Uppbygging bankakreppu

Það er auðvitað mikið fjallað um vandann á Kýpur þessa dagana, eðlilega.  Mikið er rætt um stærð bankanna og fjárfúlgur þær sem Rússneskir aðilar eiga í þarlendum bönkum.

 

Anatomy of a banking crises in CyprusEn hver er orsök vandræða Kýpversku bankanna?

Hið Rússneska fé er auðvitað ekki upphaf vandræðanna, því innlán eru yfirleitt ekki til stórra vandræða (fyrr en allir vilja taka fé sitt út á sama tíma) og stærð bankanna er ekki rót vandræða þeirra, þó að það geri björgun þeirra erfitt verkefni.

Eins og sjá má að myndinni sem hér fylgir með, greiddu Kýpversku bankarnir háa vexti, en það leiddi þá i sjálfu sér ekki í vandræði, því eins og myndin sýnir  lánuðu þeir út með háum vöxtum sömuleiðis.  Vaxtatekjur þeirra voru með ágætum.  Gröfin sýna reyndar ágætlega hve mikill munur getur verið á vöxtum innan Eurosvæðins, sem er eitthvað sem "Sambandssinnar" gleyma gjarna að minnast á.

 

Meginorsök vandræða Kýpversku bankanna er að finna í eurokrísunni.  Gríðarleg töp stærstu bankanna eru sýnd neðst á myndinni.  Þar er þó aðeins að ræða þá 2. stærstu, heildartap Kýpverska bankakerfisins er mun meira.

 

Kýpversku bankarnir tóku á sig gríðarlegan skell þegar "klipping" skuldabréfa Gríska ríkisins var ákveðin.  Þeir höfðu fjárfest mikið í Grískum ríkisskuldabréfum og geta ekki risið undir tapinu.

Ofan á það tap bætist síðan veruleg útlán til Grískra fyrirtækja, sem ekki hafa, eða munu standa í skilum.

Það má vissulega segja að þar hafi Kýpversku bankarnir ekki sýnt nægilega varkára fjárfestingarstefnu, en svo má líka halda því fram að þeir hafi, eins og margir aðrir, fallið í eurogildruna. Það er þeir litu svo á að euro væri euro og gerðu ekki nægan greinarmun á stöðu mismunandi ríkja innan svæðisins.

Það eru ekki nema um fimm ár síðan Kýpur tók upp euro.  Það eitt og sér veldur ekki kreppunni. En það hefur ekki gert neitt til þess að afstýra henni. Eins og sést á grafinu yfir innlán í Kýpverskum bönkum, jukust innlán verulega eftir að Kýpur tók um euro sem gjaldmiðil.

Hvers vegna skyldi það hafa verið?

Cyprus Deposits pngEinfaldasta skýringin er líklega sú að sé Kýpur vinsæll staður fyrir skattaundanskot og peningaþvott, þá er slík þjónusta auðvitað ennþá þægilegri þegar hún er boðin í landi sem hefur sem mynt annan stærsta gjaldmiðil heims.

Þeir sem þurftu á "þvotti" að halda hafa líklega margir litið svo á að þetta væri eins og að leggja fé sitt inn í Þýskan banka, án þess að þurfa að fara eftir íþyngjandi reglum.  Euro er (eða var) euro ekki satt?

Rússum hefur líklega þótt það mun eftirsóknarverðara að láta þvo fé sitt í euroum en Kýpverskum pundum.  Reyndar sýnir grafið sömuleiðis gríðarlegt innstreymi af fé frá eurosvæðinu í kringum upptöku euros. 

Eigendur hins Evrópska fés virðast þó hafa gert sér mun betur grein fyrir því en Rússar,  hvert stefndi hjá Kýpur og hvaða afleiðingar eurokreppan myndi hafa á bankastarfsemi þar, því eftir mitt ár 2010 skreppa inneignir af eurosvæðinu nokkuð skarpt saman.

Margir hafa haldið því fram og það verður ekki dregið í efa hér, að Evrópusambandinu hafi verið fullkunnugt um hvernig ástandið og hætturnar í fjármálakerfi Kýpur hafi verið áður en landinu var hleypt inn á Eurosvæðið.

Þá hljóta að vakna upp spurningar um hvers vegna það var gert?

Var það gert fyrst og fremst af pólítískum ástæðum, eða spilaði ef til vill inn í að "Sambandinu" þótti ekki verra að auka innstreymi fjár á Eurosvæðið og að auka eftirspurn eftir euroum?

Efnahagur Kýpur er búinn að fá á slíkt högg að líklega mun það taka landið áratugi að ná sér.  Flestar spár hljóða upp á samdrátt í landsframleiðslu á bilinu 10 til 20% og atvinnuleysi verði ca 25%.  Grískt ástand, en gerist mikið hraðar.

Það eina sam framundan er, sem gæti lyft þeim upp, er nýting gaslindanna sem hafa fundist undan ströndum Kýpur.  En það er þó líklega í það minnsta áratugur þangað til slíkt yrði.

Eftir stendur Kýpur, ekki bara í gjaldeyrishöftum, heldur gjaldmiðilshöftum. Því það er bannað að taka gjaldmiðilinn út til nota innanlands.  Þó að fáir viti enn hvernig reglurnar verða, er ljóst að þær verða harðar.  Ekki er heldur vitað hvað lengi þær munu standa, en frestanir á opnun banka gera engan bjartsýnan.

Reynið að ímynda ykkur ástand, þar sem bankainnistæður hefðu verið frystar í Kópavogi og bannað að flytja krónur yfir til annara sveitarfélaga.

Það er ekki rétt að segja að Kýpur hafi lent krísu vegna þess að þeir tóku upp euro, en það er ekki orðum aukið að segja að euroið hafi gert hana stærri og erfiðari viðfangs.  Utan þess að euroið dregur úr möguleikum Kýpverja til að fæst við krísuna og afleiðingar hennar.

Hefði Kýpur haft sinn eigin gjaldmiðil, hefði bankakreppa þar vakið mun minni athygli og hræðslu.  Hvað þá að menn hefðu óttast verulega að hún hefði dómínóáhrif um mestan part Evrópu.

Það tala enda flestir um eurokrísuna.  Krísuna sem gjaldmiðilinn bjó til.

P.S.  Því má svo bæta hér við, að Kýpversku bankarnir stóðust að sjálfsögðu "stress test" EBA (European Banking Authority) árið 2011, eins og sjá má hér.  Það er þetta með aukið og strangt eftirlit sem á öllu að bjarga.  Skyldi einhver ábyrgð fylgja eftirlitinu? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband