Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Góður sigur

Það var farið á fætur fyrir 7, til að missa nú örugglega ekki af Formúlunni sem hófst hér fyrir allar aldir, fín keppni.

Að sjálfsögðu ánægður með Ferrari sigur, hefði þó vissulega viljað sjá Raikkonen fara í 2. sætið og ná þannig efsta sætinu í keppni ökuþóra, en það verður ekki á allt kosið.

Það er síðan ekki hægt annað en að minnast á Hamilton, fantagóður akstur hjá honum og um leið tryggði hann sér sitt fyrsta met.  Fyrsti ökumaðurinn til að fara á pall í 3. sínum fyrstu keppnum.  Það er vissulega of snemmt að koma með stóra spádóma, en þarna gæti verið kominn fram ökumaðurinn sem á eftir að hirða metin af Schumacher í framtíðinni, alla vegna hefur hann tímann fyrir sér. 

Heidfield kom líka skemmtilega á óvart og það mætti segja mér að það hafi mörgum verið skemmt (og ekki) í Þýskalandi þegar BMWinn tók fram úr Mercedes (McLaren) Alonso.

Fín spenna í keppni ökumanna, Alonso, Raikkonen og Hamilton hnífjafnir.

Annars flaug mér í hug þegar ég var að horfa á "Múluna" í morgun, að það væri ákveðinn samhljómur á milli Formúlunnar og stjórnmála. 

Það er að segja að "allur pakkinn" verður að virka.  Ökumaðurinn, bíllinn, dekkin, vélin, bremsurnar, bílskúrsgengið og stjórnendurnir.

Allt og allir verða að vinna saman til þess að árangur náist.  Sömuleiðis í pólítíkinni.

Toyota og Honda sanna það svo, rétt eins og í stjórnmálunum að það er ekki nóg að eyða peningum til að ná árangri, það verður að byggja upp lið.

 

 


Að framleiða þiggjendur

Ég vil nú byrja á því að taka undir með þeim sem sagt hafa þessa frétt ruglingslega.  Við fyrsta lestur fær lesandinn það á tilfinninguna að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér að afnema skólaskyldu og gera foreldrum kleyft að kenna börnum sínum heima.

Þegar fréttin er lesin aftur og reynt að geta í eyðurnar fæst þá skilningur að hér sé verið að fjalla um leikskóla, eða dagheimili, en hvorugt þeirra orða er þó að finna í fréttinni.

En ég verð að segja að ég hef blendnar tilfinningar til þessarar tillögu.

Ég er reyndar ákaflega fylgjandi að því að foreldrar séu heima hjá börnum sínum fyrstu árin, ef það er mögulegt, það eru enda skiptar skoðanir um hversu hollt það er börnum að eyða of miklum tíma á dagvistarstofnunum og mismunandi niðurstöður rannsókna þess að lútandi.  Ég bloggaði einmitt um eina slíka fyrir stuttu.

En það er að sjálfsögðu ljóst að það þarf að bjóða upp á gott og fjölbreytt úrval dagvistunarkosta, slíkt er nauðsyn í nútíma þjóðfélagi.

Hitt er svo spurning í mínum huga hvort að einstaklingar sem af einhverjum ástæðum kjósa að nýta sér ekki þjónustu hins opinbera eigi rétt á því að fá að einhvern hluta, eða allan, þann kostnað sem hið opinbera hefði lagt út, hefði hann nýtt sér þjónustuna.

Persónulega finnst mér verið að leggja út á nokkuð hála braut, þar sem allir (sem eiga börn) eigi rétt á því að hið opinbera greiði ákveðna upphæð fyrir barnapössun, hvernig svo sem henni er háttað. 

Þetta er er ein byrtingarmynd af þeirri hyggju að gera alla að þiggjendum frá hinu opinbera.

En það eru vissulega rök með slíku fyrirkomulagi.  Þetta getur sparað hinu opinbera fjárhæðir í rekstri og uppbyggingu dagheimila og gert fleirum mögulegt að vera heima hjá börnum sínum.

Ég held að ég hugsi málið enn um sinn.


mbl.is Miklar umræður um skólamál á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilög þrenning?

Það er vissulega athygliverð framsetning að Samfylkingarmenn verði að leggja sig alla fram um að almenningur "kokgleypi boðskap hennar með góðu eða illu".  (Feitletrun er blogghöfundar.).

Það er líklega best fyrir landsmenn sem hafa ekki þegar móttekið "fagnaðarerindið", sem þegar síðast fréttist var ríflega 80% kosningabærra Íslendinga, að forðast  Samfylkingarfólk á næstu vikum.

Enn fremur verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að það færi betur á að fólk sem getur aðeins nefnt Ingibjörgu, Sólrúnu og Gísladóttur, sem ástæðu fyrir veru sinni í Samfylkingunni, stofnaði einfaldlega aðdáendaklúbb, nú eða sértrúarsöfnuð. 

 


mbl.is Ingibjörgu, Vigdísi og stofnendum Kvennalistans þakkað á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

Ég vil auðvitað byrja á því að óska Samfylkingunni til hamingju með hve vel þeim hefur tekist að ná valdi á fjármálunum, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand (að þeirra mati). 

Það er gott að fyrirtæki og einstaklingar á Íslandi hafa getað gaukað einhverju að flokknum, þrátt fyrir erfið ytri skilyrði sem þeim hafa verið búin á undanförnum árum, á því sést að hugsjónir eru ekki dauðar.

En þó að sundurliðað bókhald Samfylkingarinnar liggi sjálfsagt opið fyrir öllum þeim sem um sig kæra að glugga í það, verð ég viðurkenna að mér liggur það nokk í léttu rúmi hvaða fyrirtæki eða einstaklingar hafa gaukað að flokknum fé, það er þeirra mál.

Hitt hefði ég mikinn áhuga á að vita, bæði hvað varðar Samfylkinguna og aðra flokka, og þætti fengur í því ef fjölmiðlamenn tækju upp þá spurningu fyrir mig:

Hvað er hlutfall framlaga frá einstaklingum og fyrirtækjum til Samfylkingarinnar á móti framlögum ríkisins?

Ég held og vona að ég sé ekki einn um það að hafa áhyggjur af sívaxandi fjáraustri hins opinbera til stjórnmálaflokka.


mbl.is Afgangur af rekstri Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekning

Það er ekki bara pólitíkin sem virðist endurtaka sig í sífellu með smá blæbrigðum, blessuð Formúlan er nokkuð gjörn á það líka.

Staðan eftir þessa tímatöku er því sem næst eins á toppnum, nema að Hamilton og Alonso skipta um sæti, en hin liðin virðast ekki geta ógnað stöðu Ferrari og McLaren.  Færir minningarnar jafnvel aftur til áranna 1998 til 2000.

En hvað um það, ég vona auðvitað að Massa og Ferrari mönnum séu mistökin frá síðustu helgi í fersku minni og láti þau ekki endurtaka sig, heldur keyri fumlaust til sigurs. 

Krafan er auðvitað Ferrari í fyrsta og öðru sæti.

En líklegt er auðvitað að bensínmagn og þjónustuhlé ráði örlögum, nú sem oft áður. 

Slæmu fréttirnar eru auðvitað að þurfa að fara á fætur fyrir 7 á sunnudagsmorgni, en það er ekki í fyrsta sinn.


Alþingi fyrir Íslenskumenn?

Ég hef undanfarið bæði heyrt og lesið ýmsar vangaveltur um Íslenskukunnáttu frambjóðenda í næstu Alþingiskosningum.  Fyrst og fremst hafa þessar vangaveltur snúist um Íslenskukunnáttu Páls Nikulássonar (bara grín sem ég vona að Paul Nikolov taki ekki illa upp). 

Sömuleiðis hafa menn minnst á Grétu Maríu Ólafsdóttur (ég vona sömuleiðis að Grazyna María Okuniewska, fyrirgefi mér þennan slaka húmor).

En þau hafa bæði nokkra möguleika á að komast á þing, þó líklega frekar Páll, en afar líklegt verður að teljast að þau komi í það minnsta inn sem varaþingmenn á kjörtímabilinu.

Það er vitnað í viðtöl og einhver blaða eða blogskrif þar sem Íslenskan hefur víst stundum bögglast eitthvað fyrir þeim og þar fram eftir götunum.  Menn velta því fyrir sér hvort að túlkar þurfi að vera til taks í þingsölum fyrir "erlenda" Íslendinga og hvort að það sé boðlegt að þingmenn geti ekki mælt svo vel sé á Íslensku.

Persónulega finnst mér þessi málflutningur fyrir neðað allar hellur og velsæmi, að því slepptu að það má vissulega velta því fyrir sér að þingmenn eigi rétt á að kalla sér til túlk, ef þeim svo þykir.

Hitt er ljóst að þó að Paul og Grazynu kunni ef til vill að skjöplast aðeins á Íslenskri tungu, verða þau hvorki fyrstu né síðustu þingmennirnir sem við eigum eftir að heyra "misþyrma" Íslenskunni.

Sjálfur hef ég ekki hitt þessi þingmannsefni, en hef séð ýmislegt eftir þau á prenti og þau að málfræði og stafsetningu hafi stundum verið ábótavant, hef ég ekki verið í neinum vandræðum með að skilja hvað þau voru að segja og hver meining þeirra var.

Ef til vill hjálpar það að hafa búið erlendis og "misþyrmt" þarlendum tungum, hafa átt í erfiðleikum með merkingu og tvíræðni sumra orða og annað slíkt.

Paul Nikolov fengi ekki mitt atkvæði, mér sýnist að skoðanir hans og þess flokks sem hann hefur boðið sig fram fyrir falli afar sjaldan að mínum.  Það breytir því ekki að mér finnst hann sýna hugrekki með framboði sínu og kosningabaráttunni (og Alþingi) verður án efa akkur í því að rödd innflytjenda heyrist.  Sömu sögu er að segja af Grazynu, við eigum að fagna því að "þetta fólk" vill taka fullan þátt í þjóðfélaginu, í stjórnmálum jafnt sem öðrum störfum.

Það er fólk sem talar Íslensku eftir bestu getu, en ekki fullkomna, að störfum á Íslenskum sjúkrahúsum, elliheimilum, frystihúsum, verslunum, bakaríum, veitingahúsum, strætisvögnum og nánast alls staðar í þjóðfélaginu. 

Hví ekki Alþingi?

Ég endurtek að ég fagna þátttöku innflytjenda í Íslenskum stjórnmálum, það er ekkert áhyggjuefni.


Af ráðherraskipan - fréttaflutningi og hlýindum.

Stundum þegar "blogandinn" er ekki yfir mér, leggst ég í það að lesa blog annara, svona frekar en að gera eitthvað gagnlegt á heimilinu, alltaf gott að líta út fyrir að vera upptekin fyrir framan tölvuna.

Eitt af því sem fangaði athygli mína í dag, voru vangaveltur Björns Inga um hvort að Jón Sigurðsson væri fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar.  Eftir öðrum leiðum hef ég líka frétt að aðrir velti þessu fyrir sér eftir að hann tók að sér stefnumótunarvinnu fyrir flokkinn.

Vissulega gæti Samfylkingin (ef svo vildi til að hún verði í ríkisstjórn og fái fjármálaráðuneyti í sinn hlut) valið verri mann til starfans heldur en Jón Sigurðsson.  Það má líklega segja að það væri rökrétt skref á eftir þeirri fullyrðingu að Íslendingar treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar, að flestir ráðherrar flokksins kæmu utan hans.

Hitt er svo annað mál, að það er umdeilanlegt hversu mikil framför það væri að ráðherrar komi ekki úr hópi þingmanna.  Margir kvarta sáran um að það sé ekki hægt að vita um hvernig ríkisstjórn þeir séu að kjósa, þar sem flokkarnir gefi sig ekki upp fyrirfram.  Það bætir þá varla málið ef kjósendur hafa enga hugmynd úr hvaða hópi ráðherrar koma.

Því þó að aldrei sé vissa um hvaða þingmenn verða ráðherrar (það fer jú alltaf dulítið eftir því hvaða embætti viðkomandi flokkur fær) þá er nú nokkuð vitað hverjir helst koma til greina.  Ráðherrar þurfa þá líka að fara út í kjördæmin og falast eftir endurkjöri, en eru ekki einfaldlega ákveðnir í bakherbergjum (þau eru varla reykfyllt lengur, nú þegar alls staðar er búið að banna reykingar).

Annað sem vakti athygli mína á síðu Björns Inga var þessi frásögn hans af fréttaflutningi RUV.  Ef til vill ekki stórmál, en þó þess virði að vekja á þessu athygli.  Sjálfum hefur mér gjarna þótt vinstri slagsíða á Útvarpinu og hef ekki skilið þann málflutning að stofnunin sé í "heljargreipum" Sjálfstæðismanna.  

Skemmst er einnig að minnast umfjöllun um kosninguna í Hafnarfirði, en fáa hef ég heyrt sem telja að Útvarpið, né Íslenskir fjölmiðlar í heild hafi sýnt hlutleysinu mikla virðingu þar.

En það er vissulega erfitt að gera svo öllum líki.

Önnur vefsíða sem mér fannst verulega athygliverð er síða Ágústs Bjarnasonar, en þar fjallaði hann um kvikmyndir sem fjalla um yfirvofandi hlýnum jarðar og misjafnar skoðanir á því og þeim ástæðum sem fyrir því kunna að vera.

Fróðleg og skemmtileg síða, þar sem málefnin eru sett fram án allra öfga og upphrópana.

Ég hef ekki haft tíma til að horfa á myndirnar, en náði mér þó í torrent.

Svo var það reyndar síða sem ég sá í morgun og fjallaði um tölfræði í skoðanakönnunum, en ég gleymdi að taka niður slóðina eða nafn höfundar.  Sem aftur leiddi til þess að mér kom í hug að það vantar alfarið (eða þá að mér hefur yfirsést hann) möguleikann á því að leita að atriðisorðum hér á Moggablogginu. 

Væri ekki ráð að bæta þeim möguleika við?

Svona er bloggið orðið frétta og upplýsingaveita, auka þess að veita innsýn á sjónarhorn og skoðanir annara.


Hlunkur er þetta

Ég skrapp í "súpermarkaðinn" í dag, það vantaði vatn, egg, og ýmislegt smálegt.  Mér tókst líka að kaupa tvær bækur eða svo, en það sem vakti þó athygli mína var þessi gríðarlega skemmtilegi harðdiskur frá Western Digital.

Svona er þetta, ef maður leyfir sér að slaka á augnablik og fylgjast ekki með tækninýjungunum, þá stara þær allt í einu á mann úr "súpermarkaðs" hillunum.

1 terabæt, og verðið, 480 dollarar (án skatts auðvitað), sem gerir u.þ.b. 31.800 krónur (með skatti).  Ekki svo slæmt verð á megabætinu það.

Ég stillti mig þó alveg um að slengja hlunknum í innkaupakörfuna, þó að það sé eitthvað sem segi mér þegar ég sé svona hluti, að það sé einmitt það sem ég ætti að gera.

En ég á þó nokkuð land með að fylla 200Gb diskinn sem er í vélinni minni, ég er svo duglegur að flytja lítið notuð gögn yfir á DVD.  En samt, hversu "kúl" er það ekki að eiga 1. terabætis disk?


Spurningar og vangaveltur - 1. hluti

Það gerist eins og alltaf í aðdragenda kosninga að hjá mér vakna ýmsar spurningar og vangaveltur.  Það er um að gera að koma þeim hér inn, hverjum og einum er svo frálst að svara þeim ef hann kýs svo.

En það sem hefur komið upp í hugann núna, sem mér þætti gaman að og fengur í að fá svör er eftirfarandi:

1.  Hyggst Íslandshreyfingin beita sér fyrir því að hleypt verði úr Hálslóni ef hún kemst til áhrifa eftir kosningarnar í vor?  Nú gat ég ekki betur skilið þegar "Jöklugangan" fór niður Laugaveginn að það væri til þess sem Ómar Ragnarsson hyggðis hasla sér völl í pólitík.  Hefur þetta markmið breyst?

Telur Steingrímur J. Sigfússon þetta sömuleiðis hugsanlegan möguleika, eins og hann gaf undir fótinn með í sjónvarpsviðtali um svipað leyti?

2.  Eru Vinstri græn reiðubúin til að styðja aukinn einkarekstur í skóla og heilbrigðismálum (svo lengi sem ríkið borgar brúsann), eins og mér finnst gefið í skyn í athugasemd við þessa færslu mína?  Það væri vissulega fagnaðarefni.

Svo set ég vonandi fleiri spurningar inn fljótlega, allt eftir hvernig verkast til í höfðinu á mér.


Hvað eiga styrkirnir að heita

Ég verð að nefna það að það var hálf sorglegt að horfa á kosningafund RUV frá Selfossi, þar sem fjallað var um landbúnaðarmál.

Fulltrúar allra flokka voru sammála um að halda styrkjum til bænda óbreyttum eða auka þá.  Það var aðeins rifist um hvað styrkirnir ættu að heita.

Að vissu marki er þó stjórnmálamönnunum vorkunn, það er engu líkara en svona vilji Íslendingar hafa það.  Svo vissir virðast þeir vera um að Íslenskar landbúnaðarafurðir beri af öllum öðrum, svo vissir að þetta sé eina rétta leiðin.

Ég bara skil þetta ekki.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband