Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

5% lántökugjöld

Það vakti nokkra athygli að í Kastljósþætti þar sem þeir voru Ögmundur Jónasson og Sigurjón Landsbankastjóri, að Ögmundur talaði um að bankar á Íslandi væru að bjóða viðskiptavinum sínum upp á 5% lántökugjöld.

Sjálfur hef ég aldrei heyrt talað um svo há lántökugjöld, en get auðvitað engan veginn fullyrt að slíkt sé ekki í gangi.  En auðvitað eru lántökugjöld ekkert annað en nokkurs konar forvextir og verulega íþyngjandi sem slík, en það má vera millivegur frá 1 eða 1.5% og upp í 5.

Ögmundur hefur verið gagnrýndur nokku fyrir þessar fullyrðingar sínar, en á heimasíðu hans má nú lesa eftirfarandi:

"Hver sem skýringin er þá eru vaxtakjör hér á landi lántakendum óhagstæð með afbrigðum og er ég þar að vísa í annað og meira en það sem þó skást gerist eins og húsnæðislánin. Í Kastljósþætti í í síðustu (sjá að neðan) viku staðhæfði ég að ég þekkti til þess að fyrirtækjum væri boðin lán (í þessu tilviki í kringum hundrað milljónir, með veði, á 8/9 % vöxtum, 5 % lántökugjaldi og 5% uppgreiðslugjaldi. Því miður get ég hvorki greint frá því hver lántakandinn er né lánveitandinn (tilboð á þessum kjörum kom úr fleiri en einni átt) því ég er bundinn trúnaði – en gögnin hef ég undir höndum. "

Sjá hér.

Það er auðvelt að skilja að viðkomandi lántaki vilji ekki að nafn hans komi fram, en það ætti að vera auðvelt fyrir Ögmund að birta nafn lánastofnunarinnar, og birta afrit af tilboðum, eða skuldabréfum þar sem búið að er má upplýsingar um lántakandann út.

Þangað til gögnin eru sýnd eða einhver stígur fram og getur sýnt fram á að honum hafi verið boðin lánafyrirgreiðsla með 5% lántökugjaldi, er þetta eins og hver önnur óstaðfest kjaftasaga.  Sem er eitthvað sem alþingismenn hljóta að forðast að "höndla" með.

Það er því óskandi að Ögmundur birti gögnin.


Engin fyrirsögn, ekkert "sándbæt"

Ég hef hreinlega ekki rekist á neinar fordæmingar á þessari aftöku, þær hafa þó vonandi verið einhverjar, þó að ég hafi ekki rekist á þær.

Það er sláandi að bera þetta saman við aftökuna á Saddam Hussein. 

Hér er einstaklingur tekinn af lífi, hann ekki fyrrverandi þjóðarleiðtogi, hann ber ábyrgð á dauða 11 einstaklinga.  Hann er tekinn af lífi opinberlega, allir þeir sem kæra sig um geta horft á dauðastríð hans.

Aftakan er tekinn upp á myndband og sýnd í sjónvarpi.

Hvar eru allir stjórnmálaleiðtogarnir og ríkisstjórnirnar sem fordæmdu aftökuna á Saddam?  Hvar eru þeir sem vart máttu vatni halda yfir því að einhver hefði náð að taka upp þá aftöku og dreifa henni um netið?

En það fást líklega engar fyrirsagnir og engin "sándbæt" fyrir að fordæma aftöku á óbreyttum Írönskum andspyrnu/hryðjuverkamanni.

Ég sagði þegar ég bloggaði um aftökuna á Saddam að ég væri "almennt séð" á móti dauðarefsingum, en treysti mér ekki til að fordæma þær skilyrðislaust.

En Nasrollah Shanbe Zehi  (eins og svo margir sem eru teknir af lífi á hverju ári) vekur hjá mér meiri samúð en Saddam Hussein. 


mbl.is Sprengjumaður hengdur fyrir allra augum í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bollulaus dagur

Sökum minnar alkunnu leti var enginn bolludagur hér að Bjórá í dag.  Þar sem hér í borg er ekki boðið upp á neinar bollur, og þar sem ég nennti ekki að baka, þá var hér bollulaust.  Ég kemst reyndar nokkuð "ódýrt" frá þeirri leti þar sem ég er sá eini á heimilinu sem þekkir þessa hefð, svona upp á Íslenskan máta.  Foringinn hefði ábyggilega krafist þess að fá bollu, eða alla vegna eclair, hefði hann þekkt hefðina.

Það sama verður upp á teningnum á morgun, hér verður ekkert saltkjet.  Saltkjet hef ég enda aldrei séð hér í verslunum.

Til að bæta mér og fjölskyldunni þetta aðeins upp steikti ég svínabóg og hafði í kvöldmatinn.  Stóran bóg með brakandi puru, sem ég reyndar sit einn að, þar sem enginn annar í fjölskyldunni finnst steikt svínskinn gott. 

Öskudagur þekkist ekki heldur, þannig að ekki get ég gert Foringjann út í búning til að verða okkur feðgum út um sælgæti á miðvikudaginn. 

En hann er heldur ekki mjög lúnkinn í söngnum.


Þekkingariðnaðurinn

Það er alltaf ánægjulegt að lesa fréttir sem þessa, og þær hafa verið nokkrar í þessum dúr á undanförnum misserum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þegar Íslendingar fara í samstarf við vanþróuð lönd líkt og Djíbútí.  Þar veitir ekki af orku, og auðvitað sérstaklega ánægjulegt ef þeir geta, líkt og Íslendingar, nýtt endurnýjanlega orkugjafa.  Það er því miður oft að það er í löndum sem Djíbútí sem mengunin er hvað hlutfallslega mest.

En það væri líklega margt verr til fundið hjá Íslendingum, en að stefna á því að setja stærstan hluta þróunaraðstoðar sinnar í þennan farveg, aðstoða vanþróuð ríki til að nýta vistvæna orku, þar sem það á við.

Það vill oft gleymast í umræðunni, að orkuöflun er hátækni og þekkingariðnaður.  Líklega sá hátækniiðnaður sem Íslendingar standa hvað best í.  Það er því gráupplagt að notfæra sér þá áratuga reynslu og þekkingu sem hefur byggst upp á Íslandi, bæði innanlands og utan.

Til hvers orkan er svo nýtt er annar handleggur.  Vissulega væri æskilegt að dreifa áhættunni og vera ekki með of stóran part orkusölunnar til stóriðju.  Það væri líka afar jákvætt er hægt væri að fá til Íslands orkufrek fyrirtæki sem starfa í tæknigeiranum og menga lítið sem ekkert.

En það verður líka að líta á það að mér vitanlega hefur ekki komið ein einast alvöru eftirleitan frá öðrum en stóriðjufyrirtækjum um stór kaup á Íslenskri orku.

Máltækið segir að betri sé einn fugl í hendi, en tveir úti í skógi.  Það ættu gamlir Alþýðuflokksmenn að muna, enda barðist Iðnaðarráðherra fyrrverandi, Jón Sigurðsson, langri baráttu til að fá til Íslands álver, en hafði ekki erindi sem erfiði. 

Baráttan og vonin ein skila ekki miklu í þjóðarbúið.


mbl.is OR rannsakar jarðhita í Djíbútí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandskynning

Í gær var hin árlega Íslandskynning Íslendingaklúbbsins hér í Toronto.  Þá reynum við eftir fremsta megni að kynna Ísland og ferðamöguleika til Íslands bæði fyrir klúbbmeðlimum og öðrum áhugasömum.

Þar sem konsúlinn sem venjulega ber hitann og þungan af kynningunni er fjarverandi, þá hafði ég tekið að mér að stjórna kynningunni og undirbúa það sem henni hafði ekki tekist á klára.

Þó að við hefðum alveg mátt við meiri aðsókn, það voru ekki nema á milli 40 og 50 manns á kynningunni, þá gekk þetta allt saman bærilega. 

Comfortable Hiking Holydays,  kynntu sína ferð, fulltrúi frá Sambandi sykursjúkra hér í Canada flutti einnig stuttan fyrirlestur, en sambandið hefur staðið fyrir ferð til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í nokkur undanfarin ár og gerir það sömuleiðis í ár.  Loks voru tveir klúbbmeðlimir  með stuttar kynningar, annars vegar um Íslenskunám á vegum Stofnunar Sigurðar Nordal og hinsvegar um sjálfskipulagða ferð sem farin hafði verið síðasta sumar.

Þetta var býsna líflegt og spurningar og umræður fjörugar.  Það sem virðist stand uppúr þegar upplifanir ferðalanganna eru metnar, eru fyrir utan náttúruna, maturinn og verðlagið.

Verðlagið er endalaus uppspretta vangavelta og undrunar.

Ég spurði flesta sem ég spjallaði við hvort að þeir hefðu eitthvað heyrt um hvalveiðar Íslendinga eða Kárahnjúkavirkjun.  Það kom mér ofurlítið á óvart, en þetta hafði ekki verið í umræðunni, og fæstir heyrt nokkuð um þetta talað. 

Einn ferðalangurinn hafði reyndar orð á því að hvalkjötið væri ekki gott.

 


Hálfkveðnar "vísur"

Hún er bæði ógnvænleg og spaugileg nýjasta færsla Össurar Skarphéðinssonar á blogg hans.

 Færslan endar á orðunum:

"– og guð forði bönkunum frá því að gera annaðhvort mig eða Jóhönnu Sigurðardóttur að arftaka Árna Matt."

Þetta er látið hanga í lausu lofti, en spurningin sem hlýtur að vakna er sú:

Hvað ætla Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir að "gera bönkunum" ef þau komast í stól fjármálaráðherra?

Persónulega finnst mér Jóhanna og Össur skulda Íslendingum og kjósendum skýringu á þessu.  Og í framhaldi af því skuldar Samfylkingin auðvitað kjósendum yfirlýsingu um það hvort það komi yfirleitt til greina að gera Össur eða Jóhönnu að fjármálaráðherra.

Svör óskast.


Hrós

Það er full ástæða til þess að hrósa Friðjóni fyrir þetta mál.

Það er nokkuð ljóst að mínu mati að þetta mál væri ekki statt þar sem það er í dag, ef honum hefði ekki blöskrað þetta og tekið málið upp á bloggsíðu sinni.  Þaðan sem það var í kjölfarið tekið upp í fjölmiðlum.

Síðan, eins og tregðulögmálið gerir reyndar lög fyrir, koma hinar opinberu stofnanir, Talsmaður neytenda og Samgönguráðuneytið.

Þetta mál sannar að það getur heyrst "í einum" og áhrifamáttur bloggsins getur verið mikill.

 Er ekki vel við hæfi að enda þetta á jákvæðum nótum til Friðjóns og Moggabloggsins og segja:

Megi Friðjón og Moggabloggið færa okkur gegnsærri flugfargjöld!


mbl.is Gjöld flugfélaga skoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af vöxtum og þjónustugjöldum

Það hefur mikið verið rætt um vexti og hvað þeir eru háir að Íslandi.  Hafa margir verið þeirrar skoðunar að þeir séu alltof háir.  Persónulega hef ég þó verið þeirrar skoðunar, eins og hefur mátt lesa á þessu bloggi, að þó að þeir séu háir þá sé það af eðlilegum ástæðum.

Ég er þó ekki frábrugðinn öðrum að þvi leiti að ég vildi gjarna hafa lægri vexti á lánunum mínum, en hærri á inneignum mínum.  Ég geri mér þó grein fyrir að það tvennt fer illa saman, alla vegna í sama efnahagsumhverfinu.

Ég horfði svo á Kastljósið í fyrrakvöld (fimmtudag) og sá þá Sigurjón Landsbankastjóra og Ögmund úr Vinstri grænum kljást.  Það var ójafn leikur.  Sigurjón var svo ólíkt áheyrilegri og færði mun betri rök fyrir máli sínu.  Ögmundur fór svo að tala um 5% lántökugjöld (ég hef aldrei heyrt minnst á svo há gjöld, þó ekki geti ég fullyrt að þau séu ekki til) og virtist telja það bönkunum til foráttu að styðja listir á Íslandi.  Skrýtinn málflutningur.

Það er óskandi að Ögmundur leggi fram dæmi, máli sínu til stuðnings á næstunni.

En bankar græða ekki á háum vöxtum, þeir hagnast á vaxtamun.  Það er þeim mun sem þeir geta lánað peninga frá sér á og því sem þeir "kaupa" peninga til sín á.

Vextir hér í Kanada eru ekki ósvipaðir og á Íslandi.  Neyslulán á kreditkortum eru algeng frá 18 til 23% og húsnæðislánavextir eru algengir frá 5.5 til 8.5% eftir eðli lána. Það er enginn verðtrygging. Þetta eru vextir  í landi þar sem verðbólgan á síðasta ári var eitthvað um 2.2%.

Ég horfði síðan á Kastljósið í gærkveldi (föstudag) og sá þar spyril sem talaði eins og allir hefðu yfirdrátt og varð hvumsa við þegar annar viðmælandi hans sagðist ekki vera með neinn yfirdrátt og hinn spurði á móti hvers vegna almenningur væri með yfirdrátt.

Ef til vill er það partur meinsins.  Allt of margir virðast líta á það sem sjálfsagðan hlut að að skulda, vera með yfirdrátt.  Og það sem meira er, þeir virðast líta á það sem óaðskiljanlegan hluta af tilverunni, þeir vilja lægri vexti, en virðast síður vinna í því að losa sig við yfirdráttinn.

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að segja að vextir séu of háir, það fellur í kramið hjá kjósendum, enda þeir sem skulda að öllum líkindum mun fleiri en þeir sem eiga fé á vöxtum.  Fleiri atkvæði.

En þó að ég hafi oft sagt að vextir séu ekki óeðlilega háir á Íslandi er það ekki það sama og vera þeirrar skoðunar að vextir megi ekki vera lægri á Íslandi, eða að bankarnir séu vængjaðir englar.

Ég hef áður ritað um að lántökugjöld séu ógnarhá á Íslandi, og í raun ekkert annað en forvextir.  Þegar lántöku- og stimpilgjöld eru lögð saman geta þau í raun gert það að verkum að það borgar sig ekki að taka nýtt lán og greiða upp eldri, þó að töluvert betri vaxtakjör bjóðist.  Uppgreiðslugjöld virka að sjálfsögðu á sama máta, en það getur þó borgað sig að taka lán með slíkum gjöldum, ef verulega betri vextir bjóðast.

Stimpilgjöld eru á ábyrgð hins opinbera og það hlýtur að vera krafa að þau verði felld niður hið allra fyrsta.

Það er einnig þörf á því að athuga þjónustugjöld.  Það er til dæmis umhugsunarvert hvers vegna það er ókeypis fyrir neytandann að nota kreditkort en ekki debitkort.  Það er umhugsunarvert hvers vegna %prósentugjald leggst á söluaðilann þegar debitkort eru notuð (kostar það meira að færa 100.000 á milli reikninga en 10.000?).  Það er umhugsunarvert hvers vegna posakerfið, sem hlýtur að spara og einfalda stórlega í bankakerfinu, kostar notendur þess svona mikið fé, þegar það kostar ekkert að vera með peningaseðla. 

Það er einnig þörf á að huga að Reiknistofnun bankanna, sem er líklega hjartað í Íslenskri bankastarfsemi, þ.e.a.s. innanlands.  Það þarf að vera skýrt að hver sá nýr aðili sem fær leyfi til starfrækslu banka á Íslandi eigi rétt á þjónustu og eignaraðild að Reiknistofnuninni, því eftir því sem mér er sagt, er enginn vegur að starfrækja bankastofnun í samkeppni á Íslandi án þess að eiga greiðan aðgang að kerfi stofnunarinnar.

Það er að mínu mati skrum að segja að vextir séu alltof háir á Íslandi.  Hið rétta er að verðbólga er of há á Íslandi, verðbólgan gerir það að verkum að stýrivextir eru of háir á Íslandi og að höfuðstóll lána bólgnar út. 

Húsnæðisvextir eru í kringum 5% á Íslandi, og þætti líklega fæstum ofrausn ef verðbólgan væri hófleg.  Það er ekkert undarlegt þó að vextir á eyðslulánum, s.s. yfirdrætti séu háir, slíkt er á engan hátt óeðlilegt. 

 Hitt er svo líka þarft að taka í reikningin, að stimpilgjöld og lántökugjöld, geta gert yfirdráttarlán ákaflega hagstæð, ef þörf er á láni í skamman tíma, því slíkir "forvextir" skekkja myndina og hamla samkeppni.  En yfirdráttarvextir eru (eða voru ekki upphaflega) hugsaðir sem lán til lengri tíma.


mbl.is Viðskiptaráðherra: vextir óeðlilega og hættulega háir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsbruni

Nóttin var því miður  viðburðarík og óskemmtileg hér að Bjórá.  Það er skömm frá því að segja, en ég hafði dottað fyrir framan sjónvarpið, konan og börnin fyrir löngu komin í rúmið þegar dyrabjöllunni var hringt af mikilli ákefð.

Þegar ég lyfti gardínunni frá sá ég nágranna okkar standa þar klæðalítinn úti fyrir.  Þegar ég opnaði bað hann mig óðamála að hringja á slökkviliðið sem ég gerði sem fljótast ég gat.  Þeir voru mættir eftir örfáar mínútur.

Sem betur fer hafði hann verið einn í húsinu, en stóð þarna í forstofunni hjá mér, berfættur og klæðlítill.  En óskaddaður.

Klukkan var rétt ríflega 1.

Það er vægt til orða tekið ömurlegt að horfa á hús nágranna síns brenna.  En það er ómögulegt að setja sig í spor þess sem horfir á eigur sínar verða eldinum að bráð.  Að eiga ekkert eftir nema bol og þunnar buxur.

Slökkviliðið mætti með mikinn mannskap, tól og tæki, tugur slökkvibíla fyllti götuna, rafmagnið var tekið af næsta nágrenni.  Ég sat inni í myrkrinu og horfði á húsið handan götunnar verða eldinum að bráð.

Þegar ég hafði lánað nágrannanum buxur, ullarsokka, peysur og úlpu var ekkert meira að gera.  Jú, ég gaukaði að honum hálfum vískípela sem ég átti.

En svona atburðir fá mann til að hugsa.  Er ég búinn að setja upp nógu marga reykskynjara, ætti ég að bæta við slökkvitækjum?  Hvað er innbúið mikils virði, þarf ég að hækka tryggingarupphæðina?

Get ég gert eitthvað meira til að auka öryggi mitt og minna?

Eldsvoði kemur okkur ávallt að óvörum, eyðileggingarmátturinn og ógnin er gríðarleg.  Í kvöld fór vel, það varð ekkert manntjón.  Eignatjónið er þó gríðarlegt, sumt má bæta annað ekki, eins og gengur.

Nú er rafmagnið stuttu komið aftur, en það er erfitt að fara að sofa.  Slökkviliðið er búið að slökkva eldinn, hluta af þeim farinn.  Eftir situr húsið, lítið nema skelin, með svartar tóftir þar sem gluggarnir voru.

Nágranninn er farinn heim með föður sínum.  Konan er farin aftur að sofa, börnin vöknuðu sem betur fer ekki.

En ég sit hér og hugsa.

 


Frjálslyndar orðskýringar

Það hafa ýmsir velt því fyrir sér á undanförnum árum í hverju meint frjálslyndi Frjálslynda flokksins fælist, þar sem margir hafa viljað meina að þess gætti ekki um of í framgöngu þingmanna flokksins.

Nú virðist vera að koma á daginn að frjálslyndið er hvað sterkast í orðskýringum og kosningum (til varaformanns).


mbl.is Tekist á um hryðjuverkamenn á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband