Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Euro og gjaldmiðilshöft

Ein af þeim mýtum sem "Sambandssinnar" hafa verið duglegir að halda að Íslendingum, er að ef Íslendingar hefðu haft euro, væru ekki gjaldeyrishöft á Íslandi.
 
Nú eru kringumstæður á Kýpur að afsanna þessa fullyrðingu (Sighvatur Björgvinsson, myndi líklega kalla að nú væri verið að taka af Íslendingum "þjarkið".)
 
En það eru í raun mikið meira en gjaldeyrishöft á Kýpur.  Það er búið að frysta allar inneignir í bönkum landsins.  Innistæðueigendum er skömmtuð úttekt upp á 100 euro á dag og talað er um að fljótlega verði Kýpurbúum veitt vikulegir "vasapeningar" af reikningum sínum.  Líklega verður bannað að segja umm bundnum reikningum og hugsanlega skylda að framlengja bindinguna.
 
Bannað verði að fara með fjármuni yfir ákveðnum upphæðum í brott af eyjunni.  Fregnir hafa meira að segja borist af því að leitað sé í farangri einstaklinga sem eru að yfirgefa Kýpur.
 
Lítið er þó vitað hvernig höftin verða útfærð eða hvað lengi höftin muni koma til með að standa. 
 
En það er ekki einfalt mál að koma á höftum innan sama gjaldmiðilssvæðis.  Það krefst mun meiri stýringar en nokkru sinni hefur verið í hinum Íslensku höftum.
 
Hitt er svo annað mál að undanskotsleiðirnar verða líka mun fleiri, þegar um sameiginlega mynt er að ræða.  Enda er alls staðar fullt af flugufregnum um hvernig fjármunir hafi streymt út úr hinum Kýpversku bönkum á meðan þeir hafa verið lokaðir.
 
Þó að Ísland sé ekki Kýpur og Kýpur ekki Ísland, er þó engu síður fróðlegt að bera saman mismundi viðbrögð við krísunum í löndunum tveimur og hvort er og kemur til með að reynast betur.
 
Auðvitað er enn of snemmt að dæma um það.  En fyrsta vísbendingin er hve lengi bankar eru lokaðir á Kýpur.
 
 
 
P.S.  Þessi setning serm er tekin orðrétt úr fréttinni sem þessi færsla er tengd við, hlýtur að koma til greina sem setning ársins.  Hvort hún er í raun ættuð frá Kýpur, eða þýðanda mbl.is, veit ég ekki, en góð er hún.
 
Seðlabankinn segir að ákveðið hafi verið að halda öllum bönkum lokuðum til að tryggja að bankakerfið starfaði eðlilega. 

mbl.is Bankar á Kýpur áfram lokaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil reisn yfir því að þiggja höfðinglegt boð Eistlendinga

Eistlendingar eru Íslendingum ævarandi þakklátir.  Það finnst hvar sem Íslendingar fara um Eistland. Það var mikils virði fyrir Eistlendinga að finna fyrir stuðningi og samhug þegar þeir voru að brjótast undan ofurvaldi Sovétsins í annað sinn.

Og auðvitað vilja Eistlendingar þakka fyrir sig.  Það vilja yfirleitt allir og ekki síst stoltar þjóðir.

En ég get ekki gert að því að mér þykir lítil reisn yfir því að Íslendingar þiggi ókeypis húsnæði í Peking frá Eistlendingum um ótiltekið árabil.

Ekki það, að það er vel til fundið að deila húsnæði fyrir sendiráð með Eistlendingum.  Það er sjálfsagt að leita allra leiða til að draga úr rekstrarkostnaði við utanríkisþjónustuna.

En ólíkt væri meiri reisn yfir Íslendingum, ef þeir hefðu einfaldlega samið um að greiða hóflega en sanngjarna leigu.

En Íslendingar ættu ef til að leita eftir aðstoð Eistlendinga á öðrum sviðum.  Það væri fróðlegt fyrir Íslendinga að fræðast um hvernig Eistlendingar hafa haldið á ríkisfjármálum sínum.   Það væri líklega sömuleiðis fróðlegt fyrir Íslendinga að bera saman bækur sínar við Eistlendinga í skólamálum.

Síðast en ekki síst hefði auðvitað verið fróðlegt fyrir Össur Skarðhéðinsson að fá upplýsingar frá Eistlendingum, um hvernig þeir stóðu að því að klára viðræður sínar við Evrópusambandið á tæpum 5 árum.   

Nýjust fréttir frá Íslensku samninganefndinni hljóða upp á að að 5 árum liðnum, sé vonast til að viðræðurnar verði langt komnar.

Það hlýtur að vera eðlilegt að velja því fyrir sér, hvernig ríki eins og Eistland, hrjáð og hálf hrunið af áratuga hersetu Sovéskra kommúnista, á auðveldari og greiðari leið í samningum við Evrópusambandið, en Ísland, sem er búið að vera aðili að EES/EEA samningnum síðan 1994.

Líklegast liggur munurinn í því að í Eistlandi var pólítískur vilji fyrir því að ganga í "Sambandið", en slíkur vilji er ekki til staðar á Íslandi.

Því vilja hvorki Íslensk stjórnvöld, eða Evrópusambandið ljúka aðlögunarviðræðunum við Ísland. 

Evrópusambandið bíður líklega eftir því að sjá hvað kemur út úr alþingiskosningunum nú í vor, hvort hinn pólítíski vilji breytist eitthvað og hvort að aðildarumsókn Íslendinga á sér frekara líf.

 

 


mbl.is Eistar hýsa Íslendinga frítt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapalón Jeroen Dijsselbloem, bom, bom, bom

Þeir eru býsna marigr sem hafa tekið upp á því að kalla fjármálaráðherra Hollands og formann Eurohópsins, Dijsselboom, eftir ummæli hans um hvernig færi best á að leysa vandræði banka á Eurosvæðinu.  Svo eldfim og kröftug þóttu þau.

En í flesta staði er ég þó þeirrar skoðunar að fagna beri ummælum hans, og jafnvel þó að hann hafi reynt að gera lítið úr þeim og segja að þau hafi verið tekin úr samhengi.

Auðvitað má deila um hvort og hvernig það sé hentugt að láta "sannleikann" koma í ljós.  Fyrirrennari Dijsselbloem sem formaður Eurohópsins, Junckers, var þeirrar skoðunar að þegar ástandið væri alvarlegt, þyrfti að grípa til lyginnar. ("When it becomes serious, you have to lie.")

Spurningin er hins vegar hvort að um raunverulega stefnubreytingu hjá Eurohópnum sé að ræða?

Verða bankar hér eftir látnir axla ábyrgð á stöðu sinni?  Koma skuldabréfaeigendur og eigendur ótryggðra innstæðna (yfir 100.000 euroum) til með að þurfa að bera tap?

Geta skattgreiðendur loksins andað léttar?

Það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða um til hvaða ráða verður gripið þegar næsta euroland lendir í alvarlegum vandræðum, en það er þó ljóst að tap sparifjáreigenda er ekki lengur eitthvað sem ekki kemur til greina.

Það er "skapalónið" sem Dijsselbloem segir að geti vel verið notað til lausnar eurorkrísunni, í bland við aðrar lausnir.

Auðvitað verður einstökum löndum "Sambandsins" ennþá frjálst að dæla skattfé í banka, ef þannig staða kemur upp.  En þeim löndum sem einfaldlega hafa ekki bolmagn til slíkra björgunaraðgerða fer fjölgandi.

Það er því möguleiki, að "skapalón" Dijsselloem, varði "skapadægur" Eurosvæðisins í núverandi stærð og mynd.

Nú þegar er eitt eurolandanna komið með, ekki gjaldeyrishöft, heldur gjaldmiðilshöft.  Í raun er varla hægt að segja að Kýpur sé á Eurosvæðinu þessa dagana. Þó er euro lögeyrir landsins.  

Einstaklingur á Kýpur fær ekki að ná í eða nota sína eigin fjármuni, innanlands eða utan. 

Spurningin er hvað gerist næst, hvað verða gjaldmiðilshöft lengi við lýði á Kýpur, hvað gera sparifjáreigendur í löndum eins og Spáni, Portúgal, Ítalíu og jafnvel Frakklandi?

Persónulega, verð ég að segja að baugarnir undir augum miínum myndu líklega stækka og dýpka ef ég ætti verulegt sparifé þar.

 

 


mbl.is Ummæli Dijsselbloem hrista upp í mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkur 29.5% - Ríkisstjórnarflokkarnir 21.2%

Það virðitst ekkert lát á velgengni Framsóknarflokksins - í það minnsta í skoðanakönnunum.  Nú mælist flokkurinn langstærsti flokkur landsins í þessari skoðanakönnun MMR.

Framóknarflokkurinn er ríflega 5 prósentustigum stærri en Sjálfstæðisflokkurinn, sem verður ef þetta gengur eftir að sætta sig við að vera annar stærsti flokkur Íslands, annað kjörtímabilið í röð.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri græn ná í engu að bæta stöðu sína og Björt framtíð heldur áfram að missa fylgi.  Samanlagt þessara þriggja flokka er nú 33.2%, eða litlu meira en fylgi Samfylkingar í síðustu kosningum.  Samfylking og Björt framtíð eru aðeins með 24.5% samanlagt.

Í þessari könnun má segja að Framsóknarflokkurinn sé eini sigurvegarinn.  Hann sópar að sér fylgi úr öllum áttum.  Auðvitað verður heldur ekki litið fram hjá því að árangur Bjartrar framtíðar er góður, það eitt að komast á þing, er sigur fyrir nýjan flokk.  En velgengni þeirra virðist fylgja nokkuð þekktu mynstri nýrra framboða, fylgið rýkur upp og fer svo að síga niður aftur.  Spurning hvort að þeim tekst að stöðva fylgistapið fyrir kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist stefna í að bíða afhroð aðrar kosningarnar í röð.  Allt undir 30% myndi líklega flokkast sem tap þar á bæ, en undir 25% getur ekki flokkast sem neitt annað en afhroð.  Það sama má segja um Samfylkingu og Vinstri græn, þeirra bíður afhroð, ef þessar niðurstöður ganga eftir.

En hvaða ríkisstjórn kæmi út úr þessu?

Það er auðvitað varasamt að spá um slíkt, en auðvitað liggur beinast við að spá að eina mögulega tveggja flokka stjórnin tæki við, stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Það helsta sem gæti komið í veg fyrir slíka stjórn, er inngróin hræðsla Framsóknarflokks við að starfa "of oft" til hægri og að flokkurinn hafi farið það illa út úr síðasta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Einnig gæti gætt nokkurs hiks hjá Sjálfstæðisflokki, ef flokkurinn fengi útreið á við þá sem birtist í þessari skoðanakönnun.

En ég hygg að stjórn Framsóknarflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar væri vel inn í myndinni sömuleiðis.   Framsóknarflokkurinn væri þá ótvírætt sterki flokkurinn í því samstarf, með meira fylgi en hinir tveir flokkarnir samanlagt

Það er nokkuð merkilegt að ef þessi könnun gengi eftir, myndi Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur landsins fagna 100 ára afmæli sínu, sem er á næsta kjörtímabili, sem stærsti flokkur Íslands.

Það er nokkuð sem ég held að enginn, ekki einu sinni á meða hörðustu Framsóknarmanna, hefði vogað sér að spá, jafnvel ekki í upphafi þessa árs.

 


mbl.is Framsóknarflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppbygging bankakreppu

Það er auðvitað mikið fjallað um vandann á Kýpur þessa dagana, eðlilega.  Mikið er rætt um stærð bankanna og fjárfúlgur þær sem Rússneskir aðilar eiga í þarlendum bönkum.

 

Anatomy of a banking crises in CyprusEn hver er orsök vandræða Kýpversku bankanna?

Hið Rússneska fé er auðvitað ekki upphaf vandræðanna, því innlán eru yfirleitt ekki til stórra vandræða (fyrr en allir vilja taka fé sitt út á sama tíma) og stærð bankanna er ekki rót vandræða þeirra, þó að það geri björgun þeirra erfitt verkefni.

Eins og sjá má að myndinni sem hér fylgir með, greiddu Kýpversku bankarnir háa vexti, en það leiddi þá i sjálfu sér ekki í vandræði, því eins og myndin sýnir  lánuðu þeir út með háum vöxtum sömuleiðis.  Vaxtatekjur þeirra voru með ágætum.  Gröfin sýna reyndar ágætlega hve mikill munur getur verið á vöxtum innan Eurosvæðins, sem er eitthvað sem "Sambandssinnar" gleyma gjarna að minnast á.

 

Meginorsök vandræða Kýpversku bankanna er að finna í eurokrísunni.  Gríðarleg töp stærstu bankanna eru sýnd neðst á myndinni.  Þar er þó aðeins að ræða þá 2. stærstu, heildartap Kýpverska bankakerfisins er mun meira.

 

Kýpversku bankarnir tóku á sig gríðarlegan skell þegar "klipping" skuldabréfa Gríska ríkisins var ákveðin.  Þeir höfðu fjárfest mikið í Grískum ríkisskuldabréfum og geta ekki risið undir tapinu.

Ofan á það tap bætist síðan veruleg útlán til Grískra fyrirtækja, sem ekki hafa, eða munu standa í skilum.

Það má vissulega segja að þar hafi Kýpversku bankarnir ekki sýnt nægilega varkára fjárfestingarstefnu, en svo má líka halda því fram að þeir hafi, eins og margir aðrir, fallið í eurogildruna. Það er þeir litu svo á að euro væri euro og gerðu ekki nægan greinarmun á stöðu mismunandi ríkja innan svæðisins.

Það eru ekki nema um fimm ár síðan Kýpur tók upp euro.  Það eitt og sér veldur ekki kreppunni. En það hefur ekki gert neitt til þess að afstýra henni. Eins og sést á grafinu yfir innlán í Kýpverskum bönkum, jukust innlán verulega eftir að Kýpur tók um euro sem gjaldmiðil.

Hvers vegna skyldi það hafa verið?

Cyprus Deposits pngEinfaldasta skýringin er líklega sú að sé Kýpur vinsæll staður fyrir skattaundanskot og peningaþvott, þá er slík þjónusta auðvitað ennþá þægilegri þegar hún er boðin í landi sem hefur sem mynt annan stærsta gjaldmiðil heims.

Þeir sem þurftu á "þvotti" að halda hafa líklega margir litið svo á að þetta væri eins og að leggja fé sitt inn í Þýskan banka, án þess að þurfa að fara eftir íþyngjandi reglum.  Euro er (eða var) euro ekki satt?

Rússum hefur líklega þótt það mun eftirsóknarverðara að láta þvo fé sitt í euroum en Kýpverskum pundum.  Reyndar sýnir grafið sömuleiðis gríðarlegt innstreymi af fé frá eurosvæðinu í kringum upptöku euros. 

Eigendur hins Evrópska fés virðast þó hafa gert sér mun betur grein fyrir því en Rússar,  hvert stefndi hjá Kýpur og hvaða afleiðingar eurokreppan myndi hafa á bankastarfsemi þar, því eftir mitt ár 2010 skreppa inneignir af eurosvæðinu nokkuð skarpt saman.

Margir hafa haldið því fram og það verður ekki dregið í efa hér, að Evrópusambandinu hafi verið fullkunnugt um hvernig ástandið og hætturnar í fjármálakerfi Kýpur hafi verið áður en landinu var hleypt inn á Eurosvæðið.

Þá hljóta að vakna upp spurningar um hvers vegna það var gert?

Var það gert fyrst og fremst af pólítískum ástæðum, eða spilaði ef til vill inn í að "Sambandinu" þótti ekki verra að auka innstreymi fjár á Eurosvæðið og að auka eftirspurn eftir euroum?

Efnahagur Kýpur er búinn að fá á slíkt högg að líklega mun það taka landið áratugi að ná sér.  Flestar spár hljóða upp á samdrátt í landsframleiðslu á bilinu 10 til 20% og atvinnuleysi verði ca 25%.  Grískt ástand, en gerist mikið hraðar.

Það eina sam framundan er, sem gæti lyft þeim upp, er nýting gaslindanna sem hafa fundist undan ströndum Kýpur.  En það er þó líklega í það minnsta áratugur þangað til slíkt yrði.

Eftir stendur Kýpur, ekki bara í gjaldeyrishöftum, heldur gjaldmiðilshöftum. Því það er bannað að taka gjaldmiðilinn út til nota innanlands.  Þó að fáir viti enn hvernig reglurnar verða, er ljóst að þær verða harðar.  Ekki er heldur vitað hvað lengi þær munu standa, en frestanir á opnun banka gera engan bjartsýnan.

Reynið að ímynda ykkur ástand, þar sem bankainnistæður hefðu verið frystar í Kópavogi og bannað að flytja krónur yfir til annara sveitarfélaga.

Það er ekki rétt að segja að Kýpur hafi lent krísu vegna þess að þeir tóku upp euro, en það er ekki orðum aukið að segja að euroið hafi gert hana stærri og erfiðari viðfangs.  Utan þess að euroið dregur úr möguleikum Kýpverja til að fæst við krísuna og afleiðingar hennar.

Hefði Kýpur haft sinn eigin gjaldmiðil, hefði bankakreppa þar vakið mun minni athygli og hræðslu.  Hvað þá að menn hefðu óttast verulega að hún hefði dómínóáhrif um mestan part Evrópu.

Það tala enda flestir um eurokrísuna.  Krísuna sem gjaldmiðilinn bjó til.

P.S.  Því má svo bæta hér við, að Kýpversku bankarnir stóðust að sjálfsögðu "stress test" EBA (European Banking Authority) árið 2011, eins og sjá má hér.  Það er þetta með aukið og strangt eftirlit sem á öllu að bjarga.  Skyldi einhver ábyrgð fylgja eftirlitinu? 

 


Eurocrisis Contest

Fékk þessa mynd senda í gærkvöldi, eins og oft áður segir mynd meira en mörg orð.

 

 

Euro crisis contest Vonk


Hitinn eykst, en það er rétt að biðjast afsökunar og vanda umræðuna

Ég hef ekki tölu á öllum þeim myndum sem ég hef séð sem hafa sýnt Merkel í SS búningi, eða með Hitlersskegg.

Ég get ekki heldur talið þau skipti sem ég hef séð fullyrðingar í þá átt að nú sé Þýskalandi að takast það sem Hitler tókst ekki, að leggja undir sig stærstan hluta Evrópu.

Það gengur seint fyrir Þjóðverja að þvo af sér hernaðar og drottnunarstimpilinn.

En hvorugt á auðvitað rétt á sér.  

Því fagna ég því að El País hafi beðist afsökunar. 

En þetta er til marks um hitann í umræðunni.  Þetta er til marks um það að mörgum finnst eins og á sig hafi verið ráðist og landið sitt sé ekki sjálfstætt og lúti erlendu valdi.

En fyrst og fremst ber þetta líklega vitni um vonbrigði og að fólki finnist að það hafi verið haft að fíflum og skilið eftir í verri stöðu en áður en það lét blekkjast.

Nú er mikið talað um "popúlista" og "lýðskrumara" innan stjórnmálaflokka sem lýsa sig andsnúna "Sambandinu" og vilja að lönd snúi baki við "Sambandinu", segi sig frá euroinu, eða í það minnsta endurheimti vald frá Brussel.

Auðvitað sýnist sitt hverjum, en "lýðskrumið" fór ekki hvað síst fram þegar þjóðunum var lofað bættum lífskjörum, aukinni velmegun, meiri stöðugleika, að líkskjör myndu jafnast út á meðal "Sambandsþjóða", bara ef gengið yrði í "Sambandið".

Og á meðan ódýrt lánsfé flóði um allan heim, leit svo sannarlega út fyrir að loforðin hefðu verið rétt.  Allt var á uppleið, ekki síst húsnæðisverð, en allt leit vel út.  Atvinna jókst, launin hækkuðu, og allir töluðu um hvað "Sambandsaðild" hefði gert gott fyrir lönd eins og Spán, Grikkland, Portúgal o.s.frv.  Sterkur gjaldmiðill jók kaupmátt almennings á innfluttu góssi, og þó að það þýddi að innlend framleiðsla stæðist ekki samkeppnina, gerði það ekkert til, það gátu allir fengið vinnu í þjónustu.

En blaðran sprakk og raunveruleiki án ódýrs lánsfé tók við.

Þá brá svo við að vandræðin voru öll sögð heimamönnum og óstjórn þeirra að kenna. Þeir sem vildu kenna "Sambandinu" eða euroinu um að hluta,  voru úthrópaðir sem "popúlistar" og lýðskrumarar.

Í staðinn fyrir að velmegunin kæmi til þeirra, var almenningi sagt (óbeinum orðum) að hann gæti flutt í velmegunina í Þýskalandi.

Undir þessum kringumstæðum er ekki óeðlilegt að einhverjum renni í skap.  Og í ríkjum Evrópu þar sem sagan er ljóslifandi í hugum margra verða myndlíkingarnar gjarna heiftúðugar og meinfýsnar.

En heiftin er ekki góður förunautur.  Viðkomandi hagfræðingur lét reiðina hlaupa með sig í gönur.  Það er miður og vel til fundið og nauðsynlegt að El País að biðjast afsökunar á því frumhlaupi að hafa birt greinina.

Þó að hagfræðingurinn hafi aðeins verið að enduróma það sem heyrist á götum borga S-Evrópu (og líklega viíðar) er þó er engum greiði gerður með því að færa fjölmiðlaumræðuna niður á það plan.

Allra síst gerir hagfræðingurinn sjálfum sér þjónustu með þessu, enda færist umræðan frá því sem hann sagði í grein sinni og að líkingu hans við Hitler.

Auðvitað höfum við öll stokkið upp á nef okkar, sá sem hér skrifar hefur lent í því eins og aðrir, en það væri öllum til hagsbóta ef við reynum að temja okkur hófstilltara orðfar.  

Í því ættum við öll að taka þátt.  En ef það á að skila einhverjum árangri, þurfa þeir sem eru atkvæðamiklir í umræðunni, stjórnmálamenn og álitsgjafar og auðvitað ekki síst fjölmiðlarnir sjálfir að leiða förina.


mbl.is El País biðst afsökunar á pistli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það skondna í málinu

Ég hef ekki mikla trú á því að Belgia klofni upp í tvö eða þrjú ríki.  Þó er rétt að hafa Bond máltækið í huga og segja aldrei að segja aldrei.

En það kæmi vissulega upp skondin staða ef svo færi.

Ef eitthvað er að marka yfirlýsingar frammámanna "Sambandsins", myndu þau ríki sem þannig mynduðust þurfa að sækja um aðild að Evrópusambandinu.  Þannig er alla vegna talað í tilfelli Skotlands og Katalóníu.

Þá væri komin upp sú stórskemmtilega staða að höfuðstöðvar Evrópusambandsins og stór hluti starfsemi þess, væru ekki staðsett í Evrópusambandinu. 

Það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvað langan tíma aðlögunarviðræður Brussel (ef það yrði borgríki) myndu taka við "Sambandið".

Yrði starfsemin flutt á brott á meðan?   

Myndu þær viðræður taka styttri tíma en við Vallónie og Flæmingjaland?  Eða yrðu samningviðræður við öll þrjú ríkin í einum hóp? 


mbl.is Brussel verði sjálfstætt borgríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn á móti "Sambandsaðild en vill halda aðlögunarviðræðum áfram

Það hlýtur að vekja nokkra athygli þegar meirihluti félagsmanna í Samtökum iðnaðarins er andsnúinn aðild að Evrópusambandinu.

Samtökin, eða á heldur að segja stjórn þeirra, hefur verið einn ötulasti aðilinn í barátunni fyrir "Sambandsaðild".

Sjálfsagt hafa félagsemnn SI mótað sínar skoðanir út frá því sem þeir sjá og þekkja til "Sambandsins" og hvernig þeir meta hagsmuni Íslendinga.

En það kemur jafnframt fram í könnuninni að meirihluti félagsmanna SI vilji klára aðildarviðræðurnar sem hófust snemma á yfirstandandi kjörtímabili.

Eflaust eru þeir að vonast eftir að einhvers konar "kraftaverk" náist í samningunum, sem geri þá að verkum að aðild yrði þeim mun hagstæðari.  Hugsanlegt er einnig að þeir vilji hreinlega klára hafið mál, til að leiða það til lykta í eitt skipti fyrir öll.

Ég hef áður sagt að það sé sjónarmið sem ég skil nokkuð vel.  Það er að segja að klára viðræður með það fyrir augum að klára málið, hafa það ekki hangandi yfir þjóðinni óútkljáð.

En auðvitað er engin vissa fyrir því að samningar náist nokkurn tíma.  Það er að segja nema að eini tilgangur Íslenskra stjórnvalda með samingaviðræðumunum sé að ná samningi.

En það sem meira er, ef halda á samningaviðræðum áfram, er nauðsynlegt að setja þeim ströng tímamörk, þannig að verði þeim ekki lokið fyirr ákveðin tíma, verði þeim slitið.

Það þjónar engum tilgangi að halda áfram samningaviðræðum út í ið óendanlega, án þess að nokkur sjáanlegur árangur náist eða sjáist.

Sem aftur leiðir hugann að því hvernig gangurinn hefur verið í viðræðunum fram að þessu.  Ekkert markvert hefur gerst í viðræðunum, alla vegna ekki ef marka má fréttir.  Sneitt hefur verið hjá erfiðustu köflunum, um sjávarútveg og landbúnað.  Réttast hefði þó verið að byrja á þeim, því ef samningar nást ekki þar, er óþarfi að halda viðræðum áfram.

Næsta Alþingi þarf að halda mun fastar á þessum málum.  Auðvitað getur það ákveðið að slíta eða fresta viðræðum (með nákævmlega sama lýðræðislega umboðinu og það ákvað að hefja þær), en ef ákveðið verður að halda þeim áfram, þarf að setja þeim ströng tímamörk og jafnframt skerpa á samningsafstöðu og ófrívíkjanlegum kröfum Íslands.

 

 


mbl.is Meirihlutinn andvígur aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlilegt að hið opinbera skipti sér af launum ríkisforstjóra, en eðlilegt að það ráði hvaða kyn er kosið til að sitja í stjórnum einkafyrirtækja?

Það er gömul saga og ný að deilur eru um hvað það er sem hið opinbera á að skipta sér af og hvað ekki.

Ríkisafskipti eru mörgum (mér sjálfum í flestum tilfellum) þyrnir í augum, en aðrir vilja þau sem flest og umsvifamest.

Á vef Viðskiptablaðsins má lesa í dag, gagnrýni Bryndísar Hlöðversdóttur, stjórnarformanns Landsvirkjunar,  á að hið opinbera sé að skipta sér af því hvað forstjóri Landsvirkjunar hafi í laun.  Hún telur að það sé hlutverk stjórnar Landsvirkjunar (sem er pólítískt skipuð) að ákveða það.

Að mörgu leyti má taka undir gagnrýni Bryndísar.  Ef þeim einstaklingum sem skipaðir eru af flokkunum til að sitja í stjórn Landsvirkjunar, er ekki treystandi til þess að ákvarða laun forstjórans, hvi er verið að skipa þá í stjórn fyrirtækisins.

En á sama tíma er ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og Alþingi Íslendinga, búið að setja lög þar sem hluthafar einkafyrirtækja eru skyldaðir til að kjósa ákveðið hlutfall af hvoru kyni til að sitja í stjórn (það eð að segja ef fyrirtækið hefur fleiri en 50 starfsmenn).

Ef ég man rétt er Bryndís Hlöðversdóttir fulltrúi þeirrar sömu Samfylkingar í stjórn Landsvirkjunar.

Ef ríkisvaldið getur skyldað hluthafa í einkafyrirtækjum til þess að kjósa eftir kynjum í stjórn, er þá eitthvað óeðlilegt við það að hið sama ríkisvald geti sagt stjórnum ríkisfyrirtækja hvað hámarkslaun ríkisforstjóra geti verið?

Eða færi ef til vill best á því að við reyndum að sameinast öll í þeirri kröfu að hið opinbera dragi úr afksiptum sínum, af stjórnum ríkisfyrirtækja, en enn frekar af einkafyrirtækjum og einstaklingum?

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband