Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
8.2.2012 | 15:35
Matthew Broderick's Day Off og Halftime America
Aldrei hef ég horft á Ofurskálina, það einfaldlega heillar ekki. En atriðin í hálfleik hafa oft verið góð og atriði Madonnu í ár var einfaldlega stórkostlegt. En það sem vekur sömuleiðis mikla athygli eru oft auglýsingar sem birtar eru í í leikhléinu.
Hver 30 sekúndna auglýsing kostar meira í birtingu en venjulegt fólk getur áttað sig á, það er því ekki á færi neinna smáfyrirtækja að auglýsa. Mikið er lagt í auglýsingarnar og fátt til sparað. Hér eru tvær sem birtust í ár, ólíkar en ótrúlega flottar báðar tvær.
Fyrst er hér auglýsing frá Honda, þar sem Matthew Broderick skopstælir eigið hlutverk í myndinni Ferris Bueller's Day Off, sem margir kannast við. Sjálfur hef ég horft á myndina margsinnis og þótt því gaman að horfa á þessa stuttu auglýsingu. En ég er ekki rokinn út að kaupa Hondu. Rétt er að taka fram að hér er um lengri útgáfu, en þá sem sýnd var í sjónvarpi að ræða eftir því sem ég kemst næst.
Hér er síðan auglýsing frá Chrysler. Það er enginn annar en Clint Eastwood sem hér fer með aðalhlutverkið. Það er engu líkara en Clint sé að fara í forsetaframboð. Þannig er tónninn í auglýsingunni og hlýtur að teljast "all American" framleiðsla. Til að allt sé upp á borðinu, er rétt að taka fram að fjölskyldan hér á Bjórá, keypti sér Dodge á síðasta ári. Við nutum þó ekki neinna sérkjara.
Að sjálfsögðu voru margar aðrar auglýsingar birtar í kringum ofurskálina, þessar tvær voru einfaldlega þær sem vöktu mína athygli. Ég hygg að flestar eða allar hinar auglýsingarnar megi finna á YouTube.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2012 | 05:26
Hinn endalausi Gríski harmleikur, samdráttur og niðurskurður
Það virðist enginn endir á hinum Gríska harmleik sem við höfum fylgst með undanfarin ár. Þó eru líklega flestir búnir að fá nóg, ekki síst "statistarnir", Grískur almenningur.
Hér er rétt að minnast orða Helle Thorning-Schmidt, forsætiráðherra Dana, á Davos ráðstefnunni nú nýverið, þá sagði hún að fólk væri reiðubúið til að færa fórnir, en ekki að vera fórnað.
En Grískt þjóðfélag er að falla saman, það er ekki hægt að nota nein önnur orð yfir það. Ég get ekki séð annað í stöðunni nú, en að annað hvort viðurkenni "Sambandið" að það ætli að "framfleyta" Grikkjum næsta áratuginn eða svo, eða að Grikkland yfirgefi eurosvæðið og fari í gjaldþrot. Spurning hvort það yrði hrakið úr Evrópusambandinu um leið.
Ástandið eins og það er getur ekki haldið áfram, leiðin hefur aðeins legið niður á við, og ekkert sem bendir til þess að það sé að breytast.
Það vantaði 1. milljarð euroa til þess að fjárhagsáætlunin fyrir Gríska ríkið stæðist í janúar. Tekjur drógust saman um 7%, þegar áætlanir gerðu ráð fyrir u.þ.b. 9% aukningu. Virðisaukaskattstekjur drógust saman um fast að 19%, samanborið við janúar 2010. 1.85 milljarðar euroa komu í kassann í stað 2.29 milljarða árið áður. Miðað við þessar tölur verður samdráttur Grikklands ekki 2.8% eins og spáð var, heldur nær 4%. (þessar tölur eru fengnar héðan)
Ef ofan á þetta bætist síðan stórfelldar kauplækkanir og uppsagnir opinberra starfsmanna (sem eru nauðsynlegar) þá lækkar kaupmátturinn og neyslan enn frekar og tekjur ríkissjóðs að sama skapi.
Svo er fjármagnsflóttinn sem hefur verið gríðarlegur og engin leið til að hemja hann, oft heyrist talað um að í kringum 65 milljarða euroa hafi verið teknir úr Grískum bönkum á undanförnum 2. árum, eða í kringum 1/3 af innistæðum. Talið er að Grikkir eigi í það minnsta í kringum 80 milljarða euroa í Svissneskum bönkum, svo ekki sé talið víðar um heiminn. En frjálst flæði euroa er erfitt að stöðva.
P.S. Ef til vill veitti ekki af að senda Íslendinga til að kynna sér ástandið í Grikklandi og hvernig gengur að berjast fyrir launalækkunum og því um líku. Það er líklega ekki síður upplýsandi en heimsóknir til Brussel.
Grikkir mótmæla niðurskurði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2012 | 03:38
Skotleyfi á Ögmund?
Ég var að enda við að horfa á Kastljósið. Mér fannst Ögmundur standa sig ákaflega vel, en það var ef til vill meira því að þakka að spyrillinn virkaði illa undirbúinn og talaði og spurði aðeins í frösum og almennu hjali. Hans aðalmarkmið virtist liggja í því að fá fram játningu um misgjörð eða knýja fram afsökun.
En það er hins vegar alveg rétt hjá Ögmundi að sjóðir víða um heim hafa tapað stórkostlegum fjárhæðum og háu hlutfalli af fé sínu og það margir í betra fjárfestingarumhverfi en Íslensku lífeyrissjóðirnir.
Staðan á mörkuðum í Evrópu um þessar mundir er að fjárfestar borga ríkisstjórnum landa eins Sviss og Þýskalands fyrir að fjárfesta í bréfum þeirra. Hafi menn lært eitthvað á undanförnum árum er það líklega að öruggar fjárfestingar sem skila góðum arði, eru í raun ekki til.
Það er líka rétt hjá Ögmundi að Íslenski hlutabréfamarkaðurinn var (og líklega er) hálfgert brask. Íslendingar virtust einblína nokkuð stíft á hækkun hlutabréfaverðs (þar sem selja verður til að innleysa hagnað) en minna á að fyrirtæki greiddu út góðan og árlegan arð. Sú tíska er reyndar í gildi víðar, en þó eru víða fyrirtæki sem njóta einmitt vinsælda fyrir hve öruggar arðgreiðslur þeirra hafa verið, en hér er líklega best að leggja áherslu á hafa verið, því fortíðin er ekki ávísun á framtíðina, þó hún gefi vísbendingar.
Það þýðir ekki að sjálfsagt sé að ræða það sem betur hefði mátt fara og reyna að draga lærdóm af því. En háværir "dómstólar" hafa ekki mikinn tilgang að mínu mati, og að reyna að nota þetta til að slá til pólítískra andstæðinga, finnst mér nokkuð langt seilst. En vissulega getur verið að VG og Samfylkingu þyki sem nú hafi þeim tekist að króa af einn helsta villiköttinn sem hefur gert þeim lífið svo leitt.
Þeim þætti það besta niðurstaðan að Geir Haarde yrði gert að axla pólítísku ábyrgðina á hruninu einum og sér, og Ögmundur yrði hrakinn úr pólítíkinni, með því að persónugera í honum tap lífeyrissjóðana.
Persónulega held ég að rétta leiðin fyrir lífeyrissjóðina sé að gefa eigendum fjársins meiri völd. Stjórnir lífeyrissjóða eiga að vera kjörnar af þeim sem þar geyma fé sitt (spurning hvort að óhætt sé að setja ávaxta í staðinn fyrir geyma). Ekki einn af stjórnarmönnum heldur allir. Sömuleiðis ættu lífeyrissjóðir að bjóða upp á mismunandi leiðir, eða nokkra mismunandi sjóði, sem flokkaðir væru eftir áhættu. Sjóðsfélagar gætu þá valið á milli sjóða, eða skipt sparnaði sínum á milli þeirra, í þeim hlutföllum sem þeir kysu sjálfir.
Þetta tryggir ekki að sjóðirnir skili góðri ávöxtun, enda er kominn tími til að gera sér grein fyrir því að slíkt verður ekki tryggt. En þetta kerfi færir ákvarðanatökuna og jafnframt ábyrgðina, til eigenda að hluta til, og gerir þeim kleyft að hafa eitthvað að segja um hvernig fé þeirra er fjárfest.
P.S. Núna eru "vinnuferðir" til útlanda aftur orðnar að vafasömum gæðum. Fyrir u.þ.b. viku voru þær "áþján" embættismanna og annara ríkisstarfsmanna. Merkilegt nokk þá kom Ögmundur líka þar við sögu. Þá voru það þessi orð hans sem vöktu "gífurlega reiði":
"Hvernig stendur á því, að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins þá er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök, stjórnsýslan, hlynnt en almenningur á móti? Það er vegna þess að búið er að fara með flugvélarfarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, út til Brussel þar sem fólk hefst við á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, meiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þess vegna sem stofnanaveldið ánetjast Evrópusambandinu," sagði Ögmundur
Hér talar hann um ástandið innan Evrópusambandsins, eins og sést a orðunum ".. þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins... ", en íslenskir ríkisstarfsmenn ruku upp til handa og fóta og töldu á sig ráðist (eða þá að þeir samsama sig svo starfbræðrum sínum í "Sambandinu") og réðust á Ögmund með gífuryrðum og skömmum. Þá var ekki hægt að skilja málin öðruvísi en utanlandsferðir væru hin hræðilegasta áþján.
Það er eitthvað sem segir mér að Ögmundur eigi eftir að vera meira í "sviðsljósinu" á næstunni.
Kerfið byggist á braski | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2012 | 01:24
Skortur á skynsemi?
Ég var að lesa góða grein eftir Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og formann Alþýðuflokksins. Greininna má finna á vefsvæði Vísis, en fyrirsögnin er: Að fermast upp á faðirvorið.
Þar veltir Sighvatur þeirri staðreynd fyrir sér að fjórðungur Íslenskra stráka geti ekki lesið sér til gagns þegar þeir ljúka grunnskóla. Þó að Sighvatur varpi ekki fram neinum lausnum, enda ekki hægt að ætlast til þess í stuttri blaðagrein, þó er umræðan þörf.
Ég held líka að Sighvatur hafi rétt fyrir sér í því efni að fjármagn, eða aukin menntun kennara er ekki þar sem skórinn kreppir.
Ég hugsa að Íslendingar (sem og margar aðrar þjóðir) þurfi að endurskipuleggja menntakerfi sitt því sem næst frá grunni, með sérstaka áherslu á leik og grunnskólastig.
Gamla máltækið í upphafi skyldi endinn skoða, á við hér sem oft áður. Háleit markmið s.s. að eiga einn af 100 bestu háskólum í heiminum, falla um sjálf sig ef grunnurinn er ekki til staðar. Nema meiningin sé að flytja inn nemendur og kennara.
7.2.2012 | 21:03
Tvö og hálft ár og ekkert hefur gerst
Það kann að vera að á ákveðnum tímapunkti, stuttu eftir að vinstristjórnin hverfur frá völdum og ný hefur tekið við, að það megi rökstyðja það að klára viðræður. Það er hægt að réttlæta það að fá þetta mál út úr heiminum (en líklega tekst það aldrei til fullnustu), klára aðildarviðræður og þjóðin dæmir. Ég er næsta viss um að svarið yrði nei, en það er annað mál.
En nú eru liðin ríflega tvö og hálft ár og ekkert hefur gerst í viðræðunum sem nokkru máli skiptir. Nákvæmlega ekkert. Steingrímur J. Sigfússon sagði það enda fyrir stuttu að hann vildi að alvöru viðræður færu að hefjast.
Það er auðvitað fráleitt að standa svona að málinu. Þó að vissulega væri affarasælast að mörgu leyti að slíta viðræðunum, er lágmark að Alþingi Íslendinga ákveði að setja þeim tímamörk. Verði samningi ekki náð innan ákveðins tíma verði viðræðum einfaldlega slitið.
Ef ég man rétt töku samningaviðræður Finna og Svía u.þ.b. 2. ár. Aðklögunarviðræður Íslendinga hafa þegar tekið lengri tíma og ekkert markvert hefur gerst. Ekki er einu sinni byrjað að ræða þá kafla sem skipta mestu máli.
Aðlögunarviðræðurnar eru að breytast í einhverja "lönguvitleysu", líklega vegna þess að ríkisstjórnin (aðallega Samfylkingin) veit að samningur yrði kolfelldur. Þá er betra að láta málið reka á reiðanum og nota það sem gulrót til að lemja eigin þingmenn til hlýðni (það má ekki rugga bátnum, þá eru aðlögunarviðræðurnar í hættu taktík Samfylkingar).
En ef að á að bíða eftir því að afstaða þjóðarinnar breytist, þarf yngra fólk en Jóhönnu, Össur og Steingrím til að sjá um málið.
Viðræður við ESB kláraðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2012 | 15:32
Frakkar farnir að finna fyrir euroinu?
Sívaxandi vöruskiptahalli Frakka er þeim líklega stórt áhyggjuefni. Það er erfitt að vera með slíkan halla ár eftir ár eftir ár.
Samt er útflutningur Frakka öflugur, enda þekkja flestir þeir sem njóta þess að veita sér ofurlítinn "lúxus" stöku sinnum, hin öflugu vörumerki Frakka í þeim geira.
Útflutningur Frakka hefur enda gengið býsna vel og aukist nokkuð jafnt og þétt, þó að hann sé vissulega ekki einangraður frá efnahagssveiflum heimsins, frekar en nokkuð annað.
Það er enda auðveldara að fela kostnaðarauka í hátt verðlögðum lúxusvörum, en þar sem verðsamkeppnin er hörðust.
En sterkur gjaldmiðill gerir innflutta vöru ódýra, og innflutningur Frakka hefur vaxið hraðar en útflutningurinn. Það er ef til vill ekki að undra að Franskir hagfræðingar séu farnir að tala um að það þurfi að leggja euroið niður, með skipulögðum hætti.
Þegar litið er til sívaxandi viðskiptahalla Frakka og þeirrar staðreyndar að Franskar ríkisstjórnir hafa ekki skilað hallalausum fjárlögum síðan snemma á 8. áratug síðustu aldar (sem var þó auðveldara að lifa með þegar viðskipti voru í plús, eins og t.d. á árunum 1992 til 2000) er ekki að undra þó að hagfræðingum lítist ekki um of á blikuna.
Euroið var draumur Frakka og líklega á engin ein þjóð jafn mikið í tilurð þess og þeir, en draumar eiga það til að snúast upp í ......
P.S. Línuritið sýnir þróun viðskiptahalla Frakka frá janúar árið 2000 til dagsins í dag.
Mikill halli á vöruskiptum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2012 | 21:22
Kosningar án landamæra - Þ-orðið notað í Frakklandi
Auðvitað er ekkert ólöglegt við að Merkel styðji Sarkozy og ætli að koma fram með honum á kosningafundum. En það er að mínu mati frekar ógeðfellt þegar kjörnir leiðtogar í einu landi reyna að hafa áhrif á kosningar í öðrum löndum. Það var litið á það sem hefð að slíkt gerðu menn ekki, en augljóslega er svo ekki lengur.
Merkel á enda þó nokkuð undir því að Sarkozy nái kjöri. Hollande, fulltrúi Franskra sósíalista hefur verið með "derring" og lýst því yfir að hann vilji breytingar á "Mánudagssáttmálanum" um fjármál euroríkja og gefið í skyn með ýmsum öðrum hætti, að hann myndi ekki vera jafn auðveldur í taumi og Sarkozy.
Einn af stjórnendum kosningabaráttu hans hefur meira að segja notað Þ-orðið, það er að segja hann talaði um að hann gæti hugsað sér að hinn ný sáttmáli yrði settur í þjóðaratkvæði í Frakklandi.
Þá er nú ástæða til þess að "tante" Merkel taki til sinna ráða.
Sjálfsagt er þetta það sem koma skal í Evrópusambandinu, þeir hafa blessun hins Þýska Kanslara forsætisráðherrarnir í Grikklandi og á Ítalíu, Frakkar fá þó að kjósa, þó að hinn Þýski leiðtogi vilji hafa þar áhrif á.
Persónulega finnst mér þetta afturför, ég tel að kosningar eigi að vera innanríkismál. Erlend ríki og leiðtogar annara ríkja eiga að halda sig til hlés. En ef til vill er erlend íhlutun það sem koma skal, ef til vill er það sem kallað er "meiri Evrópa".
Ver stuðning sinn við Sarkozy | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2012 | 21:05
Mismunandi útfærslur á lýðræði
Það myndi ykki öllum þykja það slæmar fréttir að Marine le Pen næði ekki að bjóða sig fram í Frönsku forsetakosningunum. Ég er ekki frá því að brosvipra kæmi sem snöggvast á andlit þeirra Sarkozy og Merkel ef svo færi.
Persónulega verð ég að segja að mér þætti það miður þó að ég myndi aldrei kjósa le Pen, en það er önnur saga. Mér finnst hins vegar þessi regla um undirskriftir fyrir framboð röng og í raun ein af hindrunum sem sett hafa verið af Frönsku "valdaelítunni" til að reyna að vernda sín lén.
Auðvitað er það ekki eðlilegt í nútíma lýðræðisríki að það séu aðeins 45.000 einstaklingar sem geti skrifað "upp á" fyrir væntanlegan forsetaframbjóðenda. Skýrari dæmi um mismunandi gildi Jóns og Séra Jóns er vandfundið.
Lýðræðið í þessari útfærslu felst í því að lýðurinn fær að velja á milli þeirra sem "elítan" samþykkir að fari í framboð. Það að aðeins kjörnir fulltrúar geti skrifað "upp á" fyrir foretaframbjóðenda er að mínu mati ekki boðlegt árið 2012, hafi það einhvern tíma verið það.
En mér þykir líklegast að Marine le Pen nái tilskyldum undirskriftum, þó að ef til vill verði það tæpt. Annað væri tap fyrir Franskt lýðræði.
Forsetaframboðið í uppnámi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2012 | 19:31
Að vilja ganga í "Sambandið" sem var
Þó að þessi samanburður hjá ASÍ sé að ýmsu leyti athygliverður, þó finnst mér þetta frekar þunnur þrettándi og illa undirbyggður.
Það væri gaman að sjá frá ASÍ samhliða þessu til dæmis þróun kaupmáttar og kauphækkana á sama tímabili, þar væri gott að sjá bæði meðaltal og einnig tölur frá einstökum löndum. Ekki væri verra að reyna að rýna í hvort að fylgni væri á milli kauphækkana og velgengni ríkjanna í efnahagslegu tilliti.
Jafnframt væri gott að sjá samanburð á meðallaunum á Íslandi, á eurosvæðinu og einstökum löndum þess.
Það væri einnig gaman að sjá ekki eingöngu miðað við meðaltal eurosvæðisins, heldur fá sömuleiðis tölur frá einstökum löndum til samanburðar.
Sömuleiðis gæti verið gaman að sjá samanburð á því hverskyns eign 9.7 milljónir hefðu keypt á Íslandi og í meðatalseurorsvæði árið 1997. Sá samanburður mætti gjarna líka vera á milli einstakra landa.
Það segir ef til vill meira um samanburð á lífsgæðum, að fjalla um hina ýmsu þætti, en nota ekki eingöngu vextina. Það væri fengur í því að sjá hvað húsnæðiskostnaður er að meðaltali hátt hlutfall af launum fólks, bæði yfir eurosvæðið sem og í einstökum löndum.
En í vaxtalegu tilliti er verið að tala Evrópusambandið sem var. Það er ólíklegt að það komi nokkurn tíma aftur. Það er líklegt að sú tíð að vaxtastig á Írlandi, Spáni, Grikklandi, Ítalíu og Portugal verði svipað og í Þýskalandi sé liðin. Sú blekking að það sé nóg að euro sé gjaldmiðillinn alls staðar er ekki til staðar lengur. Sama gildir um jaðarsvæði eins og t.d. Eistland.
Hver skyldu til dæmis vera vextir á húsnæðislánum á Írlandi í dag?
Hér sýnist mér þeir vera boðnir óverðtryggðir, fastir til 5 ára (ekki boðið upp á lengri festingu) 5.35%. Sjálfsagt er hægt að gera kjarakaup á Írlandi, enda sagt að húsnæði hafi fallið í verði um u.þ.b. 55% á síðustu 3. árum.
Hér má sjá kjör sem bjóðast í Hollandi hjá ING bankanum. Þar eru vextir til 5 ára 5.15, en til 10 ára eru þeir komnir upp í 6.10%. Þessar tölur miðast við yfir 80% skuldsetningu, en hagstæðari kjör bjóðast ef útborgunin er stærri. Ef vilji er til að festa vextina til 20 ára, fara þeir upp í 7.15%.
Það verður að teljast líklegt að vextir myndu lækka á Íslandi ef tekinn yrði upp "stærri" gjaldmiðill. Það er þó rétt að draga í efa að sú lækkun yrði eins mikil og margir vilja vera láta. Það skiptir líklega mestu máli hvernig framtíðarmarkaður fyrir fasteignir er metinn, og hve sterk veð hann þyki bjóða.
Þess utan er varasamt að miða við vexti sem hafa verið hafðir lágir þar sem efnahagslifið hefur verið í lægð og lágir vextir hafa verið notaðir til örvunar. Samanburður við land þar sem var gríðarleg þennsla og lánaeftirspurn því sem næst óendanleg er því ekki raunhæfur. Hluti af vandræðum ýmissa eurolanda, er einmitt rekin til óeðlilegra lágra vaxta miðað við efnahagsástand.
Það vilja allir borga sem lægsta vexti. Það vilja allir fá sem hæsta ávöxtun á sparifé sitt og lífeyrissjóði. Of lágir vextir bera vitni um að efnahagslífið sé í vanda statt, allt of háir vextir gera það sömuleiðis. En hann er vandrataður millivegurinn.
Sláandi munur á vaxtakostnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2012 | 19:35
Boðsferðir hér og boðsferðir þar - En hvað með reiðufé?
Nú er býsna mikið rætt um boðsferðir. Það eru ekki margir sem mæla þeim bót. Þær þykja lykta af spillingu og illum starfsháttum.
Bæði stuttu fyrir hrun og stuttu eftir hrun Íslensku bankanna var býsna mikið talað um boðsferðir. Það mæltu þeim ekki margir bót, utan þeirra sem fóru í þær. Mörgum þótti þær lykta af spillingu og slæmum starfsháttum.
Heldur minna hefur verið rætt um boðsferðir á vegum Evrópusambandsins, en það hefur þó komist á dagskrá. Þá ber svo við að býsna margir mæla þeim bót og telja þær af hinum góða og bera vott um faglega kynningarstarfsemi. Jafnvel sumir þeir sömu sem tala hátt um að boðsferðir séu boðnar af undarlegum hvötum af öðrum aðilum.
Skyldi reiðufé hafa verið afhent þeim sem fóru í boðsferðir á vegum bankanna, rétt eins og mun tíðkast hjá Evrópusambandsþinginu?
Árið 2010 er sagt að hver hópur sem hafi heimsótt þingið hafi fengið ríflega 13.000 euro að meðaltali, afhent í reiðufé. Það gerir u.þ.b. 2. milljónir Íslenskra króna á hóp. Ekki kemur fram hvað margir voru að meðaltali í hverjum hóp.
Ekki veit ég hvað margir Íslendingar hafa farið í kynnisferðir á vegum "Sambandsins" og heimsótt m.a. Evrópusambandsþingið. Ekki veit ég hvað margir hópar hafa farið til Brussel til að kynna sér starfsemina.
En verðum við ekki að gera ráð fyrir því að listi yfir þær boðsferðir verði birtur um svipað leyti og listi yfir aðrar boðsferðir? Verðum við ekki að gera ráð fyrir því að fjölmiðlar gangi jafn hart fram í að birta þá lista og í ýmsar aðrar boðsferðir? Verðum við ekki að gera ráð fyrir að allir gangi fram fyrir skjöldu og upplýsi hvort að þeir hafi þegið reiðufé frá Evrópusambandsþinginu og hvort þeir hafi skilað inn nótum fyrir því?
Hið gegnsæja þjóðfélag þar sem allt er upp í borðum er löngu komið, er það ekki?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.2.2012 kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)