Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Persóna sem við fílum

474320_alfred.jpg

Fékk þennan link sendan í tölvupósti í dag. http://www.suf.is/suf/upload/images/persona_sem_vid_filum/474320_alfred.jpg

Það fylgdi þó ekki sögunni hvort að bolurinn er í almennri sölu, eða hvað hann kostar ef svo er.  En ég verð að viðukenna að ég hafði ekki ímyndað mér "Don Alfredo" í "poppkúltúrnum", en svo lengi lærir sem lifir.

Ekki man ég eftir öðrum íslenskum stjórnmálamönnum "á bol", nema Steingrími J, í gervi "Che" sem var nokkuð notaður fyrir kosningarnar 2003.

Skyldi einhver komast í "boladeildina" með þeim Steingrími og Alfreð fyrir næstu kosningar?  Hvern myndir þú veðja á?


"Græningjar" í Samfylkingunni

Undanfarin misseri höfum við séð ýmsum nýjum hugtökum skjóta upp kollinum í stjórnmálunum.  Þekktust eru líklega "hægri-bleik" og "hægri-grænir".

Nýjasta hugtakið sem ég heyrði var svo "Samfó græningjar".  Þetta kemur í kjölfar þess að Samfylkingin birti nú nýverið stefnu sína í umhverfismálum, undir heitinu "Fagra Ísland" ef ég man rétt.

Það sem mesta athygli hefur vakið í plagginu er að stjóriðjuáformum skuli öllum skotið á frest, í það minnsta í 5 ár ef ég skyldi rétt.  Það vakti ekki minni athygli að margir frammámenn í Samfylkingunni virðast ekki vera á þeirri sömu skoðun.  Bæði á Suðurnesjum og á Húsavík virðast margur Samfylkingurinn vera á þeirri skoðun að stóriðja sé býsna heilladrjúg.

Margir velta því líka fyrir sér hver afstaða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði sé?  Ætla þeir að setja stækkun álversins í Straumsvík á "ís"?  Ætla þeir að leyfa Hafnfirðingum að kjósa um málið?  Gætu þeir hugsað sér að kosið yrði um stækkun álversins í Straumsvík jafnhliða alþingiskosningunum í vor?

Mun Gunnar Svavarsson fara í prófkjör með það að baráttumáli að frekari stjóriðjuppbygging sé stöðvuð?  Mun Tryggvi Harðarson gera það? 

Munu Hafnfirðingar kjósa Þórunni Sveinbjarnardóttur í fyrsta sæti á lista Samfylkingar ef hún lýsir sig eindregið á móti áframhaldandi uppbyggingu í Straumsvík, en Þórunn var ef ég man rétt ein af fáum í þingflokki Samfylkingarinnar sem greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun.  Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu í þessu höfuðvígi Samfylkingarinnar.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með málflutningi Samfylkingarmanna í Suðurkjördæmi og Norð-Austur, en í báðum kjördæmunum eru margir sem vonast eftir uppbyggingu stjóriðju, bæði innan Samfylkingar sem annara flokka. 

Sjálfsagt hefur mörgum í Samfylkingunni þótt nóg um uppgang Vinstri grænna í skoðannakönnunum á undanförnum mánuðum og brýnt að koma með útspil á móti. 

Einhverjum gæti ennfremur þótt þetta  gott innlegg í að "stilla saman strengi" stjórnarandstöðunnar og styrkt líkurnar á vinstri stjórn, en ég veit ekki hversu gott er að halda á sömu "atkvæðamiðin" í þeim tilgangi, en hitt er ég nokkuð viss um að þetta sendir nokkuð af fylginu hægra megin í flokknum af stað í leit að nýju "heimili".

Eins og einn kunningi minn sagði í tölvupósti, það á líklega eftir að koma í ljós hvaða skilning ber að leggja í orðið "græningjar" hjá Samfylkingunni.

 

 


Kæri Róbert

Það opna bréf sem Róbert Marshall ritar til Jóns Ásgeirs í fjölmiðlum í dag hlýtur að teljast nokkur tímamót.  Ekki aðeins vegna þess að þetta er að ég tel algerlega ný leið sem millistjórnandi velur til að ná sambandi við einn af eigendum fyrirtækins sem hann vinnur hjá.

Það sem hlýtur að vekja mesta athygli er sú trú yfirmanns NFS að Jón Ásgeir ráði því einn hver örlög stöðvarinnar verða.

Setningarnar,  "Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur." , hljóta að rata inn í annála og líklega Áramótaskaup.

Hvað oft skyldu nú hafa komið fram í fjölmiðlum, meðal annars á NFS, að Baugur eigi ekki ráðandi hlut í Dagsbrún.  Þeir séu einfaldlega einn af hluthöfunum, vissulega sá stærsti, en alls ekki þeir sem þar ráði einir.

En að Jón Ásgeir ráði öllu því sem hann vilji ráða, man ég ekki að hafi komið fram í fréttum stöðvarinnar, hvorki þegar rætt er um viðskipti eða annað.

Því hljóta íslendingar að spyrja:  Kæri Róbert, hvers vegna var ekki skýrt frá þessari staðreynd fyrr en nú á ögurstundu?

En stærsta spurningin er gerir Jón Ásgeir eitthvað í málinu?

Auðvitað getur enginn svarað því nema sá hinn sami Jón Ásgeir, en ef NFS lifir þessar hremmingar af, telja menn sig þá hafa fengið svarið við því hver ræður hjá Dagsbrún og 365 miðlum?

 


mbl.is Biður um tvö ár fyrir NFS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afvopnun er nauðsyn

Ég get ekki annað en tekið undir þetta.  Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir friðinn að stjórn Líbanon hafi "einkarétt" á því að reka her innan landamæra sinna.  Það að stjórnmálaflokkar, önnur samtök eða einstaklingar reki vopnaðar sveitir býður ekki upp á "stabílt" ástand.

Í fljótu bragði man ég ekki eftir svipuðum kringumstæðum hvað þetta varðar, nema auðvitað Weimar lýðveldið þýska, en þar voru "Freikorps", "Rauði herinn" og aðrar fylkingar áberandi á fyrstu árum lýðveldisins.  Seinna komu svo til sögunnar S.A. sveitirnar og óþarfi að fara frekar út í þá sálma.

Stjórn Líbanon getur ekki búið við það að "sjálfstæður" her geti hvenær sem er hafið árásir á grannríki þess, rétt eins og gerðist nú seint í sumar. 

Hvatning Chirac er því skiljanleg og í raun nauðsynleg, enda Frakkar í stóru hlutverki í friðargæslunni og veita henni forystu.  En einhverra hluta vegna hef ég það á tilfinningunni að "alþjóðasamfélagið" líti málið ekki sömu augum, eða takist alla vegna að flækja það svo að engan vegin sé ljóst hvaða augum það líti það.


mbl.is Chirac hvetur til afvopnunar Hizbollah
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegar ljósmyndir og ekkert "photoshop"

Nokkur undanfarinn ár hef ég verið viðloðandi Fálkann, fréttabréf Íslendingafélagsins hér í Toronto.  Er reyndar að vinna í því að koma því yfir á annara hendur, en er þó að vinna í næsta tölublaði sem áætlað er að komi út stuttu fyrir næstu mánaðarmót.

En það var nú ekki það sem ég ætlaði að fjalla um hér, heldur ljósmyndarann Gregory Colbert, en í næsta tölublaði fréttabréfsins verður einmitt grein um hann, eftir annan íslenska konsúlinn hér í borg, Gail Einarson-McCleery.  Ástæðan fyrir því að fjallað er um Colbert er að sjálfsögðu sú að hann er af íslensku bergi brotin, að hluta til, en eins og segir í greininni:

"Gregory was born in Toronto in l960. His mother Joan was born in Winnipeg, the daughter of Oddney Sigurdson and Guðjón Ingvar Bergman. His parents were Guðmundur Jónasson and Guðrún Jónsson, who both emigrated to Canada. On the maternal side, her grandparents were Sigurmundur Sigurdsson and Svanbjörg Sigfússon. Sigurmundur came to Canada with his mother Oddny Hannesdóttir, who settled in the Arnes district of Manitoba."

Gregory myndi því líklegast teljast barnabarnabarnabarn Íslands, svona rétt eins og við tölum um "tengdasyni Íslands" og köllum flesta þá listamenn sem til landsins koma "Íslandsvini".

Væri nú ekki tilvalið að eitthvert íslenska myndlistarsafnið byði þessu barnabarnabarnabarni landsins að sýna á Íslandi?

En ég hvet alla sem hafa gaman af ljósmyndun, eða myndlist yfirleitt til að skoða myndir Gregory´s á heimasíðu sýningar hans:  www.ashesandsnow.org

Og athugið, þarna er um ljósmyndir að ræða, ekkert "photoshop".


Hver er sannleikurinn - skyldi hann vera "óþægilegur"?

Þetta er ein af þessum fréttum sem vekur líklega ekki mikla athygli, en á hana þó sannarlega skilið.  Það er þarft að velta því fyrir sér hvað breyttist á þessum tíma.  Hvað varð þess valdandi að efnið var bannað og hvað verður þess valdandi að nú vilja menn fara að nota það á ný.

Þetta er eitt af þessum atriðum sem "bolur" eins og ég hef ekki mikla, ef nokkra, möguleika á að fá niðurstöðu um, ég verð að treysta á það sem kemur í fréttum og öðrum fjölmiðlum og reyna að mynda mér skoðun út frá því. 

Var eitthvað brogað í rannsóknum sem leiddu til bannsins? Hefði verið nóg að endurskoða notkunarreglur í stað þess að banna það?  Er einhver breyting vægi mannslífa gegn tjóni á náttúrunni í matinu sem nú leyfir DDT?

Er það rétt að DDT ógni alls ekki heilsu manna, heldur sé nauðsynlegt í baráttunni gegn malaríu og geti þannig bjargað þúsundum mannslífa?

Getur verið að undanfarna áratugi hafi tugþúsundir manna tapað lífinu, sem hefðu hugsanlega lifað ef DDT hefði verið notað?

Ef vafi lék á um áhrif efnisins, var þá rétt að láta náttúruna njóta vafans?  En hvaða vafa nutu þá fórnarlömb malaríunnar?

Það má ekki misskilja það sem ég er að segja, ég er þess fullviss um að um efni á við DDT eiga að gilda notkunarreglur, og það þarf að fylgja þeim eftir.  Almenningur líka sjálfsagðan rétt á þvi að vita hvernig það er notað og hvort það hafi hugsanlega komið nálægt framleiðslu á matvörum sem honum eru boðnar til kaups.

En almenningur á líka rétt á því að berjast við sjúkdóma og útbreiðslu þeirra með þeim ráðum sem þekkt eru og eru öðrum ekki þeim mun hættulegri.

En sá hópur manna sem týndi lífinu vegna malaríu, en hefði hugsanlega átt betri lífslíkur með DDT, er jafn þögull og "vorið" sem fjallað var um í bókinni (Silent Spring) sem vitnað er til í fréttinni.

Al Gore hefur víst verið nokkuð iðinn við að lofa þessa sömu bók, skyldum við eiga von á tilkynningu frá honum um hve notadrjúgt DDT sé við að hefta útbreiðslu malaríu?  Eða væri það óþægilegur sannleikur fyrir hann?

Hér má svo finna frétt BBC sem vitnað er í í frétt mbl.is


mbl.is WHO mælir með notkun DDT í baráttunni við malaríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Loose Screw/Change" önnur sjónarmið.

Eins og margir vita eflaust hefur "heimildamyndin" Loose Change vakið mikla athygli nú nýverið.  Það hefur svo sem ekki verið neinn skortur á samsæriskenningum fyrir, en með því að setja saman nokkuð heillega kvikmynd sem er ókeypis á netinu hefur höfundum hennar og frameiðendum tekist að kveikja mikið "buzz".

Ég fékk í tölvupósti í morgun þar sem kunningi minn var að segja mér af myndinni (ég hef ekki haft tíma til að glápa, en hef þó gripið niður í henni), og benti mér jafnframt á góðan bloggara sem hefði skoðað málið og kæmist að annari niðurstöðu.  Vildi hann endilega vekja athygli mína á þessu og hvatti mig til að skoða myndina og hafa þetta til hliðsjónar.

En á forsíðunni er vitnað til fjögurra kafla þar sem höfundur bloggsins telur sig sanna lygar og misfærslur  Loose Change.

The Top Lies and Deceptions of Loose Change 1-10

The Top Lies and Deceptions of Loose Change 11-20

Top Lies and Deceptions in Loose Change 21-30

Top Lies and Deceptions In Loose Change 31-37

Á þessari vefsíðu má svo horfa á útgáfu af Loose Change þar sem athugasemdum hefur verið bætt inn í myndina.  Hér er svo listi yfir ýmsar heimildir sem hafa verið notaðar þar.

En auðvitað er það því sem næst ómögulegt fyrir hvern og einn að athuga heimildir á bak við hvort sum sig, Loose Change, eða þá sem segja að þetta sé vitleysan ein.  Það er einmitt það sem samsæriskenningar "lifa" á.

En ég hvet þá sem hafa gaman af slíkum kenningum að skoða hvoru tveggja.

Þeir sem hafa svo gaman af því að búa til litlar samsæriskenningar sjálfir, hvet ég til að þeir velti því fyrir sér hvers vegna þetta er svo sterkt í umræðunni akkúrat núna.

 


En hvað verður það þá sem veldur heimsendi?

Ég tel að yfirlýsingar sem þessar muni hafa lítil ef nokkur áhrif á "heimsendaspámennina sem hafa verið uppteknir af því að að segja okkur að olíuþurrð sé "handan við hornið".

Jafnvel þó að þeir myndu sætta sig við að olían væri ekki á þrotum, þá myndu þeir aðeins snúa sér að næsta "máli", sem án efa felur í sér endalok "siðmenningar", ef ekki heimsins eins og við þekkjum hann.  Það er reyndar með eindæmum hvað samsæriskenningar blómstra nú á dögum, sem aldrei fyrr, eru reyndar orðin stór iðnaður og fjöldi fólks sem hefur framfæri sitt af þeim, með beinum eða óbeinum hætti.

Ekkert hefur verið samsæriskenningum og smiðum þeirra eins mikilvægt og internetið.   Enda má sjá kenningar sem vísa í flestar heimildir sínar í misáreiðanlegar vefsíður, sem síðan vísa annað og koll af kolli, vísað er í fólk sem engin leið er að rekja og þar fram eftir götunum.

Enda nenna fæstir að eltast við þessar kenningar, en þær ganga gjarna "ljósum logum" án netinu.

Ég hef áður bloggað um skoðanir mínar um "endalok olíunnar", sem lesa má hér og samsæriskenningar, sem finna má hér.

En að lokum er rétt að hafa hér eftir máltæki sem ég sá einhversstaðar á netinu og hljóðaði svo:  Það að þú sért haldinn ofsóknaræði, þýðir ekki að þeir séu ekki að fylgjast með þér.

Orð í tíma töluð.


mbl.is Jarðarbúar hafa nýtt 18% olíulinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af náttúrufegurð Kringilsárrana

Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegt með auðveldari hætti annars staðar...

- Árbók Ferðafélags Íslands 1987, um Kringilsárrana.

Ég var að lesa hreint ágætis pistil á www.andriki.is sem mig langar til að vekja nokkra athygli á.  Þetta er vel skrifaður pistill og vekur athygli á mismunandi skoðunum fólks á náttúrufegurð og mikilvægi hvers svæðis.

Pistillinn vekur líka athygli á fréttamati og fréttaflutningi og fjölmiðlapistlum Ólafs Teits Guðnasonar, sem ég sé því miður ekki.

En þetta er góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

Sjálfur hef ég ekki komið á svæðið, og get því ekki sjálfur dæmt um málið, en er þó fylgjandi virkjunum og aframhaldandi nýtingu auðlinda íslendinga.

 


Af réttindum og leynifangelsum

Ég er frekar gamaldags maður, að ég held, ég trúi á ákveðin grunnréttindi, fyrir alla.  Oft hef ég sagt við menn sem ég hef rætt við að frelsi þeirra endi þar sem nefið á mér byrjar og öfugt  (þetta orðatiltæki má víst rekja til bandaríkjamannsins John R. Ashton, en má finna víða í mismunandi útgáfum.).  Á síðustu árum hef ég reynt að passa að þessi "frasi" eigi enn við nefið á mér, en maginn taki ekki yfir sem helsta "merkissteinn" helgi minnar, en það er önnur saga.

Þó er mér og flestum öðrum það ljóst að þessi skilgreining er ekki rétt, og stenst raunar ekki í nútíma samfélagi.  Ýmis réttindi eru tekin af einstaklingum og það talið í þágu heildarinnar, og þó að við séum mis sátt við frelsiskerðingarinnar, þá taka flestir þann kost að beygja sig undir þær.  Þetta er einn af fylgifiskum lýðræðisins, meirihlutinn (eða stærsti hlutinn) kemur sínum mönnum til valda og stjórnar landinu.  Við beitum þeim réttindum okkar að vera á móti, tjáum okkur í ræðu og riti, en göngumst undir ákvarðanirnar og beitum ekki ofbeldi.  Vonumst til að vinna okkar hugmyndum fylgi og komast í meirihluta og beygja þannig minnihlutann undir okkar vilja.  Svona virkar þetta í stórum dráttum, þó vissulega sé hér um einföldun að ræða.

En undanfarin misseri hefur verið mikil umræða um svokölluð "leynifangelsi" Bandaríkjanna, fanga sem þeir halda i Guantanamo, réttindi þeirra og svo fram eftir götunum. 

Þó að ég ætli mér ekki það hlutverk að verja allt þetta "batterí" þá get ég ekki neitað því að ég hef velt þessum hlutum mikið fyrir mér og frá mismunandi sjónarhornum, því satt best að segja hefur mér finndist megnið af fjölmiðlaumfjölluninni vera frekar einlit.

Eitt af því sem ég velti fyrir mér, er hvernig eru þessir menn flokkaðir?  Hvaða "catógoriíu" tilheyra þeir?  Eru þeir:

A:  Stríðsfangar.  Stærstur hluti þeirra (ef ég hef skilið málið rétt) var handtekin í Afghanistan, þar sem Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust gegn stjórn Talibana, til að ná til hryðjuverkahóps Al Quaida.  En eru þessir menn hermenn?  Fullnægðu þeir þeim skilyrðum sem alþjóðalög gera til hermanna?  Til dæmis um að þeir séu einkennisklæddir og skeri sig þannig frá almennum borgurum.

Nú hafa margir þeirra verið látnir lausir, en stríðinu í Afghanistan er ekki lokið.  Telst það ekki nokkuð sérstakt ef stríðsfangar eru látnir lausir áður en friður er komin á?

B. Hryðjuverkamenn.  Ef við skilgreinum þá sem eru í haldi sem hryðjuverkamenn, þá verðum við að reyna að skilgreina hvaða réttindi hafa hryðjuverkamenn?  Hafa þeir öll sömu réttindi og "almennir" glæpamenn?  Hafa þeir sömu réttindi og stríðsfangar?  Eða hafa þeir á einhvern hátt minni eða öðruvísi réttindi en þeir hópar?

C.  Eitthvað annað.  Er einhver önnur skilgreining sem hér væri betra að notast við?

Sjálfur hef ég hallast að lið B., að skilgreina þá sem hryðjuverkamenn.  Í framhaldi af því hef ég líka velt því fyrir mér hvort að réttlætanlegt sé að brjóta á hryðjuverkamönnum einhver þau réttindi sem við viljum að "venjulegir" einstaklingar hafi?

Ef við segjum að það sé ekki réttlætanlegt að skerða réttindi eins né neins, þá kemur upp spurningin um væntaleg fórnarlömb, að því gefnu að talið sé að samverkamenn viðkomandi hryðjuverkamanna gangi enn lausir.  Hver eru réttindi "væntanlegra fórnarlamba"?  Hvernig vega þau réttindi á móti réttindum "meintra hryðjuverkamanna"?

Sé "nefið" aftur tekið inn í umræðuna, þá má spyrja, hver er réttur þess sem hefur þegar gefið mér "á´ann" og undirbýr frekari árásir á mig og vini mína?  Hver er réttur minn og vina minna til varna? 

Eins og sjá má á þessari frétt mbl.is telja menn árangur af þessum "réttindabrotum" umtalsverðan.  Hvað ef þotunum og farþegum þeirra sem talið er að hafi átt að sprengja yfir Atlantshafinu, var bjargað með upplýsingum sem rekja má til "réttindabrota" á hryðjuverkamönnum.  Myndi það réttlæta "réttindabrotin"?

Fjöldi annarra hryðuverkaárása hefur verið afstýrt undanfarin misseri og má áætla að tugum ef ekki hundruðum einstaklinga hafi verið bjargað frá dauða eða alvarlegum meiðslum.  Ef sú björgun er að einhverju leyti að þakka upplýsingum sem aflað var með "réttindabrotum", réttlætir það að einhverju marki "réttindabrotin"?

Er réttlætanlegt að vega "réttindabrot" á hryðjuverkamönnum gegn hugsanlegri björgun mannslífa?

Ég held að það séu ekki til nein "rétt" svör til við þessum spurningum.  Það verður hver og einn sem áhuga á því hefur að gera þetta upp við sig og sína samvisku, það er ekki að efa að svörin verða misjöfn.  En það hafa allir gott af því að hugsa um þessi mál.  Ég vil að lokum vekja athygli á ágætis bloggi eftir Kristján G. Arngrímsson sem fjallar um sama mál, á  dýpri fræðilegri grunni en ég geri hér..

Að lokum vil ég segja að það hefur oft vakið undrun mína að fólk sem hefur talað fjálglega í mín eyru um nauðsyn þess að taka afbrotamenn engum vettlingatökum, sérstaklega fíkniefnasala og kynferðisbrotamenn (ekki það að ég sé að taka upp hanskann fyrir þessa einstaklinga), hafa jafnvel talað um nauðsyn þess að snúa við sönnunarbyrðinni fyrir þá síðarnefndu, hafa miklar áhyggjur af réttindastöðu fanga í "leynifangelsum" Bandaríkjastjórnar.  Þá velti ég því fyrir mér hvort að það sé nálægðin sem skipti máli.

 


mbl.is Hryðjuverkamennirnir 14 við góða heilsu segir yfirmaður Guantanamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband