Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Guðmundur Steingrímsson tók þátt í því að undirbyggja flækjuna og erfiðleikana

Guðmundur Steingrímsson sér auðvitað gott tækifæri til sð sækja frekara fylgi til Samfylkingar nú þegar brestir koma í ljós í "Sambandsaðildarferlinu".

Samfylkingin á enda erfitt með að verja sig sókn í þeirri átt, því gagnrýni á Bjarta framtíð er eins og gagnrýni á sjálfa sig fyrir Samfylkinguna, stefnan er það lík hjá flokkunum.  Það benti Jóhanna Sigurðardóttir enda eftirminnilega á í Kryddsíldinni.

En í ræðu sinni á Alþingi og í Kastljósinu, hittir Guðmundur Steingrímsson sjálfan sig nokkuð fyrir.  Aðldarumsókn Íslendinga var samþykkt á Alþingi, einmitt með "valdabrölti og átökum" eins og hann nefnir.  Það er enda frekar fágætt að þingmenn lýsi því yfir í ræðustól Alþingis að þeir vilji sækja um aðild að einhverjum samtökum eða samböndum, en lýsi því jafnfram yfir að þeir séu mótfallnir aðild að þeim sömu samtökum.

Guðmundur Steingrímsson hafnaði því jafnframt á Alþingi að reyna að byggja betur undir málið og reyna að byggja sátt með því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sótt yrði um aðild að "Sambandinu" eður ei.

Þar treysti hann ekki kjósendum (eða þjóðinni eins og lýðskrumarar tala gjarna um) um að taka ákvörðunina.  Nei, sú ákvörðun þótti honum rétt að væri þingmanna einna.

Þar, eins og í flestum öðrum málum stóð hann þétt með Samfylkingunni.

En auðvitað hafði Alþingi fullan rétt á þvi að taka slíka ákvörðun, hún var leidd til lykta með lýðræðislegri atkvæðagreiðslu (þó að óeðlilegum þrýstingi kunni að hafa verið beitt).  

En alþingismenn, jafnt sem aðrir hafa rétt á að skipta um skoðun.  Það getur oft talist þroskamerki, að einstaklingar þori að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér og vilji skipta um kúrs.

Því er það alveg jafn réttur Alþingis, og alveg jafn lýðræðisleg ákvörðun að Alþingi ákveði að draga aðildarumsóknina til baka.  Slíkt má leiða til lykta með lýðræðislegri atkvæðagreiðslu á Alþingi.

En aðildarumsóknin stendur illa, vegna þess að vafi leikur á stuðningi við hana á Alþingi og nær allar skoðanakannanir benda til þess að meirihiluti kjósenda sé henni andvígur.

Það sést svo vel, hve vanhugsað það var að leita ekki álits kjósenda, með þjóðaratkvæðagreiðslu, um hvort sækja ætti um.  Sú vanhugsaða ákvörðun var tekin með stuðningi Guðmundar Steingrímssonar.

Það var því m.a. Guðmundur Steingrímsson, sem hjálpaði ríkisstjórninni að koma þessu máli í þessa fllækju og í þessa erfiðleika.  Ef málið hefði verið sett í þjóðaratkvæði, hefði leiðin verið bein, annað hovrt til höfnunar eða sterkari umsóknar.

Illa undirbyggð mál lenda gjarna í flækjum og erfiðleikum.

En það er enn hægt að leita eftir skoðunum kjósenda í þessu máli, setja umsóknina á ís og spyrja kjósendur (lýðskrumarar myndu líklega tala um þjóðina) álits, hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið eður ei.  Sömuleiðis má hugsa sér að spyrja kjósendur hvort þeir vilji halda aðlögunarviðræðum áfram eða slíta þeim.

Það er ekki flókið.


mbl.is „Er þetta flókið?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar að ræða "Sambandið eins og það er, ekki Evrópu - Meiri þörf á áróðurskrifstofu í "Sambandinu" sjálfu en á Íslandi?

Það er ef til vill ekki nema von að rúmlega helmingur Íslendinga telji sig ekki vel upplýsa um "Evrópumál".  Hvað er "Evrópumál"?

Þegar fjölmiðlar, margir stjórnmála- og fræðimenn taka sig saman og rugla hugtökum og skilgreiningum er ekki von á góðu.

Á Íslandi er ekki verið að ræða um aðild að Evrópu.

Á Íslandi er ekki mikið rætt um "Evrópumál".

Það er heldur engin sérstök ástæða til þess.  "Evrópumál" ættu ekki að vera fyrirferðarmikil í umræðunni..

Á Íslandi (og víðar í Evrópu) eru Evrópusambandsmál nokkuð mikið hitamál og skeggrætt af kappi um aðild og efnahagsvandræði Evrópusambandsins.  Þá umræðu má auka, það er einungis af hinu góða.

En Evrópusambandið er ekki Evrópa og engin rök hníga til þess að setja sama sem merki þar á milli. Evrópusambandsmál eru ekki Evrópumál.  Áróðursskrifstofa Evrópusambandsins á Íslandi er ekki að reka áróður fyrir Evrópu, heldur "Sambandinu" sjálfu.

En með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð sjálfa könnunina þá þykir mér sérstaklega athyglivert að hærra hlutfall Íslendinga telja sig nokkuð vel upplýsta um "Sambandið" heldur en þeir sem búa í löndum "Sambandsins".  Það bendir ef til vill til þess að meiri þörf sé á að auka áróðurinn í "Sambandslöndunum", en að verja peningunum til undir- og áróðursstarfsemi á Íslandi.

En það er fyrst og fremst þörf á því að ræða frekar Evrópusambandið eins og það er og hvert það stefnir.  Ekki að halda langar ræður um hvers konar "Samband" á að búa til handa Íslendingum með ótrúlegum undanþágum frá sáttmálum "Sambandsins".

Það er þörf fyrir að ræða hvort að Íslendingar hafa áhuga fyrir því að verða hérað í því stórríki "Sambandsins" sem margir af forystumönnum þess tala nú fjálglega um.

Hvað hefði þátttaka í slíku stórríki í för með sér fyrir Íslendinga?

En hvort sem að Íslendingar telja þörf á því að umræða og kynning  á "Sambandinu" sé aukin á Ísland, eðu ei, ættu þeir að sammælast um eitt.

Kynning og barátta fyrir "Já" og "Nei" málstað á Íslandi, ætti að vera í höndum Íslendinga sjálfra og fyrir þeirra eigið fé.

Íslendingar eru fullfærir um að kynna sítt hvorn málstaðinn fyrir eigin þjóð.

Þess vegna ættu þeir að sammælast um að fara þess á leit við "Sambandið" að áróðursskrifstofu þess á Íslandi verði lokað.

Ákvörðunin um hvort að Ísland verði aðili að "Sambandinu" er Íslendinga einna, baráttan og kynningin fyrir þær kosningar ættu sömuleiðis að vera það.

Umfram allt ættu Íslendingar ekkki að sætta sig við að erlent ríkjasamband stundi áróður í landinu í aðdraganda Alþingiskosninga, með stefnu sumra stjórnmálaflokka en gegn annarra.

Það er óþolandi afskipti af innanríkismálum Íslendinga.

 

 

 


mbl.is 56% telja sig illa upplýst um Evrópumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin stóru pólítísku mistök - Valdníðsla af "dýrari gerðinni"

Það sést æ betur hve hrapaleg pólítísk mistök það var hjá ríkisstjórn Samyfylkingar og Vinstri grænna að setja aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samfylkiing og Vinstri græn, ásamt Guðmundi Steingrímssyni og Siv Fríðleifsdóttur, felldu tillögu þess efnis á Alþingi og höfnuðu þannig að reyna að byggja nokkra sátt um málið.

Reyndar er það nokkuð í stíl við pólítíska leiðsögn ríkisstjórnarinnar, sem að stórum hluta hefur falist í klækjum og krepptum hnefa.

Auðvitað hefði þjóðarakvæðagreiðsla verið það eina rökrétta í svo umdeildu máli.  Fá áliti kjósenda og vinna eftir því.  Hefði aðild verið felld, hefði ekki þurft að eyða frekar kröftum í það mál, en hefði það verið samþykkt, hefði umsóknin verið sterkari og umboð Íslensku samninganefndarinn mun öflugra.

En það skorti pólítíkskt hugrekki hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum.  Ríkisstjórnin þorði ekki að leggja málið í dóm kjósenda.  Hún óttaðist niðurstöðuna og sitt eigið líf, hefði nei komið úr kjörkössunum.

Einhverjum stjórnarþingmönnum má ef til vill vorkenna.  Þeir hafi trúað því sem þeim var sagt.  Þeir hafi ef til vill trúað því að þetta væri ekki nema smá mál sem nætti afgreiða á innan við 2. árum og svo yrði málið sett í hendur kjósenda.

Þeim sem hafa gaumgæft málið, hlýtur þó fljótt að hafa orðið ljóst að það væri nær engir möguleikar á því að ríki hlyti aðild að "Sambandinu" á örfáum misserum og í raun engar líkur á því að Íslandi tækist slíkt.  En áfram var haldið.

Þess vegna er málið komið í hina ankannalegu stöðu sem það er nú, þegar búinn er til moðsuða þannig að báðir stjórnarflokkarnir geti í pólítískum spuna reynt að halda andlitinu.

Þess vegna er svo komið að ríkisstjórnarflokkarnir beita fyrir sig valdníðslu af "dýrari gerðinni" til að koma í veg fyrir að fundur sé haldinn í Utanríkismálanefnd, þangað til þeim hefur gefist tóm til að sparka út fulltrúa sínum í nefndinni og kjósa annan taumhlýðnari.

Kjósendur bíða hins vegar eftir því að geta greitt atkvæði.

Margir þeirra myndu eflaust vilja kjósa um aðild, eða viðræður við Evrópusambandið, en biðin er líklega frekar eftir því að geta kosið nýja fulltrúa á Alþingi og gefið  núverandi stjórnarflokkum einkunn.

"Miðsvetrareinkunnirnar" sem hafa verið að birtast hafa ekki verið glæsilegar, en það er eingöngu einkunnin í vor sem telur.

 

 


mbl.is „Þarf að leita til þjóðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blekkingarleikur? Hvað hefur breyst? Hví brestur nú flótti í liðið?

Það er nokkuð merkilegt að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ákveði nú að "hægja" á aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið.

Einhver myndi líklega spyrja hvort að hægt sé að fara mikið hægar yfir en gert hefur verð?

En auðvitað breytir þetta engu í raun.  Aðeins er verið að reyna að gera málamiðlun þannig að hvorir tveggja geti nokkurn veginn haldið andlitinu, Samfylking og Vinstri grænir.  Þetta er nokkuð týpísk moðsuða sem vænta má frá þessari ríkisstjórn.  Moðsuða sem gerir flestum kleyft að túlka ákvörðunina á sinn eigin veg.

Það sem þessi ákvörðun á að ná fram, er að reyna að minnka umræðuna um Evrópusambandið fyrir kosningar.  Hana hræðast Samfylkingin og þó sérstaklega Vinstri grænir.

Það eina sem hefur breyst er að með hverjum degi styttist í kosningar og það verður erfiðara og erfiðara að horfast í augu við kjósendur með "Sambandsaðildina" á bakinu.

Það er undir kjósendum komið að láta umræðu um málið ekki falla niður.

Rétt er að hafa í huga að:

Áfram heldur aðlögun Íslands að regluverki "Sambandsins".

Það verður ekki hægt á starfsemi undir- og áróðursstofu "Sambandsins" á Íslandi.  Áróður hennar mun halda áfram og líklega ekki slakað á fyrir kosningarm, til hagsbóta fyrir aðildarflokka, en gegn stefnu annara.  Slíkur áróður erlends ríkjabandalags í aðdraganda kosninga er fordæmalaus á Íslandi. 

Það er líka merkileg staðreynd, að ríkisstjórn sem talar svo hátt um að leyfa þjóðinni/kjósendum að að ráða niðurstöðunnin, neitaði að halda þjóðaratkvæðgreiðslu um hvort sækja skyldi um.

Það er líka merkilegt að þessi ákvörðun án þess að hafa nokkurt samráð við Alþingi, hvað þá utanríkismálanefnd.  Ákvörðun um að "hægja" á viðræðunum er ríkisstjórnarinnar einnar.

En í raun hefur ekkert breyst, Samfylkingin vill ennþá inn í "Sambandið" frekar en nokkuð annað og VG styður ennþá þá aðild, ekki alltaf í orði, en alltaf á borði.

Því eiga þeir kjósendur sem eru á móti "Sambandsaðild" ekki neinn annan möguleika en að hundsa þessa flokka í kosningunum í vor.

En auðvitað væri best að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um málið samhliða þingkosningunum í vor.

Spurt yrði:  Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Svarmöguleikar:   Já     Nei

P.S.  Sé svo í fréttum nú að VG hefur ákveðið að bola Jóni Bjarnasyny úr utanríkismálanefnd.  Það er eftir öðru á þeim bænum.  Öllum sem ekki fylgja flokkslínunni um "Sambandsaðild" er rutt úr vegi.

Það er ekki "hægt" á þeim "hreinsunum".

 

 


mbl.is Hægt á viðræðunum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru allir að reyna að láta gjaldmiðil sinn síga?

Yfir fáu er heyrist kvartað oftar á Íslandi, en gengi Íslensku krónunnar.  Ja, nema veðrinu líklega.  Og auðvitað skiptir gengi krónunnar miklu máli, hefur bein áhrif á verðlag, vísitölur og þar með lán og afborganir.

En þegar spurt er hvert væri rétt gengi krónunnar verður oft minna um svör, enda er ekki einfalt að segja til um það með fullri vissu, án mikilla gagna og útreikninga.

Í stuttu máli má þó segja að gengið eigi að halda innstreymi og útstreymi gjaldeyris, vara og þjónustu í jafnvægi til lengri tíma litið.  Alþjóðleg viðskipti eru í eðli sínu 0 (zero sum) reiknisdæmi.

Það hefur oft gefist vel, þegar þjóðir hafa átt í efnahagserfiðleikum, að gengið hefur sigið og í kjölfarið hefur útflutningur aukist og atvinna sömuleiðis.

Nú er erfiðleikar í efnahag víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum og svo víða í Evrópu.  Það þarf því ekki að koma á óvart að lönd hafi freistað þess að láta gjaldmiðil sinn síga, eða í það minnsta reynt að koma í veg fyrir að hann styrkist.

Fréttir hafa verið miklar af seðlaprentun í Bandaríkjunum (Quantitative easing, heitir það á fagmálinu) og Bretar hafa heldur ekki slegið slöku við framleiðslu peninga með þeim hætti.  Svissneski seðlabankinn neitar að leyfa frankanum sínum að styrkast og prentar þá peninga sem þarf til að kaupa þann straum af euroum sem liggur til landsins.  Þau euro kaupa þeir síðan Þýsk, Bresk, Bandarísk og fleiri erlend ríkisskuldabréf og stuðla þannig að jafnvægi eða hækkun viðeigandi gjaldmiðla.

Aðgerðir Svissneska seðlabankans gegn euroinu, eru ekki vegna þess að þeir gætu ekki þolað ríkjum eins og Grikklandi eða Spáni að galdmiðill þeirra myndi veikjast, heldur vegna þess að Sviss má ekki við því að gjaldmiðill helstu samkeppnislanda þeirra, Þýskalanda, Austurríkis og fleiri ríkja í norður Evrópu, veikist gagnvart frankanum.  Því verja þeir frankann niður á við (það er algengur misskilningur að Sviss hafi bundið frankann við euroið, þeir kaupa aðeins nægjanlegt magn af erlendum gjaldeyri, svo hann styrkist ekki. ).  En þrátt fyrir þetta styrktust pundið og Svissneski frankinn nokkuð á liðnu ári.

En það er ljóst að ekki geta allir gjaldmiðlar veikst.

Það hefur verið hlutskipti "smærri"  gjaldmiðla að styrkjast upp á síðkastið, Kanada-, Ástraliu- og Nýsjálenskur dollar hafa risið, Braslískt real, Kóreanskt won  og auðivitað gjaldmiðill Kína, renmimbi eða yuan, svo nokkur dæmi séu tekin (reyndar líklega rangt að tala um gjaldmiðil Kína sem "smærri" en hann er þó ekki mikið notaður í alþjóðlegum viðskiptum).

Staða Þýskalands er með þeim hætti, að auðvitað ætti gjaldmiðill þess að styrkjast, en með þátttöku í euroinu, má segja að þeir "sífelli" gjaldmiðil sinn, Reglulega er einnig talað um að beita Kínverja þrýstingi til að þeir leyfi gjaldmiðli sínum að styrkjast enn frekar.

En kemur þetta allt Íslensku krónunni eitthvað við?

Auðvitað er hún smá í samanburði við flesta aðra gjaldmiðla, en lýtur þó sömu lögmálum.  Jafnvægi eða afgangur verður að vera á inn og útflæði.  Ella hlýtur krónan að síga.  Og þó að vöruskipti Íslendnga séu með afgangi nú um stundir, er slíka ekki að heilsa þegar allt er reiknað, afborganir af erlendu lánunum sem streymdu til landsins fyrir nokkrum árum, eru ennþá til staðar og láta finna fyrir sér.

Því verður að teljast líklegt að krónan verði lág enn um sinn og líklega lækki enn frekar.  Þar er ekki aðalatriðið hvort að Seðlabankinn "ráði við krónuna" eður ei, heldur hitt hvort að framleiðsla og gjaldeyristekjur Íslendinga aukist, standi í stað eða dragist saman.

Krónan endurspeglar efnahagslífið og efnahagsstjórnina.


Atvinnuleysi, upplausn og áframhaldandi erfiðleikar

Þeir koma nú fram hver á fætur öðrum, forráðamenn "Sambandsins" og lýsa því yfir að það versta sé afstaðið.  Barros, Van Rompuy og svo bergmálar það á Íslandi hjá "Sambandssinnunum".  Það er engu líkara en nú sé allt í himnalagi.

En svcna hefur það verið í nokkur ár.  "Sambandið" er alltaf að komast yfir það versta og hver neyðarfunndurinn á fætur öðrum, tekur "tímamótaákvarðanir!.  

Yfirleitt bergmála þessar yfirlýsingar svo á Íslandi og allir brosa, fagna og segja Íslendingum að hamingjan eigi lögheimili í Evrópusambandinu.

Það er hins vegar ekki mikil hamingja fólgin í  atvinnuleysistölum af Eurosvæðinu og Evrópusambandsins.  Atvinuleysi eykst mánuð eftir mánuð, sérstaklega er ástandið erfitt hjá ungu fólki.  Það er talað um að heil kynslóð hafi verið "dæmd úr leik" hjá þjóðum eins og Spáni og Grikklandi.  En þrátt fyrir það telja leiðtogarnir að það versta sé yfirstaðið.

En það er ekki bara að fólki fjölgi á ativnnuleysiskrá.  Þeim fjölgar sömuleiðis hratt sem hafa dottið út af henni og eiga fáar bjargir.  Það er þess vegna sem Rauði krossinn undirbýr umfangsmikla aðstoð í suðurhluta Evrópu.  En það skyggir ekki á gleði leitogana yfir því að það versta sé afstaðið.

Einhver stærsta hættan sem blasir við ríkjum s.s. Grikklandi og Spáni er upplausn.  Og gangi þær hækkanir á matvælaverði sem margir spá nú, eftir á árinu er hætt við að ástandið þar verði ógnvænlegt.

Þjóðir sem búa við allt of sterkan gjaldmiðil og styrkja þannig innflutning um leið og þær berja niður innlenda framleiðslu hafa ekki góð svör við vandanum.  Leiðin sem þeim stendur opin er að skera sífellt meira niður, lækka laun o.s.frv.  

Hjá þeim er lítil viðspyrna og það versta líklega langt í frá afstaðið.  

En útsýnið frá Brussel er annað.

 


mbl.is Aldrei fleiri án vinnu á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krossgötur?

Sá á netinu að stuðningsfólk Árna Páls Árnasonar er búið að stofna blogg til stuðning formannsframboði hans í Samfylkingunni.  

Það er vel til fundið og klókt að nota netmiðlana í þeirri baráttu.

Ef ég hefði atkvæðisrétt í þessari kosningu myndi ég án efa kjósa Árna Pál.  Það veitir ekki af að breyta um kúrs í Samfylkingunni.

Verð þó að hnýta í nafnið sem er á síðunni.

Krossgötur.   Hljómar eins og um sé að ræða sértrúarsöfnuð.

Ef til vill er það tilfellið?


Fimbulfamb Össurar og "Sambandsaðild"

Ég er búinn að sjá vitnað til kjallaragreinar sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra skrifar í DV, hér og þar á netinu.  Ég ákvað því að skella mér þangað og lesa greinina.

Í stuttu máli er greinin líkt of flest sem hefur komið úr þeim ranni, full af fullyrðingum, en fátt ef nokkuð sem mark er á takandi.

Þar fullyrðir Össur að það væri glapræði að hætta við aðildarumsókn að "Sambandinu" eða að setja hana á ís.  En hann færir engin sannfærandi rök fyrir máli sínu.  Hann eingöngu fimbulfambar.

Hann talar um rétt þjóðarinnar til að dæma sjálf.  Í sjálfu sér göfug afstaða.

En hverjir voru það sem neituðu þjóðinni um að greiða atkvæði um það hvort að sótt yrði um "Sambandsaðild" eður ei?  Það voru þingmenn Samfylkingar og þingmenn Vinstri grænna, ásamt Guðmundi Steingrímssyni og Siv Friðleifsdóttur.

Ríkisstjórnin hafði ekki pólítískt hugrekki til að bera þetta stóra mál undir þjóðina.

Í greininni talar Össur um að Eurosvæði se að rétta úr kútnum og segir m.a.  orðrétt:

Það birtist m.a. í því að matsfyrirtæki hafa hækkað lánshæfismat Grikklands um sex flokka, og lýst yfir að fjárfestum sé óhætt að festa þar fjármagn.

Það er beinlínis rangt. 

Það er rétt að Standard & Poor hækkaði lánshæfismat Grikkja um 6 flokka, en  að þeir hafi verið færðir í fjárfestingarhæfan flokk er rangt.  Þeir eru enn undir því.  Það má sjá t.d. hér í frétt Guardian fyrir örfáum dögum.  All "stóru"matsfyrirtækin 3. hafa Grikkland enn í ruslflokki.

Hvernig flokkun matsfyrirtækjanna 3. er háttað má lesa um hér, hér og hér.

Neðst í greininni segir Össur svo:

Við höfum í viðræðum síðustu missera náð mjög góðum skilningi á sérstöðu Íslands, bæði varðandi landbúnað, fiskveiðar og ekki síst byggðamál – þar sem aðild mun skipta sköpum fyrir byggðir í vanda. Sérstaða okkar hefur hitt í mark.

Það er líklega þess vegna sem fréttir hafa verið fullar af því undanfarna daga, að ákveðið hafi verið að fresta umræðum um þessa tvo málaflokka (landbúnað og fiskveiðar) þangað til síðast.  Það getur að vísu engin sagt til um hver, hvar eða hvenær það var ákveðið, en það er reyndar í takt við hið "opna og gegnsæja" viðræðuferli sem lofað var af hálfu utanríkisráðherra.

Það væri reyndar fróðlegt að utanríkisráðuneytið og samninganefnd Íslands upplýsti nú þegar um hvaða undanþágur frá regluverki "Sambandsins" samninganefndin hefur náð, það gæfi ef til vill einhverja hugmynd um hvað áunnist hefur á síðustu árum og hvers er að vænta.

Þannig er hinn mikli rökstuðningur utanríkisráðherra fyrir því að það sé glapræði að hætta við aðildarumsókn, eða setja hana á ís, lítið annað en almennt hjal, kryddað með einstaka rangfærslu.

Auðvitað er það ekki neitt alvarlegra að Alþingi samþykki að draga umsóknina til baka, heldur en að Alþingi samþykkti að sækja um. Hvernig getur það verið alvarlegra mál að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka, heldur en að sækja um aðild að Evrópusambandinu?  Nei, hér er málinu snúið á haus.

Hitt væri þó best, að bera umsóknina undir þjóðaratkvæði án frekari tafa, til dæmis samhliða komandi Alþingiskosningum.

Einföld spurning myndi duga:  Vilt þú að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu?

Svarmöguleikarnir:  Já     Nei

En skyldu stjórnarflokkarnir tveir sem berjast fyrir "Sambandsaðild" hafa hugrekki til þess?

 

 

 

 


Súrealismi í ríkisfjármálum - Nóbelsverðlaunin í hagfræði?

Hugmyndin hljómar vel. Það þarf ekki nema ögn af platínu til að búa til trilljón dollara, eða 10 trilljón dollara, allt eftir því hvað ákveðið er að setja í mótið.

Hvers vegna ekki að leysa skuldavandamálin í eitt skipti fyrir öll og búa til öflugan varasjóð?

Það að rætt skuli um það í fullri alvöru að leysa skuldaþaksvandræði Bandarískra stjórnvalda með þessum hæti, sýnir ef til vill betur en flest annað hvað abstract og súrrelaísk opinber fjármál eru orðin í "home of the brave".  

Ef til vill má segja að það beri vott um nokkurt hugrekki að hugsa sér að leysa málin með þessum hætti, en um leið sést hvert sú aðferð að láta seðlabanka kaupa skuldir þjóðríkisins sem þeir starfa í, getur leitt.

Um leið er þarft að velta fyrir sér hvers vegna svo mörg ríki heims hafa byggt upp kerfi sem ekki getur þrifist án langvarandi skuldasöfnunar og himinháum skuldum.

Það er ekki bara í Bandaríkjunum sem að þessi staða er komin upp.

Nú er komið í ljós að Spænska ríkisstjórnin er því sem næst búin að tæma eftirlaunasjóð landsmanna, til að kaupa eigin skuldabréf.  Breski seðlabankinn hefur prentað peninga eins og morgundagurinn sé ólíklegur og Svissneski seðlabankinn hefur einnig prentað franka eins og hann hefur þurft til að mæta gríðarlegu innflæði af euroum, frá hinu aðþrenda Eurosvæði.

Stærsti einstaki þátturinn í "höfuðlausn" eurosins á nýliðnu ári, var loforðið að gera hvað sem er (þ.e. prenta eins mikla peninga og þarf, og kaupa skuldabréf hinna aðkrepptu ríkja) til að bjarga hinum sameiginlega gjaldmiðli.

En það sem "plat(ínu)peningur Obama gerir ef til vill fyrst og fremst, er að sýna fram á hvað lítið þarf til að standa að baki prentun (eða sláttar) "trilljón dollara".  Eða í raun nákvæmlega ekki neitt.

P.S.  Ef af sláttu myntarinnar verður, þykir mér einsýnt að Obama hljóti Nóbelsverðlaunin í hagfræði þetta árið.  Það væri ekki nema rökrétt framhald af friðarverðlaununum sem hann hlaut um árið.  Ýmsir myndu meira að segja að hann hefði þó eitthvað gert til að hljóta hagfræðiverðlaunin.


mbl.is Íhuga að slá billjón dollara mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna leita Íslendingar að olíu? Hvers vegna sóttu Íslendingar um aðild að Evrópusambandinu?

Það er oft sagt að það verðmætasta sem hver og einn eigi sé orðsporið.  Ég hygg að flestir séu nokkuð sammála því.  Það sama gildir að mestu leyti um þjóðir.

Að vera sjálfum sér að mestu samkvæmur og framkvæma og taka ákvarðanir að mestu leyti með rökréttum hætti.

Hjá flestum myndi það því jafngilda yfirlýsingu um að olía verði unnin, finnist hún í vinnanlegu magni, þegar leyfi til olíuleitar eru gefnin út.

En ef marka má tal sumra forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, mætti ætla að það væri alls ekki gefið á Íslandi.  Þar gæti stjórnvöldum allt eins bara þótt gott að vita að olían væri þarna, eða hvað? Reyndar má heyra svipuð sjónarmið frá ýmsum aðilum sem tilheyra báðum stjórnarflokkunum.

Auðvitað sendir Íslenska ríkistjórnin fyrirtæki (jafnt Íslensk sem erlend) og látum þau kosta miklu til og segjum svo:  Fínt að vita að olía er þarna, þakka ykkur fyrir viðvikið.  En við ætluðum aldrei að vinna olíuna, það er ekki vistvænt.

Svipuðu marki er svo umsókin um "Sambandsaðild" brennd.

Hefur einhver heyrt um ríkisstjórn sem sótt hefur um aðild að Evrópusambandinu, en helmingur ráðherra eða svo er á móti aðild að títtnefndu "Sambandi"?  Þeir greiða atkvæði með umsókn á Alþingi en hyggjast svo greiða atkvæði gegn aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar samningur liggur fyrir.  

Þeim er svo áfram um að "kíkja í pakkann".  En um leið segja ráðherrar Vinstri grænna Íslendingum að þeir telji hagsmunum landsins betur borgið utan "Sambandsins".

Það er talað út og suður.

Því miður verður slíkt tal til þess að stefnan liggur oft norður og niður.

Er einhver hissa á því að erlend fjárfesting sé í lágmarki á Íslandi?  (Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að íhuga önnur vandamál, eins og stanslausar skattkerfisbreytingar og gjaldeyrishöft).  Það virðist vera erfitt að vita hvert Íslesnsk stjórnvöld horfa eða eru að fara.

Það eina sem virðist ljóst er að þau eru að fara frá - í vor.  Ég hygg að mörgum þyki það ekki degi of snemma.

Staðreyndin er auðvitað sú að ríkisstjórnin hefur í raun og veru lýst því yfir að hún vilji hefja olíuvinnslu við Ísland.  Sama ríkisstjórn hefur í raun lýst því yfir að hún vilji ganga í Evrópusambandið.

Þó að Vinstri græn engist eins og ormur á öngli, þá er það svo að það verður fremur að horfa til þess hvað er gert, en hvað er sagt.  

Það er hins vegar aumkunarvert að horfa upp á stjórnmálaflokk eins og Vinstri græna, sem í sífellu talar í aðra átt en hann framkvæmir.  Það er ekki að undra þó að slíkur stjórnmálaflokkur horfi fram á afhroð í kosningum í vor.

Ég hygg að flestir myndu segja að það væri nákvæmlega það sem hann á skilið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband