Alþingi fyrir Íslenskumenn?

Ég hef undanfarið bæði heyrt og lesið ýmsar vangaveltur um Íslenskukunnáttu frambjóðenda í næstu Alþingiskosningum.  Fyrst og fremst hafa þessar vangaveltur snúist um Íslenskukunnáttu Páls Nikulássonar (bara grín sem ég vona að Paul Nikolov taki ekki illa upp). 

Sömuleiðis hafa menn minnst á Grétu Maríu Ólafsdóttur (ég vona sömuleiðis að Grazyna María Okuniewska, fyrirgefi mér þennan slaka húmor).

En þau hafa bæði nokkra möguleika á að komast á þing, þó líklega frekar Páll, en afar líklegt verður að teljast að þau komi í það minnsta inn sem varaþingmenn á kjörtímabilinu.

Það er vitnað í viðtöl og einhver blaða eða blogskrif þar sem Íslenskan hefur víst stundum bögglast eitthvað fyrir þeim og þar fram eftir götunum.  Menn velta því fyrir sér hvort að túlkar þurfi að vera til taks í þingsölum fyrir "erlenda" Íslendinga og hvort að það sé boðlegt að þingmenn geti ekki mælt svo vel sé á Íslensku.

Persónulega finnst mér þessi málflutningur fyrir neðað allar hellur og velsæmi, að því slepptu að það má vissulega velta því fyrir sér að þingmenn eigi rétt á að kalla sér til túlk, ef þeim svo þykir.

Hitt er ljóst að þó að Paul og Grazynu kunni ef til vill að skjöplast aðeins á Íslenskri tungu, verða þau hvorki fyrstu né síðustu þingmennirnir sem við eigum eftir að heyra "misþyrma" Íslenskunni.

Sjálfur hef ég ekki hitt þessi þingmannsefni, en hef séð ýmislegt eftir þau á prenti og þau að málfræði og stafsetningu hafi stundum verið ábótavant, hef ég ekki verið í neinum vandræðum með að skilja hvað þau voru að segja og hver meining þeirra var.

Ef til vill hjálpar það að hafa búið erlendis og "misþyrmt" þarlendum tungum, hafa átt í erfiðleikum með merkingu og tvíræðni sumra orða og annað slíkt.

Paul Nikolov fengi ekki mitt atkvæði, mér sýnist að skoðanir hans og þess flokks sem hann hefur boðið sig fram fyrir falli afar sjaldan að mínum.  Það breytir því ekki að mér finnst hann sýna hugrekki með framboði sínu og kosningabaráttunni (og Alþingi) verður án efa akkur í því að rödd innflytjenda heyrist.  Sömu sögu er að segja af Grazynu, við eigum að fagna því að "þetta fólk" vill taka fullan þátt í þjóðfélaginu, í stjórnmálum jafnt sem öðrum störfum.

Það er fólk sem talar Íslensku eftir bestu getu, en ekki fullkomna, að störfum á Íslenskum sjúkrahúsum, elliheimilum, frystihúsum, verslunum, bakaríum, veitingahúsum, strætisvögnum og nánast alls staðar í þjóðfélaginu. 

Hví ekki Alþingi?

Ég endurtek að ég fagna þátttöku innflytjenda í Íslenskum stjórnmálum, það er ekkert áhyggjuefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband