Bloggfærslur mánaðarins, september 2006
12.9.2006 | 18:01
Er fjármagnstekjuskattur góð beita á atkvæðaveiðum?
Það hefur oft verið sagt að það sé alltaf gott á atkvæðaveiðum að ráðast á hina ríku, og lofa einhverju til hinna efnaminni. Það eru jú miklu fleiri "atkvæði" sem teljast til hinna efnaminni. Það er líka gott að ráðast á þá sem fara vel með fé sitt og eru sparsamir, enda þeir mun færri en hinir.
Reglulega má heyra tillögur um að fjármagnstekjuskatt beri að hækka, enda séu menn að hafa óheyrilegar tekjur af fjármagni sínu. Þessar tillögur koma gjarna fram þegar hlutabréfamarkaðir hafa verið á mikilli siglingu og eins þegar vextir eru háir, en síður þegar afraksturinn er minni.
Gott og vel, en það verður að skoða málið frá fleiri en einu sjónarhorni. Víst er það rétt að vextir eru háir á Íslandi nú um stundir, en það er verðbólgan einnig. Þannig eru raunvextir ekki nema u.þ.b. 2% af bestu bankareikningum, margir síðri reikningar eru hreinlega í mínus. Í raun eru menn að borga fjármagnstekjuskatt af því að tapa fé, þegar notaðir eru "síðri" reikningar.
Ef 5 milljónir króna eru geymdar á góðum sparireikningi gefur þessi upphæð u.þ.b. 500 þúsund krónur í vexti, en 400 þúsund er í raun verðbætur. Raunvextir eru 100 þúsund. Undir núgildandi skattlagningu eru borgaðar 50 þúsund í fjármagnstekjuskatt. Ríkið tekur með öðrum orðum helming ávinningsins.
Raunskatturinn er 50%
Ef fyrstu hundrað þúsundin eru skattlaus en 15% skattur af afgangnum, hækkar skatturinn upp í 60 þúsund, 60%. Eru menn virkilega þeirrar skoðunar að þetta sé það sem vantar til að hvetja fólk til sparnaðar?
Auk þess er verulegt óhagræði af því að vera með frítekjumark í bankakerfinu, flatur 10% skattur á alla vexti er einfaldur í framkvæmd og býður ekki upp á neina "leiki". Flóknara skattkerfi er aldrei það sem stefna ber að, né eykur það skilvirkni innheimtunnar.
Ef meiningin er að hvetja almenning til sparnaðar væri nær að keppa að því að afnema fjármagnstekjuskatt af almennum sparifjárinnistæðum, enda ekki ástæða til að þeim sem eru sparsamir sé refsað sérstaklega með sköttum á hóflega vexti, hvað þá að hækka þá skatta sértaklega.
Hvað varðar hlutabréfahagnað er vissulega annað upp á teningnum, þar er ávöxtunin oft ríflegri og stundum ótrúlegar %tölur. Þumalputtareglan er þó sú, að því meiri sem ávöxtunin er, því meiri hefur áhættan verið, þó að sú regla sé alls ekki algild. Það er líka vert að benda á það að sú áhætta sem menn og fyrirtæki leggja upp í með hlutafé sitt er veigamikill partur í uppbyggingu íslensks efnahagslífs, og á mikinn þátt í þeirri velmegun sem ríkir á Íslandi nú um stundir.
En vissulega er menn oft að hagnast um risavaxnar upphæðir, en er það þar með sagt að stærri partur þess en nú er sé betur kominn í ranni hins opinbera, heldur en þeirra sem eru að fjárfesta í atvinnulífinu?
Engan man ég heldur tala um að sérstaklega um þörf þess að koma sérstaklega til móts við þá sem tapa stórum upphæðum á verðbréfaviðskiptum, sem gerist þó líka reglulega. Það er enda ekki ástæða til, því menn verða að gera sér grein fyrir því að um verulega áhættu er að ræða.
Það sem gerist ef um verulega hækkun yrði á fjármagnstekjuskatti er líklega, að hvatinn til sparnaðar og fjárfestinga minnkar, frekari flutningur yrði á fjármagni til svokallaðra "skattaparadísa". Alls óvíst er að tekjur ykjust að marki, ef nokkuð.
Hitt er svo annað mál, að baráttan gegn því að menn séu að fela fé sitt eða borgi sér frekar út arð en laun, er þessu máli óskyld að mínu mati. Það verður að finna aðrar leiðir fyrir þá baráttu en að hækka skatta á hinn almenna sparifjáreiganda og einstaka fjárfesta.
Hér má svo lesa pistil Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta málefni og meðfylgjandi frétt byggir á.
Hefði haft 5,7 milljörðum meira í tekjur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.9.2006 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2006 | 16:06
Það þarf að taka til hendinni
Mikið hefur verið rætt um vörugjöld, tolla og kvóta á innflutning landbúnaðarvara nú síðustu vikur. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að draga úr þessum álögum. Flestir virðast vera sammála um að það sé þarft mál, og þurfi að framkvæma, en síðan gerist lítið.
Nú birtist hér frétt sem sýnir að matvörur eru að hækka umfram vísitölur. Þó að hér sé talað um að líkleg ástæða sé samkeppni á síðasta ári, þá tel ég aðra skýringu mun nærtækari.
Það er staðreynd að launakostnaður er annar stærsti útgjaldaliður verslana (á eftir innkaupum), það ættu flestir að þekkja umræðuna um starfsmannavanda verslunarinnar, það er því ekki við öðru að búast en að launakostnaður hafi hækkað og muni hækka enn og sá kostnaður verður ekki settur annað en út í verðlagið.
Það verður því að teljast afar líklegt að um áframhaldandi verðhækkanir á matvöru verði að ræða, vegna hækkandi launakostnaðar, bæði verslunarinnar og innlendra framleiðenda.
Það er því enn mikilvægara en áður að sporna við hækkandi matarverði, með því að taka til hendinni og grisja þann frumskóg verndartolla, vörugjalda og kvóta sem lagður er á innflutt matvæli.
Það mun líklega hafa í för sér einhverja fækkun bænda, en það er einmitt nauðsynlegt að nota tækifærið nú, þegar ýmsir möguleikar standa bændum opnir, vaxandi eftirspurn er eftir ákveðnum framleiðsluvörum þeirra, verð á jörðum er gott og mikil eftirspurn er eftir vinnuafli í þjóðfélaginu. Allt þetta hjálpar þeim bændum sem kunna að þurfa hugsanlega að bregða búi, að gera það með auðveldum hætti og fullri reisn.
Persónulega finnst mér fátt nauðsynlegra nú um stundir en að bregðast við þessu og vildi sjá "aðgerðaáætlun" af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir áramót.
Það er ekki eftir neinu að bíða.
Matvara hefur hækkað langt umfram vísitölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2006 | 14:43
I regni del re a Monza - La conclusione di un'era
Monzakappaksturinn var ágætlega líflegur, en verður þó líklega ekki minnst fyrir aksturinn í framtíðinni. Yfirlýsing Schumacher um að hann dragi sig í hlé að tímabilinu loknu mun yfirskyggja allt annað.
Það er auðvitað aldrei svo að keppnisgreinar standi og falli með einum einstakling, en í langan tíma hefur Schumacher verið "viðmiðið", maðurinn sem menn keppa til að sigra. Það verður því vissulega nokkuð skarð fyrir skildi þegar hann hættir, en ég er þess fullviss að þar verða menn til að "hlaupa í skarðið".
Raikkonen tekur við hjá Ferrari, og verður það vonandi "breikið" sem hann þarfnast, hann er góður ökumaður, en hefur verið með eindæmum seinheppinn, eins og ég hef áður skrifað vonast ég til að hann skilji þá seinheppni eftir í bílskúrnum hjá McLaren og sýni virkilega hvað í honum býr.
Nú eru stigakeppnirnar opnar upp á gátt, Ferrari hefur tekið forystuna í keppni bílsmiða og "Skósmiðurinn" er aðeins tveimur stigum á eftir "Tígulgosanum" í keppni ökumanna. Það er því ljóst að keppnirnar þrjár sem eftir eru verða spennandi. Alonso átti reyndar góðan dag, framan af í dag, en endaði svo með sprungna vél og engin stig. Það er erfitt að tjá sig um þá refsingu sem hann hlaut, þegar hann var færður aftur um 5 stöður á ráslínu, persónulega gat ég ekki séð að hann hafi átt það skilið, en vissulega hafa dómarnir aðgang að viðameiri gögnum heldur en ég. Hins vegar finnst mér svo ökumenn fá að "skauta" nokkuð frjálsleg í gegnum sumar beygjurnar t.d. Alonso í dag, og því sýna dómarnir nokkuð mísvísandi hörku í mismunandi tilvikum.
Það er ekki hægt annað en að minnast á frábæra frammistöðu Kubica i dag, að enda á palli í sínum 3ja kappakstri er ekkert minna en stórkostlegur árangur, og var ekki neinu öðru að þakka en stórgóðum akstri. Það er ljóst að þar er framtíðar ökumaður á fullri ferð.
Þá er það bara Kína, Japan og Brasilía, og vonandi sjáum við "Skósmiðinn" hampa titlinum í vertíðarlok, það er viðeigandi endir á glæsilegum ferli hans.
P.S. Bæti því við hér að ég var að hlusta á stutt viðtal við Alonso, hann virtist vera dálítið úr jafnvægi, þó að hann reyndi að bera sig vel. Það er því spurning hvernig sálfræðistríðið verður. Hann taldi Renault standa betur að vígi fyrir Kína og Japan, en Ferrari hefði forskot í Brasilíu, við fylgjumst með hvað gerist.
Schumacher vinnur í Monza og styrkir stöðu sína vegna brottfalls Alonso | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2006 | 14:53
Afmæli að Bjórá
Heimasætan að Bjórá, Jóhanna Sigrún á afmæli í dag, ef til vill ekki "stór"afmæli, en þegar einungis hefur verið lifað í mánuð, er mánaðarafmæli býsna stórt, og það stærsta hingað til.
En hún hefur staðið sig vel þennan mánuð, ávaxtað sitt pund dyggilega og er orðin 4.9kg og 56cm og lítur ekki út fyrir að ætla að láta þar staðar numið. Eins og með stórabróður erum við ákaflega heppin, sú stutta sefur vel, borðar vel, og skilar vel frá sér, svo að það sé kurteislega orðað.
Foringinn hefur líka tekið þá stuttu í fulla sátt, er ánægður og glaður með að hafa eignast systkini, þó eðlislægur gassagangur hans geti á stundum hrekkt hana ofurlítið, en hann meinar vel og það er fyrir mestu.
Það er ekki hægt að neita því að ekkert er ánægjulegra en að horfa á börnin sín vaxa úr grasi.
9.9.2006 | 14:21
Raikkonen forte a Monza, la sua nuova sede?
Tímatökurnar í morgun voru ágæt skemmtun. Auðvitað hefði ég viljað hafa "Skósmiðinn" á pól, en annað sætið er ekkert til að nöldra lengi yfir. Massa stóð sig líka ágætlega og getur hjálpað til að halda aftur af Alonso sem er því 5.
En eins og áður er það keppnisáætlunin sem kemur til með að ráða úrslitum, hvað eru bílarnir með mikið á tankinum og svo framvegis. Vegna óhappsins ók Alonso færri hringi en flestir hinna ökuþóranna, þannig að það er ekki ólíklegt að hann sé með heldur meira á tankinum. Hlutverk Massa er því mjög mikilvægt. Svo er það líka spurningin hvernig Alonso gengur í ræsingunni, eða hvort hann yfirleitt tekur stóra áhættu þar, en fyrir hann er líklega mikilvægara að koma í mark, heldur en að fá flest möguleg stig. Það er því margt sem spilar inn í.
Raikkonen stóð sig vel og er vel að pólnum kominn, hann ók hins vegar flesta hringi ökuþóranna ef ég tók rétt eftir og er því líklega með frekar lítið á tanknum, ég tel að það því að öllu óbreyttu að Schumacher bíði með að fara fram úr honum, þangað til hann tekur þjónustuhlé, þ.e.a.s. ef hann fer ekki fram úr honum í ræsingunni.
Það er óskandi (í það minnsta ef Raikkonen er að koma til Ferrari) að Monza marki þáttaskil hjá Raikkonen og seinheppni hans eigi ekki við lengur (eða öllu heldur að hann sýni, að hún var McLaren megin, en ekki hans).
En nú bíð ég spenntur eftir keppninni á morgun og niðurstöðunni um ökumenn Ferrari.
Räikkönen á ráspól í Monza | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2006 | 03:26
Engin ástæða til að fela hlutina
Ég er alfarið hlynntur þessari ákvörðun Information. Það er engin ástæða til þess að láta eins og hlutiirnir gerist ekki, þó að viðkomandi gjörningur sé manni ef til vill ekki þóknanlegur. Fjölmiðlar hafa í þessu tilfelli sem öðrum ákveðinni upplýsingaskyldu að sinna.
Ég hef reyndar ekki gefið mér tíma til þess að skoða allar myndirnar, en þær sem ég hef séð eru heldur ekki að gefa neitt í skyn, eða fjalla um eitt né neitt sem ég hef ekki séð í orðræðu manna, bæði á Íslandi sem í hinum stóra heimi.
Það er engin ástæða til að fela þetta fyrir almenningi. Þetta er keppni sem hið opinbera í Íran stóð fyrir og í raun ætti frekar að hvetja fólk til að kynna sér þetta heldur en hitt.
Það er líka ljóst að málfrelsið á rétt á sér, jafnvel þó að okkur hugnist ekki alltaf það sem fólk segir, eða teiknar.
En þeir sem vilja skoða myndirnar geta gert það hér.
Þeim sem finnst þetta alger óhæfa, eða eru á móti birtingu slíkra mynda, ættu hins vegar að sleppa að nýta sér tengilinn, þetta er jú allt valfrjálst.
Danskt dagblað birtir skopmyndir af helförinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2006 | 05:31
Fréttamenn/stjórnmálamenn
Nú nýverið fékk ég mér gríðaröfluga internettengingu og hef því horft þó nokkuð á íslenskt sjónvarp, hlustað á útvarp og lesið blöðin. Allt er þetta leikur einn með góðri tengingu og íslensku stöðvarnar standa sig vel með að koma sínu efni á netið.
En það vekur athygli mína hve skilin á milli fréttamanna og stjórnmálamanna eru oft á tíðum óljós. Félagi minn sendi mér tölvupóst fyrir nokkru og vakti athygli mína á því að Jón Kristinn Snæhólm, aðstoðarmaður borgarstjóra hefði verið að stýra umræðuþætti á NFS, í forföllum Ingva Hrafns.
Í dag horfði ég á Heimi Má Pétursson, sem bauð sig fram til varaformanns Samfylkingar á síðasta landsfundi (og dró framboð sitt til baka) og sat í 11. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, ræða utanríkismál við Össur Skarphéðinsson, sem sat í 1. sæti á þeim sama lista. Fyrr í sama þætti ræddi hann við fyrrverandi formann Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, um Tony Blair og íslensk stjórnmál.
Sjálfsagt eru þetta ekki einu dæmin, en er ég einn um að finnast þetta skrýtið?
Mikil umræða er nú í gangi víðsvegar um heiminn hvenær Tony Blair ætli að stíga niður af stóli forsætisráðherra Bretlands. Umræðan verður æ farsakendari og minnir æ meira á þokkalega skrifaða breska "kómedíu".
Það eru "lekar", og það finnast "memó" og svo þar fram eftir götunum. Orðið "legacy" heyrist æ meir, bæði með jákvæðum og neikvæðum tóni. "Spunameistarnir" eru að verða umræðan í stað þess að stjórna henni.
Þetta fer að minna á afsögn annars forsætisráðherra.
En þó að ég hafi nú aldrei verið ákafur stuðningsmaður Blair, tel ég hann eiga betra skilið, að flestu leyti hefur hann staðið sig prýðis vel sem forsætisráðherra Bretlands. Hann færði Verkamannaflokkinn til samtímans og efnahagur Breta hefur staðið með miklum blóma á hans "vakt".
En það er algengt að stjórnmálamönnum gangi illa að þekkja sinn vitjunartíma eins og sagt er. Þeir skilja oft ekki þegar er farið að halla undan fæti og best er að stíga niður.
Stundum er betra að hætta í miðju kafi, heldur en að klára "handritið", það er enginn ómissandi.
"Kirkjugarðar" stjórnmálanna eru fullir af "ómissandi fólki".
The Sun segir að Blair muni hætta sem forsætisráðherra í júlí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2006 | 14:39
Aftur til framtíðar
Það var alla vegna það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las meðfylgjandi frétt. Framtíðin er falin í fortíðinni, þróunin liggur afturábak, nútíminn er trunta.
"Stúdentar ættu nú að kalla á forseta landsins og spyrja hvers vegna frjálslyndir og veraldlega sinnaðir kennarar kenni við háskólana, sagði Ahmadinejad. Menntakerfi landsins hefði færst nær veraldlegum gildum á undanförnum 150 árum og erfitt yrði að breyta því."
Þessar tvær setningar segja líklega allt um það hvert á að stefna. Þurka þarf út þær breytingar sem hafa orðið á menntakerfinu síðastliðin 150 ár, það er helsta ógnunin við ríkið og þjóðina, eða hvað?
Íransforseti vill að frjálslyndir háskólakennarar verði reknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2006 | 20:03
Skrýtnar tilviljanir? Góður spuni?
Það er eins og það hafi ekki margir stjórnmálamennirnir nennt að ómaka sig til að skoða Hengilssvæðið, það eru eingöngu 4. Samfylkingarmenn og svo Steingrímur J. enda hann líklega vongóður um að kaffi væri með í för.
Aðrir íslenskir stjórnmálamenn láta sig málið líklega litlu, eða engu varða, eða hvað?
En svo rakst ég reyndar á athugasemd á mbl.is:
"Vegna frétta í gær og í dag af reiðtúr um Hengilssvæðið þar sem forráðamenn Eldhesta voru sagðir hafa boðið þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum í skoðunarferð um hugsanlegt virkjanasvæði Orkuveitu Reykjavíkur er rétt að taka fram að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins var ekki boðið fyrir milligöngu undirritaðrar, Grétu Ingþórsdóttur, eins og algengt er um slík boð, að því er fram kemur í athugasemd frá Sjálfstæðisflokknum.
Þeir þingmenn sem undirrituð hefur haft samband við, kannast ekki við að hafa verið boðið og borgarfulltrúar ekki heldur. Samkvæmt upplýsingum frá Hróðmari Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Eldhesta, var reynt að ná í þrjá eða fjóra þingmenn með eins dags fyrirvara. Ekki náðist í nema einn og sá gat ekki þegið boðið. Af fréttum um ferðina að má draga þá ályktun að öllum þingmönnum og öllum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafi verið boðið en enginn þeirra þegið. Hið rétta er að ekki nema einn vissi um ferðina og sá sér ekki fært að þiggja hana með svo skömmum fyrirvara," að því er segir í athugasemd."
Athugasemdina má finna hér.
Sem sagt, Eldhestar voru að bjóða öllu þessu fólki með dags fyrirvara, þannig að líkega hafa ekki nema þeir stjórnmálamenn sem voru með auða "dagbók" haft tök á því að koma, nema auðvitað að einhverjum hafi verið boðið með lengri fyrirvara?
En til allrar hamingju náðu formenn Samfylkingar og VG að koma í reiðtúrinn, alþingismaður Samfylkingar af Suðurlandi sömuleiðis, 1. borgarfulltrúi Samfylkingar og eini fulltrúi Samfylkingarinnar í sveitarstjórn Ölfus var líka í reiðtúrnum. Það kemur hins vegar ekki fram í fréttinni að varamaður Dagbjartar Hannesdóttur í sveitarstjórn Ölfuss, var líka með í ferðinni.
Hann ku víst heita Hróðmar Bjarnason og hafa að aðalstarfi að vera framkvæmdastjóri Eldhesta, og skipaði annað sæti á lista Samfylkingar í síðustu kosningum.
En svona eru tilviljanirnar margar í litlu landi.
En verður ekki "spuninn" að teljast góður?
"Ekkert kaffi með í för" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |