Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Aukast viðskipti á milli ríkja sem hafa sama gjaldmiðil?

Ein af möntrum þeirra sem telja nauðsynlegt að taka upp euro, er að milliríkjavíðskipti aukist mikið við að þjóðir hafi sama gjaldmðil, vegna þess að áhætta og kostnaður minnki.

Það er auðvitað rétt að það er til bóta að kostnaður af viðskiptum minnki og gengisáhætta hverfi.  Því neita líklega fáir.  En það eru margir aðrir liðir í jöfnunni sem skipta jafn miklu ef ekki meira máli.  Stærstur þeirra er líklega beinn kostnaður eða verð.

Það getur því farið svo að viðskipti þjóða sem eiga tollalaus viðskipti og eru með sama gjaldmiðil, standi í stað eða minnki.  Það er meira að segja mjög líklegt að það gerist ef kostnaðarliðir annars ríkisins fara verulega fram úr hinu ríkinu.

Það er það sem er að gerast á Eurosvæðinu í dag.

Í fyrsta sinn er Bretland orðin stærri viðkiptaaðili Þýskalands heldur en Frakkland.

Viðskipti Bretlands og Þýskalands aukast býsna hratt, en Þýsk/Frönsk viðskipti staðna.  Sameiginlegur gjaldmiðill virðist ekki færa Frökkum aukin viðskipti

Það sem meira er Bandaríkin og Kína sækja þar sömuleiðis verulega á.

Hlutur Eurosvæðisins í utanríkisviðskiptum Þýskalands hefur fallið úr 46% niður í 37% síðan euroið kom til sögunnar.

Viðskiptaafgangur Þýskalands gagnvart Bretlandi hefur heldur dregist saman, á meðan hann jókst um 13% gagnvart Frakklandi á síðasta ári og er líklega um 50% hærri en gagnvart Bretlandi.

Hvers vegna?

Líklegasta skýringin er sú að í raun er gjaldmiðill Þýskland of lágt skráður, en gengi gjaldmiðls Frakklands er alltof of hátt skráð.  Gengi pundsins er líklega heldur hátt sömuleiðis.

Vandamálið er Frakkland og Þýskaland hafa sama gjaldmiðilinn, þannig að þar getur gengið ekkert breyst.

Kostnaðarhækkanir Franskra fyrirtækja hafa verið mun hærri en Þýskra.

Frakklands bíður því ef ekkert breytist, að fara "Grísku leiðina", skera niður ríkisútgjöld, skera niður réttindi, lækka laun, hækka skatta,  o.s.frv. 

Þeir eru ekki margir sem hafa trú á sósíalista á við Hollande til þess verks.  Ja, nema að hækka skatta auðvitað.

Þessar staðreyndir eru rót þess að Merkel fer strax að tala um að eitthvað verði hægt að gera fyrir Bretland, því hún vilji umfram allt halda þeim í "Sambandinu".  Ef Bretland hyrfi úr "Sambandinu", ykist vægi "Suðurríkjanna" með Frakkland í fararbroddi svo um munar.

Það gæti gert veru "Norðurríkjanna" í "Sambandinu" nær óbærilega, jafnvel svo að það brotnaði frekar upp.

Allt tal um töfralausnir sem "Sambandsaðild" eða upptaka euros sé, er auðvitað rangt, það sjá líklega flestir.

Hins vegar er fríverslun gríðarleg mikilvæg og ættu Íslendingar að leggja aðildarviðræður að "Sambandinu" til hliðar en leggja þeim mun meiri áherslu á friverslunarviðræður við önnur ríki.  Það er betra veganesti til framtíðar. 

 

Tölulegar staðreyndir í þessari færslu eru fengnar héðan.


Klókt útspil hjá Cameron, en dugar það til?

Ég hygg að það hafi verið afar klókt útspil hjá Cameron að opna á þjóðaratkvæagreiðslu um veru Bretlands í Evrópusambandinu.  Hvort að það dugi honum til verulegs ávinnings á auðvitað eftir að koma í ljós, en það gæti fært honum kosningasigur.

Með þessu útspili setur Cameron hvort tveggja í nokkra klemmu, Evrópusambandið og Breska Verkamannaflokkinn.

Það er ekki mikill vilji til þess innan "Sambandsins" að Bretar fái nokkrar tilslakanir.   Frakkar tala nú þegar eins og þeir muni rúlla út rauða dreglinum svo Bretar geti labbað út.

En ef Bretar fá engar tilslakanir, er það líklegt til að gera hinn almenna Breska kjósenda enn argari út í "Sambandið" og um leið líklegri til að kjósa Íhaldsflokkinn.  Það er rétt að hafa í huga að óánægjan með ESB er ekki eingöngu í Íhaldsflokknum,heldur finnst í þó nokkru magni hjá kjósendum Verkamannaflokksins.

Ef hins vegar einhverjar tilslakanir fást, verður það sigur fyrir Cameron og gæti skipt verulega máli í kosningum.

Það sem Cameron hefur hins vegar gulltryggt, er að Evrópusambandsaðild Breta verður afar fyrirferðarmikil í umræðunni fyrir næstu kosningar.

Verði andrúmsloftið í Bretlandi svipað gagnvart "Sambandinu" þá og það er nú, gæti það þýtt verulega aukið fylgi fyrir Cameron og Íhaldsflokkinn, sérstaklega ef þeim tekst að halda UKIP í skefjum, sem sækir að þeim hinum megin frá.

Ef "Sambandið" er algerlega stíft gegn Bretum, er afar líklegt að viðhorf Bresks almennings verði enn mótsnúnara "Sambandinu" en nú er. 

Þetta er því veruleg áhugverð staða og fróðlegt verður að fylgjast með hvernig spilast úr henni.

Enn er alltof snemmt að tala um að brotthvarf Breta sé á döfinni, en slíkt brotthvarf er ekkert "tabú" lengur, heldur raunverulegt umræðuefni og möguleiki.

Enn það er ljóst að það eru miklar breytingar í farvatninu hjá Evrópusambandinu, annars vegar eru uppi hugmyndir eins og hjá Cameron, um lauslegra samband, en hins vegar hraðara sumrunaferli sem myndi líkelga enda í sambandsríki.

Þriðja leiðin væri líklega sambandsríki euroþjóðanna, sem væri síðan aðili að laustengdara Evrópusambandi.

P.S.  Síðan er vert að hugsa um hvort að nokkur þjóðarleiðtogi ríkis sem hefur euro sem gjaldmiðil gæti leyft sér að flytja ræðu eins og Cameron gerði nú?

Þá væri líklega hætta á að Evrópska seðlabankanum yrði beitt gegn honum.

 

 


mbl.is Þjóðaratkvæði eftir næstu kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Daníelsson á Sprengisandi: Vandamálið er stjórnvöld, skatta- og reglugerðarumhverfi

Ég fékk ábendingu um að ég ætti að hlusta á viðtal Sigurjóns M. Egilssonar, við hagfræðingin Jón Daníelsson, í þættinum Sprengisandi.

Það var góð og þörf ábending og ég myndi hiklaust hvetja alla til þess að hlusta á viðtalið.  Sérstaklega ættu þeir sem eru í framboðið fyrir næstu kosningar að leggja við hlustirnar.

Þó að frásögn Jóns um rannsóknir hans á tölvuvirkni og áhættu á fjármálamörkuðum hafi verið fróðlegar, var það fyrst og fremst tal hans um ástandið á Íslandi sem vakti athygli mína.

Í stuttu málii sagði Jón að lunginn af vandanum á Íslandi væri heimatilbúinn.  Vandamálið væri stjórnvöld og skatta- og reglugerðarumhverfið sem þau hafa skapað.

Það væri fyrst og fremst það sem virkaði fælandi á fjárfestingu á Íslandi, og kæmi í veg fyrir ný- og atvinnusköpun.

Það aftur leiddi svo af sér bólumyndun, þar sem fjármagnið og fjárfestingarþörfin leitaði nær eingöngu inn í Kauphöllina og fasteignamarkaðinn.

Það eina sem ég get kvartað yfir þessu viðtali, að í raun var það alltof stutt.  Það hefði verið virkilega fróðlegt að heyra meira af skoðunum og kenningum Jóns um Íslenskst efnahagslíf.

Ég skora á einhvern Íslenskan fjölmiðil að taka langt og ítarlegt viðtal viið Jón á næstu vikum.

En enn og aftur hvet ég alla til að hlusta á viðtalið úr Sprengisandi.

 

 

 


Klám til innanhússbrúks hjá Vinstri grænum?

Ekki nenni ég að fara að æsa mig um of yfir því að Ögmundur Jónasson hugsi um og reyni að skilgreina klám, eða feli öðrum þá vinnu. 

Endanleg niðurstaða fæst líklega aldrei, enda gamla spakmælið að klám sé loðið og teygjanlegt hugtak enn í gildi.

En þó að líklegast verði að telja að þessi hugmynd sé fyrst og fremst ætluð til innanhússbrúks hjá Vinstri grænum og sé ætluð til að tryggja í það minnsta "harðkjarna" femínskt fylgi yfirgefi ekki flokkinn eins og svo margir aðrir, þá er ástæða til að gjalda varhug við hugmyndum sem þessum.

Auðvitað eru engar líkur á því að þetta frumvarp komi fram á þessu kjörtímabili og lítlar líkur á því að Ögmundur verði innanríkisráðherra að kosningum loknum.  En það er í þessu eins og á jólunum, það er hugurinn sem gildir.

Það er vandséð hvernig þessi hugmynd ætti að komast á koppinn án umfangsmikillar ritskoðun.  Það skiptir engu máli hvort að menn telji það réttlætanlegt eður ei, um ritskoðun yrði að ræða.  Það er best að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.  Hér er frekar umdeilanlegt um hvort að þörf sé fyrir annað orð en ritskoðun, því bannið beinist ef til vill minnst að rituðu orði, og þó tjáningarfrelsi sé til nær það líklega heldur ekki beint yfir gjörninginn.

Hvernig á að skilgreina klám, hvernig á að framkvæma bannið?

Hverjar verða refsingarnar við því að eiga klám?

Hafa verður í huga að erótík eins er klám í augum annars.  Hver ætlar að dæma á milli og hver ætlar að kortleggja þær internetsíður sem þarf að banna.

Verður bókin "50 gráir skuggar" bönnuð?  Lýsir hún ofbeldiskynlífi?  Skyldu leikararnir í myndinni sem er í undibúningi að gera eftir bókinni vera "misnotaðir"? (Hér er líklega rétt að taka fram að ég hef ekki lesið bókina, en nefni hana aðeins vegna þess að hún hefur verið nokkuð í fréttum).

Eða yrði "mömmuklám" (undarlegt nýtt hugtak, ekki satt?)  áfram leyflegt á Íslandi?

Þessi hugmynd er að mínu viti slæm.  Ekki það að ekki sé sjálfsagt að berjast gegn lögbrotum og misnotkun, jafnt í klámiðnaðinum sem á öðrum sviðum.  Það er auðvitað sjálfsagt mál.

En aðferðafræðin er gamaldags og hættuleg.

Boð og bönn og aukin forræðishyggja eru ekki lausnin.

Slíkar lausnir opna hins vegar dyr til leiða, sem auðveldlega geta leitt stjórnvöld á hættulegar brautir.  Sporin hræða.  Hér sem sem í mörgu öðru er gott að hafa í huga að leiðin til glötunar er vörðuð góðum áformum.

P.S.  Hvort að þetta verði Vinstri grænum til hagsbóta í kosningabaráttunni leyfi ég mér að efast um.  Gæti trúað að þetta fældi fleiri frá því að kjósa flokkinn en hitt.

Þannig er hugsanlegt að þetta hafi af sér jákvæðar afleiðingar.

 


mbl.is Klámtakmörkun ekki ritskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga á Eurosvæðinu 0.3 til 3.6%

Ein af þeim röksemdum sem oft heyrast fyrir inngöngu Íslands í "Sambandið" og svo upptöku euros, er hve verðbólgan myndi lækka við slíkt.

Hún yrði sú sama að því sem næst og á Eurosvæðinu.  Síðan er gjarna birtur einfaldur útreikningur sem sýnir mun á verðbólgu á Íslandi og meðaltalsverðbólgu á Eurosvæðinu.

Þannig er verðbólga á Íslandi að mig minnir 5.1%, verðbólgan á Eurosvæðinu 2.2%, eins og kemur fram í fyrirsögn þeirrar fréttar sem þessi færsla er tengd við. 

Það er einfalt að reikna þetta út, munurinn er 2.9 prósentustig og munar um minna.  Það er meira en tvöföld verðbólga á Íslandi en á Eurosvæðinu.

Það eru vissulega til rök sem hníga í þá átt að verðbólga gæti lækkað á Íslandi við upptöku stærri og stöðugri myntar, en það er margt fleira sem þarf að hafa í huga.

Til dæmis er munurinn á verðbólgu innan Eurosvæðisins verulegur.  Þannig mun nú mælast 0.3% verðbólga í Grikklandi en 3.6% verðbólga í Eistlandi, þar sem hún er mest innan svæðisins.

Munurinn er 3.3. prósentustig.  Það er 12 sinnum meiri verðbólga í Eistlandi heldur en Grikklandi, þó að löndin noti bæði euro.

Hvað tryggir þá eða kemur í veg fyrir að verbólga geti ekki verið 0.3% í Grikklandi, 3.6% í Eistlandi og 5.1% á Íslandi, þó að öll löndin væru í "Sambandinu" og notuðu euroið?

Það gefst best að umgangast meðaltalsreikninga með varúð, þeir segja ekki alla söguna.

 

 


mbl.is Verðbólgan á evrusvæðinu 2,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir skyni skroppnu kjósendur

Stundum er sagt að það sé erfitt að vinna kosningar í kappræðum.  Það sé hins vegar afar auðvelt að tapa þeim.  Það þurfi ekki nema ein mistök.

Það er spurning hvort að slík mistök hafi orðið í Kastljósi gærdagsins þegar Árni Páll Árnason fór að tala um að hann trúi því ekki að það séu til nógu margir skyni skroppnir kjósendur til að andstæðingar hans beri sigur úr býtum í komandi kosningum.

Það var sérstaklega slæmt fyrir Árna að spyrillinn greip mistök hans á lofti og endurtók þau og spurði hann svara.  Sem Árni Páll hafði í raun ekk.

Það er ekki gott að fullyrða að meirihluti þeirra sem hafa tekið afstöðu í nýlegum skoðanakönnunum séu skyni skroppnir einstaklingar.  

Ekki gott pólítískt veganesti.

En það er erfitt að meta hvort að þetta á eftir að hafa einhver áhrif á formannskosninguna sem nú stendur yfir í Samfylkingunni.

Ef til vill munu félagsmenn í Samfylkingunni refsa Árna Páli fyrir mistökin og telja að slíkur hroki eigi ekki heima i forystu Samfylkingarinnar, ef til vill munu þeir leiða þetta hjá sér.  Einhver hluti þeirra kann svo að vera sammála Árna Páli í þessum efnum.

Svipuð röksemdafærsla hefur heyrst oft úr þeim herbúðum undanfarna daga.  Munurinn hefur þó verið að hún hefur verið betur og kurteislega sett fram.  Það skiptir miklu máli.

 

 


Hvað borgaði Pepsi?

Var að horfa á Silfur Egils, frá 13. janúar.  

Nú bíð ég eftir því að Álfheiður Ingadóttir beini þeirri málaleitan að  menntamálaráðherra á Alþingi, að komast að hvað Pepsi hafi borgað Ómari Ragnarssyni fyrir að setja 4. Pepsi flöskur upp á borðið?


Að læra af fiskunum

Það er líklega flestum kunnugt að skeytin hafa gengið á milli "Sambandssinna" og þeirra (þar á meðal mín) sem eru andsnúnir "Sambandsaðild".

Stundum verða skeytin býsna rætin, en ég verð þó að segja að yfirleitt eru þau sett fram á býsna málefnalegum grunni.  Ef til vill er sú skoðun mín eitthvað lituð því, hverra greinar og bloggfærslur ég að öllu jöfnu kýs að lesa.

Fyrr í dag las ég t.d. blaðagrein þar sem andstæðingar aðildar voru sakaðir um að grípa sífellt til nýrra raka, til að réttlæta andstöðuna við aðild og það veikti málstað okkar.

Ég er reyndar ekki sammála því, það er að segja að það veiki málstað okkar andstæðinganna.  

Staðreyndin er sú að sífellt koma upp ný rök, sem réttlæta andstöðuna við "Sambandsaðild" og gera hana mikilvægari en fyrr.

Gott dæmi þar um er t.d. makríllinn.  Þessi fiskur sem allt í einu tók upp á því að synda í hundrað þúsunda tali inn í Íslensku lögsöguna.

Geta Íslendingar eitthvað lært af því?

Hvað mætti ætla t.d. að Íslendingar hefðu fengið úthlutað í sinn hlut af makrílkvótanum, hefðu þeir nú þegar verið aðilar að "Sambandinu"?

3%, 4%, 5%?  Samt er það varla véfengjanlegt að makríllinn hefur sótt í Íslensku lögsöguna og þyngist þar svo um munar á því æti sem þar er.  Æti sem aðrir stofnar munu ekki geta nýtt.

Er eitthvað óeðlilegt að Íslendingar veiði af stofninum í sinni eigin lögsögu?

Í þessari deilu kemur skýrt fram hvers virði það er að  vera sjálfstætt strandríki, með yfirráð yfir eigin lögsögu.  Samt vilja "Sambandssinnar" gefa þennan rétt burt, afhenda hann Evrópusambandinu.

Makríllinn hrópar viðvörunarorðum að Íslendingum, sumir virðast ekki heyra þau, aðrir kjósa að láta eins og ekkert sé.  En ég hygg að stærstur hluti Íslendinga hafi hlustað, það er m.a. skýringin á því að á færri eru þeirrar skoðunar að þörf sé að að "kíkja í pakkann".  Þessi pakki "Sambandsins" liggur opnaður og skýr fyrir framan Íslendinga.

Hvað varðar aðra hluti, eins og vandræði eurosins, er engin niðurstaða fengin enn.  "Sambandið" náði að sveigja fram hjá stærstu skerjunum á nýliðnu ári, en er ekki á lygnum sjó ennþá.  Með því að beygja og sveigja reglurnar í kringum Seðlabanka sinn, náði Eurosvæðið að bjarga sér fyrir horn, en enn hafa grunnvandamál myntsvæðisins ekki verið leyst.

En viðbrögð forystumanna "Sambandsins" við eurokrísunni, vekja upp nýjar spurningar og fleti til að vera á verði gagnvart "Sambandsaðild".

Hvert stefnir "Sambandið"?  Er sambandsríki óumflýjanlegt?  Hvert yrði hlutskipti Íslands innan slíks sambandsríkis ef Ísland ákveddi að verða aðili að því?

Og hver yrði "endastöð" slíks samruna?  Yrði það sambandsríki, líkt og t.d. Bandaríki norður Ameríku, Kanada og Þýskaland?  Hefði slíkt sambandsríki aðeins einn fulltrúa hjá alþjóðastofnunum, s.s. Sameinuðu þjóðunum?

Það er ekkert veikleikamerki að nefna sífellt ný og ný atriði sem mæla á mót "Sambandsaðild".  Það sýnir einfaldlega hve óvissan er mikil og hve mörg óhagstæð og vafaatriði það eru við hugsanlega "Sambandsaðild".

Ástæðunum fyrir því að segja nei hefur fjölgað með tímanum, ef eitthvað er.


Ríkisstjórnarflokkarnir rúnir trausti

Það sem er áberandi í þessari könnun er að ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri græn eru rúnir trausti,

Annað sem er áberandi er gríðarleg aukning í fylgi Bjartrar framtíðar.

Framóknarflokkurinn hlýtur að vera verulega vonsvikinn með sinn hlut en Sjálfstæðisflokkurinn stendur afar vel, virðist vera búinn að ná fyrri styrk að verulegu leyti.

En enn er langur tími til kosninga, sem vinnast ekki í skoðanakönnunum, þó að þær geti vissulega létt undir og hjálpað flokkum.

En það verður fróðlegt að fylgjast með kosningabaráttunni á næstu vikum og mánuðum.  Vinstri græn hljóta að vera nokkuð uggandi um sína stöðu og virðast eiga í vök að verjast.  Hver ný könnun sýnir þá í verri stöðu,.

Eins hlýtur Framsóknarflokkurinn að vera nokkuð áhyggjufullur, kyrrstaða er hlutskipti flokksins sem er varla ásættanlegt, verandi í stjórnarandstöðu á móti virklega óvinsælli ríkisstjórn.  Flokkurinn þarf að leggja mikið á sig í kosningabaráttunni og ná að kynna sig og sína ef þeir eiga að ná að auka hlut sinn.

Samfylkingin er auðvitað fyrst og fremst að hugsa um komandi formannskjör og úrslitin þar ráða líklega miklu.  Ég spái því að ef Guðbjartur vinnur, aukist straumurinn frá flokknum yfir til Bjartrar framtíðar.  En það er erfitt fyrir Samfylkinguna að sækja hart á fylgi Bjartrar framtíðar, því eins og Össur sagði er varla hnífsblaðsmunru á stefnu flokkannna og frambjóðendurnir margir vel kunnir innan Samfylkingarinnar?

Hvernig gagnrýnir flokkur spegilmynd sína?

Sjálfstæðisflokkurinn mun, allavegna fyrst í stað, líklega reka varfengna kosningabaráttu.  Þar mun gilda að stíga varlega til jarðar, gera ekkert sem gæti styggt þann stóra hóp kjósenda sem hyggst styðja flokkinn og treysta á óvnsældir ríkisstjórnarflokkanna.

Það verður ekki síst fróðlegt að fylgjast með kosningabaráttu Bjartrar framtíðar.  Líklega munu þeir hafa minna úr að spila en hinir flokkarnir, en á móti kemur að frambjóðendur þeirra eru afar vel tengdir inn í fjöldmiðla, sem verður auðvitað ekki metið til fjár.

Þess hefur sést vel merki undanfarna mánuði.  Frambjóðendur Bjartrar framtíðar hafa átt innkomu í fjölmiðla langt umfram stærð eða fylgi flokksins, sem hefur skilað sér í auknu fylgi, sem réttlætir meiri umfjöllum o.s.frv.

En nú eru ekki nema rétt um þrír mánuðir til kosninga, en það er þó  vissulega nægur tími til að hvað sem er geti gerst.  En það er heldur ekki nóg að vinna kosningarnar.  Þá taka við stjórnarmyndunarviðræður og þær gætu vissulega verið erfiðari þetta árið, en oft áður.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur - Björt framtíð í þriðja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugi fyrir því að "kíkja í pakkann" hrynur í skoðanakönnun - Minnihluti vill halda aðlögunarviðræðum áfram án þjóðaratkvæðagreiðslu

Það er ljóst að áhugi fyrir því að ganga í Evrópusambandið fer minnkandi á Íslandi. En það virðist nokkuð ljóst í þessari könnun að "viðræðusinnum" og þeim sem vílja " kíkja í pakkann, fer einnig fækkandi.

Það er gleðileg þróun.

Eins og sést í þessari frétt Vísis, um könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, hefur fylgi þess að klára aðlögunarviðræðurnar við "Sambandið" fallið úr 65,3% í 48.5%  á rétt rúmu ári.

Á sama tíma hefur hlutfall þeirra sem vilja draga umsóknina til baka aukist úr 34.7% í  36.4%.  Hlutfall þeirra sem vilja gera hlé á viðræðunum og ekki hefja þær án þjóðaratkvæðagreiðslu, er svo 15.2%, en sá valmöguleiki var ekki fyrir hendi í fyrri könnun sömu aðila.

Það er því 51.6% sem vilja annað hvort draga umsóknina til baka eða setja hana á ís og ekki hefja þær aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

"Viðræðusinnar" eru í minnihluta í útkomu þessarar könnunar.

P.S.  Það er nokkuð merkilegt að velta fyrir sér fyrirsögnum Fréttablaðsins varðandi þessa könnun.  Annarsvegar stendur á forsíðu:  Nærri helmingur vill ljúka aðildarviðræðum við ESB.  Svo stendur á bls. 4.:  Fári styðja tillögu stjórnarandstöðunnar.

Auðvitað lætur blað eins og Fréttablaðið ekki hanka sig á því að fara rangt með.  En hlutlausar og sanngjarnar eru fyrirsagnirnar ekki.

Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að tillagan um að gera hlé á viðræðum og hefja þær ekki fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu er sáttatillaga.  Tillaga þess efnis að leita álits kjósenda og ná sátt um málið.  Nokkuð sem hefði auðvitað átt að gera áður en farið var af stað.

En hlutleysi hefur heldur ekki einkennt fréttaflutning Fréttablaðsins og Stöðvar 2 um Evrópusambandsmál.   Það gildir reyndar um fleiri fjölmiðla.   Það er gott að hafa það í huga.

P.S.S.  Ég var svo að sjá frétt Eyjunnar af þessari könnun, undir fyrirsögninni:  Ríflegur meirihluti vill klára aðildarviðræður við ESB.

Það er hreint ótrúlegt að opinber fjölmiðill skuli láta standa sig að því að setja frá sér annað eins.  Skora á alla að lesa fréttina, sem væri eins og brandari, ef hún sýndi ekki hve hræðilega lélegir ýmisr fjölmiðar eru á Íslandi.


mbl.is 48,5% vilja ljúka viðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband