Húsbruni

Nóttin var því miður  viðburðarík og óskemmtileg hér að Bjórá.  Það er skömm frá því að segja, en ég hafði dottað fyrir framan sjónvarpið, konan og börnin fyrir löngu komin í rúmið þegar dyrabjöllunni var hringt af mikilli ákefð.

Þegar ég lyfti gardínunni frá sá ég nágranna okkar standa þar klæðalítinn úti fyrir.  Þegar ég opnaði bað hann mig óðamála að hringja á slökkviliðið sem ég gerði sem fljótast ég gat.  Þeir voru mættir eftir örfáar mínútur.

Sem betur fer hafði hann verið einn í húsinu, en stóð þarna í forstofunni hjá mér, berfættur og klæðlítill.  En óskaddaður.

Klukkan var rétt ríflega 1.

Það er vægt til orða tekið ömurlegt að horfa á hús nágranna síns brenna.  En það er ómögulegt að setja sig í spor þess sem horfir á eigur sínar verða eldinum að bráð.  Að eiga ekkert eftir nema bol og þunnar buxur.

Slökkviliðið mætti með mikinn mannskap, tól og tæki, tugur slökkvibíla fyllti götuna, rafmagnið var tekið af næsta nágrenni.  Ég sat inni í myrkrinu og horfði á húsið handan götunnar verða eldinum að bráð.

Þegar ég hafði lánað nágrannanum buxur, ullarsokka, peysur og úlpu var ekkert meira að gera.  Jú, ég gaukaði að honum hálfum vískípela sem ég átti.

En svona atburðir fá mann til að hugsa.  Er ég búinn að setja upp nógu marga reykskynjara, ætti ég að bæta við slökkvitækjum?  Hvað er innbúið mikils virði, þarf ég að hækka tryggingarupphæðina?

Get ég gert eitthvað meira til að auka öryggi mitt og minna?

Eldsvoði kemur okkur ávallt að óvörum, eyðileggingarmátturinn og ógnin er gríðarleg.  Í kvöld fór vel, það varð ekkert manntjón.  Eignatjónið er þó gríðarlegt, sumt má bæta annað ekki, eins og gengur.

Nú er rafmagnið stuttu komið aftur, en það er erfitt að fara að sofa.  Slökkviliðið er búið að slökkva eldinn, hluta af þeim farinn.  Eftir situr húsið, lítið nema skelin, með svartar tóftir þar sem gluggarnir voru.

Nágranninn er farinn heim með föður sínum.  Konan er farin aftur að sofa, börnin vöknuðu sem betur fer ekki.

En ég sit hér og hugsa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Þetta hefur verið ömurleg reynsla, vesalings nágrannanum hefur ekki veitt af viskínu. En í alvöru talað leiðir þetta hugann að hvað þetta er fljótt að gerast og hvort við erum, eða getum nokkurn tímann verið, viðbúin ef kviknar í hjá manni sjálfum.

Vilborg Valgarðsdóttir, 16.2.2007 kl. 11:42

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nágranni þinn á alla mína samúð.  En veistu að gott er líka að eiga góða granna að. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2007 kl. 19:04

3 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Gott er að eiga góða granna .

en þetta kemur manni einnig til að hugsa um eigið öryggi. 

Halldór Sigurðsson, 17.2.2007 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband