Bloggfærslur mánaðarins, október 2014
17.10.2014 | 08:16
En hafa skattgreiðendur bolmagn til þess?
Líklega er aldrei betri tími til þess að koma með hugmyndir um stórkarlalega uppbyggingu knattspyrnumannvirkja en nú, þegar Íslendingar eru almennt í sigurvímu vegna góðs gengis karlalandsliðsins.
Það er að ýmsu leyti fróðlegt að lesa fréttina.
Við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa einir að byggingum á Laugardalsvelli, höfum nóg með okkar rekstur. Forsendan fyrir nýrri og stærri knattspyrnuvelli er að hlaupabrautin fari, og um það hefur náðst samkomulag við frjálsíþróttahreyfinguna.
Hvað þýðir þetta? Ég myndi túlka það svo að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir byggingunum. Er þá ekki sjálfhætt með málið?
Það er ekki nóg að Knattspyrnusambandið og frjálsíþróttahreyfingin "plotti saman". Það þarf að ná samkomulagi við þann sem á að borga brúsann. Í þessu tilfelli líklega skattgreiðendur.
Ég get ekki ímyndað mér að þeir séu tilbúnir í ævintýri sem þetta.
Þjóð sem stendur með hálfhrunið heilbrigðiskerfi og stóran skuldahala hlýtur að hafa meiri áhyggjur af öðrum málum en að knattspyrnuvöllur og hlaupabrautir eigi ekki samleið.
Tillaga að þjóðarleikvangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.10.2014 kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2014 | 06:30
Að lifa lífinu
Persónulega tel ég það ekki stóra frétt að ráðherra á Íslandi hafi neytt ólöglegra vímuefna. Hjá mörgum er það einfaldlega hluti af því að alast upp á Íslandi og hefur verið um langa hríð.
Ég veit ekki hlutfallið af þeim Íslendingum sem hafa prófað ólögleg vímuefni, en ég reikna mað því að það sé frekar hátt. Ég reikna ekki með því að það sé lægra á meðal ráðherra, eða alþingismanna en þjóðarinnar almennt, ef eitthvað er það líklega hærra.
En það er gott hjá Kristjáni að viðurkenna "lögbrotið". Slíkt er mun betra en að fara undan í flæmingi eða tala í einhverjum gátum.
En það væri vissulega gott skref að "afglæpavæða" neyslu fíkniefna, en ég held að það þurfi ekki síður að horfa til þess sem er að gerast víða um Bandaríkin nú og stefna á að lögleiða sölu t.d kannabisefna.
Stríðið er löngu tapað og samfélagið þarf að horfa fram á við og hugsa upp leiðir til að "vinna friðinn".
Hefur neytt ólöglegra fíkniefna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2014 | 05:55
Getur einhver útskýrt þennan texta fyrir mig?
Kunningi minn sendi mér eftirfarandi texta, sem hann hafði séð á vefsíðu DV. Þar er fjallað um breytingar á höfundaréttarlögum. Textinn er svohljóðandi:
Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu stendur nú yfir vinna um breytingar á höfundaréttarlögum. Í umræðum um gagnasafn Ríkisúvarpsins á Alþingi í síðustu viku upplýsti Illugi Gunnarsson að til stæði að lengja gildistíma höfundaréttar: Meðal annars vegna þess að listamennirnir eru farnir að lifa lengur en áður, þeir eru farnir að lifa heilbrigðara lífi og nauðsynlegt að tryggja það að höfundarétturinn hverfi ekki á meðan að listamennirnir eru á lífi. Samkvæmt 43. grein gildandi höfundalaga helst höfundaréttur gildur uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar.
Það er gott að listamenn séu farnir að lifa heilbrigðara lífi. Því fagna allir og höfðu beðið eftir í ofvæni. En hvernig það veldur því að þurfi að lengja gildistíma höfundaréttar, sem er bundinn við ákveðinn árafjölda eftir andlát listamannsins, er mér hulinn ráðgáta.
Er einhver ástæða til að breyta því, eða er of lítið að gera í ráðuneytunum?
16.10.2014 | 05:53
Finnar bitu í súr epli
Það hljómar skringilega þegar forsætisráðherra segir að velgengi eins fyrirtækis eigi stóran þátt í vandræðum þjóðar sinnar.
En þegar Finnski forsætisráðherrann segir þetta er ekki hægt að neita því að hann hefur eitthvað til síns máls. Reyndar er auðvitað orðum aukið að segja Apple sé um að kenna minnkandi pappírsnotkun og hrun Nokia, en vissulega má segja að Apple hafi startað þeirri byltingu snjallsíma og handtölva sem hefur leitt til minnkandi pappírsnotkunar og kom Nokia næstum fyrir kattarnef og alla leið fyrir nef Microsoft.
Þetta sýnir að velgengni og hraður vöxtur fyrirtækja getur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér, þegar og ef þau tapa forskoti sínu, þó að vissulega leggi þau mikið til með sér þegar vel gengur.
Og það má vissulega segja um Nokia, því rétt eins og sjálft sig færði það Finna "úr stígvélunum" og í hátækniðnað.
En fyrirtæki koma og fara, sérstaklega í hátækni iðnaði og fallvölt gæfa þar, enda mörg "heimsfræg" merki sem hafa komið þar og farið. Og Apple, átti einnig langa eyðimerkurgöngu, og er reyndar ekki mjög algengt í þeim geira, að fyrirtæki snúi aftur, úr slíku eyðimerkurráfi, með þeim glæsibrag sem Apple hefur gert.
Og auðvitað hefur minnkandi sala dagblaða, og aukin útgáfa á þeirra og einnig bóka á rafrænu formi áhrif á eftirspurn eftir pappír og timbri.
En vandamál Finna magnaðist upp vegna gjaldmiðils þeirra, sem tók ekkert mið af efnahagsaðstæðum Finna, þeir enda smáþjóð á Eurosvæðinu.
Þannig jókst kostnaður þeirra meira en keppinautanna á þeim kafla þegar euroið styrkti sig hvað mest. Á árabilinu 2001 til 2008 styrktist euroið um u.þ.b. 50% gegn hinum Bandaríska dollar. En var það í takt við efnahag Finna?
Síðan þegar fer að harðna á dalnum, þá er gengið ennþá sterkt.
Finnar halda áfram góðum kaupmætti og geta farið til nágrannalandanna s.s. Eistlands til innkaupa. Sparifjáreigendur eiga sitt sparifé "óskert", en æ fleiri Finnar missa vinnunna og vandamálin hrannast upp í efnahagslífinu.
Timburiðnaðurinn í vandræðum, Nokia svo gott sem horfið og Rússneskum ferðamönnum, sem hafa verið mikilvægir, sérstaklega í austurhéruðum Finnlands, snarfækkar, enda minna sem þeir fá fyrir rúblurnar, sem hefur fallið skarpt í takt við efnahagsástandið í Rússlandi.
Útflutningur til Rússlands hefur sömuleiðs fallið skarpt, bæði vegna gengis og ekki síður viðskiptatakmarkanna á báða bóga. (Það hefur reyndar orðið Finnskum neytendum til góðs, enda má nú kaupa t.d. "Putin" ost og smjör í Finnlandi á verulega niðursettu verði. Það eru vörur sem eru í umbúðum fyrir Rússland, en fást ekki seldar þangað lengur. Neytendur kætast og hamstra, en Finnskir bændur og framleiðendur í matvælageiranum eru í vandræðum.)
Svo alvarlegt er útlitið hjá Finnum nú, að þeir hyggjast leita ráða hjá fyrrverandi fjármálaráðherra Svía, við nokkuð blendnar undirtektir í Finnsku stjórnmálalífi. Borg er þekktur fyrir að segja skoðanir sínar á efnahagsstjórnun annara ríkja án hiks, og vonandi reynist hann Finnum vel.
Þau eru vissulega frekar súr eplin sem Finnar hafa bitið í undanfarin ár, og þó að ég telji ekki rétt að segja að euroið sé rót vandans, hefur það ekki hjálpað til og unnið gegn Finnum.
En ég hef fulla trú á Finnum og að þeir eigi eftir að vinna sig úr vandræðunum, því öfugt við mörg önnur ríki Eurosvæðisins virðast þeir ætla að ráðast á vandann nú þegar, en ekki bíða eftir því að eitthvað gerist og mæna á Seðlabanka Eurosvæðisins.
Nú þegar þeir hafa misst AAA lánshæfiseinkunn sína, sem kemur til með að þýða hækkandi vaxtagreiðslur, bretta þeir upp ermarnar og hyggjast vinna í sínum málum.
En euroið gefur þeim lítinn sveigjanleika, og líklega eiga Finnar fá ráð, nema niðurskurð. Launalækkanir eru erfiðar viðurfangs í Finnlandi og ekki líklegt að þeir geti aukið útflutning verulega við núverandi aðstæður.
Líklega mun því atvinnuleysi halda áfram að aukast í Finnlandi á næstu mánuðum, og mun áreiðanlega verða eitt meginmálið í kosningunum, sem áætlaðar eru í apríl á næsta ári. Það er að segja ef ríkisstjórnin springur ekki áður.
En, rétt eins og á Íslandi, er lítil hefð fyrir minnihlutastjórnum í Finnlandi og því líklegt að kosningum yrði flýtt ef ríkisstjórnin springur.
Meðaleinkunn ESB-landa versnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2014 | 14:16
Samkeppni og lýðræði
Það má lesa hér og þar á netinu þessa dagana að einokun sé í mörgum tilfellum besta lausnin fyrir neytendur.
Það hefur líka mátt lesa á netinu, að best og friðvænlegast fyrir ýmis lönd og heiminn í heild að einræði og jafnvel harðstjórn ríki á sumum stöðum.
Að mörgu leyti eiga þessi tvö hugtök, samkeppni og lýðræði margt sameiginlegt. Sömuleiðis einræði og einokun.
Ég ætla ekki að segja að einokun hafi aldrei á neinu tímaskeiði hugsanlega reynst betur en samkeppni. Það sama á reyndar við um einræði, að það hafa verið tímabil á einhverjum landsvæðum, þar sem einræði hefur reynst vel og ef til vill um einhverja hríð verið besta lausnin.
En til lengri tíma litið, eru engir kostir betri en samkeppni og lýðræði, hvort um sig með sínum kostum og göllum.
Samkeppni mismunandi vara og hugmynda, þar sem almenningur greiðir atkvæði með ýmist peninga- eða kjörseðlum eftir því sem á við.
Þannig tryggjum við samkeppni hugmynda, seljenda og og framleiðenda.
Rétt eins og þróun þeirra ríkja sem búa við lýðræði hefur yfirleitt verið hröðust, nýtur hugmyndauðgin, þróunin og viðleitnin til að bjóða betri vöru á hagstæðara verði sín best í samkeppni.
Það er ekkert kerfi gallalaust og flest þeirra þarfnast reglulegrar ef ekki stöðugar endurskoðunar. Hvorki lýðræði né samkeppni eru án galla eins og við erum reglulega minnt á.
En eins og Churchill sagði um lýðræðið, þrátt fyrir alla gallana, er það betra en allt annað sem við höfum reynt. Ég held að það gildi sömuleiðis um samkeppnina.
14.10.2014 | 07:59
Verðhækkanir í 40 ár
Ég rakst á þesa töflu í Daily Telegraph. Hún sýnir verðhækkanir á ýmsum hversdagslegum hlutum í Bretlandi síðastliðin 40 ár. Einn liðurinn er hækkun á meðallaunum, þannig að sjá má hvaða hlutir hafa hækkað meira en laun, og hverjir minna.
Það má sjá að mesta hækkunin hefur orðið á tóbaki, sem skýrist líklega að stórum hluta af auknum álögum hins opinbera.
Síðan dagblöð og bíómiðar, póstkostnaður og húsnæðisverð. Þessi 5 atriði hafa hækkað meira heldur en laun. Það má sjá að þrátt fyrir samkeppni hefur mjólk hækkað minna en heldur en nemur launahækkunum og það sama gildir um egg. Bílar og leikjatölvur hafa hlutfallslega lækkað verulega í verði, en af þessum lista hafa flugferðir þó vinninginn.
Að sjálfsögðu er listi eins og þessi ekki endanlegur mælikvarði, að mörgu leiti mest til gamans en þó fróðlegt að sjá hann.
Hvernig skyldi svipaður listi fyrir Ísland líta út? Skyldi einhver geta nálgast verð frá 1974?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2014 | 07:48
Að falla með A
Þó að þetta geti ekki talist það sem mestu máli skiptir hvað varðar fall Íslensku bankanna, finnst mér þó rétt að veita þessu nokkra athygli.
Hvernig stóð á því að allir virtust hafa fulla trú á Íslensku bönkunum, alveg fram í andlátið?
Hvernig stóð á því að matsfyrirtæki gáfu þeim góðar einkunnir, sem aftur leiddi til þess að þeir höfðu greiðan gnægta aðgang að lánsfjármagni?
Það má líka velta því fyrir sér hvort að Íslenskar eftirlitsstofnanir hefðu átt að eiga meiri möguleika en hin alþjóðlegu eftirlitsfyrirtæki?
Og auðvitað má velta því fyrir sér hvaða möguleika Íslenskar eftirlitsstofnanir höfðu á því að fylgjast með fyrirtækjum með starfsstöðvar í ótal löndum og efnahagsreikninga sem urðu stærri með hverri mínútunni?
Og ef fjölþjóðleg matsfyrirtæki og Íslenskar eftirlitsstofnanir sáu ekkert athugavert við rekstur bankanna, hvernig getum við átt von á því að Íslenskir stjórnmálamenn hafi gert það?
Og auðvitað voru Íslensku bankarnir langt í frá einu bankarnir sem féllu og enn fleirum var bjargað af brún hengiflugsins með risavöxnum peningainnspýtingum, t.d. í löndum eins og Dannmörku.
Það var ekki betri rekstur bankanna, betri eftirlitsstofnanir eða klókari stjórnmálamenn sem gerðu gæfumuninn, heldur einfaldlega aðgangur að fjármagni.
En í framhaldi af þessu hlýtur að vera skynsamlegt að draga úr tengingum á milli ríkis og banka. Draga úr, eða fella niður ríkisábyrgð á innistæðum.
Gera það lýðum ljóst.
Ef stjórnmálamenn telja sig hins vegar hafa það hlutverk að bjóða almenningi upp á ábyrgð á sparifé, væri eðlilegra að það yrði gert í gegnum ríkisskuldabréf, sem væri hægt að kaupa fyrir lágar fjárhæðir.
En hið opinbera á auðvitað ekki að taka ábyrgð innistæðum hjá einkafyrirtækjum. Hvort sem um er að ræða bankabók eða inneignarnótu í verslun.
Gjaldþrota með lánshæfiseinkunnina A | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2014 | 16:54
Jólabókin í ár: Eldað með Hagstofunni
Ég hef séð það hér og þar á netinu, að mikið er rætt um neysluviðmið Hagstofunnar, sem kemur fram í virðisaukaskattsfrumvarpi fjármálaráðuneytisins.
Ég skal fúslega viðurkenna að ég þekki illa orðið verðlag á Íslandi, og ætla því ekki að koma með neinar ráðleggingar hvernig 4ja manna fjölskylda borði fyrir u.þ.b. 3000 kall á dag, ef ég hef skilið rétt.
Hér og þar hefur mátt lesa um drjúga reiði í garð fjármálaráðherra fyrir að bera slíka vitleysu á borð.
En mér er spurn, við hvað á fjármálaráðuneytið að miða, ef ekki neysluviðmið gert af Hagstofunni?
Er ekki nær að beina reiðinni að Hagstofunni? Og lægi ekki beinast við að fjölmiðlar öfluðu upplýsinga um hvernig neysluviðmiðið er saman sett? Hvað kaupir Hagstofan fyrir "allan peninginn"?
Síðan má ef til vill hvetja Hagstofuna til að gefa út hugmyndir að matseðlum, nú eða matreiðslubók, því all margir virðast þurfa aðstoð til að ná að lifa af þeirri upphæð sem neysluviðmiðið tiltekur.
Er ekki að efa að slík bók kæmist á metsölulista.
Við ölum fólk ekki bara á hafragraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2014 | 16:37
Tjáningarfrelsið er eitt af því mikilvægasta sem við eigum - en það þýðir ekki að því séu ekki takmörk sett
Þó að ég skilji að ýmsu leyti nálgun elga Hrafns get ég ekki verið henni sammála. Þó að tjáningarfrelsi og frelsi til að leita sér upplýsinga séu vissulega mikilvæg, er þeim takmörk sett eins og öllu öðru.
Við höfum líklega margar og mismunandi skoðanir hvar eigi að draga mörkin.
Ég get viðurkennt það fyrir mig prívat og persónulega, að ég hef ekki skoðað síðu hins Íslamska ríkis, þannig að ég get ekki dæmt um það út frá eigin reynslu hvort rétt hafi verið að loka síðunni.
En það sem ég hef heyrt bendir eindregið til þess.
Það er ekkert að því að loka á síður sem hvetja til morða og hryðjuverka. Rétt eins og það er sjálfsagt að loka síðum sem innihalda barnaníð eða hvetja til þess.
Rétt eins og það getur verið eðlilegt að halda úti vefsíðu þar sem barist er fyrir lögleiðingu t.d. kannabisefna, er eðlilegt að loka vefsíðu sem selur kannabisefni, þó að engin skipti á efnum, eða peningum gerist á síðunni. Hver sem skoðun okkar er á banni við sölu kannabisefna, hljóta allir að þurfa að lúta lögunum.
Rangt að loka vefsíðu Ríkis íslams | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2014 | 16:05
Kann að hljóma sem þverstæða
Upphafsetning þessara fréttar er: Dregið hefur úr útlendingahatri í Evrópu á sama tíma og stuðningur við öfgaflokka sem berjast gegn innflytjendum eykst.
Þetta kann auðvitað að hljóma sem þverstæða, en ef betur er að gáð passar þetta saman.
Það sem ef til vill er þó mest villandi er sá hluti sem segir ... sem berjast gegn innflytjendum. Hann í raun dregur upp alranga mynd af af mörgum þeirra flokka sem ég tel líklegt að sé verið að fjalla um, þó að ég ætli ekki að fjölyrða um þá alla.
Það að vilja draga úr fjölda nýrra innflytjenda til ákveðins lands, eða setja á einhvern hátt strangari takmörk við komu þeirra, er ekki að berjast gegn innflytjendum. Ekki alla vegna eins og minn málskilningur er.
Það er ekki verið að berjast gegn þeim innflytjendum sem þegar eru komnir, eða að til standi að skrúfa fyrir komu innflytjenda.
Á þessu er mikill munur.
Hitt er svo einnig nokkuð sem ég hef ekki skilið, hvernig það að vilja draga úr fjölda innflytjenda teljast "öfgar".
Mér er ekki kunnugt um nokkurt land þar sem engin takmörk eru fyrir innflytjendur, en vissulega getur það verið einhvers staðar. Upplýsingar þar um eru vel þegnar.
Öll lönd, jafnvel lönd sem þykja hafa góða innflytjendastefnu og taka við hundruðm þúsunda innflytjenda á ári hverju, s.s. Kanada, hafa takmarkanir og reglur sem þarf að fylgja.
Allir flokkar í Kanada sem ég þekki til, eru sammála því að hafa takmarkanir, þó að stundum sé einhver munur á hvernig þeir vilja hafa þær eða hvað mikinn fjölda þeir telja rétt að leyfa að koma á ári.
En að þeir vilji takmarkanir, og það gerir þá ekki að "öfgaflokkum", né þýðir að þeir "berjist á móti innflytjendum". Það þarf ekki að fara saman.
Í þessu sambandi má t.d. nefna að Evrópusambandið eyðir háum fjármunum í að reyna að hefta komu innflytjenda inn á sitt landssvæði, og "berst" þannig á móti innflytjendum, án þess að hafa á sér "öfga" stimpil.
Er annars einhver Íslenskur stjórnmálaflokkur sem er fylgjandi óheftum aðgangi innflytjenda til Íslands?
Eða "berjast þeir allir á móti innflytjendum"?
P.S. Mín persónulega skoðun er að við eigum að fara varlega í notkum á orðum eins og "öfga", "rasisti", "rasískur", o.s.frv. Ég held að séum vel á veg með að "gjaldfella" þau verulega.
Útlendingahatur minnkar í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |