Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Hækkar þá matvælaverðið ef Ísland gengur í "Sambandið" Jóhanna?

Á vef forsætisráðuneytisins má finna merkilega tilkynningu.

Þar sendir forsætisráðherra tóninn til Ríkisútvarpsins (hvenær skyld því nafni verða breytt í Þjóðrarútvarpið?), vegna þess sem ráðuneytinu þykir misvísandi fréttaflutningur.  Undir það má taka. 

Í tilkynningunnii segir að Ísland sé ódýrast af Norðurlöndunum. 

Sagt er skýrum stöfum að það eigi að bera verð saman á svokölluðu jafnvirðisgengi sem er iðulega gert þegar lönd eru borin saman. Þá er tekið tillit til mismunandi kaupmáttar gjaldmiðilsins á hverjum stað.

Í þessum samanburði er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að Ísland sé „ódýrast Norðurlandanna ásamt Finnum þegar kemur að matarkörfunni". Og sé litið til allrar vöru og þjónustu sem könnunin náði til er „Ísland ódýrast Norðurlandanna". Á þessar staðreyndir var ekki minnst einu orði í fréttinni.

Þetta er vissulega merkileg staðreynd og nokkuð á skjön við margt sem hefur mátt lesa í fjölmiðlum undanfarin misseri.

Sé þetta rétt, hlýtur annað hvort að vera, að matvæli séu almennt dýrari á Norðurlöndunum en Íslandi, eða hitt að kaup sé almennt hærra á Íslandi.

Hvort skyldi nú vera rétt?

Ekki hef ég trú á því að laun séu almennt lægri á Norðurlöndunum, alla vegna ekki miðað við frásagnir brottfluttra Íslendinga.  Þá hlýtur niðurstaðan eiginlega að vera sú að matarkarfan sé eitthvað ódýrari á Íslandi.

En getur það verið að matarkarfan sé ódýrari á Íslandi en í Evrópusambandslöndunum Danmörku og Svíþjóð?

Eitt er að stæra sig af því að matarkarfan á Íslandi sé ódýrari í tveimur af "Sambandslöndunum", annað er að fullyrða að matarverð lækki á Íslandi ef gengið er í það sama "Samband".  Hvað skyldi þurfa að leita lengi af frétt þar sem Jóhanna (og Samfylkingin) fullyrðir að matvæla lækki við inngöngu í "Sambandið"?

Einhvern veginn finnst mér þetta stangast örlítið á.

Það skyldi þó aldrei vera að matvælaverð myndi hækka á Íslandi, ef gengið er í "Sambandið"?  Myndi það ef til vill verða eins og í Danmörku og Svíþjóð?

P.S.  Matvælaverð í Evrópusambandinu er töluvert lægra en á Íslandi, þegar tekið er meðaltal af löndum þess.  Þegar reiknað er inn matvælaverð í löndum eins og Búlgaríu, Ungverjalandi og svo frv.  En auðvitað er mun eðlilegra að bera saman verð í nágrannalöndum Íslendinga, eins og Danmörku og Svíþjóð.  En eðlilega hentar það "Sambandssinnum" ekki jafn vel í áróðursskyni.

En ef til vill mun forsætisráðuneytið og flokkur forsætisráðherra breyta málflutningi sínum nú.  Mér þykir það þó ekki líklegt.

 


Hvernig á að framleiða orku, hvað á að gera við hana?

Eitt af stærstu ágreiningsefnum á Íslandi, og reyndar víðar, hefur undanfarin ár verið orka.  Hvernig, eða hvort á að framleiða hana og ef á að framleiða hana, hvað á að gera við hana?

Fátt bendir til annars en að slíkur ágreiningur verði áfram til staðar um ókomin ár.

En stöðugt framboð af ódýrri orku skiptir gríðarlega miklu máli í nútíma samfélagi.  Lækkandi orkuverð hefur skipt sköpum fyrir Bandaríkin, aukið atvinnu þar og átti líkega stóran þátt í endurkjöri Obama.  Það að gasverð í Bandaríkjunum sé aðeins u.þ.b. 1/3 af verðinu í Evrópu gefur fyrirtækjum Vestanhafs gríðarlegt forskot og skiptir oft sköpum þegar fyrirtæki ákveða frekari eða framtíðar uppyggingu.

Það er vandséð að vindorka verði stór stoð í Íslenskri orkuöflun á næstunni.  Vindorkan hefur reynst of dýr og um hana hefur staðið styr víða um lönd.  Vegna verðs, vegna hávaða- og sjónmengunar og vegna dýraverndunar (aðallega fugla og leðurblaka).

En það þýðir ekki að full ástæða er til að gera rannsóknir á mguleikum vindmylla á Íslandi, þannig að hægt sé að hefjast handa ef hægt verður að framleiða rafmagn á samkeppnishæfu verði.  Ég held að ekki sé síst ástæða til að rannsaka framleiðslu rafmagns með smærri vindmyllum í þéttbýli.  Til dæmis á þökum háhýsa.

Allra best væri auðvitað ef hægt væri að byggja á og nota Íslenskt hugvit og tækni, sbr. þessa frétt.

En Íslendingar munu byggja orkubúskap sinn að lang mestu leyti á vatns og jarðhitaorku.  Um þá orkuöflun mun án efa standa styrr um ókomna framtíð.

Hvar á/má virkja?  Hvað á að gera við orkuna?  Eigum við að nýta hana fyrst og fremst innanlands, eða reyna að selja í gegnum jarðstreng?  Hvernig iðnað viljum Íslendingar sjá nýta orkuna innanlands? Og svo framvegis.

Að reikna með að rammaáætlun verði til lykta leidd á Alþingi á fáum dögum, svo að vel fari er auðvitað goðgá. 

En alvöru umræða fengi líklega fljótt á sig málþófsstimpilinn. En það er líka alls óvíst að hún skilaði nokurri niðurstöðu.

En ef aðeins atkvæðagreiðsla á að ráða, þá er ekki ólíklegt að skipt verði um stefnu á fjögurra ára fresti um ófyrirsjáanlega framtíð.

Það er þess vegna sem oft gefst vel að búa til málamiðlanir.


mbl.is „Virkjanir geta bætt umhverfið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhagsstofnanir og stofur

Þegar menn velta fyrir sér nútíðinni, nú eða framtíðinni er oft gott að líta til fortíðar.  Skoða söguna.  Athuga hvort að þar megi finna einhverjar vísbendingar, fordæmi, varnaðarorð eða eitthvað annað sem má læra af.

Nú er mikið rætt um að koma þurfi á Þjóðhagsstofu á Íslandi og margir virðast fyllast tregafullum söknuði þegar talað er um Þjóðhagsstofnun.

Ef vil vill hefur þetta eitthvað með tískuorð að gera.  Ég skrifaði í gær stuttan pistil um tískuorðið þjóðareign, en annað orð sem hefur notið vinsælda undanfarin ár, er orðið "stofa".  Engin maður með mönnum talar lengur um stofnanir, né nokkur ráðherra með ráherrum kemur þeim á fót.  Þeir tala og setja á laggirnar "stofur".

Það ætti því varla að geta klikkað þegar þessum tveimur orðum er skotið saman í heitið Þjóðhagstofa.  Hagur í staðinn fyrir eign, en það eru í sjálfu sér ekki slæm skipti.

En ég rakst á ansi hreint góða upprifjun á niðurlagningarferli Þjóðhagsstofnunar þegar ég þvældist um netið í morgun.

Ég hvet alla til að lesa hana, nú þegar allir bíða spenntir eftir að Þjóðhagsstofu verði komið á laggirnar.  Umfjöllunina má finna hér.

 


Tveir pistlar

Þó að ég hafi lifað þá tíma að einungis var einn ljósvakamiðill með einni rás til að hlusta á, er erfitt að ímynda sér að snúa til baka til slíks tíma.

Fróðleikur og fréttir sem finna má á internetinu er gríðarlegur.  Bæði einstaklingar og fyrirtæki miðla gríðarlegu magni upplýsinga, sem er vissulega misjafnt að gæðum.  Helsta vandamálið er að vinsa úr.

Í dag rakst ég á tvo pistla sem mér fannst allrar athygliverðir og ættu erindi við sem flesta.

Það er annars vegar pistill Sigurðar Más Jónssonar um Íbúðalánasjóð, á mbl.is  og hins vegar pistill Gunnars Rögnvaldssonar hér á Moggablogginu, þar sem hann skýtur föstum skotumá Ríkisútvarpið.

Hvað varðar pistil Gunnars, vil ég einungis bæta við, að það er leiðinlegur ávani hjá mörgum fjölmiðlum, bæði Íslenskum og erlendum, að vitna og búa til fréttir upp úr hinum ýmsu skýrslum og greinum án þess að vísa til heimildana, þó að þær séu til reiðu á internetinu.

Á tímum internetsins, ætti það að vera regla frekar en undantekning, að birta hlekk á viðkomandi skýrslu eða grein, ef hún er fáanleg á internetinu.  Á vefsíðum á það að vera sjálfsögð krafa.

Í pistli Gunnars vísar hann lesandanum á skýrsluna, en það gerir RUV ekki.

Það er því miður glettilega algengt að upplýsingamiðlun sé mun betri hjá einstaklingum heldur en "ráðsettum fjölmiðlum".

 

 


Málin þæfð eða Alþingi sem afgreiðslustofnun?

Fyrir þeim sem hafa fylgst með Íslenskum stjórnmálum um nokkurt skeið, er umræða um málþóf ekkert nýtt. Ekki heldur umræða um Alþingi sem afgreiðslustofnun, þar sem málin séu ekki rædd, heldur einfaldlega keyrð í gegn.

Allir hafa eitthvað til síns máls, enda skipta flestir stjórnmálamenn nokkurn veginn algerlega um skoðun á þessum málum, eftir hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Vissulega er Alþingi nokkur vorkun í þessum efnum, en að miklu leyti er þetta þó sjálfskaparvíti.

Staðreyndin er sú, að hið opinbera og Alþingi er farið að skipta sér af æ fleir málum og sviðum þjóðlífsins og fátt sem alþingismenn telja sig ekki vita betur en almenningur og æ fleiri svið sem þeir telja sig þurfa að setja lög um til að hafa vit fyrir almenningi.

Því er tímarammi Alþingis í raun sprunginn.

Auðvitað má svo velta því fyrir sér hvort að umræður á Alþingi breyti verulega endanlegri gerð frumvarpa sem heiti geti.  En ég hygg þó að fáir myndu vilja afnema umræður á Alþingi, eða skerða þær verulega frá þvi sem nú er.

En svo er það blessað málþófið.   Það er viðurkennt að það er vopn sem getur virkað vel í höndum stjórnarandstöðu, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim.  Það er enda svo að þegar stjórnarmeirihluti leggur fram illa unnin frumvörp, jafnvel svo illa unnin að stjórnarliðar sjálfir viðurkenna að þau séu eins og bílslys, þá er það býsna gott að stjórnarandstaða eigi einhver vopn, en ekki sé hægt að knýja fram atkvæðagreiðslu eftir stuttan tíma.

Það er því svo að þó að málþóf hafi ekki yfir sér virðulegan blæ, þá verður það til enn um sinn.  En ef það yrði gert útlægt, myndu líklega margir minnast þess með máltækinu:  Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.  Á meðal þeirra yrðu líklega þeir stjórnarþingmenn sem nó bolva málþófi, en verða í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili, og tala þá um að ekki megi skerða möguleika þingmanna til að tjá sig.

 

 

 

 


mbl.is „Hér á að verða málþóf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðareign

Þjóðareign er orð sem hefur notið töluverðra vinsælda undanfarin misseri.  Á mörgum hefur mátt skilja að nauðsynlegt sé að sem mest komist í þjóðareigu, almenningi til farsældar.

Sömuleiðis hefur mátt skilja á ýmsum að þjóðareign sé eitthvað sem óhjákvæmilega komi almenningi til góða og sé eitthvað allt annað en ríkiseign, sem margir hafa illan bifur á.

Er ekki eitt besta dæmið um þjóðareign undanfarinna ára að finna í fjármálakerfinu?

Bæði Landsbankinn og Íbúðalánasjóður eru eins og skínandi dæmi um þjóðareign.  En hvort að sú eign komi almenningi til góða er líklega önnur saga og um það skiptar skoðanir.


Geta andstæðingar "Sambandsaðildar" kosið VG?

Það er nokkuð merkilegt að fylgjast með þeirri umræðu sem sprottið hefur upp hér og þar um netheima vegna þess að fullyrt var á bloggi Heimssýnar að það væri á meðal verkefna félagsins að koma VG út af þingi.

Persónulega hef ég ávallt talið það vænlegra til árangurs að berjast fyrir eigin skoðunum og hugsjónum, heldur en að berjast á móti annarra.   Því verður þó ekki neitað að stundum fer þetta svo saman að eigi verður greint á milli.

En þverpólítískur félagsskapur getur ekki með góðu móti ráðist gegn einum flokki.  Með því er hann í raun að ráðast gegn eigin félögum, því vissulega finnast enn einstaklingar sem eru andstæðingar "Sambandsaðildar" og geta hugsað sér að kjósa VG, þó að þeim hafi vissulega fækkað stórlega.

Þa' er sömuleiðis ekki óeðlilegt að þungt sé í mörgum sem gáfu VG atkvæði sitt í síðustu kosningum fyrst og fremst vegna afstöðu flokksins til aðildar að Evrópusambandinu.

En geta raunverulegir andstæðingar "Sambandsaðildar" kosið VG í næstu kosningum?

Það fer fyrst og fremst eftir því hvaða vægi menn gefa baráttunni á móti "Sambandsaðild" þegar þeir ákveða hvernig atkvæði þeirra verður ráðstafað.  Ég hef áður sagt að ég telji að um sé að ræða stærsta mál Íslenskra stjórnmála, en vissulega eru fleiri mál sem menn hafa í huga þegar atkvæði er nýtt.

Innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi eru skiptar skoðanir um "Sambandsaðild", já meira að segja í Samfylkingunni, þó að þar heyrist minna talað um skiptar skoðanir en í öðrum flokkum.

En þeir sem setja mestan þunga á andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu geta ekki með góðri samvisku kosið VG.  Ekki aðeins hefur stærsti partur forystufólks VG stutt "Sambandsaðild" með atkvæðum sínum á Alþingi, heldur greiddu þau sömuleiðis atkvæði gegn því að aðildarumsókn yrði lögð undir þjóðaratkvæði.

Stærra hefur bilið á milli orða og efnda líklega ekki orðið í Íslenskum stjórnmálum.

Það er því ekki óeðlilegt að margir félagar Heimssýnar hugsi VG þegjandi þörfina.  Oft liggur þyngri hugur til þeirra sem hafa svikið, en þeirra sem hafa alltaf verið andstæðir.

En eftir stendur að þverpólítísk samtök berjast ekki sérstaklega gegn einum stjórnmálaflokki.  Þau hljóta að berjast fyrir því málefni sem þau er stofnuð í kringum.  En þingmenn sem greiddu atkvæði sitt með því að Ísland gengi í Evrópusambandið, eru eðlilega ekki á meðal þeirra þingmanna sem samtök á við Heimssýn, vilja sjá endurkjörna á Alþingi.

Þá þingmenn er að finna í Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og 1 í Sjálfstæðisflokki.  Engin af þeim þingmönnum Framsóknar sem greiddu atkvæði með "Sambandsaðild" sækjast eftir endurkjöri.

Ég veit svo ekki hvernig afstaða þeirra sem eru nýjir á framboðslitum er.

En það er eðlilegt að samtök á borð við Heimssýn reyni að berjast fyrir kjöri þeirra frambjóðenda sem eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu og bendi á afstöðu frambjóðenda.  En samtökin eiga ekki að berjast á móti flokkum.

P.S.  Rétt er að taka fram að blogskrifari er ekki eða hefur verið félagi í Heimssýn.  Afstaða mín til "Sambandsins" ætti hins vegar ekki að hafa farið fram hjá neinum sem hafa lesið bloggskrif mín.


Óþægilegt umræðuefni á kosningavetri

Það er auðvitað stórmerkilegt að einn af helsti "Sambandssinninn" í VG skuli vera farinn að tala um að hægja á ferlinu, eða leggja það til hliðar.  En orðalagið er loðið.

Það er í sjálfu sér engum greiði gerður með þvi að hægja á ferlinu, draga það frekar á langinn og hafa það hangandi lengur en nauðsynlegt er.   Þó hafa "Sambandssinnar" sýnt vilja til þess að draga ferlið á langinn eins og mögulegt er, í von um að eitthvað verði til að afla aðild frekari stuðnings á meðal Íslendinga en nú er.  Það liggur enda nokkuð ljóst að við núverandi aðstæður yrði aðild kolfelld.

En að leggja málið til hliðar er nokkuð óljóst.  Hvað myndi það fela í sér?

Það er hægt að leggja mál til hliðar á nokkuð marga mismunandi vegu og um mismunandi langan tíma.  Jafnvel til eilífðar.

En það er alveg ljóst að "Sambandsaðild" ætti með réttu að verða gríðarlega fyrirferðarmikil í umræðunni fyrir komandi kosningar, og ég yrði hissa ef svo yrði ekki.  "Sambandsaðild" er einfaldlega stærsta einstaka málið sem fyrirfinnst í Íslenskum stjórnmálum nú um stundir.

En það er umræðuefni sem Árna Þór og mörgum í VG er ekki mjög ljjúft.  Þeir vilja helst ræða allt annað, enda framganga þeirra í málinu mörgum undrunarefni, ekki síst mörgum þeirra eigin flokksmönnum. Þess vegna finnst honum tilvalið að leggja til að láta það liggja í láginni.

En það verður ekki síður fróðlegt að sjá hver viðbrögð Samfylkingarinnar verður við þessu útspili Árna Þórs, ef þau verða þá einhver. 

Hitt tel ég nokkuð ljóst að andstæðingar aðildar vilja halda umræðum um "Sambandsaðild" og aðlögunarviðræður áfram fyrir kosningar.  Kosningarnar ættu enda að snúast um "Sambandsaðild" að miklu leyti.

Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að vera of "uppteknir" til að ræða þetta stærsta mál Íslenskra stjórnmála.

Kjósendur eiga heldur ekki að láta þá komast upp með slíkt.

 

 

 


mbl.is Ferlið jafnvel lagt til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar myndir

Ég hef ekki verið nógu duglegur við að taka myndir upp á síðkastið.  Enn latari hef ég þó verið við að "snikka" myndirnar örlítið til og setja þær á Flickr síðuna mína.

Hef þó tekið mig nokkuð á í þessum efnum upp á síðkastið og er að reyna að komast á rétt ról og vinna það sem hefur safnast upp.

Hér má sjá nokkrar af þeim myndum sem ég hef verið að dútla í upp á síðkastið, þær eiga það sammerkt að vera teknar síðastliðið sumar.

Hægt er að sjá myndirnar stærri með því að klikka á þær.

Fleiri myndir má finna á www.flickr.com/tommigunnars

 

 

Glowing Day Lily

 

Praying Chipmunk

 

 

Fence Painters in Black and White

 

 

Little Climber

 

 

Lunchtime

 

 


Meira framboð af Íslenskum vinstriflokkum en eftirspurn

Það má auðvitað alltaf deila um hvar miðjan er í stjórnmálum.  Það má meira að segja að hún færist til, fram og til baka.

Líklega hefur miðjan færst til hjá Íslenskum stjórnmálaflokkum.  Margir telja að Samfylkingin og Vinstri græn hafi fært sig mikið til vinstri og fátt sem vegi það upp á hægri hliðinni.  Hins vegar má draga það í efa að kjósendur hafi færst í sama mæli, enda sýnir það sig að fyrrnefndir flokkar hafa tapað verulegu fylgi, ef marka má skoðanakannanir.

Ég held því að það sé varhugavert fyrir flokka sem vilja staðsetja sig á miðjunni að fara að elta óvinsæla ríkisstjórnarflokka til vinstri.

Vissulega kann því Framsóknarflokkurinn að hafa stillt sér upp hægra megin við ríkisstjórnarflokkana í ýmsum málum, en það þýðir ekki að flokkurinn hafi færst til.

Það væri auðvitað fróðlegt að heyra hvað Höskuldi þyki til marks um að flokkurinn hafi hoppað til hægri, en það því miður glettilega algengt að Íslenskir fjölmiðlar leyfi stjórnmálamönnum að setja fram álíka fullyrðingar, án þess að krefjast frekari skýringa.

En það er ekki þörf fyrir fleiri vinstri flokka á Íslandi.  Það er þörf fyrir flokka sem standa fyrir íhalds og aðhaldssemi i fjármálum.  Fyrir flokka sem vilja hvetja til fjárfestinga og uppbyggingar.  Fyrir flokka sem vilja létta skattaálögum af fólki og fyrirtækjum.

Framsóknarflokkurinn var í ljósmóðurshlutverkinu fyrir núverandi vinstristjórn.  Fyrir það hlaut flokkurinn litlar þakkir frá Samfylkingu og Vinstri grænum. Ég held sömuleiðis að flokkurinn eigi von á afar takmörkuðu þakklæti frá kjósendum fyrir viðvikið.

Ég held því að flokknum sé varla holt að reyna að elta rikisstjórnarflokkana uppi á vinstrivængnum.


mbl.is Hvorki of langt til hægri né vinstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband