Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Örstutt hugleiðing um innflytjendamál

Það hefur sést nokkuð oft á prenti og heyrst í orðræðu að innflytjendur hafi haldið niðri launum á Íslenskum vinnumarkaði.  Aðrar og hófsamari raddir segja að þeir hafi verið að fylla störf sem ekki var hægt að manna.

En ef innflytjendur hafa haldið niðri launum á Íslandi, má þá ekki með sömu rökum segja að stöðugur straumur fólks af landsbyggðinni hafi haldið niðri launum höfuðborgarsvæðinu?

Hræðilegt, ekki satt?

Fólksfækkun yrði þá að sama skapi umtalsverð kjarabót.

Ég verð að segja að það er eiginlega ekki á frjálslynt fólk leggjandi að hlusta á svona málflutning.


Af olíuhreinsun

Ég verð að viðurkenna að mér kom nokkuð á óvart sú hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, en finnst þó fráleitt að henda þeirri hugmynd frá borði án þess að fá allar staðreyndir og upplýsingar upp á borð.

Þar væri lægi líklega beinast við að leita til Norðmanna, fá upplýsingar hjá þeim hvernig þeir hafa staðið að uppbyggingu á sínum hreinsistöðvum, hvernig framþróun hefur verið í hönnun slíkra hreinsistöðva, hversu mikil mengun er frá slíkum stöðvum, hvers eðlis sú mengun er og þar fram eftir götunum.

Það má til sanns vegar færa að aukin umferð olíuskipa hlýtur að auka hættuna á mengunarslysi.

Það er þó einnig ljóst að það er afar líklegt að umferð olíuskipa nálægt Íslandi geri ekkert nema að aukast á næstu árum.  Olíuframleiðsla í Rússlandi á án efa eftir að aukast á næstu árum og áratugum og ekki telst óeðlilegt að þó nokkur hluti þeirra framleiðslu verði fluttur vestur um haf.

En í fyrstu koma upp 2. spurningar sem ég velti nokkuð fyrir mér.

Sú fyrri er sú hvort að alþjóðalög veiti Íslendingum nokkra heimild til að banna slíkum olíuskipum að sigla á milli Íslands og Grænlands?  (það er að segja í lögsögu Íslands).  Ef svo er ekki eykst hættan líklega ekki svo mikið þó að skipin stoppi á Vestfjörðum.

Hin spurningin sem kom upp í hugann, er sú hver er ávinningur eigandanna af því að reisa slíka olíuhreinsunarstöð á Íslandi?  Nú hefur komið fram í fréttum að starfsemin sé ekki orkufrek, þannig að varla er þá verið að sækjast eftir ódýrri og öruggri orku.  Laun á Íslandi eru margföld á við það sem gerist í Rússlandi, þannig að ekki er ódýrara að reka verksmiðjuna á Íslandi en þar.  Þekking á slíkum rekstri (og vant starfsfólk) hlýtur sömuleiðis að vera mun algengari bæði í Rússlandi og Vestanhafs.

Hvers vegna ekki að hreinsa olíuna í Rússlandi, eða á áfangastað Vestanhafs?  Hver er ávinningurinn af því að hreinsa olíuna á Íslandi?

Ég verð að viðurkenna að ég sé hann ekki í fljótu bragði.


Vorkoman að Bjórá

Það er engu líkara en að veðurfarið hér í Kanada hafi ákveðið að fylgja hinni Íslensku hefð og láta sumarið byrja á morgun (fimmtudag).  Hér brast á með sólskini og hlýindum í dag eftir frekar kalda og hægfara vorkomu hingað til.

Vorkoma hér er nokkurt upplifelsi fyrir nábleikan Íslending eins og mig, sem nú fagnar henni í fyrsta sinni í eigin garði.  Það sem einna helst vekur athygli er allt lífið sem flögrar og hleypur hér um.  Fjórar tegundir íkorna, svartir, gráir, brúnir og jarðíkornar,   klifra upp um tré og rafmagnsstaura og éta blómlaukana í garðinum (nokkuð sem er partur og "prógramminu" og verður að sætta sig við), í ljósaskiptunum má sjá þvottabirni ef heppnin er með, en á minna lukkulegum dögum velta þeir um ruslatunnunni í leit að æti.

Mýgrútur flýgur og vappar hér um í leit að æti.  Það sem helst veku athygli Íslendingsins er að þeir eru ekki allir móbrúnir eða gráir, heldur sjást hér rauðir fuglar, þ.e. kardínálar, bláir fuglar, Blue Jays, og gular finkur sjást stöku sinnum.

Sé útivistarsvæðin heimsótt, eru nokkrar líkur á því að sjá skjaldbökur og froska, auk hefðbundnari tegunda eins og svani og gæsir.  Einsaka sinnum hef ég verið svo heppinn að rekast á snáka.

En blessaðri vorkomunni fylgja líka vorannirnar, það þarf að hlúa að blessuðum gróðrinum.  Undanfarna daga höfum við grafið og fært til plöntur, hlúð að kirsuberjatrénu (sem fuglarnir átu öll berin af í fyrra), fært til myntuna, snyrt í kringum hindberjarunnana, og hreinsað í kringum ótal plöntur sem ég kann ekki nöfnin á.

Síðan á á planta um helgin, gulrótum, tómötum hugsanlega kartöflum og eitthvað var verið að ræða um vínvið og bláberjarunna sömuleiðis.

Um allt þetta veit ég næsta lítið, telst líklega frekar hafa gráar hendur en grænar (svo nýtísku flokkanir séu notaðar) en hlýði yfirgripsmikilli og öruggri leiðsögn konunnar í þessum efnum.  Hún þekkir þetta út og inn, enda alin upp í sósíalísku skipulagi, þar sem öruggara var að rækta sitt eigið grænmeti en að treysta á framboðið í verslunum "alþýðunnar".

Þetta garðadútl leysir líka úr brýnni þörf Foringjans til að þess að komast í snertingu við mold og drullu, og fer hann þreyttur og ánægður að sofa á eftir.

Þannig að ef börnin verða drullug og ánægð og eitthvað ætilegt hefst af erfiðinu, er tímanum líklega nokkuð vel varið.

Hér er líklega við hæfi að óska þeim sem lesa gleðilegs sumars, og þakka þeim sem við höfum haft samskipti við fyrir veturinn.


Örstutt hugleiðing um kvóta og framsal

Mér finnst það örlítið merkilegt hvað margir eru ósáttir við að litið sé á "óveiddan fiskinn í sjónum" sem eign og hann seldur og veðsettur, þegar það er nákvæmlega það sama og viðgengist hefur til sveita í áratugi ef ekki hundruði?

Spakmæli dagsins - kosningar í nánd.

Þetta "snilldarkvót" vakti athygli mína í dag, og þar sem svo stutt er til kosninga á Íslandi ákvað ég að það væri vel þess virði að deila þessum með þeim sem berja þessa blogsíðu augum.

"You´ve got to be honest, if you can fake that, you´ve got it made."

                                               George Burns

Það gerist ekki heiðarlegra en þetta, eða hvað?


3.2 billjónir kílómetra af rótum?

Það er að Bjórá eins og svo víða að hingað berst umtalsverður "ruslpóstur".  Oft bölva ég kamínuleysi heimilisins, en þetta fer flest ólesið beint í bláa endurvinnslukassann.  En stundum tek ég þó eftir einni setningu, eða einu slagorði.  Það gerðist í morgun og fær þessi auglýsing því að fljóta hingað inn, því mér þótti skringilega og skemmtilegt sjónarhorn dregið fram þar.

En auglýsingin var sem hér segir:

"Your lawn has over 2 billion miles of roots.  Do you want to take care of all that?

GreenLawn does."

Eða snarað yfir á Íslenskuna:

"Á lóðinni þinni eru ríflega 3.2 billjónir kílometra af rótum.  Vilt þú þurfa að að hugsa um þá alla?

GrænaLóðin geri það."

Ekki hef ég áður hugsað um hve mikið og óeigingjarnt starf ég inni af hendi í garðinum, en það er ekki að undra þó að ég sé gjarna hálf þreyttur eftir það.

Þetta er klassa auglýsingamennska, en bæklingurinn er samt sem áður á leiðina í endurvinnsluna, án þess að hringt hafi verið í fyrirtækið.


Athyglivert framtak - Kolviðarhól

Aukin skógrækt er vissulega af hinu góða, og ég væri alveg reiðubúinn til að leggja þessu máli lið, þó að ég hafi mínar efasemdir um ástæður hlýinda á jörðinni, en það er önnur saga. 

Það er líka hvorutveggja prýði að trjám sem og eins og kemur fram þá binda þau kolefni og gefa frá sér súrefni og bæta því andrúmsloftið. 

En eitt skil ég þó ekki alveg í PDF skjalinu sem fylgir með fréttinni.  Það er að það þurfi að planta 7 milljónum trjáa árlega og að hver bílstjóri þyrfti að gefa (sem þumalputtaregla) sem samsvaraði andvirði einnar tankfyllingar.

Nú myndi ég þyggja frekari útskýringar, því ég hélt einfeldni minni að trén "ynnu" fyrir okkur ár eftir ár, og raunar ykist "vinnuframlag" þeirra eftir því sem þau yrðu stærri.

Það sem ég hefði áhuga á að vita er hvað þarf mörg "meðaltré" til að "dekka" einn "meðalbíl" sem er ekið t.d. 20.000km á ári?

Þess utan velti ég svo auðvitað fyrir mér hvað ég "kemst langt" á risastóra silfurhlyninum sem prýðir bakgarðinn hjá mér, og skilar ekki aðeins sínu í kolfefnisbindingu, heldur býr til þægilegan skugga í garðinum og skýlir húsinu að hluta til fyrir sólinni og sparar þannig drjúgar fjárhæðir í loftkælingu.  En það er líklega ekki svo einfalt að reikna það út.


mbl.is Umhverfisverkefninu Kolviði hleypt af stokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Put The Money Where Your....

Miðað við fréttir helgarinnar reikna ég með því að "launaleynd" hafi verið aflétt hjá Glitni á mánudagsmorgun.

Er varla að efa að laun starfsmanna hefur verið aðalumræðuefnið í matar og kaffitímum.


Af hundum, innflytjendum, nautgripum og meintu frjálslyndi

Ég fékk sendan í tölvupósti í gær hlekk á grein sem er hér á Moggablogginu, en virðist hafa verið ætluð til birtingar í Morgunblaðinu.  Kunningi minn sagðist hafa rekist á hlekk á viðkomand grein á bloggsíðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, en þar er verið að hneykslast á því að að Morgunblaðið hafi ekki birt viðkomandi grein, á Magnúsi má helst skilja að það sé aðför að tjáningarfrelsinu.

Greinin er eftir Halldór Jónsson, verkfræðing, sem ég þekki ekki nein frekari deili á.

Ég fór og las viðkomandi grein og þó að greinin sé ágætlega skrifuð þá var þar eitt og annað vakti hjá mér hálfgerðan hroll.  Eftirfarandi klausa stendur þar upp úr:

"Vilji maður flytja hund til landsins er hann settur í einangrun úti í Hrísey til langtíma. Það má ekki flytja beljukyn til landsins sem mjólkar meira. Það má ekki flytja inn arabíska stóðhesta, eða setja sænskar geddur í Þingvallavatn. En það eru engin takmörk fyrir því hversu margir eða hvers konar útlendingar mega flytjast hingað."

Einhvern veginn get ég ekki skilið þetta öðruvísi en að höfundi þyki það miður að innflytjendur fái á Íslandi betri og vægari meðferð en hundar, og að meiri andspyrna sé við innflutningi hesta og nautgripa en komu útlendinga, sem honum þyki miður.

Það má hrósa Halldóri fyrir það að hann fer ekki í neinar felur með það "hvaðan" hann kemur, eða hvaða skoðanir hann aðhyllist, í næstu málsgrein segir:

"Við gömlu rasistarnir úr Norðurmýrinni, sem lifðum í áþvinguðu fjölmenningarsamfélagi styrjaldaráranna, vorum heimagangar hjá Kananum, vorum með hor í nefinu og töluðum ensku fyrir átta ára aldur, erum orðnir þegnar í íslenzku fjölmenningarsamfélagi, sem einhverjir eru að skapa án þess að við værum spurðir. Vorum við þó með talsverða reynslu."

Fyrir neðan má svo lesa athugasemdir frá ýmsum aðilum, þar á meðal frambjóðendum Frjálslynda flokksins, þar sem þeir hrósa greininni.  Hvet ég alla til að lesa það sem og greinina alla.

Hér má finna greinina, og hér blog Magnúsar sem vísað er í hér að ofan.

Ég trúi á tjáningarfrelsið og er alfarið á móti því að nokkrar skoðanir séu bannaðar, það leysir engan vanda.  Ég myndi þó vilja benda Frjálslyndum á það að tjáningarfrelsið stendur ekki og fellur með Morgunblaðinu og mér þykir það eðlilegt að það blað, rétt eins og aðrir fjölmiðlar sem vandir eru að virðingu sinni, setji sér mörk um það hvað þeir birta í blaðinu, við það er ekkert óeðlilegt og hvorki atlaga að tjáningarfrelsi né þöggun.

Ég velti því líka líka þegar ég les skoðanir sumra Frjálslyndra hver staða mín og fjölskyldu minnar yrði á Íslandi, ef þeir komast til valda á Íslandi og byrja að framkvæma stefnu sína.

Nú hef ég búið erlendis um nokkurt skeið, hef ég ekki komið til Íslands í á annað ár, þyrfti ég að skila heilbrigðisvottorði fyrir mig og fjölskyldu mína ef við hyggðumst flytja til Íslands, eða eru það bara útlendingar sem eru smithætta?

Hyggjast Frjálslyndir rifta milliríkjasamningum sem Ísland hefur við mörg ríki um að þegnar þeirra þurfi ekki vegabréfsáritanir til Ísland, þegar þeir koma sem ferðamenn (og geta dvalið á Íslandi allt að 3. mánuðum án sérstakrar áritunar).  Munu þeir krefjast heilbrigðisvottorða af ferðamönnum?  Eða er smithætta einungis fyrir hendi ef viðkomandi útlendingur ætlar að vinna eða setjast að á Íslandi?

Auðvitað er sjálfsagt að ræða málefni innflytjenda og útlendinga á Íslandi, enda hefur það verið gert, er gert og mun verða gert.  Persónulega kysi ég að sú umræða færi fram á öðrum nótum en gert er í þeirri grein sem ég vitna í hér að ofan, sömuleiðis finnst mér málflutningur Frjálslyndra oft vera farinn yfir strikið, ýta undir fordóma og hræðslu gagnvart útlendingum og innflytjendum.

Því miður virðist slíkur málflutningur eiga nokkurn hljómgrunn á meðal Íslendinga, þessi könnun gefur í það minnsta ekki ástæðu til sérstakrar bjartsýni.


Silfrið

Var að enda við að horfa á Silfrið frá því í gær. 

Fínn þáttur, gott viðtal við Geir, eins og við var að búast stóð hann sig vel, sömuleiðis hafði ég gaman af umræðunum í Vettvangi dagsins.  Þar var farið útfyrir hinn hefðbundna "viðmælendahóp" og gafst vel að mínu mati.  Ef eitthvað var fannst mér  frammistaða "atvinnustjórnmálamannsins", Margrétar Sverrisdóttur þar einna síst.

Síðan kom Ingibjörg Sólrún mér skemmtilega á óvart, viðtalið við hana sýndi hana í betra formi en mér finnst ég hafa séð hana í lengi.  Léttara yfirbragð heldur en oft áður og gott "rennsli".

Ef ég ætti að ráðleggja henni eitthvað (ekki það að ég reikni með að mín ráð séu tekin alvarlega), myndi ég ráðleggja henni að kveða kröftuglega niður þennan "fórnarlambsstimpil" sem Egill og býsna margir stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru að reyna að koma á hana.

Ég hef ekki trú á því að kjósendur hafi áhuga á því að flykkja sér um "fórnarlamb".

Lang sísti hluti þáttarins fannst mér síðan viðtalið við formenn norrænu jafnaðarmannaflokkanna, það fór aldrei á flug og nákvæmlega ekkert kom þar fram nema endurtekning á tiltölulega innihaldslitlum frösum.

En ég hlakka til þáttanna fram að kosningum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband