Hin Íslenska hugsanalögregla.

Ég verð að segja að mér þykir það á margan hátt frekar ógeðfellt að lesa um að hópur Íslenskra kvenna hafi afhent lögreglu nafna og símnúmeralista yfir karlmenn sem höfðu hugsað um að fremja afbrot.

Ég segi höfðu hugsað um að fremja afbrot vegna þess að ef ég skyldi fréttina rétt, þá hafði ekkert afbrot átt sér stað, heldur höfðu mennirnar hugsað um og hugsanlega sýnt vilja til þess að kaupa þjónustu vændiskvenna.

En ekkert afbrot hafði verið framið.

Allri réttarhugsun um að einstaklingar séu saklausir uns sekt er sönnuð, eða að afbrot þurfi að hafa verið framið er kastað fyrir róða.  Þeir höfðu hugsað sér að fremja afbrot.

Mér þykir reyndar tilhugsun um "borgaralegar mílitíur" ekki skemmtileg framtíðarsýn og er reyndar hissa á því að Lögreglan á Íslandi sé orðin svo beygð að hún þori ekki að standa á móti slíkri þróun.

Hitt er svo einnig að auðvitað er sú löggjöf sem Alþingi samþykkti árið 2009 er stórskrýtin og meingölluð, en það er reyndar hlutur sem kemur minna á óvart í því árferði sem ríkir á Íslandi. 

Það að leyfilegt sé að selja það sem ekki má kaupa er ekki bara grátbroslegt, heldur í raun farsakennt.

Stærsta tekjulind skipulagðra glæpasamta á heimsvísu er talin vera fíkniefnasala.  Reynið nú eitt andartak að ímynda ykkur hvernig það gengi fyrir sig ef sala fíkniefna væri leyfð á Íslandi, en neysla þeirra bönnuð. 

Þar með er ekki sjálfsagt að leyfa eigi vændi á Íslandi, þó að ég eigi ekki von á því að það verði upprætt.  En það væri þá eðlilegast að banna bæði sölu og kaup.

Það er ekki rétt heldur að mínu mati að setja eins og oft tíðkast á Íslandi afdráttarlaust sama sem merki á milli mannsals og vændis, kláms eða nektardans. 

Það er sjálfsagt að berjast gegn mannsali, en það eru lög sem ná yfir það og þeim er sjálfsagt að beita af hörku.  Það er líka sjálfsagt að minnast á það að mannsal er langt í frá bundið við vændi eða klám.  Margt of hefur verið flett ofan af mannsali og þrælahaldi í tengslum við t.d. textíl og fataiðnað, byggingaiðnað,  veitingastaði og kakórækt.  Fleiri dæmi mætti tína til.  Það þýðir ekki að farið sé fram á það að farið sé fram á það að súkklulaði sé ólöglegt.

Þó að vændi sé löglegt í löndum s.s. Þýskalandi, Belgíu, Hollandi og Frakklandi, þýðir það ekki að löndin eða ríkistjórnir þeirra séu fylgjandi mannsali eða styðji það á nokkurn hátt.  Þvert á móti.

Síðan er það krafa "borgaralegu milítíunnar" að vefjum sé lokað og Lögreglan taki á auglýsingum sem "milítían" telur standa fyrir vændi á netinu og í dagblöðum. 

Ekki þekki ég vændislögin til hlýtar, en er það ekki svo að það sem má selja má auglýsa (nema auðvitað áfengi og sígarettur, sem auðvitað má rökræða um)?  Hvert er þá lögbrotið? 

Ef auglýst er "nudd" hvenær á þá lögreglan að grípa inn í?  Hvenær verður nuddið ólöglegt?  Þetta eru ekki auðveld mál viðureignar fyrir Lögregluna, og líklega má rökstyðja að kraftar hennar séu betur nýttir í annað.

Það er auðvelt að setja lög, það getur verið erfiðara að framfylgja þeim.  Ég man ekki eftir því að núverandi stjórnarflokkar hafi verið sérstakir talsmenn þess að stórauka fjárframlög til Lögreglunnar, þó að áhugi þeirra á lagasetningum um hin aðskiljanlegustu málefni sé vel þekktur.

P.S. Ekki rekur mig minni til þess að hafa nokkurs staðar séð því haldið fram að vændi á Íslandi hafi dregist saman síðan lögunum var breytt 2009, eða að lokun flestra "súlustaða" hafi haft þau áhrif. 

Þvert á móti heyri ég mikið talað um að vændi færist í vöxt á Íslandi.  Af hverju skyldi það vera?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Það er sjálfsagt að berjast gegn mannsali, en það eru lög sem ná yfir það og þeim er sjálfsagt að beita af hörku."  Nákvæmlega! Þessi aðgerð var einmitt út af því að þessum lögum hefur ekki verið beitt.  Lögreglan og yfirvöld horfa í hina áttina og framfylgja ekki lögum!

Ef löggan stæði sig í stykkinu fyndist fólki það ekki knúið til þess að taka málin í eigin hendur. Er eitthvað að því að tilkynna mál til lögreglu til rannsóknar?  Það er ekki eins og þetta hafi veri aftaka án dóms og laga, heldur ábending til lögreglu.  Það var enginn nafngreindur opinberlega og Stóra Systir gerði ekkert annað í málinu en að afhenda lögreglu gögn sem aflað hafði verið.

Ég dáist að því fólki sem hefur þor til þess að standa að þessum aðgerðum.  

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 22:25

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Er eitthvað sem bendir til þess að um mannsal hafi verið að ræða í þeim tilfellum sem hópurinn tilkynnti til Lögreglunnar?  Ég gat ekki séð það í fréttum.

Ég gat ekki heldur séð að nein afbrot hafi verið framin.  Kom það einhvers staðar fram?

G. Tómas Gunnarsson, 19.10.2011 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband