Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Athygliverðar hugmyndir um sæstreng, en ....

Það er ekki hægt að neita því að hugmyndir um að leggja sæstreng fyrir raforkusölu frá Íslandi til meginlands Evrópu, eða þá Bretlands eru athygliverðar.

Það væri vissulega góð búbót fyrir Íslenskan efnahag ef hægt væri að selja umtalsvert magn raforku á háu verði til útlanda.

En auðvitað hlýtur kostnaðurinn við að leggja slíkan streng að vera mikill.  Tekjurnar þurfa því að vera háar og það sem meira er, nokkuð öruggar. 

Það skiptir því verulega miklu máli hvernig hægt er að sjá orkumarkaðinn í Evrópu þróast.

Nú ætla ég mér ekki að spá fyrir um hvernig orkuverð kemur til með að þróast í  Evrópu næstu áratugina.  En orkuverð hefur verið mikið til umræðu á undanförnum misserum, ekki hvað síst hvað mikill munur sé að verða á orkuverði í N-Ameríku og Evrópu og Asíu.  

Sjá t.d. hér og hér.

Talað er um að gasverð í N-Ameríku sé u.þ.b. 30 til 40% af gasverði í Evrópu. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu margra Evrópskra fyrirtækja gagnvart keppinautum í N-Ameríku, og hefur einnig spilað stórt hlutverk í ákvörðun ýmissa Bandarískra fyrirtækja í að flytja hluta eða alla framleiðsu sína á heimaslóðir.

En getur ákvörðun um lagningu sæstrengs byggt á þeirri sýn að stjórnvöld í Evrópu muni ekki eða geti ekki gert neitt til þess að lækka orkukostnað Evrópskra fyrirtækja og heimila til jafns, eða í námunda við það sem gerist í N-Ameríku?

Hvað mætti orkuverð í Evrópu lækka mikið án þess að sala á Íslensku rafmagni yrði óhagstæð?

Síðan má líka ræða um hvort ekki sé hagstæðara til lengri tíma að leita frekar að leiðum til að nýta orkuna innanland, eða jafnvel umbreyta henni í hentugra geymsluform, en það er önnur saga.

En þó að sjálfsagt sé að skoða möguleika á raforkusölu um sæstreng, þá held ég að rétt sé að fyllast ekki of mikilli bjartsýni yfir þeim möguleikum.  Ég held í það minnsta að það sé það áhættusamt að Íslendingar þurfi að velta því vel fyrir sér, áður en slík áhætta yrði tekin af opinberum aðilum. 

 


mbl.is Aukið orkuöryggi með sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sambandið" mjög ánægt með EES samningin?

Rakst á þess frétt á vef Ríkisútvarpsins. Þar er talað við Lisu Rye, sem er titluð sem Norskur sérfræðingur í Evrópumálum (líklega átt við Evrópusambandsmálum).

Þar segir orðrétt:

Aðild Íslands kynni þó að hafa áhrif á EES-samstarfið að mati Rye. Það hafi komið fram að ESB sé ánægt með EES-samstarfið. Alli sjái að það hafi gengið vel og því hafi verið vel hampað og það sagt mun betur heppnað en svissneska útfærslan með fríverslunarsamningunum. Rye telur að svo lengi sem þýðingarmesti aðilinn í samstarfinu vilji halda því áfram verði fundin lausn á því.

Ég ætla ekki að fullyrða hvort að þessi Norski sérfræðingur hafi rétt fyrir sér eða ekki.

En hitt er ljóst að hennar skoðun sem sett er fram í frétt RUV stangast all verulega við þær fullyrðingar sem ýmsir Íslenskir stjórnmálamenn hafa viðhaft, um EES/EEA samninginn á undanförnum vikum og misserum.

Ætlii einhver muni spyrja Össur út í þetta mál?

 


Meingölluð tillaga Þorgerðar Katrínar

Það hefði verið gráupplagt að kjósa um Evrópusambandsaðild og áframhald viðræðna samhliða komandi Alþingiskosningum, að því leyti til er tillaga Þorgerðar Katrínar góð.

Það gera sér þó líklega flestir grein fyrir því að alltof seint er að leggja slíka tillögu fram nú, örstutt til kosninga og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hafin.  Slík tillaga hefði þurft að koma fram mikið fyrr.  Ég held reyndar að þjóðaratkvæðagreiðsla með svo stuttum fyrirvara stangist á við lög, en ætla þó ekki að fullyrða um það.

Því er varla annað hægt en að flokka þessa tillögu sem sýndartillögu, lagða fram með sýndarmennsku í huga.  Fjöldi slíkrar "fjölmiðlafrumvarpa" og  tillagna hafa komið fram á undanförnum dögum og er ekki til fyrirmyndar.

Það má merkilegt teljast að Þorgerður skuli velja slíka "sýndartillögu" sem endapunktinn á þingferli sínum, en persónulega þykir mér ekki mikil reisn yfir því.

Síðan má auðvitað deila um orðalag spurningarinnar, og þarf ekki að efa að þar mun sitt sýnast hverjum, en ég ætla ekki út í þá sálma hér.

En síðari dagsetningin sem Þorgerður Katrín tiltekur, finnst mér eiginlega út í hött.

Mér finnst eiginlega einboðið hafi viðræðum við "Sambandið" ekki lokið á einhvern hátt áður en til sveitastjórnarkosninga árið 2014 komi, þá sé ekki ástæða til að halda þeim áfram, nema þá að samningar séu á lokaspretti og þurfi nokkrar vikur til viðbótar.

Það er engin ástæða til þess að samningaviðræður standi "endalaust", og það er engin ástæða til þess að gefa sér að til samnings komi.  Ef til vill næst ekki niðurstaða sem báðir aðilar geta sætt sig við.

Þess vegna er líka seinnihluti spurningar Þorgerðar Katrínar allt of gildishlaðinn, þar sem hún gefur sér að slík niðurstaða fáist.

Þess utan er engan vegin rökrétt að núverandi þing reyni á einhvern hátt að binda hendur komandi þings í þessu máli.  

Kosningar eru eftir rétt rúman mánuð, þar velja kjósendur nýtt þing, nýja þingmenn sem þeir veita umboð til fjögurra ára.  Það er það þing sem kemur til með að taka ákvörðun um framvindu og framhald málsins.

Tillaga Þorgerðar Katrínar er sýndartillaga af ódýrari gerðinni.  Ef til vill hefur þingmaðurinn ekki "pólítískt kapítal" fyrir meiru, nú við enda þingferils.

 


mbl.is Kosið verði um ESB 27. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingið á Kýpur segir nei við skilmálum fyrir neyðarláni frá Evrópusambandinu

Það eru vissulega stór tíðindi að þingið á Kýpur hafi hafnað því að leggja sérstakan skatt á bankainnistæður.

Þannig "klipping" var skilyrði fyrir því að Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrisjóðurinn veittu ríkinu neyðarlán.

Það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að að ein af ástæðum þess að hinir Kýpversku bankar eru í vandræðum, eru fjárfestingar þeirra í Grískum ríkisskuldabréfum, sem hið sama Evrópusamband barði í gegn að fjárfestar sættu sig við "klippingu" á.

Nú er Kýpur næsti "dómínókubburinn".

En hvað gerist nú?

Það er ekki auðvelt að sjá fyrir en það eru ekki margir valkostir í stöðunni og líklega enginn þeirra góður.

Einn möguleiki er sá að "Þríeykið" eða "Troikan" gefi eftir og slaki á kröfunum gagnvart Kýpur.  Það væri pólítískt afar erfitt og hættulegt fyrir "Sambandið" og verður að teljast ólíkleg að um verulegar tilslakanir yrði að ræða.

Mun líklegra væri að aukin þrýstingur yrði settur á ríkisstjórn Kýpur og þingið látið greiða atkvæði um tillögurnar aftur.  Þar væri Evrópusambandið á heimavelli, fáir ef nokkur kann betur þá list að láta endurtaka atkvæðagreiðslur.

Þriðji möguleikinn væri að Kýpur leiti "annnara leiða" eins og stjórnmálamenn þarlendis hafa orðað varfærnislega.  Það væri þá næsta víst að um yrði að ræða frekari fjármögnun frá Rússlandi.  Þá næsta víst með "veði" og vinnslurétti í gríðarstórum gaslindum sem eru undan ströndum Kýpur. 

Flogið hefur fyrir að Rússar myndu hugsanlega lána fé í gegnum annaðhvort eða bæði Gazprom og Rosneft, en þau eru bæði undir tryggri stjórn Rússneska ríkisins.

Það væri vissulega nokkuð merkilegt ef Rússar næðu óbeinum yfirráðum yfir þeim gaslindum, fyrir framan nefið á Evrópusambandinu.  Nóg eru ítök þeirra á orkumarkaði "Sambandsins" fyrir.

Fjórði möguleikinn væri að Kýpur færi hreinlega í þrot, bankarnir hryndu og ekki ólíklegt að hið opinbera fylgdi á eftir.  Þó að ekki sé hægt að afskrifa þennan möguleika, verður hann að teljast ólíklegur.  Það eru einfaldlega það miklir hagsmunir, og mjög líklega tekjumöguleikar í gaslindunum, til staðar að það er líklegt að einhverjir hlaupi undir bagga með Kýpur.

Persónulega hallast ég æ meira að því að það verði Rússland.

Enn og aftur kemur í ljós hve illa Evrópusambandið og skipulag þess og uppbygging er fær um að kljást við krísur hjá aðildarríkjunum.

Enn og aftur má efast um að leiðtogar "Sambandsins" hafi gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að samþykkja og til hvers það myndi leiða.

Enn og aftur kemur í ljós hve illa euroið hentar fyrir heild þeirra ríkja sem nota það.  Varnaðarorð sem féllu áður en euroið kom til sögunnar og fram á þennan dag, voru ætið höfð að engu.

Sjálfsagt eiga leiðtogar "Sambandsins" eftir að koma fram á næstu dögum og segja að það sem þurfi sé meira af því sama.  "Meira Samband".  En ræður þeirra hljóma æ holari og innantómari.

Sjálfsagt á Össur Skarphéðinsson eftir að koma fram í fjölmiðlum eftir fáa daga og segja að eurokrísan sé leyst.

 

 


mbl.is Kýpur hafnar skatti á innistæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg tillaga, en skaðinn að hluta til skeður. Hverfur "Rússagullið" á brott?

Enn er ekki búið að samþykkja endanlega hvernig "klipping" sparifjáreigenda á Kýpur verður.  Alþingi þeirra Kýpurbúa á enn eftir að greiða atkvæði um hvernig verður staðið að málum.

Ef marka má fréttir er talin nokkur óvissa um hvernig atkvæði gætu skipast og er það meginástæða þess að ákvörðunni og atkvæðagreiðslunni var frestað.

En það hljómar skynsamlega að reyna að sneiða hjá smærri sparifjáreigendum hvað varðar skerðingu.  Skaðinn kann þó að vera að hluta til kominn fram, þar sem tillögurnar hafa án efa vakið ugg hjá mörgum sparifjáreigendum, sérstaklega í löndum Eurosvæðisins sem hafa átt í erfiðleikum, s.s. Portúgal, Ítalíu, Spáni og Grikklandi.

Ekki er ólíklegt að fjárstreymi hafi aukist til landa eins og Sviss í kjölfarið.

Fum, óskýr og óákveðin viðbrögð eru ekki best til þess fallinn að viðhalda trausti á fjármálastofnunum.

En það er  spurning hvað eigendur hins Rússneska fés, sem sagt er vera í bönkum á Kýpur, taka til bragðs.

Munu þeir ákveða að draga fé sitt út úr landinu, frekar en að eiga von á frekari skerðingu?  Munu þeir treyst bönkum á Kýpur eftir þetta?

Sagt er að Rússneskt fé sé í það minnsta í kringum 15 milljarðar euroa, þannig að ef verulegur flótti brestur á, dugar það til að kollsteypa bönkum á Kýpur endanlega.

Það er svo vert að velta fyrir sér hvers vegna svona lítið land eins og Kýpur veldur slíku uppnámi.  Landsframleiðsla (GDP) nemur í kringum 0.2% af heildar landsframleiðslu eurolandanna.  Upphæði björgunarpakkans er í kringum 10 milljarðar euroa, sem er eins og vasapeningar miðað við þær upphæðir sem þurfti til að bjarga Grikklandi, Portúgal og Írlandi.

En samt fer allt í uppnám.  Milljarðar euroa "hverfa" á verðbréfamörkuðum.  Meira að segja Deutsche Bank lækkaði verulega á tímabili.

Í miðju þessa er euroið.  Það er meginástæða óróans.  

 

 


mbl.is Mörkin verða 100.000 evrur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin falli í vor

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að núverandi ríkisstjórn falli í vor.  Tæknilega séð er auðvitað allt hægt, en kraftaverk eins það sem þyrfti til að vinstristjórnin haldi velli gerast ekki nema með einhverra alda millibili.

Ein af mörgum ástæðum þess að ríkisstjórnin mun falla, og það jafn rækilega og líklegast er, er áherslan ríkisstjórnar Samfyllkingar og Vinsri grænna á að gana í "Sambandið".

Töfralausnin sem Samfylkingin boðaði með "Sambandsumsókn" og boðar enn hefur ekki trúverðugleika og nýtur aðild að "Sambandinu" einungis fylgis 25% kjósenda, samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum.

Auðvitað er það langt í frá óhjákvæmilegt að Ísland gangi í "Sambandið", eins og staðan er í dag er það reyndar frekar ólíklegt.

Staðan sést ef til vill ekki síst á þeirri staðreynd að viðræðurnar hafa nú staðið yfir á fjórða ár, og ekkert verulega fréttnæmt gerst.  Í raun hefur málinu miðað lítið áfram. Hvorki ríkisstjórnin eða ESB, hafa enda áhuga á því að leggja samning fyrir þjóðina þegar allt bendir til þess að samningur verði kolfelldur.

Allt bendir til þess að stuðningur við aðild að "Sambandinu" minnki á Alþingi á komandi kjörtímabili, líklega nær því hlutfalli sem andstaðan nær hjá kjósendum (samkvæmt skoðanakönnunum).

Það þarf heldur ekki nema að lesa fréttir til að gera sér grein fyrir því að það er ekkert óhjákvæmilegt að Ísland gangi í "Sambandið".

P.S.  Það er að verða nokkkuð merkileg þessi viðtöl sem birtast á Bloomberg við Samfylkingarráðherrana. Þar fá þau að tala eins og löggiltir handhafar sannleikans fréttin skrifuð eins og þjóðin standi einhuga að baki umsókninni.

Flestir vita auðvitað að það er langt í frá að vera raunveruleikinn.  En Bloomberg virðist frekar leggja áherslu á að miðla hugarheimi Samfylkingarráðherra til lesenda sinna.  Það finnst mér nokkuð merkilegt.

 


mbl.is Óhjákvæmilegt að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga fé í öruggum gjaldmiðli.

Það vilja allir eiga sitt fé í öruggum, stöðugum gjaldmiðli.  Á öruggum stað.  Ekki er verra ef féð ávaxtar sig þokkalega.

En hvar er sá staður í dag?

Lausnin er ekki að eiga fé sitt í euroum í banka á Kýpur, það er nokkuð ljóst.

Þessi lausn sem "Sambandið" og seðlabanki þess hefur fundið til að leysa vanda banka og stjórnvalda á Kýpur felur í sér margar hættur.  Ekki bara fyrir þá sem eiga fé sitt í euroum þar í landi, heldur er ekki ólíklegt að sparifjáreigendur í mörgum "jaðarríkjum" Eurosvæðisins ókyrrist.  Og jafnvel víðar.

Það er ekki víst að það sé ávísun á góðan nætursvefn að eiga fé sitt í euroum í bönkum á til dæmis Ítalíu, nú eða á Spáni.  Er ástæða til að óttast að hin nýjas "hártíska" sparifjár verði tekin upp í Portugal, eða Grikklandi?  Frönsku sósialistarnir hafa líkið verið hrifnir af "one time" sköttum.

Það kemur líka í ljós að innistæðutrygging á Kýpur er ekki 100%.  Gildir það sama í öllum eurolöndunum?  Eða ef til vill ekki í öllum "Sambandslöndunum"?

Það eru spurningar í þessum dúr sem sparifjáreigendur víða á Eurosvæðinu munu spyrja sig í dag og næstu daga.

Þýskir skattgreiðendur munu ef til vill anda aðeins léttar, vitandi að minna fés verður krafist af þeim, alla vegna fram að kosningum þar í haust.  Spurningin hver verður við völd eftir þær og hvað verður talið "nauðsynlegt" þá til að bjarga euroinu.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því sem gerist.  Það má ef til vill segja að þetta sé fjórða leiðin sem farin hefur verið í bankahrunum liðinna ára og sú fyrsta þar sem almennir sparífjáreigendur eru látnir bera skaða.

Það er svo nokkuð merkileg umræðan um að ekki hafi verið vilji til þess að bjarga bankakerfi Kýpur, án þess að sparifjáreigendur yrðu "klipptir", vegna þess hve miklar innistæður Rússneskir aðilar eiga þar og ekki sé ástæða til þess að skattgreiðendur Eurosvæðisins taki þátt í að bjarga þeim "þvottapeningum".

En minna fer fyrir hugleiðingum hvers vegna Evróusambandið hefur liðið rekstur þeirrar "þvottastöðvar" innan vébanda sinna í öll þessi ár.  

En ef til vill er bara eðlilegt að peningar "hlaupi" í "þvotti".


mbl.is Versti efnahagsvandi í 40 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræði Sjálfstæðisflokks staðfest - stöðug fylgisaukning Framsóknar

Þessi könnun MMR bendir til þess að fylgistap Sjálfstæðisflokks haldi áfram og að Framsóknarflokkurinn vinni stöðugt á.

Með sama áframhaldi verður Framsóknarflokkurinn stærsti flokkur Íslands í komandi kosningum.  Það er líklega eitthvað sem fáir hefðu þorað að setja fram sem spá, jafnvel svo nýlega sem á Bóndadeginum.

Fylgi Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og VG er svo gott sem óbreytt frá síðustu könnun MMR.

Þó að það skipti ef til vill ekki miklu máli í "stóra samhenginu", vekur það þó athygli mína að Píratar eru sterkastir af nýju framboðunum.

Ef úrslit kosninganna yrðu nákvæmlega svona í apríl, væru áberandi tveir sigurvegarar. Framsóknarflokkurinn og Björt framtíð. 

Tapið er mest hjá Samfylkingu og Vinstri grænum, en þó að Sjálfstæðisflokkurinn vinni all nokkuð á yrði engin leið önnur en að líta á þessa niðurstöðu sem tap fyrir flokkinn.

Ef þessi yrði niðurstaðan yrði hún gríðarlegt áfall fyrir hina nýkjörnu formenn, Árna Pál og Katrínu Jakobsdóttur.  Ég leyfi mér að efast um að þau yrðu langlíf á formannsstóli.  Þessi úrslit yrðu einnig gríðarlegt áfall fyrir Bjarna Benediktsson og engin spurning í mínum huga að skipt yrði um formann á næsta landsfundi.

Formennirnir gætu þó bjargað stöðu sinni með því að koma flokkunum í ríkisstjórn, en ég held að það myndi þó ekki duga Bjarna, ef flokkurinn yrði ekki með meira fylgi í kosningum.  Ef þessi yrði niðurstaðan má reyndar efast um að flokkurinn hafi nokkuð í ríkisstjórn að gera.

Ef þessi yrði niðurstaðan í kosningum yrði Framsóknarflokkurinn sterki flokkurinn í Íslenskum stjórnmálum og varla nokkur efi á því að hann myndi leiða næstu ríkisstjórn.

En yrði sú ríkisstjórn mynduð til vinstri eða hægri?

Persónulega myndi ég spá því að Framsóknarflokkurinn myndi frekar vilja fara til vinstri.  Það gæti þó staðið í sumum framsóknarmönnum að leiða Guðmund Steingrímson og BF til valda, en ef hlutföllin breyttust og Vinstri græn gætu komið þar í staðinn þætti þeim það líklega mun vænlegri kostur.

Stjórn með Sjálfstæðisflokknum yrði Framsóknarflokknum líklega auðveldari, ég tala nú ekki um ef þeir gætu náð þeim sögulegu úrsltium að mynda stjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði minni aðilinn.  En það sem vinnur ef til vill sterkast gegn slíkri stjórn er sú hræðsla sem hefur byggst upp ínna flokksins að flokkurinn hafi farið illa út úr því samstarfi og megi ekki líta út fyrir að vinna eingöngu til hægri.

En enn er býsna langt til kosninga.  Nú er kosningabaráttan að hefjast fyrir alvöru.  Staðan er galopin þó að í augnablikinu sé hún lang sterkust hjá Framsóknarflokknum.

En eins og staða Framsóknarflokks sýnir nú, getur hún breyst á skömmum tíma.

P.S.  Það hefði verið fróðlegt að sjá aldursdreifingu í þessari könnun. 

Hér er svo hlekkur á könnunina.

 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður eurokrísan að pólítískri kreppu?

Flestir kannast líklega við eurokrísuna sem nefnd var höfuðið á sameiginlegum gjaldmiðli margra Evrópusambandsþjóða.

All oft hefur því verið lýst yfir að hún hafi verið kveðin niður, en jafnoft hefur hún skotið upp kollinum á nýjan leik, eða haldið áfram óáreitt.

Með býsna vel heppnuðum aðgerðum Seðlabanka Evrópu á síðasta ári, tókst að koma í veg fyrir að allt færi úr böndunum, en þó eru flestir sammála að vandamálin eru enn til staðar, en aukin tími og svigrúm séu til að leita lausna.

En krísan hefur ekki verið kveðin niður, eins og sést á sívaxandi atvinnuleysi og að æ fleiri ríki dragast inn á hættusvæðið, s.s. Kýpur og Frakkland.

En nú sjást merki um að kreppan sé að færast í vaxandi mæli yfir í hinn pólítíska veruleika "Sambandsins".

Skýrasta dæmið um það eru auvitað úrslit í Ítölsku þingkosningunum nýlega.  Ítalir gáfu (Super) Mario Monti, sem hafði verið skipaður forsætisráðherra að kröfu "Sambandsins", háðulega útreið í kosningunum.

Sigurvegari þeirra var tvímælalaust 5 stjörnu hreyfingin (M5S) undir forystu Beppo Grillo.  Bandalög þeirra Bersanis og Berlusconis, voru í raun hnífjöfn, þó að sjónarmunur skyldi að og Bersani hlyti þannig meirihluta í neðri deildinni.

Meirihluti Ítalskra kjósenda greiddi atkvæði með stjórnmálaflokkum sem hafa lýst efasemdum í garð eurosins og Evrópusambandsins.

Risavaxin mótmæli voru 2. mars í Portúgal.  Talið er að ríflega milljón manns hafi verið í mótmælunum. Þetta eru einhver stærstu mótmæli í landinu frá því að Portúgalir voru að brjótast undan herforingjastjórn, og sumir sömu söngvana voru sungnir.

Í Þýskalandi er nýstofnaður stjórnmálaflokkur með það á stefnuskránni að Þýskaland fari úr eurosamstarfinu og vaxandi óánægja er með gjaldmiðilinn og "Sambandið" sjálft.

Margir hafa sjálfsagt heyrt af og muna eftir "Sönnum finnum", sem unnu umtalsverðan kosningasigur fyrir ekki alls svo löngu.

Flesti þekkja hvernig málin hafa þróast í Bretlandi, þar sýna skoðanakannanir meirihluta fyrir úrsögn landsins úr Evrópusambandinu.  Sömuleiðis ættu líklega flestir að hafa heyrt hvernig ástandið er á Spáni og Grikklandi og hvernig atvinnuleysistölur eru þaðan.

Íbúar í löndum "Sambandsins", upplifa í vaxandi mæli "Sambandið" sem erlent vald (sem það vissulega er að hluta til), sem þröngvi upp á þá lögum og reglugerðum og standi fyrir þvinguðum niðurskurði.  Ásakanir um að "Sambandið" verndi banka og fyrirtæki en láti almenning sitja á (atvinnuleysis)hakanum heyrast æ oftar og verða háværari.

Talað er um "týndu kynslóðina" í S-Evrópu, unga fólkið sem ekki fær vinnu og  á á litla sem enga möguleika til þess í heimalandinu.  Þjóðverjar ræða hins vegar um hvernig þeir eigi að taka á móti þessu unga fólki og halda í það.

Þannig skiptist Evrópusambandið í æ ríkari mæli í "tvo póla".  Euroið hefur gjörbreytt samkeppnisstöðu þjóða innan "Sambandsins", og því eru þjóðirnar í "Suðri" að missa úr landi best menntuðu kynslóðirnar sem þær hafa eignast.

Þess vegna fer stuðningur við Evrópusambandið víða minnkandi.  Íbúar innan ríkja "Sambandsins" bera á minna traust til þess.  Þeir trúa ekki lengur að hin "pólítíska elíta" í Brussel, sé að vinna í þeirra þágu.

Nú bíða allir eftir kosningum í Þýskalandi í haust.  Verður skipt um kanslara og þann sem ræður "de facto" ferðinni í "Sambandinu"?  Samþykkir Merkel fjárhagsaðstoð fyrir Kýpur fyrir kosningar? Eða verður Kýpur látið "gossa", vegna þess að það er svo lítið ríki, að það þarf ekki að bjarga því, eins og haft hefur verið eftir sumum Þýskum stjórnmálamönnum.

Ég skora á Íslenska kjósendur að hafa aðildarviðræður við Evrópusambandið ofarlega í huga sér þegar þeir ganga inn í kjörklefann í vor. Og afstöðu Íslensku stjórnmálaflokkanna til þeirra.


Fyrirsjáanleg niðurstaða - stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar voru taldir

Þessi niðurstaða var að mínu mati ákaflega fyrirsjáanleg.  Ég hygg að flestir hafi talið að þingmenn BF myndu styðja ríkisstjórnina.  Sú varð enda raunin.

Að því leiti má segja að þessi vantrauststilllaga hafi verið óþörf og að nokkru marki sóun á tíma þingsins.  Það er búið að ákveða kosningadag, það er búið að ákveða síðasta þingdag (þó að þar kunni að verða breyting á).

En pólítíkin tekur á sig ýmsar myndir.

Ég hygg að flestir hafi gert sér grein fyrir því fyrir all löngu síðan að tillögur að stjórnarskrá yrðu ekki samþykktar í heild sinni á yfirstandandi þingi.

Það var hinum ýmsu þingmönnum hinsvegar pólítískt hjálplegt að "trúa" því að svo gæti orðið.

Þeir telja sömuleiðis að hið umdeilda stjórnarskráfrumvarp geti orðið þeim pólítísk hjálp í kosningabaráttunni sem er framundan.  Það er reyndar á á nokkuð mismunandi forsendum sem þeir telja að slíkt geti orðið þeim til framdráttar á atkvæðaveiðum.

Sumir vilja ekkert frekar en sýna fram á að allt klúðrið í kringum stjórnarskrárfrumvarpið sé Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki að kenna.  Rétt eins og önnur IceSave,  "bílslsysafrumvörp" og önnur framganga Samfylkingar og Vinstri grænna er stjórnarandstöðunni að kenna í hugum ýmsissa stjórnarþingmanna.

Aðrir vilja ekkert frekar en að sýna fram á að Björt framtíð sé ekkert annað en framlenging af Samfylkingunni, og að þeir kjósendur sem vilja breytingar í vor, verði að kjósa eitthvað annað.  Björt framtíð muni aldrei gera neitt annað en að stilla sér upp við hlið núverandi stjórnarflokka.

Líkast til hefur það tekist, í það minnst að nokkru marki, og þar er vissulega eftir atkvæðum að slægjast, enda atkvæðaflótti frá Samfylkingu og Vinstri grænum, flestum vel kunnur og augljós.

Hvort að það dugi til þess að atkvæðin flytjist yfir á eitthvert af smærri framboðunum á eftir að koma í ljós, en það verður fróðlegt að sjá hvert þessi stjórnarskrá rimma á eftir að hafa einhver sjáanleg áhrif.

P.S.  Það var auðvitað eðlilegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði með vantrausti á ríkisstjórnina, hvert sem tilefnið er.  Vantraustsumræður eru fyrst og fremst um hvort að stjórnin eigi að sitja eða fara frá.  Ekki um hvort það sé af þessu málefninu eða öðru.

Eða myndu menn vilja að nú hæfist löng runa vantrauststillaga þar sem talin væru upp hin aðskiljanlegustu málefni?

 


mbl.is „Fá brauðmola af borði Árna Páls“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband