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2019 | 10:32
Að ríkið styðji fyrirtæki vegna forskots og ofríkis ríkisfyrirtækis
Einhvern veginn finnst mér að fyrirsögnin hér gæti verið yfirskrift þess sem nú er kallað "fjölmiðlafrumvarpið". Það er að segja um opinbera niðurgreiðslu skattgreiðenda á einkareknum fjölmiðlum.
Þessar hugmyndir eru nokkuð í takt við þróunina á Íslandi, þar sem stjórnmálamenn hafa varla undan við að fá hugmyndir um eitthvað sem þeir vilja að almenningur niðurgreiði.
Allt nema vegi, þar eru komnar fram hugmyndir um að þeir "greiði sem noti".
En út af hverju ganga Íslenskir fjölmiðlar svona illa, að nauðsynlegt sé talið að neyða skattgreiðendur til að leggja þeim lið?
Þar má án efa telja til ýmsar ástæður, en ég hygg að það þyrfti ekki að ræða við marga il þess að sterk staða Ríkisútvarpsins yrði nefnd til sögunnar.
Ég held líka að ef ekkert verður að gert muni sá styrkur ekki gera neitt nema að aukast á komandi árum og hlutföllin á fjölmiðlamarkaði skekkjast enn frekar.
Sívaxandi tekjur Ríkisútvarpsins af útvarpsgjaldi munu sjá til þess, sem aftur gerir stofnuninni kleyft að auka umsvif sín og jafnvel í framhaldinu ná í enn stærri skerf af auglýsingamarkaðnum.
Stóraukin fjöldi íbúa og fyrirtækja, þýðir að sjálfsögðu stórauknar tekjur RUV af nefskattinum.
Margir hafa viðrað þá hugmynd að drage eigi RUV að hluta til eða alveg af auglýsingamarkaði.
Það gæti skilað einhverjum árangri, sérstaklega ef sá tekjumissir yrði ekki bættur upp með öðrum hætti.
En ef árangur á að nást, þarf að minnka umsvif RUV á markaðnum. Það þarf í raun að draga úr starfseminni.
Ef RUV er með 50% áhorf og er bannað að selja auglýsingar, þá er búið að taka 50% af sjónvarpsáhorfendum af auglýsingmarkaðnum.
Auglýsingakaupendur fara ekki að kaupa auglýsingar í auknum mæli á Stöð2/Bylgjunni, DV, eða Mogganum til þess að reyna að ná í þann hóp. Það hefur ekkert upp á sig.
Auglýsendur eru ekki að keppast við að eyða ákveðinni upphæð, heldur eru þeir að kaupa auglýsingar þar sem þeir ná til hugsanlegra viðskiptavina.
Ef þeir eru að horfa á auglýsingalaust RUV, þýðir lítið að kaupa auglýsingar annars staðar.
Það liggur í hlutarins eðli að þegar einn aðili á markaði nýtur þeirra forréttinda að allir (yfir ákveðnum aldri) þurfa að greiða til hans, óháð því hvort þeir nýti þjónustuna eður ei, þá mun hann til lengri tíma bera höfuð og herðar yfir aðra markaðsaðila.
Svona rétt eins og ein matvöruverslun fengi nefskatt, burt séð frá því hvar menn kysu að versla.
Sú verslun gæti leyft sér lægri álagningu, meira vöruúrval og þar fram eftir götunum, sem myndi svo líklega skila sér í meiri sölu og markaðshlutdeild.
En það eru ekki til neinar einfaldar lausnir til að leiðrétta þetta misrétti.
Ef til vill má hugsa sér að breyta nefskattinum í "fjölmiðlaskatt", sem væri skipt upp í, sjónvarpshluta, útvarpshluta, vefmiðla og dagblöð, sem síðan væri úthlutað úr eftir hlutdeild í neyslu?
Þetta væri ákveðin leið ef einlægur vilji er til þess að fjölmiðlar séu á framfæri skattgreiðenda.
Hitt er svo hvort að þrengja eigi starfssvið RUV? Skilgreina ákveðinn kjarna sem það ætti að sinna?
Svo má líka velta því fyrir sér að ef ekkert Ríkisútvarp væri á Íslandi, væri þá verið að berjast í því að koma því á fót?
Alltaf gott að velta fyrir sér mismunandi möguleikum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
6.2.2019 | 10:08
Gjaldþrot vegna eldsneytisverðs og veikingar gjaldmiðils?
Það er aldrei skemmtilegt að lesa um gjaldþrot fyrirtækja, og alls ekki flugfélaga. Strax koma upp í hugann myndir af ferðalöngum sem strandaglópum í fjárlægum löndum o.s.frv.
En þetta hefur verið algengt upp á síðkstið og einhvers staðar las ég nýlega að á 3ja hundrað flugfélaga hafi lagt upp laupana á síðust 10. árum eða svo.
En hér talar forsvarsmaður Þýska flugfélagsins Germania að félagið sé komið í þrot vegna hás eldsneytisverðs og lækkandi gengis.
Þetta er líklega eitthvað sem Íslendingum finnst þeir hafa heyrt áður, en munurinn er þó sá að hér er verið að tala um euroið.
Á Íslandi kenna svo ferðaþjónustufyrirtæki og útflytjendur um hækkandi gengi um erfiðleika, en innflytjendur barma sér ef það lækkar.
Yfirleitt er eingöngu minnst á ytri aðstæður.
Flugfélagið Germania gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2019 | 09:31
Íslendingar ættu að bjóða Trump til landsins
Ef ég væri starfandi PR-maður hjá Íslensku fyrirtæki s.s. Icelandir, Wow air, eða einhverju þokkalega stóru ferðaþjónustufyrirtæki, myndi ég bjóða Trump og fjölskyldu hans til landsins.
Það er að segja Joshua Trump og fjölskyldu hans.
Fá fyrirtæki til að slá saman, flugfar, hótelgisting, eitthvað út að borða, einhverjar skoðunarferðir, hvalaskoðun o.s.frv.
Hægt að fá góða umfjöllun hér og þar um Trump á Íslandi, Trump.
Held að þetta væri gott tækifæri.
Lagður í einelti vegna Trump-nafnsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2019 | 13:08
Er munur á #metoo og #hann/hún (setjið inn nafn að eigin ósk) did?
Nú fer fram hávær umræða um réttlæti þess að á netið séu sagðar alls kyns sögur um kynferðislegt ofbeldi, áreiti og svo framvegis.
Nýlega kom fram #Metoo, og að var stórmerkilegt framtak. Sumar sögurnar sem ég las fengu hroll til að skríða upp bakið á mér, og hafið ég þó talið mig hafa orðið vitni að "ýmsu".
En þær sögur voru frásagnir sem ekki beindust að neinum, ef svo má að orði komast, nema ef til vill því sem má kalla "karlægri menningu" og auðvitað að einhverju marki okkur körlum.
Auðvitað má, ef vilji er fyrir hendi, draga sannleiksgildi í efa, en það verður þó aldrei aðalatriðið þegar slíkar frásagnir eiga í hlut.
En þegar slíkar "herferðir" beinast gegn einstaklingi fær það mig vissulega til þess að staldra við og hugsa málið.
Ég vil taka það fram að ég er með þessu ekki á neinn hátt að taka afstöðu til sannleiksgildis eins eða neins.
En um slíkt hlýtur þó að gilda önnur lögmál, heldur en þegar um baráttu eins og #Metoo var að ræða.
Ef ég segi að Bjarnfreður Geirsdóttir (nafnið á móður Georgs "vinar okkar allra" úr Vaktaseríunum), hafi áreitt mig kynferðislega snemma á 9. áratug síðustu aldar, og ég hafi átt svo andlega erfitt í kjölfarið að kæra hafi aldrei komið til greina, en hafi hugrekki til þess að koma fram nú 35. árum síðar, hvaða rétt hef ég?
Ég kærði ekki, brotið er fyrnt, en ég kýs að rifja það upp nú.
Hvaða möguleika á Bjarnfreður á því að grípa til varna? Hvað getur hún sagt sem sannfærir alla "lesendur" um sakleysi sitt (ef við nú gefum okkur að sú sé raunin)?
Við þekkjum líklega mörg söguna um Jimmie Saville, en það eru önnur nöfn sem vert er að gefa gaum, s.s. af Cliff Richards, og svo Edward Heath.
Cliff Richards þurfi að lögsækja bæði fjölmiðla og lögreglu vegna ásakana á hendur honum um kynferðisbrot sem áttu að hafa staðið um áratuga skeið.
Ásakanir um umfangsmikið barnanið og jafnvel morð, sem áttu að hafa verið framin af Edward Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, komu fram all löngu eftir andlát hans. Talað var um umfangsmikinn barnaníðingshring í Westminster.
Þær kölluðu á umfangsmikla rannsókn Scotland Yard sem, til þess að gera langt mál stutt, endaði með því að "fórnarlambið" þurfti að svara til saka fyrir falskar aðdróttanir, lygar og blekkingar.
En á meðan hinni umfangsmiklu rannsókn stóð, lét einn af þeim sem þekkt hafið Heath, hafa eftir sér:
Lincoln Seligman, who knew Sir Edward for 50 years, said: "If you make a mass appeal for victims you are sure to get them, whether they are legitimate or not."
Breska lögreglan eyddi vel á fjórða hundrað milljónum íslenskra króna í rannsóknina, en hún endaði með "aðal ákærandann" fyrir rétti.
En það er rétt að taka það fram að auðvitað veit ég ekkert meir um sekt eða sakleysi Cliff Richards eða Edward Heath, en það sem ég hef lesið í fjölmiðlum.
Ég held líka að það megi nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að ásakanirnar muni loða við nöfn þeirra um fyrirsjáanlega framtíð.
Enn og aftur vil ég taka það fram að með þessum pistli er ég ekki að taka afstöðu til ásakana sem birst hafa nýlega á Íslenskri vefsíðu.
Þessum pistli er meira ætlað að koma á framfæri áhyggjum af þróuninni, ef slíkt verður að "norminu" í framtíðinni.
Það er þekkt að fáar fjaðrir geta orðið að heilum "Lúkasi".
En er einhver stofnun á Íslandi sem gæti leitt hið sanna í ljós í slíkum málum?
Eða telja Íslendingar þörf á að koma á fót slíkri stofnun? Er það yfirleitt hægt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)