Hitinn eykst, en það er rétt að biðjast afsökunar og vanda umræðuna

Ég hef ekki tölu á öllum þeim myndum sem ég hef séð sem hafa sýnt Merkel í SS búningi, eða með Hitlersskegg.

Ég get ekki heldur talið þau skipti sem ég hef séð fullyrðingar í þá átt að nú sé Þýskalandi að takast það sem Hitler tókst ekki, að leggja undir sig stærstan hluta Evrópu.

Það gengur seint fyrir Þjóðverja að þvo af sér hernaðar og drottnunarstimpilinn.

En hvorugt á auðvitað rétt á sér.  

Því fagna ég því að El País hafi beðist afsökunar. 

En þetta er til marks um hitann í umræðunni.  Þetta er til marks um það að mörgum finnst eins og á sig hafi verið ráðist og landið sitt sé ekki sjálfstætt og lúti erlendu valdi.

En fyrst og fremst ber þetta líklega vitni um vonbrigði og að fólki finnist að það hafi verið haft að fíflum og skilið eftir í verri stöðu en áður en það lét blekkjast.

Nú er mikið talað um "popúlista" og "lýðskrumara" innan stjórnmálaflokka sem lýsa sig andsnúna "Sambandinu" og vilja að lönd snúi baki við "Sambandinu", segi sig frá euroinu, eða í það minnsta endurheimti vald frá Brussel.

Auðvitað sýnist sitt hverjum, en "lýðskrumið" fór ekki hvað síst fram þegar þjóðunum var lofað bættum lífskjörum, aukinni velmegun, meiri stöðugleika, að líkskjör myndu jafnast út á meðal "Sambandsþjóða", bara ef gengið yrði í "Sambandið".

Og á meðan ódýrt lánsfé flóði um allan heim, leit svo sannarlega út fyrir að loforðin hefðu verið rétt.  Allt var á uppleið, ekki síst húsnæðisverð, en allt leit vel út.  Atvinna jókst, launin hækkuðu, og allir töluðu um hvað "Sambandsaðild" hefði gert gott fyrir lönd eins og Spán, Grikkland, Portúgal o.s.frv.  Sterkur gjaldmiðill jók kaupmátt almennings á innfluttu góssi, og þó að það þýddi að innlend framleiðsla stæðist ekki samkeppnina, gerði það ekkert til, það gátu allir fengið vinnu í þjónustu.

En blaðran sprakk og raunveruleiki án ódýrs lánsfé tók við.

Þá brá svo við að vandræðin voru öll sögð heimamönnum og óstjórn þeirra að kenna. Þeir sem vildu kenna "Sambandinu" eða euroinu um að hluta,  voru úthrópaðir sem "popúlistar" og lýðskrumarar.

Í staðinn fyrir að velmegunin kæmi til þeirra, var almenningi sagt (óbeinum orðum) að hann gæti flutt í velmegunina í Þýskalandi.

Undir þessum kringumstæðum er ekki óeðlilegt að einhverjum renni í skap.  Og í ríkjum Evrópu þar sem sagan er ljóslifandi í hugum margra verða myndlíkingarnar gjarna heiftúðugar og meinfýsnar.

En heiftin er ekki góður förunautur.  Viðkomandi hagfræðingur lét reiðina hlaupa með sig í gönur.  Það er miður og vel til fundið og nauðsynlegt að El País að biðjast afsökunar á því frumhlaupi að hafa birt greinina.

Þó að hagfræðingurinn hafi aðeins verið að enduróma það sem heyrist á götum borga S-Evrópu (og líklega viíðar) er þó er engum greiði gerður með því að færa fjölmiðlaumræðuna niður á það plan.

Allra síst gerir hagfræðingurinn sjálfum sér þjónustu með þessu, enda færist umræðan frá því sem hann sagði í grein sinni og að líkingu hans við Hitler.

Auðvitað höfum við öll stokkið upp á nef okkar, sá sem hér skrifar hefur lent í því eins og aðrir, en það væri öllum til hagsbóta ef við reynum að temja okkur hófstilltara orðfar.  

Í því ættum við öll að taka þátt.  En ef það á að skila einhverjum árangri, þurfa þeir sem eru atkvæðamiklir í umræðunni, stjórnmálamenn og álitsgjafar og auðvitað ekki síst fjölmiðlarnir sjálfir að leiða förina.


mbl.is El País biðst afsökunar á pistli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er auðvitað rétt að gæta orða sinna í allri umræðu, en mér þykir þú gera frekar lítið úr þeirri ólgu sem nú gerjast í mörgum ríkjum ESB. Var spænska blaðið ekki bara að spegla þann raunveruleika sem birtist á götum borga Spánar?

Það sem er þó uggvænlegra er að fylkingar innan Þýskalands sem vilja láta þessi ríki lönd og leið eykst fiskur um hrigg. Andúðin á þeim löndum sem illa standa er að aukast innan Þýskalands.

Það er ekki að ástæðulausu að Alþjóða Rauði krossinn er farinn að hafa verulegar áhyggjur og líkir ástandinu innan Evrópu við dæmigert ástand í undanfara stríðs. Ef einhver samtök þekkja til á þessu sviði er það Rauði krossinn.

Þó vissulega allir eigi að gæta orða sinna, verður samt að segja sannleikann, sama hversu sár hann er og sanleikurinn er að þegnar þeirra landa sem verst standa lesa ástandið á þann veg að Þýskaland sé að drottna yfir Evrópu.

Gunnar Heiðarsson, 25.3.2013 kl. 06:18

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Vissulega hefur þú rétt fyrir þér að vissu marki Gunnar.

En mér finnst tvennt ólíkt að segja frá því í frétt að Merkel hafi verið líkt við Hitler, t.d. í mótmælum, eða að segja að Merkel sé eins og (nýr) Hitler t.d. í leiðara,eða pistli.

Í þessu liggur munurinn sem ég er m.a. að fjalla um, þó ef til vill hafi ég ekki komið því nógu vel til skila.

Að birta mynd af spjaldi sem haldið er á loft í mótmælagöngu þar sem höfuð Merkel er sett á líkama íklæddum nazistabúningi, er einfaldlega fréttaflutningur.

Það er vissulega ekki til fyrirmyndar að mínu mati að búa til slík spjöld, en eðlilegt að fjölmiðlar sýni það sem er að gerast.

Það er hins vegar engin sómi að því að færa slíkar samlíkingar og fullyrðingar inn í orðræðuna, eins og gert var í pistlinum í El País.

Því fagna ég því að beðist hafi verið afsökunar.

Auðvitað má svo ræða um hvort að tjáningarfrelsið eigi ekki að hafa forgang, en fjölmiðlar hljóta að setja sér sín eigin viðmið, og það er ekki réttur hvers og eins að mega birta hvað sem er í fjölmiðli að eigin vali.

G. Tómas Gunnarsson, 25.3.2013 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband