Að eiga val og vera treyst fyrir því

Þessi frétt er vissulega athyglisverð.  En hin "illu" verðtryggðu lán njóta vinsælda hjá "heimilunum" (sem ég vissi reyndar ekki að tækju lán).

Nú má reyndar endalaust og án niðurstöðu rökræða um kosti og galla verðtryggðra og óverðtryggðra lána.

En það sem skiptir ef til vill mestu máli er að "heimilin" hafi val og þeim sé treyst til þess að hafa það.

Það er engin ástæða til þess að banna verðtryggð lán, þau eiga sinn stað í flórunni og er eins og kemur fram í fréttinni fyrsti valkostur margra íbúðakaupenda.

Margir hafa bent á að fyrstu afborganir verði lægri með verðtryggðum lánum.  Eins og staðan er á Íslenska lánamarkaðnum, þá er það líklega rétt.

En það er ekki verðtryggingunni að þakka, heldur jafngreiðslu fyrirkomulaginu. En það er einmitt því að kenna, að eignamyndunin verður mjög hæg í upphafi.  Það er rangt að kenna verðtryggingunni um það.  Því veldur jafngreiðslu fyrirkomulagið, og svo lengd lánanna, en 40 ára lán telst víða mjög langt.

Óverðtryggð jafngreiðslulán eru á boðstólum hér og þar um veröldina, en Íslenskar lánastofnanir hafa, að því að ég best veit, aldrei boðið upp á slíkt fyrirkomulag.

En nú velja lántakendur á milli verðtryggðs og óverðtryggðs. 

Er það skynsamlegt að stjórnmálamenn taki þann valrétt af þeim með því að banna verðtryggingu?


mbl.is Flest heimili velja verðtryggð lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Miðað við íslenskar aðstæður, með krónu sem gjaldmiðil, eru óverðtryggð lán verri kostur fyrir langflesta en verðtryggð lán.

Ekki aðeins er greiðslubyrði verðtryggðra lána miklu hærri fyrstu árin, heldur getur hún hækkað upp úr öllu valdi við miklar vaxtahækkanir vegna verðbólguskots.

Menn verða að hafa rúm fjárráð til að geta réttlætt töku óverðtryggðs láns. Með því að banna verðtryggð lán væri verið að útiloka mjög marga frá möguleika á að kaupa íbúð.

Greiðslubyrði verðtryggðra lána er jöfn út lánstímann að því tilskyldu að kaupmáttur launa og vextir haldist óbreyttir, ekki bara vegna þess að þau eru jafngreiðslulán heldur einnig vegna þess að þau eru verðtryggð.

Greiðslubyrði óverðtryggðra jafngreiðslulána léttist með verðbólgunni. Þegar verðlag hefur tvöfaldast hefur greiðslubyrðin minnkað um helming.

Meðan við höfum krónu sem gjaldmiðil verður það óhjákvæmilega mikið hættuspil að taka há lán til áratuga hvort sem það er í krónum eða öðrum gjaldmiðli.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.10.2014 kl. 22:57

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er reyndar sammála því að óþarfi er að banna verðtryggð lán.  Best er að lántakandinn hafi val.  Best reyndar að hann hafi eins mikið val og mögulegt er.

En það er hægt að bjóða upp á óverðtryggð lán með jafngreiðslum og er gert hér og þar í veröldinni.  Verðtrygging er ekki skilyrði fyrir lægri greiðslubyrði í upphafi.

En eðilega þýða jafngreiðslulán að borguð er til baka hærri upphæð en annars og eignamyndum er hægari.  Þannig virka jafngreiðslurnar, en verðtrygging hefur ekkert með slíkt að gera.

Það er í sjálfu sér alltaf áhætta að taka lán til langs tíma, því lengri tíma, því meiri áhætta.  Gjaldmiðill skiptir þar vissulega máli, en ekki síður aðrir þættir.

Til dæmis vaxtahækkanir, verðlækkanir á húsnæði (sem getur þýtt að bankinn telji það ekki duga sem veð lengur, nokkuð sem hefur gerst víða), kauplækkanir (hefur gerst í þó nokkrum mæli  upp á síðkastið), atvinnuleysi, sérstaklega langtíma atvinnuleysi, sem sömuleiðis er velþekkt t.d. varðandi Eurokrísuna.

Ef að þessu fylgir svo frost eða alvarleg sölutregða á fasteignamarkaði samhliða sitja margir eftir í alvarlegum vandræðum.

Slíkt er velþekkt þó að lánamarkaðurinn sé óverðtryggður, eða gjaldmiðillinn talinn "traustur".

G. Tómas Gunnarsson, 31.10.2014 kl. 16:26

3 identicon

Verðtryggð jafngreiðslulán eru með lægri greiðslubyrði fyrstu árin en óverðtryggð jafngreiðslulán myndu hafa ef þau væru í boði. Ástæðan er að óverðtryggð jafngreiðslulán myndu bera hærri nafnvexti vegna áætlaðrar verðbólgu.

Kosturinn við verðtryggð lán, fyrir utan jafna greiðslubyrði, er að menn vita betur að hverju þeir ganga. Vextir á öðrum lánsformum byggja á áætlun um verðbólgu sem getur brugðið til beggja vona.

Kosturinn við öll óverðtryggð lán er að greiðslubyrðin minnkar eftir því sem líður á lánstímann. Heildargreiðslur verða lægri vegna þess að vaxtagreiðslur lækka þegar lánsupphæðin minnkar.

Þeir sem þola greiðslubyrðina í upphafi og mikla hækkun á greiðslubyrði í verðbólguskotum sjá sér því gjarnan hag í að taka óverðtryggð lán. Aðrir taka verðtryggð lán eða blöndu af báðum lánsformum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2014 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband