Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

"Sambands" aðild fram í rauðan dauðann

Áfram halda viðræður Íslendinga um að komast í Evrópusambandið.  Það skiptir ekki máli hvort þær eru kallaðar aðlögunarviðræður eða aðildarviðræður eða könnunarviðræður, flestir virðast sammála um að þær gangi frekar illa.

Ég held að ég hefi varla heyrt neinn nema Össur og Jóhönnu halda hinu gagnstæða fram.

Þorsteinn Pálsson segir að ríkisstjórnin valdi ekki verkefninu, Eiríkur Bergmann (sjá grein í Fréttatímanum , bls. 46) tekur undir þá skoðun og bætir við að samninganefnd Íslands sé ekki starfanum vaxin, sumir nefndarmanna eigi í erfiðleikum með að skilja það erlenda tungumál sem samningaviðræðurnar fara fram á.

Hér er ekki vitnað til andstæðinga Evrópusambandsaðildar, öðru nær.

En áfram skal haldið, með það eina samningsmarkmið á lofti að ganga í "Sambandið", hvað sem tautar og raular.

Líklega hefur orðatiltækið, fram í rauðan dauðann, sjaldan eða aldrei átt betur við en nú.

P.S. Upplýsingar um samninganefnd Íslands og samningahópa má finna hér.


Hvers vegna þurfa Íslendingar svo mikið á hagvexti að halda?

Stundum er talað um að ríki einblíni um of á hagvöxt.  Það er auðvitað að hluta til rétt.  Það er fleira sem gefur lífinu gildi en hagvöxtur.

En Íslendingar þurfa á hagvexti að halda og það helst þónokkrum og það í töluverðan tíma.

Aðalástæðuna má sjá hér....   súlu númer tvö ofanfrá, Vaxtagjöld ríkissjóðs.  Næst stærsti hluti útgjalda ríkissjóðs, vextir.  Það þarf að greiða niður skuldir, það þarf að auka tekjur, æskilega leiðin til að gera það er að stækka kökuna, nota hluta ríkissjóðs af hagvextinum til að borga vexti og greiða niður lánin. 

Hin leiðin sem er í boði:  Hækka skatta, skera niður, og síðan hækka skatta aftur, og skera meira niður ... endurtakist eftir þörfum.

Eina skynsamlega leiðin er að auka fjárfestingu, auka atvinnuþátttöku (draga úr atvinnuleysi og þar með vonandi kostnaði við súlu númer 1 og einnig auka skatttekjur), auka hagvöxt og greiða vonandi niður lán og draga þar með úr vaxtakostnaði.

Því fyrr, því betra sem raunhagvöxtur fer af stað.  En á meðan Ísland vermir botnsæti landa þar sem fjárfsting er talin aðlaðandi, er ekki líklegt að hjólin fari að snúast.  Á meðan hver sá sem sýnir fjárfestingu á Íslandi áhuga, virðist vekja skelfingu hjá stórum hluta stjórnmálamanna sem landsmanna, á meðan lög hafa ekki verið samin, heldur stuðst við geðþóttaákvarðanir embættis og stjórnmálamanna, er ekki líklegt að nokkuð gerist.

En það er auðvitað alltaf hægt að treysta á niðurskurðinn.

Það er heldur ekki þar með sagt að niðurskurðurinn eigi ekki rétt á sér.  Hann er líklega nauðsynlegur samhliða hagvextinum.  Hið opinbera líklega alltof stórt og vambsítt á Íslandi, þar er þörf á gagngerri endurskoðun.  Stjórnmálaflokkar þurfa að gera grein fyrir því hvernig stefna þeirra í ríkisútgjöldum er.  Ég hef það á tilfinningunni, að þau séu ennþá dálítið 2007, svo notað sé vinsælt Íslenskt slangur.

P.S.  Bestu þakkir til DataMarket fyrir einfalda og frábæra framsetningu á fjárlagafrumvarpinu.


Óþarft bergmál af Samfylkingunni

Svona kannanir eru alltaf frekar spaugilegar að mínu mati, þó að vissulega felist í þeim vísbendingar.  Að geta hugsað sér að styðja einhvern segir ekki mikið og felur ekki í sér neinn raunverlulegan stuðning.

Hvers vegna skyldi einhver ekki geta hugsað sér að kjósa flokk sem Guðmundur Steingrímsson er í forsvari fyrir?  Flokkurinn hefur ekki lagt fram neina stefnu sem heitir getur, það er ekki ljóst hverjir verða í framboði fyrir hann.

Það eina sem er vitað er að Guðmundur mun líklega verða í framlínunni og hann hefur sagst vera fylgjandi aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið og virðist vera frekar hrifinn af ríkisstjórninni.

Þetta nægir til að 2/3 kjósenda virðist ekki geta hugsað sér að kjósa flokk sem Guðmundur verður á meðal forystumanna.

Það þarf svo engum að koma á óvart að það séu helst kjósendur Samfylkingarinnar sem gætu hugsað sér að kjósa flokk Guðmundar Steingrímssonar, því hann hljómar eins og óþarfa bergmál af þeim flokki. 

Síðan á Guðmundarflokkurinn þolanlega möguleika á því að ná í atkæði frá VG og skal engan undra þó að stuðningsfólk þess floks sé opið fyrir þeim möguleika að færa atkvæði sitt, jafnvel hvert sem er.

Gamlir flokksfélagar Guðmundar úr Framsóknarflokknum er ekki ginkeyptir fyrir stuðningi við Guðmund, enda það pólítíska kapítal sem hann hlaut í arf þar, líklega því sem næst uppurið.

Guðmundur virðist ekki eiga neina verulega möguleika á því að taka umtalsvert fylgi frá Sjálfstæðisflokknum.

Það eina sem flokkur Guðmundur virðist hugsanlega geta gert er að stýra fylgistapi ríkisstjórnarflokkanna í ákveðinn farveg.  Líklega hefur það verið tilgangurinn frá upphafi.


mbl.is Þriðjungur gæti hugsað sér að kjósa Guðmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólskinsfréttir af "Sambandinu".

Þessi frétt er eiginlega ein af þessum fréttum sem ég vona að sé röng, þó að vissulega bendi ekkert til þess að svo sé.

Auðvitað er engin ástæða til að vera að vera að birta lánshæfismat, ekki heldur opinberar tölur yfir hve hátt hlutfall skulda er af þjóðarframleiðslu, eða yfirleitt neinar slæmar fréttir.  Líður ekki öllum mikið betur ef það eru bara jákvæðar fréttir af "Sambandinu"?

Hver getur bannað lánshæfismatsfyrirtækjum að birta mat sit á einstökum ríkjum?

Hvernig er slíkt bann framkvæmt?

Er ef til vill þörf á því að bæta frjálsu flæði upplýsinga við fjórfrelsið margfræga og kalla það fimmfrelsið?

 

 


mbl.is Vilja banna birtingu lánshæfiseinkunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin Íslenska hugsanalögregla.

Ég verð að segja að mér þykir það á margan hátt frekar ógeðfellt að lesa um að hópur Íslenskra kvenna hafi afhent lögreglu nafna og símnúmeralista yfir karlmenn sem höfðu hugsað um að fremja afbrot.

Ég segi höfðu hugsað um að fremja afbrot vegna þess að ef ég skyldi fréttina rétt, þá hafði ekkert afbrot átt sér stað, heldur höfðu mennirnar hugsað um og hugsanlega sýnt vilja til þess að kaupa þjónustu vændiskvenna.

En ekkert afbrot hafði verið framið.

Allri réttarhugsun um að einstaklingar séu saklausir uns sekt er sönnuð, eða að afbrot þurfi að hafa verið framið er kastað fyrir róða.  Þeir höfðu hugsað sér að fremja afbrot.

Mér þykir reyndar tilhugsun um "borgaralegar mílitíur" ekki skemmtileg framtíðarsýn og er reyndar hissa á því að Lögreglan á Íslandi sé orðin svo beygð að hún þori ekki að standa á móti slíkri þróun.

Hitt er svo einnig að auðvitað er sú löggjöf sem Alþingi samþykkti árið 2009 er stórskrýtin og meingölluð, en það er reyndar hlutur sem kemur minna á óvart í því árferði sem ríkir á Íslandi. 

Það að leyfilegt sé að selja það sem ekki má kaupa er ekki bara grátbroslegt, heldur í raun farsakennt.

Stærsta tekjulind skipulagðra glæpasamta á heimsvísu er talin vera fíkniefnasala.  Reynið nú eitt andartak að ímynda ykkur hvernig það gengi fyrir sig ef sala fíkniefna væri leyfð á Íslandi, en neysla þeirra bönnuð. 

Þar með er ekki sjálfsagt að leyfa eigi vændi á Íslandi, þó að ég eigi ekki von á því að það verði upprætt.  En það væri þá eðlilegast að banna bæði sölu og kaup.

Það er ekki rétt heldur að mínu mati að setja eins og oft tíðkast á Íslandi afdráttarlaust sama sem merki á milli mannsals og vændis, kláms eða nektardans. 

Það er sjálfsagt að berjast gegn mannsali, en það eru lög sem ná yfir það og þeim er sjálfsagt að beita af hörku.  Það er líka sjálfsagt að minnast á það að mannsal er langt í frá bundið við vændi eða klám.  Margt of hefur verið flett ofan af mannsali og þrælahaldi í tengslum við t.d. textíl og fataiðnað, byggingaiðnað,  veitingastaði og kakórækt.  Fleiri dæmi mætti tína til.  Það þýðir ekki að farið sé fram á það að farið sé fram á það að súkklulaði sé ólöglegt.

Þó að vændi sé löglegt í löndum s.s. Þýskalandi, Belgíu, Hollandi og Frakklandi, þýðir það ekki að löndin eða ríkistjórnir þeirra séu fylgjandi mannsali eða styðji það á nokkurn hátt.  Þvert á móti.

Síðan er það krafa "borgaralegu milítíunnar" að vefjum sé lokað og Lögreglan taki á auglýsingum sem "milítían" telur standa fyrir vændi á netinu og í dagblöðum. 

Ekki þekki ég vændislögin til hlýtar, en er það ekki svo að það sem má selja má auglýsa (nema auðvitað áfengi og sígarettur, sem auðvitað má rökræða um)?  Hvert er þá lögbrotið? 

Ef auglýst er "nudd" hvenær á þá lögreglan að grípa inn í?  Hvenær verður nuddið ólöglegt?  Þetta eru ekki auðveld mál viðureignar fyrir Lögregluna, og líklega má rökstyðja að kraftar hennar séu betur nýttir í annað.

Það er auðvelt að setja lög, það getur verið erfiðara að framfylgja þeim.  Ég man ekki eftir því að núverandi stjórnarflokkar hafi verið sérstakir talsmenn þess að stórauka fjárframlög til Lögreglunnar, þó að áhugi þeirra á lagasetningum um hin aðskiljanlegustu málefni sé vel þekktur.

P.S. Ekki rekur mig minni til þess að hafa nokkurs staðar séð því haldið fram að vændi á Íslandi hafi dregist saman síðan lögunum var breytt 2009, eða að lokun flestra "súlustaða" hafi haft þau áhrif. 

Þvert á móti heyri ég mikið talað um að vændi færist í vöxt á Íslandi.  Af hverju skyldi það vera?

 


Strandríki sagt að aðlaga sig að "Sambandinu"

Þegar ég kom heim fyrir nokkrum mínútum voru tvö blogg eitt af því fyrsta sem ég sá á netinu.  Þau áttu það sameiginlegt að þau fjölluðu um fréttir af vef RUV, Ísland og Evrópusambandið.

Fyrri fréttina má finna hér og hún er afar stutt:

Formlegar samningaviðræður strandríkjanna fjögurra; Íslands, Noregs, Færeyja og ESB um makrílveiðar hefjast í Lundúnum á morgun. Viðræðurnar munu standa fram að helgi.

Hin fréttin er hér og fjallar um aðildarviðræður Íslands og "Sambandsins".  Þar má m.a.a lesa eftirfarandi:

ESB telur Ísland hins vegar ekki í stakk búið að hefja viðræður um byggðamál og vill tímasetta áætlun um innleiðingu byggðastefnu sambandsins áður en viðræður hefjast. Við þessu verður brugðist, segir Stefán Haukur. Það þurfi einfaldlega að fara í greiningarvinnu og setja fram tímasettar áætlanir um hvernig Íslendingar myndu setja upp þessa ferla og laga stjórnsýsluna að þeim skyldum sem þurfi að undirgangast og til þess að geta notið þess ávinnings sem felist í aðild á þessu sviði þannig að Íslendingar verði tilbúnir á fyrsta degi aðildar.

Segja þessar tvær fréttir ekki flest það sem segja þarf?

Bloggin sem vöktu athygli mína á þessum fréttum eru blogg Haraldar Hanssonar og svo bloggHeimssýnar.  Bæði er vel þess virði að lesa.


Hvort ætti reiðin að beinast að fjármálaheiminum eða stjórnmálastéttinni?

Fyrir nokkrum dögum voru "veraldarvíð" mótmæli gegn ofríki fjármálaheimsins og hvernig hann hefur, ef ég hef skilið málið rétt, níðst á stærstum hluta almennings.

Ég held að þessi mótmæli séu byggð á stórum misskilningi.

Þó að vissulega megi segja að þörf sé á því að fjármálagúrúum heimsins sé kennd einhver lexía, er það önnur stétt sem mótmælin ættu að beinast gegn.

Það er stjórnmálastéttin.

Auðvitað geta allir verið reiðir út í fjármálamennina, sem græða á tá og fingri á meðan við meðaljónarnir og gunnurnar höfum það að öllu jöfnu mun betra en forfeður okkar, en þó svo assgoti skítt miðað við fjármálamógúlana.

Þess vegna notum við (ég er auðvitað alltof latur til þess, en ég er að tala um fólk eins og mig) réttindi okkar til þess að mótmæla.  Við skipuleggjum mótmæli okkar í gegnum miðla eins og FaceBook, Twitter, nú eða bara blog.is, og notum til þess iPhoninn okkar eða ferðatölvuna okkar. 

Merkilegt nokk hafa "feitu ljótu kapítalistarnir" sem við erum að mótmæla margir hverjir grætt stórfé á því að fjármagna fyrirtæki eins og Facebook, Twitter, Apple Inc, Nokia, Símann, Vodafone, o.s.frv.

Þeir hafa reyndar komið nálægt flestum ef ekki öllum þessum skemmtilegu tækninýjungum sem auðvelda okkur lífið og að skipuleggja mótmæli. 

En eftir hvaða reglum starfa "feitu ljótu kapítalistarnir"?

Jú, þeir starfa eftir reglum sem stjórnmálastéttin hefur sett þeim.  Og ef einhver stendur ekki í skilum, þá kemur dómsvaldið til sögunnar og svo löggæslan.  Allt innfalið og partur af ríkisvaldinu.

Fjármálaheimurinn hefur ekkert vald, eða hvað?

Fjármálaheimurinn hefur ekkert vald, nema vald peninganna og það vald eri sterkast  yfir þeim sem skulda.   Að lána peninga gefur vald.

Og það er einmitt valdið sem fjármálaheimurinn hefur yfir stjórnmálaheiminum.  Ekki það að stjórnmálamenn séu almennt skuldugri en aðrir, heldur það að svo margir þeirra hafa steypt ríkjum, borgum og bæjum í skuldir.  Framkvæmdagleðin hefur verið mikil og mörg "velferðin" sem hefur verið fjármögnuð á lánum.

Þegar ríki og sveitarfélög selja skuldabréf til að borga skuldabréf, má ekki mikið út af bregða.  Fjármálaheimurinn verður að virka, annars verður greiðslufall hjá hinu opinbera.  Það sama má segja um stóran hluta almennings, við höfum ekki greitt upp lán þegar við sláum nýtt.  Við köllum það kreditkort.

Það er líka til í stöðunni að bankastofnanir og aðrir fjármagnseigendur gauki fjármunum að stjórnmálamönnum, það er jú dýrt að ná kjöri og býsna margir stjórnmálamenn komast að því að kraftar þeirra eru einmitt það sem fjármálaheimurinn var að bíða eftir, þegar stjórnmálaferlinum lýkur.

Það er því ef til vill ekki svo undarlegt að mörgum finnist skilin á milli stjórnmálanna og fjármálaheimsins verða æ óljósari, enda virðist mestur tími stjórnmálamanna fara í það að leysa vanda fjármálaheimsins nú um stundir.

En það breytir því ekki að uppruni valdisins er hjá stjórnmálamönnunum, þessum sem almenningur kaus (það er að segja þá hluti almennings sem hafði fyrir því að mæta á kjörstað), fólk eins og ég (og þú) og valdi sér fulltrúa. 

Fjármálaheimurinn starfar eftir lögum og reglugerðum (frá því eru þó vissulega undantekningar) sem stjórnmálstéttin samdi og samþykkti, það er því mun rökréttara fyrir mótmælendur að einbeita sér að að aðsetri stjórnmálanna, fremur en fjármálaheimsins.

Skyldi einhver hafa reiknað út hvað tónlistarhúsið Harpa muni hafa skilað í "vasa" bankastofnana þegar það verður fullgreitt?


Að gera slæman hlut verri

Ég bloggaði hér fyrir stuttu um að mér finndist ekki hafa verið vel staðið að ráðningu forstjóra Bankasýslu ríkisins.  Ég er ennþá þeirrar skoðunar.

Ekki vegna þess að forstjórinn sé framsóknarmaður, ekki vegna þess að hann þekki Valgerði Sverrisdóttur eða Finn Ingólfsson, ekki vegna þess að hann starfaði með Röskvu í háskólapólítíkinni, ekki vegna þess að hann sé giftur fyrrverandi formanni Ungra Jafnaðarmanna eða vegna þess að hann býr í Kópavogi.

Mér fannst hins vegar einhvern veginn að það væri eðlilegt að finna í starfið einhvern sem hefði reynslu og þekkti vel til í bankaheiminum.  Mér fannst guðfræðingur ekki vera alveg það sem vantaði, jafnvel þó að nám í stjórnsýslufræðum væri til viðbótar.

Ég skil því vel að það sé mikil óánægja með ráðninguna.

En það er að fara úr öskunni í eldinn ef að þingmenn stjórnarflokkanna ætla að rísa upp og krefjast þess að ráðningin verði endurskoðuð.

Annað hvort tekur Bankasýslan "sjálfstæðar" ákvarðanir eða ekki.  Ákvarðanir hennar geta ekki bara verið "sjálfstæðar" þegar og ef þingmönnum stjórnarflokkanna þóknast þær og eru þeim sammála.

Svo má auðvitað deila um það hvort að "faglegar" ráðningar sem fara í "ferli" og allt það breyti einhverju á Íslandi.

Ja, nema því ef til vill að viðkomandi ráðherra er "stikkfrír" og almenningur hefur enga leið til að "refsa" þeim sem stendur að ráðningunni í kosningum.

Er það ekki "brilljant"?


Leitin að hundaheilsulind í Ungverjalandi

Ég heyri stundum talað um það sem rök fyrir inngöngu Íslands í "Sambandið" að Íslensk stjórnmálastétt sé einfaldlega svo vanhæf að það sé nauðsynlegt að koma lagasetningu og ýmsum ákvörðunum úr landi.  Útlendingarnir séu bara svo miklu hæfari og takist svo mikið betur til.

Ég ætla ekki að halda upp sérstökum vörnum fyrir Íslensku stjórnmálastéttina, minni bara á að það er sagt að mannfólkinu svipi saman í Súdan og Grímsnesinu, og líklega á það ekki síður við stjórnmálastéttina í Brussel og Borgarnesinu, nú eða Reykjavíkinni.

Hér er slóð á stutta frétt úr Newsnight á BBC, sem snýsnt að miklu leyti um hundaheilsulind sem átti að byggja í Ungverjalandi.  Hún fékk nokkuð ríflegan stuðning frá "Sambandinu, eða u.þ.b. 64.milljónir Íslenskra króna (350.000 Bresk pund), en síðan hefur ekkert til hennar spurst.

Það má velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum "Sambandinu" þykir svo nauðsynlegt að styrkja hundaheilsulind, en málið versnar auðvitað þegar kemur í ljós að ekki sést af henni tangur né tetur.

Nokkur önnur ágætis dæmi eru tekin í þættinum.

Þáttinn má horfa á hér.

 


Hardtalk - Steingrímur J. Sigfússon á BBC

Fékk sendar slóðir á viðtalið sem var tekið við Steingrím J. Sigfússon í Hardtalk á BBC.  Ég vil hvetja alla til að horfa á viðtalið.  Ég þykist þess viss að það verða misjafnar skoðanir á frammistöðu Steingríms, enda gefur spyrjandinn honum ekki lausan tauminn, langt í frá.

En það er býsna margt sem ég hefði viljað sjá koma betur fram í þessu viðtali, en auðvitað er það hægara sagt en gert á 30 mínútum.

En það sem líklega vekur hvað mesta athygli í viðtalinu, og það ekki bara á Íslandi, er spurningarnar um afstöðu Steingríms/Íslendinga/Íslensku ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsaðildar. 

Líklegast er það einsdæmi að lykilráðherra og oddviti annars (af tveimur) stjórnarflokks, í ríkisstjórn sem ákveður að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sé andvígur aðild. 

Ég er ekki hissa þó að ýmsir innan Evrópusambandsins séu hugsi þessa dagana eftir að hafa horft á viðtalið.

En sjón er sögu ríkari.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband