Af ráðherraskipan - fréttaflutningi og hlýindum.

Stundum þegar "blogandinn" er ekki yfir mér, leggst ég í það að lesa blog annara, svona frekar en að gera eitthvað gagnlegt á heimilinu, alltaf gott að líta út fyrir að vera upptekin fyrir framan tölvuna.

Eitt af því sem fangaði athygli mína í dag, voru vangaveltur Björns Inga um hvort að Jón Sigurðsson væri fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar.  Eftir öðrum leiðum hef ég líka frétt að aðrir velti þessu fyrir sér eftir að hann tók að sér stefnumótunarvinnu fyrir flokkinn.

Vissulega gæti Samfylkingin (ef svo vildi til að hún verði í ríkisstjórn og fái fjármálaráðuneyti í sinn hlut) valið verri mann til starfans heldur en Jón Sigurðsson.  Það má líklega segja að það væri rökrétt skref á eftir þeirri fullyrðingu að Íslendingar treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar, að flestir ráðherrar flokksins kæmu utan hans.

Hitt er svo annað mál, að það er umdeilanlegt hversu mikil framför það væri að ráðherrar komi ekki úr hópi þingmanna.  Margir kvarta sáran um að það sé ekki hægt að vita um hvernig ríkisstjórn þeir séu að kjósa, þar sem flokkarnir gefi sig ekki upp fyrirfram.  Það bætir þá varla málið ef kjósendur hafa enga hugmynd úr hvaða hópi ráðherrar koma.

Því þó að aldrei sé vissa um hvaða þingmenn verða ráðherrar (það fer jú alltaf dulítið eftir því hvaða embætti viðkomandi flokkur fær) þá er nú nokkuð vitað hverjir helst koma til greina.  Ráðherrar þurfa þá líka að fara út í kjördæmin og falast eftir endurkjöri, en eru ekki einfaldlega ákveðnir í bakherbergjum (þau eru varla reykfyllt lengur, nú þegar alls staðar er búið að banna reykingar).

Annað sem vakti athygli mína á síðu Björns Inga var þessi frásögn hans af fréttaflutningi RUV.  Ef til vill ekki stórmál, en þó þess virði að vekja á þessu athygli.  Sjálfum hefur mér gjarna þótt vinstri slagsíða á Útvarpinu og hef ekki skilið þann málflutning að stofnunin sé í "heljargreipum" Sjálfstæðismanna.  

Skemmst er einnig að minnast umfjöllun um kosninguna í Hafnarfirði, en fáa hef ég heyrt sem telja að Útvarpið, né Íslenskir fjölmiðlar í heild hafi sýnt hlutleysinu mikla virðingu þar.

En það er vissulega erfitt að gera svo öllum líki.

Önnur vefsíða sem mér fannst verulega athygliverð er síða Ágústs Bjarnasonar, en þar fjallaði hann um kvikmyndir sem fjalla um yfirvofandi hlýnum jarðar og misjafnar skoðanir á því og þeim ástæðum sem fyrir því kunna að vera.

Fróðleg og skemmtileg síða, þar sem málefnin eru sett fram án allra öfga og upphrópana.

Ég hef ekki haft tíma til að horfa á myndirnar, en náði mér þó í torrent.

Svo var það reyndar síða sem ég sá í morgun og fjallaði um tölfræði í skoðanakönnunum, en ég gleymdi að taka niður slóðina eða nafn höfundar.  Sem aftur leiddi til þess að mér kom í hug að það vantar alfarið (eða þá að mér hefur yfirsést hann) möguleikann á því að leita að atriðisorðum hér á Moggablogginu. 

Væri ekki ráð að bæta þeim möguleika við?

Svona er bloggið orðið frétta og upplýsingaveita, auka þess að veita innsýn á sjónarhorn og skoðanir annara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Þessi pistill fjallaði um tölfræði í skoðanakönnunum, vikmörk og svoleiðis.

Pétur Þorleifsson , 13.4.2007 kl. 13:29

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Menn ættu fyrst að vera bankastjórar og siðan fjármálaráðherrar en ekki öfugt.

Júlíus Valsson, 13.4.2007 kl. 15:00

3 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

hvernig er spurt er lika athyglisvert það er stundum spurt leiðandi spurninga

Jón Aðalsteinn Jónsson, 13.4.2007 kl. 16:09

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Maður sér stundum Bloggsíður sem manni langar til að kíkja á aftur En týnir þeim og engin listi til að finna þær aftur. Þeir hljóta að geta lagað þetta

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 13.4.2007 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband