Hvers vegna leita Íslendingar að olíu? Hvers vegna sóttu Íslendingar um aðild að Evrópusambandinu?

Það er oft sagt að það verðmætasta sem hver og einn eigi sé orðsporið.  Ég hygg að flestir séu nokkuð sammála því.  Það sama gildir að mestu leyti um þjóðir.

Að vera sjálfum sér að mestu samkvæmur og framkvæma og taka ákvarðanir að mestu leyti með rökréttum hætti.

Hjá flestum myndi það því jafngilda yfirlýsingu um að olía verði unnin, finnist hún í vinnanlegu magni, þegar leyfi til olíuleitar eru gefnin út.

En ef marka má tal sumra forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, mætti ætla að það væri alls ekki gefið á Íslandi.  Þar gæti stjórnvöldum allt eins bara þótt gott að vita að olían væri þarna, eða hvað? Reyndar má heyra svipuð sjónarmið frá ýmsum aðilum sem tilheyra báðum stjórnarflokkunum.

Auðvitað sendir Íslenska ríkistjórnin fyrirtæki (jafnt Íslensk sem erlend) og látum þau kosta miklu til og segjum svo:  Fínt að vita að olía er þarna, þakka ykkur fyrir viðvikið.  En við ætluðum aldrei að vinna olíuna, það er ekki vistvænt.

Svipuðu marki er svo umsókin um "Sambandsaðild" brennd.

Hefur einhver heyrt um ríkisstjórn sem sótt hefur um aðild að Evrópusambandinu, en helmingur ráðherra eða svo er á móti aðild að títtnefndu "Sambandi"?  Þeir greiða atkvæði með umsókn á Alþingi en hyggjast svo greiða atkvæði gegn aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar samningur liggur fyrir.  

Þeim er svo áfram um að "kíkja í pakkann".  En um leið segja ráðherrar Vinstri grænna Íslendingum að þeir telji hagsmunum landsins betur borgið utan "Sambandsins".

Það er talað út og suður.

Því miður verður slíkt tal til þess að stefnan liggur oft norður og niður.

Er einhver hissa á því að erlend fjárfesting sé í lágmarki á Íslandi?  (Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að íhuga önnur vandamál, eins og stanslausar skattkerfisbreytingar og gjaldeyrishöft).  Það virðist vera erfitt að vita hvert Íslesnsk stjórnvöld horfa eða eru að fara.

Það eina sem virðist ljóst er að þau eru að fara frá - í vor.  Ég hygg að mörgum þyki það ekki degi of snemma.

Staðreyndin er auðvitað sú að ríkisstjórnin hefur í raun og veru lýst því yfir að hún vilji hefja olíuvinnslu við Ísland.  Sama ríkisstjórn hefur í raun lýst því yfir að hún vilji ganga í Evrópusambandið.

Þó að Vinstri græn engist eins og ormur á öngli, þá er það svo að það verður fremur að horfa til þess hvað er gert, en hvað er sagt.  

Það er hins vegar aumkunarvert að horfa upp á stjórnmálaflokk eins og Vinstri græna, sem í sífellu talar í aðra átt en hann framkvæmir.  Það er ekki að undra þó að slíkur stjórnmálaflokkur horfi fram á afhroð í kosningum í vor.

Ég hygg að flestir myndu segja að það væri nákvæmlega það sem hann á skilið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband