Er munur á #metoo og #hann/hún (setjið inn nafn að eigin ósk) did?

Nú fer fram hávær umræða um réttlæti þess að á netið séu sagðar alls kyns sögur um kynferðislegt ofbeldi, áreiti og svo framvegis.

Nýlega kom fram #Metoo, og að var stórmerkilegt framtak. Sumar sögurnar sem ég las fengu hroll til að skríða upp bakið á mér, og hafið ég þó talið mig hafa orðið vitni að "ýmsu".

En þær sögur voru frásagnir sem ekki beindust að neinum, ef svo má að orði komast, nema ef til vill því sem má kalla "karlægri menningu" og auðvitað að einhverju marki okkur körlum.

Auðvitað má, ef vilji er fyrir hendi, draga sannleiksgildi í efa, en það verður þó aldrei aðalatriðið þegar slíkar frásagnir eiga í hlut.

En þegar slíkar "herferðir" beinast gegn einstaklingi fær það mig vissulega til þess að staldra við og hugsa málið.

Ég vil taka það fram að ég er með þessu ekki á neinn hátt að taka afstöðu til sannleiksgildis eins eða neins.

En um slíkt hlýtur þó að gilda önnur lögmál, heldur en þegar um baráttu eins og #Metoo var að ræða.

Ef ég segi að Bjarnfreður Geirsdóttir (nafnið á móður Georgs "vinar okkar allra" úr Vaktaseríunum), hafi áreitt mig kynferðislega snemma á 9. áratug síðustu aldar, og ég hafi átt svo andlega erfitt í kjölfarið að kæra hafi aldrei komið til greina, en hafi hugrekki til þess að koma fram nú 35. árum síðar, hvaða rétt hef ég?

Ég kærði ekki, brotið er fyrnt, en ég kýs að rifja það upp nú. 

Hvaða möguleika á Bjarnfreður á því að grípa til varna?  Hvað getur hún sagt sem sannfærir alla "lesendur" um sakleysi sitt (ef við nú gefum okkur að sú sé raunin)?

Við þekkjum líklega mörg söguna um Jimmie Saville, en það eru önnur nöfn sem vert er að gefa gaum, s.s. af Cliff Richards, og svo Edward Heath.

Cliff Richards þurfi að lögsækja bæði fjölmiðla og lögreglu vegna ásakana á hendur honum um kynferðisbrot sem áttu að hafa staðið um áratuga skeið.

Ásakanir um umfangsmikið barnanið og jafnvel morð, sem áttu að hafa verið framin af Edward Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, komu fram all löngu eftir andlát hans. Talað var um umfangsmikinn barnaníðingshring í Westminster.

Þær kölluðu á umfangsmikla rannsókn Scotland Yard sem, til þess að gera langt mál stutt, endaði með því að "fórnarlambið" þurfti að svara til saka fyrir falskar aðdróttanir, lygar og blekkingar.

En á meðan hinni umfangsmiklu rannsókn stóð, lét einn af þeim sem þekkt hafið Heath, hafa eftir sér:

Lincoln Seligman, who knew Sir Edward for 50 years, said: "If you make a mass appeal for victims you are sure to get them, whether they are legitimate or not."

Breska lögreglan eyddi vel á fjórða hundrað milljónum íslenskra króna í rannsóknina, en hún endaði með "aðal ákærandann" fyrir rétti.

En það er rétt að taka það fram að auðvitað veit ég ekkert meir um sekt eða sakleysi Cliff Richards eða Edward Heath, en það sem ég hef lesið í fjölmiðlum.

Ég held líka að það megi nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að ásakanirnar muni loða við nöfn þeirra um fyrirsjáanlega framtíð.

Enn og aftur vil ég taka það fram að með þessum pistli er ég ekki að taka afstöðu til ásakana sem birst hafa nýlega á Íslenskri vefsíðu.

Þessum pistli er meira ætlað að koma á framfæri áhyggjum af þróuninni, ef slíkt verður að "norminu" í framtíðinni.

Það er þekkt að fáar fjaðrir geta orðið að heilum "Lúkasi".

En er einhver stofnun á Íslandi sem gæti leitt hið sanna í ljós í slíkum málum?

Eða telja Íslendingar þörf á að koma á fót slíkri stofnun?  Er það yfirleitt hægt?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Deili áhyggjum þínum af því hvert þetta gæti þróast.  Ekki síst því að karlar gætu átt mótleik, myndað samtök og opinberað nöfn kvenna sem hafa leitað á þá sjálfa.  Þá fyrst yrði nú skrattinn laus.

Kolbrún Hilmars, 5.2.2019 kl. 13:43

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Tómas.

Í síðustu bloggfærslu spurðir þú að því hvort að "nasismi væri í lagi".

Metoo er eins og nasismi. En þar er Gyðingum hins vegar skipt út með öllum karlmönnum. Þetta er úr sömu dómstólaskúffu götunnar sem keyrir kristalhnífa á metoonótt í bak fórnarlamba.

Það er afar erfitt að ráða við þessi fyrirbæri, því þau hafa stuðningsmenn í röðum fábjána og þeir eru margir. Hitler komst ekki til valda sem einn maður. Þjóðin suddi hann. Og þjóðin virðist styðja me-too eins og er, en mest vegna fávísi.

Fólk á að snúa sér til lögfræðings eða lögreglunnar ef það hefur eitthvað við náungann að sakast. Það á ekki að ganga í nýnasista-hreyfinguna metoo.

Ef mönnum finnst Metoo í lagi þá finnst því nasismi og kommúnismi líka í lagi. Þetta er sama skepnan fái hún að þróast og þroskast

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 5.2.2019 kl. 15:08

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Nýustu fréttir herma að eitt af aðalnöfnunum í Rote Armee Fraktion (Baader-Meinhof-gengið) sem stofnað var gegn nasisma og lifði, svaf og át undir móttóunum:

    • Anti-fasistar

    • Anti-imperialistar

    • Með kommúnisma

    • Með Maóisma

    • Með Marx–Lenínisma

    • Með Third-Worldisma

    • Með Anti-Zíonisma

    - já sá maður er orðinn nýnasisti!

    Hver veit hvar Metoo endar. Kannski sem nýr fangabúðaflokkur á þingi eða bara sem þau hryðjuverkasamtök sem þau eru.

    Gunnar Rögnvaldsson, 5.2.2019 kl. 15:18

    4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

    @Kolbrún, þakka þér fyrir þetta. Ég held að það sé ástæða til þess að huga að því hvert stefnir í netumræðu og hvernig hún þróast.

    Ég veit nú ekki hvort að rétt sé að óttast að karlmenn fari að hlaða inn miklu af "metoo" sögum.  Ég efast ekkert um að þeir hafi það, en er það ekki partur af "eitruðu karlmennskunni" að enginn karlmaður kvarti undan því að kona "reyni við hann", jafnvel þó að að sé "full harkalega"? 

    @Gunnar, þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki sammála þér að umræða og framsetning saga eins og Metoo, sé af hinu illa, hvað þá að það sé í líkingu við nazisma.

    Það að ræða samskipti kynjana er langt í frá að vera óþarfi eða ofsóknir.

    Það þarf ekkert að vera ssmmála öllum þeim sjónarmiðum sem koma fram, það getur verið eðlilegt að efast um einhverjar frásagnir, en það skiptir ekki meginmáli.

    Þetta er umræða sem er þarft að taka, rétt eins og flestar aðrar umræður.

    Einn af meginpunktum Metoo var, ef ég hef skilið rétt, að taka umræðuna og reyna að sleppa í henni að ræða um "persónur og leikendur", heldur að ræða á almennum nótum. Stefna að hugarfarsbreytingu.

    Það er einmitt að mínu mati aðferðin sem gefst oft vel í slíkar umræður. Ef umræðan fer að snúast um einstakar persónur, breytist hún og tekur gjarna aðra stefnu.

    Þess vegna skrifaði ég þennan bloggpistil, því ef þróunin verður að þann veg að stofnaðir eru hópar og bloggsíður um einstaka persónur, og látið eins og það sé beint or rökrétt framhald af #Metoo, þá er það að mínu mati stórvarasöm þróun, sem auðvelt er að sjá fyrir sér að endi með ósköpum.

    #Metoo var að mínu mati ekki "dómstóll", heldur vettvangur. Ópersónurekjanlegur á báða bóga.

    Ef til vill er það að breytast, eða þá að eitthvað annað en #Metoo er komið til sögunnar.

    Nú á opersónurkjanleikinn aðeins að vera á annan veginn.

    Á því er grundvallarmunur.

    Um RAF hef ég ekki mikið að segja í þessu tilfelli, enda á ég erfitt með að sjá tenginguna.

    G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2019 kl. 16:52

    5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

    Þarna er enginn að ræða samskipti kynjanna þarna Tómas. Enda er það ekki hægt því mannfólkið kemur í öllum útgáfum og þannig verður það sem betur fer um aldur og ævi. Þarna er hópur kjána af einu kyni að þykjast vera handhafi sannleikans yfir öðrum og ræðast á aðra.

    Við erum með þjóðfélag sem er réttarríki og tekur mál fyrir sem taka á fyrir, sé þeim beint til þess. Fullt af svona málum er vísað frá. Þú sást þetta kengruglaða ofstækislið þegar það reyndi að ljúga bandarísku dómaraefni í hæstarétt úr úr lífinu. Það var að stórum hluta til metoo-pólitísk aðför að réttarríkinu. Hryðjuverk. Hreint og beint hryðjuverk!

    Þetta er ekki einu sinni sjálfshjálparhreyfing þar sem fólk tekur sig sjálft fyrir og vinnur í sjálfu sér (sem er það eina sem hver maður getur, án þess að eða lögsækja annað fólk eða ganga í stjórnmálasamtök).

    Fyrir mér er þetta lítið annað en hryðjuverkasamtök í bleikum umbúðum sem hefðu sæmt sér vel í menningarbyltignu kommúnista í Kína. Í eðli sínu er enginn munur á þessu og hryðjuverkasamtökum í alræðislöndum á boð við Sovétríki og Kína. 

    Rote Armee Fraktion varð til upp úr mótmælalýð stúdenta sem líkaði ekki við þjóðfélag sitt á þeim tíma og sérstaklega ekki við karlkynið. Þau fífl urðu að einhentum handhafa réttlætis með ofbeldi og morðum.

    Metoo viðhafa einnig ofbeldi og þykjast handhafar "réttlætis" (fyrir sig, en ekki fyrir aðra) með sand af militant fíflum innanborðs.

    Hvað verður úr þessari nýnasistahreyfingu sem kallar allt fasisma, er ekki gott að segja. En eins og þú sérð þá getur þetta hæglega snúist 360 gráður og komið sem sleggjan sjálf í hausinn á sjálfu sér.

    Gunnar Rögnvaldsson, 5.2.2019 kl. 19:22

    6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

    Og eins og allir vita þá eru það stjórnvöldin sjálf sem eru hryðjuverkasamtökin í alræðisríkjum. Þau eru metoo-hreyfing þeirra landa og þau halda Moskvuréttarhöld yfir hinum "seku". Hugsaðu þér hve lífið hefði orðið léttara fyrir Stalín og Maó ef þeir hefðu haft Facebook. Þá væri ekkert nema gott fólk til í dag. Allt vonda fólkið væri horfið.

    Gunnar Rögnvaldsson, 5.2.2019 kl. 19:52

    7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

    Ef þetta er komið út í að brenna nefnda einstaklinga á torgum, þá er þetta komið út í öfgar. Sönnunarbyrðin er bundin lögum en hér er búið að snúa henni við. Sekur þar til sakleysi er sannað.

    Ég er ekkert að efast um að margar þessara sagna geti verið sannar, en á meðan eitt persónumorð er mögulegt að ósekju, þá er ekkert sem réttlætir þetta. 

    Þetta er gersamlega hrokkið af skaftinu og skaðar þetta meetoo meira en bætir. 

    Jón Steinar Ragnarsson, 5.2.2019 kl. 22:15

    8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

    @Gunnar, þakka þér fyrir þetta. Það er að sjálfsgögðu ekkert að því að ræða samskipti kynjana.

    Það er heldur ekkert nýtt að reynt sé að "hædjakka" góð málefni og misnota það í flokkspólitískum tilgangi, eða þaðan af verra.

    En það breytir ekki réttinum til tjáningar og tjáningarfrelsis. En auðvitað þarf líka að tala um þá ábyrgðina sem því fylgir.

    Stalín, Maó, Göbbels og fleiri hefðu að sjálfsögðu ekki slegið hendinni á móti "Facebook", enda öflugt tæki, "nytsamlegt" til margs.  En það er líka ástæða fyrir því að í þessi 15 ár, hef ég aldrei séð ástæðu til þess að vera á "Facebook", þó að ég hefði líklega í sumum tilfellum getað nýtt mér hana til gagns.

    @Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Tjáningarfrelsið er gríðarlega mikilvægt og alltaf varasamt að setja því verulegar skorður.

    En ég er alveg sammála því að þróunin sem nú á sér stað fær viðvörunarljós til að blikka.  Ef hægt er að setja saman vefsíðu, birta þar alls kyns ásakanir undir nafnleysi og síðan endurbirta "virðulegir" fjölmiðlar allt saman, sem þeir hefðu margir líklega varla gert,líklega á þeirri forsendu að þetta hafi þegar verið birt.

    Ég er alveg sammála því að þetta geti skaðað hið upprunalega #Metoo, sem mér fannst að mörgu leyti afar merkilegt framtak.

    En hvað er hægt að gera?  Í flestum tilfellum held ég að lögsókn skili afar littlu, ef nokkru.

    Ég, rétt eins og þú, ætla mér ekki að leggja nokkurn dóm á sannleiksgildið, en að sönnunarbyrðinni sé  snúið við er út í hött, en það þarf að reyna standa vörð um "að allir séu saklausir uns sekt sé sönnuð".

    Svo má minna á " að það sé betra að 10. sekir menn gangi lausir, en að 1. saklaus einstaklingur sitji í fangelsi".

    Er það úrelt? Ekki í mínum huga.

    G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2019 kl. 09:29

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband