Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Styttist í Alþingiskosningar? Er Samfylkingin að ræsa neyðaráætlunina?

Ég veit ekki nákvæmlega af hverju, en þegar ég las þessa frétt kom það eins og skot upp í huga mér að nú styttist til Alþingiskosninga.  Sömuleiðis flaug það um huga mér að nú væri Samfylkingin komin með upp í háls (og líklega upp fyrir höfuð) af VG og væri að ræsa neyðaráætlunina.

Það blasir við að það er megn ónægja með stjórnmálastéttina á Íslandi og það blasir sömuleiðis við að núverandi stjórnarflokkar munu að öllum líkindum bíða afhroð í næstu kosningum, hvenær svo sem þær verða.

Þó að allar skoðanakannanir bendi til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir bæti verulega við sig fylgi, standa þeir langt í frá sterkt, og gætu hæglega misst mikið af fylgi sínu til nýrra framboða.

Það er því býsna mikið fylgi "á lausu" ef svo má að orði komast, ekki síst á meðal ungs fólks og ný framboð eiga betri möguleika á árangri en oftast áður.  Besti flokkurinn sýndi eftirminnilega í Reykjavík getu sína til að ná þetta fylgi.

En hann sýndi það líka að í raun hafði hann ekki nokkurn áhuga á að vinna með nokkrum öðrum flokki en Samfylkingunni, það kom nokkuð skýrt fram.

Líklega er enginn betri til þess að byggja trausta brú á milli Samfylkingar og Besta flokksins í landsmálum en Guðmundur Steingrímsson.  Fyrrum Samfylkingarmaður (sem virtist þó í raun aldrei hætta að styðja flokkinn og ríkisstjórn hans), en einnig nokkuð farsæll tónlistarmaður (Það er bara einn flokkur á Íslandi hefur gengið í nokkra endurnýjun lífdaga upp á síðkastið) og fyrrum skemmtiþáttastjórnandi í sjónvarpi. 

"Pólítískur fóstbróðir" hans, Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar er svo þegar í samstarfi við Besta flokkinn (spurning hvort hann hafi lánað Guðmundi Wire diskana) í Borgarstjórn og getur styrkt tengslin.

Það að Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn gangi í eina sæng í landsmálunum mun ekki draga úr fylgistap Samfylkingarinnar í næstu kosningum, það gæti jafnvel aukið það að einhverju marki.  En það lítur út eins og tilraun til þess að stjórna því hvernig fylgishreyfingin verður, og koma á laggirnar flokki, sem gæti tekið mikið af því fylgistapi til sín (og gott betur vonast þeir líklega eftir) og hefði ekki áhuga á því að starfa með neinum nema Samfylkingunni (eða þá núverandi ríkisstjórn, en þá fyllilega Samfylkingarmegin).

Aukageta af þessum fréttum og hræðslu við kosningar gætu svo hugsanlega orðið að VG lyti betur að stjórn í núverandi ríkisstjórn.


mbl.is Hyggja á framboð til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klippt og skeytt - Góðir hlutir sem ég hef rekist á í dag

Internetið er stórkostlegt það er hægt að "þvælast um víða veröld" fylgjast með fréttum hér og þar, horfa á sjónvarp eða hlusta á útvarp.

Það er svo margt fræðandi, upplýsandi og skemmtilegt að finna, þó að vissulega sé ýmislegt sem þarft er að sigta frá, það val er hvers og eins og verður vonandi svo áfram.

En hér er nokkur af þeim atriðum sem ég fann í morgun og fengu mig til að brosa.

"Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir." Þórarinn Eldjárn

Rakst á þetta hér

Þetta myndband sem ég sá hér,  fékk mig svo sannarlega til að hlægja, en það fylgir sögunni að þetta sé talið smellpassa sem nýr þjóðsöngur fyrir Evrópusambandið, en líklega þó helst Euroríkin að mínu mati.

Þessa ágætu teikningu sá ég á vef Eistneska útvarpsins

thodarskutan

 

 

 

 

 

 

 

 

Besta fréttafyrirsögnin það sem af er degi er sömuleiðis að finna á vef Eistneska útvarpsins:

"Dealer of Fake Erection Drugs Avoids Stiff Sentence"


Af orðljótum ræflum

Þó að það sé mér að meinalausu að þeir kalli hvorn annan illum nöfnum, vinstrimennirnir á Íslandi, finnst mér þetta að vissu marki birtingarmynd þess hvernig umræðan (og samræðustjórnmálin auðvitað) hefur þróast á Íslandi.

Þó nokkur hópur Íslendinga virðist telja að þeir tali (og skrifi) best sem viðhafi stærstu og ljótustu orðin, hrópi mestu svívirðingarnar og tali verst um þá sem þeim eru andstæðir.

Þetta má sjá á netinu, á prenti og heyra úr ræðustólum s.s. á Alþingi.

En umræðan geldur þessa og virðing þeirra sem tilheyra þessum "skóla" er að ég held uppurin.

P.S.  Ég er auðvitað að norðan, en kannast þó ekki við að þar hafi orðið "ræfill" verið notað nema um þá sem þóttu vera "ræflar", og þótti auðvitað niðurlægjandi.  En vissulega kann það að vera upphefð í Ólafsfirði, því þar þekki ég ekki vel til.


mbl.is Hefði ekki átt að nota orðið „forsetaræfill“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara að eyða nóg, þá streymir féð inn og allt verður í himnalagi

Það líður varla sú vika held ég að ég sjái ekki fullyrðingar svipaðar þeim sem hér eru settar fram.  Það þarf eingöngu að auka opinbera styrki í þetta nú eða hitt, þá streyma peningar inn og ríkið og þegnarnir ættu að geta lifað hamingjusamir æ eftir.

En þrátt fyrir að nokkuð sé langt um liðið frá því að ég heyrði slíkar fullyrðingar fyrst og framlög til hinna ýmsu listgreina og "góðra málefna" hafi í mörgum tilfellum stóraukist, þá lætur "blómaskeiðið" af einhverjum orsökum standa á sér.

Kvikmyndir eru vissulega allra góðra gjalda verðar, veita bæði vinnu og ánægju (margar hverjar alla vegna).  En ég er þó hræddur um að það dugi skammt að stórauka framlög til kvikmyndagerðar og bíða svo eftir því að fjármunir sprautist í hagkerfið og ríkiskassann.

Það sem vantar að tala um í þessum útreikningum, er hve mikill hluti af kvikmyndageiranum hyrfi ef engir væru ríkisstyrkirnir?  Nú eða ef styrkirnir yrðu dregnir saman um 20%, nú eða 50%? Hvaða tölur eru inn í útreikningum um veltu kvikmyndageirans og hvernig skiptast þær?  Hve stór hluti af kvikmyndageiranum felst t.d. í auglýsingagerð?  Varla er ástæða til að styrkja hana, eða telja hana til margfeldisáhrifa af ríkisstyrkjunum, eða hvað?

Varla hyrfi kvikmyndageirinn, ef ríkisstyrkir hyrfu, þó að vissulega sé líklegt að umsvifin yrðu eitthvað minni. 

En líklega verða þessir útreikningar núverandi ríkisstjórn hvatning til þess að stórauka framlag til kvikmyndagerðar sem og annarrar listsköpunar, ríkið þarf svo sannarlega á fimmföldun peninga sinna að halda.


mbl.is Hver króna kemur fimmfalt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bý ég í ólýðræðislegri borg?

Um það má sjálfsagt deila, og það lengi, rétt eins og flest annað.  En hér í Toronto eru ríflega 2.500.000 íbúa.  Borgarfulltrúar eru 44.  Borgarstjóri bætist síðan við, kosinn beinni kosningu.  Rétt er að taka fram að borgarfulltrúarnir eru ekki kosnir af listum, heldur eru 44. einmenningskjördæmi í borginni.  Þetta er að mínu mati bæði kostur og galli, borgarfulltrúarnir þurfa vissulega að standa skil á sínum gjörðum í "hverfinu" og enginn er öruggur inn, en gallinn er sá að sá sem sigrar hefur gjarnan aðeins stuðning 30 til 40% þeirra sem þó drífa sig á kjörstað, og stundum töluvert minni.

Mér reiknast til að hver borgarfulltrúi hafi því að meðaltali u.þ.b. 57.000 íbúa að baki sér.

Mér finnst skrýtið að sjá að menn haldi að lausnin á þeim vandamálum sé kunna að vera til staðar sé að stækka stjórnmálastéttina, að það sé það sem þarf til að hlutirnir gangi vel fyrir sig og horfi til betri vegar.

Regulega hef ég heyrt tillögur um að gott væri að fækka alþingismönnum, og hafa margir fært ágætis rök fyrir þeirri skoðun.  En er ástæða til þess að fjölga sveitastjórnarfólki?  Eða er ástæðan fyrir því hve margir telja þörf fyrir fjölgun á báðum þessum stöðum ef til vill sú að "hið opinbera" er eilíflega að skipta sér sér af og stjórna hlutum sem væru betur komnir annarsstaðar?


mbl.is Borgarfulltrúum fjölgað í 23
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17 undirskriftir

Börnin hér að Bjórá byrjuðu í skólanum í síðustu viku.  Fyrir helgina kom svo "vöndull" af pappírum sem þurfti að fylla út og skrifa undir.

Til þess að börnin gætu haldið áfram að sækja skólann og tekið þar þátt í starfseminni á mikilla vandkvæða, eða að verða sett til hliðar við ýmis tækifæri, þurfti ég að gefa 17. undirskriftir.

9. sínnum þurfti ég að skrifa nafnið mitt á pappírana fyrir Leif Enno og 8. sinnum fyrir Jóhönnu Sigrúnu.

Með öllum þessum undirskriftum viðurkenndi ég að mér væri ljós áhættan af því að börnin tækju þátt í leikfimi, færu hugsanlega í gönguferðir um nágrenni skólans, að þau mættu sjást á myndum eða myndböndum sem hugsanlega væru tekin í skólanum, að myndirnar mættu birtast á vefsíðum tengdum skólanum og einnig á öðrum opinberum miðlum, að börnin mættu nota internetið í skólanum og ég myndi reyna að kenna þeim "rétta" hegðun og notkunarreglur þar að lútandi o.sv.frv, o.sv.frv.

Munurinn á milli krakkanna lá í því að Jóhanna er ekki í skólanum í hádeginu og þurfti ég því ekki að undirrita staðfestingu á því að henni væri óheimilt að yfirgefa skólalóðina á þeim tíma.

Lífið er ekki einfalt.


Þjóðaratkvæði í allar áttir

Það er nokkuð merkilegt hvernig afstaða einstaklinga til þjóðaratkvæðis getur verið mismunandi, aðallega að því virðist hver afstaða þeirra sjálfra til einstakra málefna er.

Hvernig getur það til dæmis verið ólýðræðislegt að hætta eða fresta aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið með einfaldri samþykkt á Alþingi, þegar það var hið sama Alþingi sem samþykkti að hefja viðræðurnar án þess að það væri borið undir þjóðaratkvæði?

Er alvarlegra að hætta viðræðum en hefja þær?


Í ferðalögum

Bjórárfjölskyldan hefur verið dugleg að ferðast þetta sumarið, en allar ferðirnar þó verið stuttar í vegalengdum talið og allar innan Ontario utan ein, en þá voru nágrannarnir í Quebec heimsóttir.

Fjölskyldan heimsótti borgirnar Ottawa og Montreal og síðan var gist í fylkis eða þjóðgörðum, en þeir voru Arrowhead, Bon Echo, Mont Tremblant og Killbear.

Í borgunum var gist á hótelum, en tjaldið notað í fylkis/þjóðgörðunum.  Alls staðar var eftirminnilegt að koma og góðar minningar urðu til.  Yngri meðlimir Bjórárfjölskyldunnar kunna vel að meta að sofa í tjaldi og hafa gaman af þvi að hitta fyrir dádýr, froska og önnur þau dýr sem við höfum verið svo heppin að rekast á á.

Þess má til gamans geta fyrir þá sem velta því mikið fyrir sér hvað kosta megi inn á ferðamannastaði, að hvergi er ókeypis að heimsækja fylkis/þjóðgarða hér í Kanada.  Dagskort kostar gjarna um 11 dollar (ca, 1300 krónur, rukkað er á bíl), en gistinóttin kostar ríflega 42 dollara (u.þ.b. 4900 krónur) fyrir gistireitinn (oft er möguleiki á því að setja upp 2. tjöld).  Innifalið í gistingunni er aðgangur að rennandi vatni,  salerni (oftast vatnssalerni) og sturtu.  Á Mont Tremblant tjaldsvæðinu var þó sjálfsalli í sturtuna og kostuðu hverjar 4. mínútur 50 cent (u.þ.b. 60. krónur).  Rétt er að geta þess að tjaldstæðin er nokkuð frábrugðin því sem oftast þekkjast á Íslandi, en hvert tjaldstæði er í littlu rjóðri í skóginum.

Hótelherbergin sem gist var í kostuðu frá 80 dollurum upp í rétt ríflega 200, allt eftir hve vel þau voru staðsett, útbúnaði og hvenær ferðatímabilsins þau voru heimsótt, öll áttu þau það sameiginlegt að hafa tvö rúm í drottningarstærð (queensize), þannig að vel fór um 4ja manna fjölskyldu í þeim.

Síðsumars keypti fjölskyldan sér uppblásanlegan kayak, en vötn eru sjaldnast langt undan þegar ferðast er um Kanada, en hann sést á einni myndinni hér að neðan.

En annars eru hér að neðan smá sýnishorn af þeim aragrúa mynda sem teknar voru á ferðalögunum, hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri, en fleiri myndir er að finna á slóðinni www.flickr.com/tommigunnars

Bridge Over Ottawa River The Good Life - Canadian Style Twilight In Bon Echo In The Night Water As Art Sea Eagle On Lac Monroe The Mountains Are Blue The Sun Sets In Mont Tremblant National Park Calm Frog Beaver Bridge in The Sunset

Kínverska hættan

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki fylgst verulega vel með þessu máli, eða kynnt mér hinn Kínverska kaupsýslumann, en ég á frekar erfitt með að skilja óróa margra Íslendinga í þessu máli.

Það er engu líkara en sumir óttist að hótelið sem byggja á, verði umbreytanlegt í eldflaugaskotpall, eða að undir því verði "stjórnstöð", þar sem yfirtöku Kínverja á Íslandi, Evrópu, heiminum (væntanlega í þessarri röð) verði stjórnað.

Hitt þykir mér líklegra að títtnefndur Kínverji hyggist selja löndum sínum kyrð og ró, og þann möguleika að sjá fátt fólk í all nokkra stund, en eftir því sem mér hefur skilist er það sjaldgæfur lúxus fyrir þarlenda.

En hitt er þó ef til vill nokkuð eftirtektarverðara og um leið áhyggjuefni, að það er eins og það séu engin lög til um hvernig taka skuli á þessum málum.  Enginn ferill, engin ákveðin skilyrði sem þurfi að uppfylla.

Það er engu líkara en þær mótttökur sem erlendir fjárfestar fái á Íslandi byggist mest megnis á því hvernig ráðherrum og ríkisstjórn líst á manninn, "hverra manna" hann er, og svo framvegis.  Meginmáli skiptir svo auðvitað líka hvernig fjölmiðlar taka honum og hvernig fréttir þeir flytja af honum, fortíð hans og uppvexti.

Það er verðugt verkefni fyrir Íslenska stjórnmálamenn að setja skýrar reglur um erlenda fjárfestingu í landinu.  Hvað er leyft og hvað er bannað.  Helst þurfa þær að vera einfaldar og auðskiljanlegar, en það er líklega til of mikils mælst.

Það er furðulegt að þurfa að fylgjast með hálfgerðum upphlaupum og átökum í flest skipti sem erlendir aðilar sýna áhuga á því að fjárfesta á Íslandi, sérstaklega í því árferði sem erlend fjárfesting er nauðsynlegri en oft áður.

 


mbl.is Gæti þurft að hætta við kaupin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband