Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
14.2.2007 | 17:16
Geitur framleiða mjólk
Það er alltaf ánægjulegt að sjá þegar bændur fara nýjar (eða taka í raun upp gamlar) leiðir til að auka fjölbreytni framleiðslu sinnar og þjóna markaðnum betur.
Geitamjólk er afbragðs afurð og fæst í verslunum hér í Kanada, þó ekki ógerilsneydd, og keyptum við geitamjólk handa Foringjanum fyrst eftir að móðurmjólkinni sleppti og kunni hann vel að meta.
En ég held að það sé víðast um veröldina sem gilda ströng höft og reglugerðir um matvælaframleiðslu og víða er það sem bændur þurfa að berjast harðri baráttu til að geta haldið áfram að framleiða vörur sem framleiddar hafa verið svo öldum skiptir, t.d. osta.
Það hefur ekki síst verið innan ESB sem reglugerðafarganið hefur verið að sliga bændur og hafa margir bændur og svokallaðir "artisan" frameiðendur lent í vandræðum í baráttu sinni við kerfið. Það hafa verið búin til einhver göt fyrir "traditional producers" en margir smáframleiðendur hafa átt í erfiðleikum með að uppfylla strangar reglugerðir (og borga fyrir eftirlit með sjálfum sér) og hafa gefist upp.´
Líklega eru það því bæði Íslenskar reglur og "systur" þeirra ættaðar frá Evrópska efnahagssvæðinu sem koma í veg fyrir það að litlir framleiðendur eins og Jóhanna fari af stað, en það væri gaman ef einhver sem veit meira setti hér inn athugasemdir.
P.S. Það getur vel verið að það sé rétt að segja að dýr framleiði mjólk, en einhvern veginn finnst mér það ekki hljóma vel. Persónulega finnst mér t.d. kýr ekki framleiða mjólk, heldur kemur mjólkin úr kúnum. Að tala um afurðaframleiðslu dýra er eitthvað svo skratti "verksmiðjulegt" að mér finnst það ekki eiga við, alla vegna ekki í þessu tilviki.
Geitaostur framleiddur í Búðardal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2007 | 03:50
Að styðja stækkun eða ekki styðja stækkun, það er spurningin
Það er eðlilegt að fram komi krafa um að bæjarfulltrúar í Hafnarfirði geri ljósa afstöðu sína til stækkunar álversins, allir sem einn.
Þó að það megi hrósa bæjarstjórninni fyrir að efna til atkvæðagreiðslu um stækkunina, eiga bæjarbúar engu að síður fullan rétt á því að vita afstöðu kjörinna fulltrúa sinna til málsins.
En þetta verður án efa hörkuspennandi fram að kosningum, þó að því sem næst allir sem ég þekki í Hafnarfirði séu fylgjandi stækkun, þá segja þeir jafnframt að fylkingarnar séu áþekkar að stærð.
Svo verður kosið 31. mars. Er það ekki vel við eigandi að líklega fáum við niðurstöðurnar 1. apríl?
Vilja fá að vita hver afstaða fulltrúa Samfylkingar er til stækkunarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2007 | 04:41
Maðurinn sem féll til jarðar (úr 12.000 feta hæð)
Við kölluðum þá oft í gríni bakpokaskríl. Þannig töluðum við um fallhlífarstökkvarana þegar ég var í sviffluginu í gamla daga. Sjálfur hef ég aldrei stokkið í fallhlíf, tók þó nokkur teygjustökk í "den". Það er skrýtin tilfinning að sjá jörðina koma æðandi á móti sér.
En það er ábyggilega ekkert grín að lenda í því að fallhlífin opnist ekki og varafallhlífin virki ekki, og sjá jörðina æða á móti sér á u.þ.b. 130 km hraða.
En jafn ótrúlega og það hljómar þá er lifði Michael Holmes það af. Hann lenti í berjarunna og slapp með ótrúlega lítil meiðsli.
Það má lesa viðtal við Michael í The Mail On Sunday, og hér má sjá myndbandsupptöku sem hann tók á leiðinni.
Ótrúlegt en satt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 04:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 03:39
Ef það kemur vinstra vor
Ég var sem oftar að þvælast um vefinn, meðal annars hér á blessuðu Moggablogginu og fór eins og oft áður inn á bloggið hjá Hrafni Jökulssyni, las þar blog um hugsanlegt vinstra vor.
Get ekki sagt að mér líki tilhugsunin, en sú hugsun fæddi þó af sér þessa stöku:
Ef það kemur vinstra vor
varla kætast gumar.
Víst mun þurfa seiglu og þor
því aldrei kemur sumar.
12.2.2007 | 20:21
Bölbænir Steingríms
Ég get ekki neitað því að ég hálfhló þegar ég las þessa frétt.
Það er reyndar alveg rétt að það er ekki til eftirbreytni að kalla bölbænir eða níðyrði að mönnum, hvort sem þeir eru í ræðustól á Alþingi eða annars staðar. Það er ekki góðra manna siður að hrópa að þeim sem eru að tala.
Hins vegar get ég ekki séð að hinn kristni siður eigi að njóta neinna forréttinda fram yfir aðra siði á Alþingi og því get ég ekki séð að blótsyrði séu neitt verri en venjuleg frammíköll, sem eru auðvitað ekki til fyrirmyndar.
En það er reyndar talsvert algengt að mönnum þyki betur talað, því stóryrtari og orðljótari sem talsmátinn er. Þar er ég reyndar algerlega ósammála og þykir talsmátinn oftast segja meira um þann sem notar hann, heldur en þann sem hann er hafður um.
En svo má líka velta því fyrir sér hvort að bölbænir Steingríms hrífi, alla vegna hvað framsóknarmenn varðar, því fylgi þeirra virðist skreppa saman eins lúin blaðra.
Kvartað yfir blótsyrðum í þingsal Alþingis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2007 | 16:57
Af fjármagnstekjuskatti, lífeyrisgreiðslum og skattalækkunum
Þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega vita að ég hef fjallað hér nokkuð oft um fjármagnstekjuskatt og jafnan varað við þeim hugmyndum að hækka hann til jafns við skatta á launatekjur.
Að vísu er rétt að taka það fram að mér væri í sjálfu sér ósárt um að þessir tveir skattar væru jafnháir, en þá einvörðungu ef tekjuskatturinn væri lækkaður niður í 10%.
Síðan sá ég þegar ég var að þvælast hér um blessað moggabloggið og leit á síðu Eyglóar Harðardóttur framsóknarkonu, að Morgunblaðið mun víst hafa verið að senda forsætisráðherra tóninn, og skamm hann fyrir tal um skattalækkanir og talar um að það eigi að skattleggja greiðslur úr lífeyrissjóðum með sama hætti og fjármagnstekjur. Í það minnsta verðbótahlutann.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að framsóknarkonan og Morgunblaðið virðast vera sammála að þessu leiti.
Nú er að sjálfsögðu öllum frjálst að hafa þá skoðun að það beri að hygla þeim sem fá lífeyrisgreiðslur umfram aðra skattgreiðendur, en að segja að verðbætur á lífeyrisgreiðslur og verðbætur á hefðbundin sparnað, séu sambærilegar er auðvitað út í hött.
Hafi hlutirnir ekki breyst þeim mun meira frá því að ég flutti frá Íslandi, þá eru greiðslur í lífeyrissjóð ekki skattskyldar. Skattgreiðslu á þeim er frestað uns byrjað er að greiða þær út.
Sparnaður fólks er hins vegar almennt fé sem búið er að greiða skatt af. Í því liggur munurinn.
Því má segja að þegar lífeyrisþegar greiða skatt af hvorutveggja höfuðstól og verðbótum, séu þeir að greiða skatt af sambærilegri upphæð og þeir drógu frá skattgreiðslu áður.
Það mætti hins vegar með skynsamlegri rökum halda því fram að ávöxtunin ætti aðeins að bera 10% skatt, þar sem þar er um fjármagnstekjur að ræða. Hins vegar ber sömuleiðis að líta á það að ávöxtunin kemur af ósköttuðu fé.
Það sjá hins vegar flestir að ef ávöxtun á sparifé væri skattlögð sem launatekjur í dag, væri hvatinn til sparnaður enginn.
Ef 1 milljón er á sparisjóðsbók með 13% vöxtum, eru borgaðir út 130.000 í vexti í árslok. Ef við reiknum með að verðbólgan sé 7% eru raunvextir 60.000. Ef við reiknum svo með 37% skattlagningu á 130.000, heldi sparifjáreigandinn eftir 11.900. Hið opinbera fengi 48.100 til sín.
Ég held að flestir geti verið sammála um að það er frekar ástæða til að hvetja til sparnaðar á Íslandi heldur en hitt.
En sem betur fer hafa Íslendingar (í það minnsta enn sem komið er) lágan fjármagnstekjuskatt, en að sama skapi hafa tekjurnar af honum aukist með hverju árinu.
En ég hef áður sagt að það sé "ódýrt" að ráðast alltaf á hina "illu fjármagnseigendur" og tala um hækkun fjármagnstekjuskatts. Það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart að slíkt tal komi frá vinstri mönnum og Framsóknarflokknum. Það kemur mér í sjálfu sér ekkert sérstaklega á óvart, en þó finnst mér það til marks um almenna afturför að Morgunblaðið prediki slíka "eignaupptöku".
11.2.2007 | 03:13
Til hamingju KSÍ
Ég verð nú reyndar að viðurkenna að mér var nokk sama hvern fulltrúar á þingi KSÍ myndu velja til forystu. En ég er samt þeirrar skoðunar að þeir hafi valið rétt.
Fólk velur sér fulltrúa sem það treystir, ekki þann sem virðist hafa annan málstað heldur en samtökin sjálf.
Rakst á blog núna áðan sem mér fannst segja þetta skratti vel, líklega betur heldur en ég hefði gert það. Tékkið á því.
Þar segir m.a.:
"Í stað þess að feministanir ryðjist nú fram á ritvöllin og styðji Höllu vil ég skora á þær að koma að vinna innan félaganna, vinna sig þannig upp. Ég veit t.d. að staða formanns meistaraflokksráðs kvennahandbolta hjá Val er laus fyrir næsta tímabil. Ég veit líka að Eva, sem er í mfl.ráði kvenna í fótboltanum, myndi þiggja hvaða hjálp sem er. Sóley, Guðríður og þið sem hafið skrifað hvað mest, nú er tækifærið. Ef þið hafið raunverulegan áhuga þá hlýtur einhver ykkar að bjóða sig fram til að vinna fyrir okkur stelpurnar í Val."
Þetta er nefnilega að ég tel málið, það þarf að vinna svona mál í gegnum "grasrótina". Það vantar fólk til starfa í íþróttahreyfingunni um allt land. Það er ekki erfitt að komast þar að. Það er algengara að leitað sé að fólki heldur en að það sé kosið um fólk.
Þetta þekki ég af eigin raun, það er oft svo erfitt að fá fólk til að starfa í stjórnum, að það hefur jafnvel verið leitað til jafn óíþróttalegs manns og mín, og ég beðinn um að starfa í stjórn íþróttadeildar. Sem ég reyndar, af minni alkunnu leti, hafnaði. En ég starfaði þó fyrir deildina einn vetur í sjálfboðavinnu.
Þetta er málið, íþróttahreyfingin snýst ekki eingöngu um toppstörfin, það er hundruðir möguleikar til að setja mark sitt á hana. Vonandi flykkjast allir þeir sem þykir ástæða til að "hrista upp" í hreyfingunni og bjóða fram krafta sína, möguleikarnir eru ótæmandi.
Ef svo yrði, væri íþróttahreyfingin sterkari en fyrr, og án efa kæmi fljótlega að því að frambjóðendur sem vilja breytingar fengju fleiri en 3 atkvæði.
P.S. Verð að bæta þessu við. Það hefur mikið verið notað í umræðunni um jafnréttismál innan KSÍ að kvennalandsliðið standi mun ofar á alheims styrkleikalista heldur en karlalandsliðið og það sýni að kvennalandsliðið sé miklu betra.
Það er vissulega ekki hægt að neita þessu, enda styrkleikalistarnir óvéfengjanleg plögg ef svo má að orði komast.
En það má líka nota þessa staðreynd til að halda því fram að þetta sýni hvað mikið betur sé búið að kvennaknattspyrnu á Íslandi en víðast hvar um heiminn, mörg lönd sýna henni því miður lítinn sem engan áhuga.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 03:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2007 | 03:32
Að læra Íslensku á 7 dögum - Brainman
Kunningjar okkar sem komu hér í heimsókn fóru að segja mér frá heimildarmynd sem þau höfðu nýverið séð, Brainman. Það sem meðal annars vakti athygli þeirra í myndinni var að í myndinni lærir Daniel Tammet Íslensku á 7 dögum er eftir þann tíma spurður spjörunum úr í Íslensku sjónvarpi, Kastljósinu nánar tiltekið.
Þau hlógu og sögðu að hreimurinn hjá Íslenska sjónvarpsfólkinu hefði verið nákvæmlega sami hreimurinn og hjá mér. Í stað þess að fyrtast yfir þessu hreimtali, fylltist ég löngun til að sjá þessa mynd og tókst að verða mér út um upptöku.
En Brainman er heimildarmynd um Daniel Tammet, sem er "savant", sem líklega væri þýtt sem "ofviti" yfir á Íslensku.
En það var hreint ótrúlegt að horfa á myndina. Daniel reiknar og þylur upp tölur sem venjulegt fólk á í erfiðleikum með að lesa upp. Honum tekst að læra Íslensku og spjalla við þá Kastljós kappa svo að undravert er. Það er hreint undravert að horfa á hann og það sem meira er, þá hefur hann ágætis samskipta eða "sósial" hæfileika.
Ég veit ekki hvort að Brainman hefur verið sýnd í Íslensku sjónvarpi, en þetta er mynd sem ég mæli með og hvet alla til að sjá.
Þess má svo geta hér að lokum að bók um ævi Daniels er stuttu komin út og heitir Born on a Blue Day: Inside the Extraordinary Mind of an Autistic Savant
10.2.2007 | 00:18
6 mánuðir
Já í dag eru liðnir 6 mánuðir frá því að Jóhanna Sigrún Sóley leit dagsins ljós í fyrsta sinn. 6 mánuðir eru í sjálfu sér ekki langur tími, nema auðvitað það sé allur sá tími sem þú hefur lifað, en hún hefur þó sannarlega sett mark sitt á lífið hér að Bjórá á þeim tíma.
Reyndar finnst mér hvorutveggja, að þetta hafi allt saman gerst í gær og að hún hafi verið hér eins lengi og minni mitt nær. Þannig er þetta bara.
En hún er kát og fjörug og á meðfylgjandi myndbandi má sjá hversu leikin hún er orðin að höndla pelann á 6 mánaða afmælinu sínu. Sumir hafa haft að orði að sterk handtök hennar um drykkjarföngin hafi hún fengið frá föður sínum, en um það er betra að aðri dæmi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 21:39
Á njósn
Það er gott að vita að það hefur verið fylgst með útsendurum erlendra ríkja á Íslandi enda ekki síður þörf á því þar en annars staðar.
Ef ég man rétt þá kom tvisvar til þess að starfsmenn erlendra sendiráða voru gripnir við njósnir á Íslandi, í annað skiptið hins Sovéska en hitt starfsmenn Tékkneska sendiráðsins.
Í öllum löndum hins vestræna heims reyndi Austurblokkin að fá menn til samstarfs og njósna og er enginn ástæða til að efa að það sama hafi verið upp á teningnum á Íslandi.
Það er sjálfsagt mál að opinbera sem flest skjöl frá þessum tíma og æskilegt að þeir sem voru í "hringiðunni miðri" skrái frásagnir sínar áður en það er of seint. Skjalasöfn eiga að vera opin bæði almenningi og fræðimönnum, þó að sjálfsagt sé að halda nafnleynd.
P.S. Eitthvað hefur starfsmönnum mbl.is mistekist varðandi myndatexta við þessa frétt. Treblinka var ekki nafn á höfuðstöðvum KGB, heldur útrýmingarbúðir nazista í Póllandi. Ef ég man rétt voru höfuðstöðvar KGB nefndar Lubyanka og voru í fyrrum skrifstofum tryggingafélags. Þetta er svo sem ekki aðalatriðið en alltaf betra að hafa það sem sannara reynist.
Starfsmönnum KGB veitt eftirför upp á fjöll á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |