Fimbulfamb Össurar og "Sambandsaðild"

Ég er búinn að sjá vitnað til kjallaragreinar sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra skrifar í DV, hér og þar á netinu.  Ég ákvað því að skella mér þangað og lesa greinina.

Í stuttu máli er greinin líkt of flest sem hefur komið úr þeim ranni, full af fullyrðingum, en fátt ef nokkuð sem mark er á takandi.

Þar fullyrðir Össur að það væri glapræði að hætta við aðildarumsókn að "Sambandinu" eða að setja hana á ís.  En hann færir engin sannfærandi rök fyrir máli sínu.  Hann eingöngu fimbulfambar.

Hann talar um rétt þjóðarinnar til að dæma sjálf.  Í sjálfu sér göfug afstaða.

En hverjir voru það sem neituðu þjóðinni um að greiða atkvæði um það hvort að sótt yrði um "Sambandsaðild" eður ei?  Það voru þingmenn Samfylkingar og þingmenn Vinstri grænna, ásamt Guðmundi Steingrímssyni og Siv Friðleifsdóttur.

Ríkisstjórnin hafði ekki pólítískt hugrekki til að bera þetta stóra mál undir þjóðina.

Í greininni talar Össur um að Eurosvæði se að rétta úr kútnum og segir m.a.  orðrétt:

Það birtist m.a. í því að matsfyrirtæki hafa hækkað lánshæfismat Grikklands um sex flokka, og lýst yfir að fjárfestum sé óhætt að festa þar fjármagn.

Það er beinlínis rangt. 

Það er rétt að Standard & Poor hækkaði lánshæfismat Grikkja um 6 flokka, en  að þeir hafi verið færðir í fjárfestingarhæfan flokk er rangt.  Þeir eru enn undir því.  Það má sjá t.d. hér í frétt Guardian fyrir örfáum dögum.  All "stóru"matsfyrirtækin 3. hafa Grikkland enn í ruslflokki.

Hvernig flokkun matsfyrirtækjanna 3. er háttað má lesa um hér, hér og hér.

Neðst í greininni segir Össur svo:

Við höfum í viðræðum síðustu missera náð mjög góðum skilningi á sérstöðu Íslands, bæði varðandi landbúnað, fiskveiðar og ekki síst byggðamál – þar sem aðild mun skipta sköpum fyrir byggðir í vanda. Sérstaða okkar hefur hitt í mark.

Það er líklega þess vegna sem fréttir hafa verið fullar af því undanfarna daga, að ákveðið hafi verið að fresta umræðum um þessa tvo málaflokka (landbúnað og fiskveiðar) þangað til síðast.  Það getur að vísu engin sagt til um hver, hvar eða hvenær það var ákveðið, en það er reyndar í takt við hið "opna og gegnsæja" viðræðuferli sem lofað var af hálfu utanríkisráðherra.

Það væri reyndar fróðlegt að utanríkisráðuneytið og samninganefnd Íslands upplýsti nú þegar um hvaða undanþágur frá regluverki "Sambandsins" samninganefndin hefur náð, það gæfi ef til vill einhverja hugmynd um hvað áunnist hefur á síðustu árum og hvers er að vænta.

Þannig er hinn mikli rökstuðningur utanríkisráðherra fyrir því að það sé glapræði að hætta við aðildarumsókn, eða setja hana á ís, lítið annað en almennt hjal, kryddað með einstaka rangfærslu.

Auðvitað er það ekki neitt alvarlegra að Alþingi samþykki að draga umsóknina til baka, heldur en að Alþingi samþykkti að sækja um. Hvernig getur það verið alvarlegra mál að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka, heldur en að sækja um aðild að Evrópusambandinu?  Nei, hér er málinu snúið á haus.

Hitt væri þó best, að bera umsóknina undir þjóðaratkvæði án frekari tafa, til dæmis samhliða komandi Alþingiskosningum.

Einföld spurning myndi duga:  Vilt þú að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu?

Svarmöguleikarnir:  Já     Nei

En skyldu stjórnarflokkarnir tveir sem berjast fyrir "Sambandsaðild" hafa hugrekki til þess?

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vonandi verður það apparat til eftir kosningar sem heitir "landsdómur".

Milli þinga þ.e.a.s. þingmenn hafa ekki friðhelgi þannig að hægt sé að höfða mál á þá, á eiga allir hugsandi íslendingar að taka höndum saman og höfða mál á núverandi ríkisstjórn og þeirra þingmeirihluta. Koma svo!

jóhanna (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 18:12

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Jóhanna, í landsdóm með þetta fólk allt saman.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.1.2013 kl. 18:39

3 identicon

Það er átakanlegt að þessi maður skuli ennþá vera að reyna að selja þjóðinni leiðsögn sína.

Hann missti af aðdraganda hrunsins á Íslandi, bar fyrir sig óvitaskap þegar taka þurfti sumar mikilvægustu ákvarðanirnar í miðjum hamaganginum, missti af Evrukrísunni og er núna mættur með framtíðasýn fyrir okkur öll sem á að vera eins skýr og sólarupprás í Sahara.

Það er ekkert í forsögu þessa manns sem bendir til þess að hann hafi hugmynd um hvað gæti gerst handan við næsta húshorn.  Hann apar bara upp það sem leiðtogar sambandsins segja og þeir hafa á 20 daga fresti síðan krísan byrjaði haldið því fram að hún sé búin.  Þeir eiga nefninlega líka sína Össura í útlöndum. 

Seiken (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 19:39

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Tómas.

Sterk færsla hjá þér.

Gapið í Össuri og Co er alveg með ólíkindum.

Þegar þeir byrja nú að berja sér á brjóst og emja hástöfum um meinta lýðræðisást sína sem að hefur samt sem áður aldrei þolað það að þjóðin væri spurð beint og milliliðalaust um ásetning þeirra og gerðir í ESB málinu.

Ekki þolir þetta meinta lýðræði þeirra heldur að þetta ógegnsæja og langdregna aðildarbrölt þeirra verði nú sem allra fyrst borið beint og milliliðalaust undir þjóðina !

Hræsnisfullur hráskinns feluleikur þeirra með þetta stórmál þjóðarinnar er háskalegt tilræði við lýðræðið !

Gunnlaugur I., 10.1.2013 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband