Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Lyf og listir

Það má að mörgu leiti taka undir þessa gagnrýni, en eins og ég hef áður bloggað um er hætta á að sívaxandi þrýstingur verði að færa eitt eða annað um þrep í virðisaukaskattskerfinu.

Það má til sanns vegar færa að best sé að hafa eingöngu eitt þrep, þannig sé kerfið einfaldast, skilvvirkast og minnst hætta á undanskotum.

En þegar byrjað er að hrófla við kerfinu er eðlilegt að það vakni ýmsar spurningar.

 Til dæmis, hvort er mikilvægara fyrir almenning, lyf eða listir?


mbl.is Furða sig á að virðisaukaskattur á lyfjum sé ekki lækkaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af West Ham

Nú þegar Íslendingar hafa eignast West Ham, eru sumir að velta því fyrir sér hvað Björgólfur meinar með því að kaupa West Ham, það náist engin samlegðaráhrif og þetta falli ekki inn í reksturinn.

Það má til sanns vegar færa að vissulega hefði það verið hentugra að Jón Ásgeir og Baugur hefðu keypt félagið, enda hefði Bónus grísinn sómt sér vel í merki félagsins og vel hefði mátt hugsa sér að markaðsetja svínakjötslínu undir nafni West Ham í verslunum Baugs.

Það má líka velta fyrir sér nú þegar Íslendingar hafa eignast þetta fornfræga Enska knattspyrnufélag, hvort að Ólafur Ragnar muni ekki koma að málinu, en hann hefur verið óþreytandi við að leggja "útrásinni" lið, enda verið talsmaður "útflutningsleiðarinnar" um langt árabil.  En það er spurning hvort að Ólafur verði ekki gerður að sérstökum verndara West Ham, það væri nú alldeilis ekki óviðeigandi. 


Sjallar í Norð-Austri

Þá er að skella á prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norð-Austur kjördæminu, það verður kosið á morgun.

Þeir sem ég hef heyrt í úr kjördæminu tala um að sjaldan eða aldrei hafi verið meiri spenna í prófkjöri á "norðurhjaranum" og aldrei meira lagt undir.  Kosningaskrifstofur opnaðar, og "stórborgarbragur" á baráttunni.

Það vakti athygli mína að Norðanmennirnir opna aðeins kosningaskrifstofu á Akureyri, en helstu frambjóðendur Austfirðinga opna bæði fyrir norðan og austan.   Kunningjar mínar útskýrðu þetta á mismunandi hátt, einn sagði að þetta sýndi auðvitað "helvítis hrokann" í Akureyringum, en annar sagði einfaldlega að þetta sýndi hvar atkvæðamagnið lægi og hvernig "hreppapólítíkin" legði sig, það væri til lítils að leggja net þar sem væri ekki von um afla.

En þetta á örugglega eftir að vera hörku barátta og líklega verða nokkur tíðindi í prófkjörinu, flestir sem ég heyrði í voru þeirrar skoðunar að Kristján myndi hafa þetta, en Arnbjörg hefði þó saxað á forskot hans á undanförnum dögum.  Það gæti því brugðið til beggja vona.  Því sem næst allir voru hins vegar fullvissir um að Ólöf Nordal fengi góða kosningu.

Síðan ræddu menn möguleikann á því að Ólöf skytist upp fyrir "fallkandídatinn" um fyrsta sætið og hann "súnkaði" niður í það þriðja, um það voru skiptar skoðanir.  En menn fullyrtu í mín eyru að "Kristjánsmenn" leggðu baráttuna upp þannig að kjósa ætti Ólöfu í 2. sætið.  Hvort að það dugir henni á eftir að koma í ljós.

Aðrir þeir sem eru framarlega í baráttunni eru Þorvaldur Ingvarsson, en þó að flestir teldu að hann blandaði sér ekki í alvöru í baráttuna um 1. sætið, vildu menn meina að það gæti þó skipt sköpum hvað mörg "Akureyraratkvæði" hanm tæki af Kristjáni í 1. sætið.  Einn velti því upp hvort að til þess væri leikurinn gerður? 

Sigurjón Benediktsson, sem einmitt bloggar hér á blog.is, og Sigríður Ingvarsdóttir voru  einna helst nefnd til að fylla topp 6 listann.

En frambjóðendurnir bjóða upp á að stilla upp hörkulista, Sjálfstæðisflokkurinn er í sókn á svæðinu, líklega er ekki óraunhæft að spá þeim 1. þingmanni kjördæmisins og 3. þingmönnum.

 


Það er sem sagt ekki allt í kalda koli?

Það er svolítið merkilegt að þegar ég fylgist með fréttum frá "landinu bláa", en er ekki lengur staddur þar sjálfur, fæ ég oft á tilfinninguna að þar sé allt í kalda koli, þar sé vá fyrir dyrum, þar sé hrun yfirvofandi, þar sé lýðræði fótum troðið, þar sé svo mikil spilling að landið sé á heljarþröm.

Sem betur fer á ég þó vini og kunningja sem fullvissa mig um hið gagnstæða, bæði í símtölum, netspjalli og tölvupóstum.  Þau skipti sem ég hef komið í "heim í heiðardalinn" hefur sömuleiðis blasað við mér samfélag á hraðri uppleið, hröð uppbygging, aukin velmegun og nokkuð blómlegt þjóðfélag.

Reglulega má svo sjá niðurstöður erlendra rannsókna sem segja Ísland eitt af þeim löndum sem best er að búa í, þar sé spilling hverfandi og hér til hliðar má svo sjá að lýðræði er talið standa hvað sterkustum fótum þar.

En reglulega má lesa yfirlýsingar frá samtökum s.s. Þjóðarhreyfingunni (ég hef ekki heyrt öllu "Orwellískara nafn yfir það sem virðist vera fámennur klúbbur óánægðra einstaklinga), hinum ýmsu sérhagsmunasamtökum, sjálfskipuðum "mannréttindastofum" og þar fram eftir götunum, þar sem allt virðist stefna lóðbeint til glötunar, sérstaklega ef ekki verði farið að þeim tillögum sem þessir hópar setja fram.

Hvernig stendur á því að erlendar rannsóknarstofnanir og ýmsir hópar heimamanna hafa svona ólíka sýn á ástand mála?

Getur það verið vegna þess að erlendu rannsóknaraðilarnir hafa engan pólítískan metnað á Íslandi?  Eða getur það verið að það spili inn í að þeir eru ekki að leita eftir að Íslenska ríkið fjármagni  eitt af neitt af áhugaefnum sínum?  Eða spilar það stóra rullu að þeir eru ekki að leitast við að fá kjósendur til að gefa þeim atkvæði sitt í næstu kosningum?

Eða hafa þessir útlendingar ekki hundsvit á Íslenskum málefnum?  Skilja þeir ekki sérstöðu Íslands?

 


mbl.is Lýðræði næstmest á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

16.000 gallon

Þá var vatnsreikningurinn að koma í hús, það má segja að það sé sá fyrsti sem við að Bjórá þurfum að greiða.

Notkunin frá 19. júli til 10 nóvember hljóðar upp á 16.000 gallon.  Það gerir reikning upp á ca. 6.300 kall.  Klórið í vatninu er innifalið.

Hvað skyldi meðalvatnsnotkun 4ja manna fjölskyldu vera á Íslandi?  Veit það einhver?

Alltaf gott að velta fyrir sér notkuninni á auðlindunum, ekki satt?


Silfrið fundið

Þá hafði ég það loksins af að horfa á nýjasta "Silfrið".

Það var nokkuð áhugaverður þáttur, sérstaklega fyrir áhugamenn um "armapólítík" og undirölduna í Samfylkingunni.  Spjall Egils við Margréti Frímannsdóttur, Margréti Sverrisdóttur, Gísla Martein og Benedikt Sigurðarson var líflegt og skemmtilegt.  Það var nokkuð merkilegt að heyra Margréti Sverris verja uppþotin og afsökunarbeiðnir innan Frjálslynda flokksins og ekki síður merkilegt að heyra Benedikt senda félögum sínum í Samfylkingunni, þá sérstaklega forystu flokksins í Norð-Austri og Össuri  tóninn. 

Ég gat ekki betur séð en að Margrét Frímanns væri nokkuð sposk á svipinn undir þessum lestri Benedikts, hefur ef til vill hugsað að það væri ekki alslæmt að vera á útleið úr argaþrasinu.  En Margrét kannaðist þó ekki við lýsingar á innanflokksvandamálum í Samfylkingunni, og sagði þá leið að auðvitað stæðu þingmenn að baki formanni flokksins, sama hver hann væri.

Þeir sem hafa áhuga á því að lesa um skoðun Benedikts á Samfylkingunni og prófkjörinu í Norð-Austur finna hana hér.

Síðan komu í settið Ólöf Nordal og Kristján Hreinsson, Ólöf kom skemmtilega út og spái ég henni velgengni í prófkjörinu um helgina.  Hreinskilnislega þá fannst mér Kristján koma út sem dónalegur frasakall.  Sífelld frammíköll (Egill gat ekki einu sinni rætt um Margréti Frímanns um bókina hennar, án þess að Kristján þyrfti að grípa fram í) og frasarunur.  Líklega vantaði að hann færi með kveðskap í þættinum, því hann er lipur á því sviði og hef ég oft haft gaman af kveðskap hans, en ekkert af þeim húmor og gleði sem oft einkennir skáldskap Kristjáns skilaði sér í framkomu hans þessum þætti.

Síðan var komið að þætti Valdimars Leós, það var óneitanlega nokkuð sérstakt að sjá hann taka niður Samfylkingarprjóninn í beinni og gefa Agli. Spurning hvort að Egill verði ekki að opna safn "pólítískrar memorabilju".  Færi það ekki vel í glerskáp t.d. á Ölstofunni?

En það var ekki að heyra neitt sem sérstaklega réttlætti úrsögn Valdimars, nema auðvitað að fyrst að Samfylkingin vill hann ekki, vill hann ekki Samfylkinguna.  Að það gangi betur að berjast fyrir "óhreinu börnunum" eins síns liðs eru ekki rök sem ég kaupi.

En það eru óneitanlega atvik sem þetta, sem og uppgjör og yfirlýsingar Benedikts sem gefa þætti Egils vikt.  Þetta er þátturinn sem hluturnir heyrast í og gerast.

Það er ekki algengt að spjallþættir "skúbbi" sem þetta.

 

 


Lenín dagsins í dag?

Ég vil taka undir og vekja athygli á þessu bloggi.

Það þykir ekki upphefð á mínu heimili að vera líkt við Lenín.  Hér býr manneskja sem fékk að reyna þjóðskipulag hans á sjálfri sér.

 


Frostrósir

FrostrosÞað er nú heldur farið að kólna hér í Toronto, svona rétt eins og víðast hvar á norður hvelinu.  Undanfarnar vikur hef ég undrað mig á því hvað rósirnar hér í garðinum hafa verið veðurþolnar, við klipptum þær reyndar flestar niður, en leyfðum þó tveimur runnum að standa, þeim sem voru blómstrandi.

Og þeir hafa haldið áfram að blómstra, allan nóvember hafa rósirnar verið útsprungnar og fallegar, en í morgun blöstu "frostrósir" við okkur út um gluggann, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem ég smellti af um 8 leitið í morgun.

Falleg sjón, en líklega er þetta endalok rósanna, þangað til í vor.


Týnt Silfur

Hvað er þetta eiginlega með "Silfrið"?  Hvers vegna er það ekki á vefnum?  Veit einhver skýringuna á því?

Ég hef eiginlega aldrei horft á það "í beinni", en vanist því að geta gengið að því á vefnum, en nú er bara ríflega vikugamlan þátt þar að finna?

Ef einhver veit eitthvað um þetta mál eru útskýringar vel þegnar í athugasemdir.


Hver var kosinn, þingmaðurinn eða flokkurinn?

Það er ekki ný deila hvernig eigi að taka á því ef þingmaður ákveður að yfirgefa flokk og ganga í annan, hvernig honum beri að haga sér hvað varða þingsætið.

Þetta er ekki einfalt deiluefni og hægt að líta á það frá mörgum sjónarhornum.  Veltum nokkrum upp.  Tökum Valdimar sem dæmi.

1. Væri Samfylkingin betur sett ef Valdimar væri ennþá í flokknum, hverju breytir flokksaðildin í sjálfu sér, ef þingmaðurinn ákveður að "spila sóló"? 

2. Ef flokkurinn á þingsætið, ætti þá flokkunum að vera heimilt að víkja þingmönnum úr sæti, ef þeir framfylgja ekki samþykktum flokksins, eða ganga augljóslega gegn hagsmunum hans?

Hvað varðar 1. lið er það mitt mat að flokksaðildin geti varla verið úrslitaatriði, enda þekkt að margir flokkar kjósa að skreyta lista sína með orðunum "og óháðir".  Er ekki alveg jafn heiðarlegt að segja sig úr flokki, eins og að greiða atkvæði gegn honum aftur og aftur.  Það að vera í sífelldri andstöðu gegn flokki sínum kallar ekki á afsögn, því ætti þá úrsögn að gera það.  Er það flokksskírteinið eitt sem gerir þetta "allt siðlegt"?  Eða er eftirsjáin meiri eftir því fé sem þingflokkurinn fær fyrir hvert þingsæti, heldur en þingmanninum?

Hvað lið 2. varðar held ég að flestir sjái að það er "absúrd", enda svokallað "flokksræði" ekki vel þokkað, alla vegna ekki í ræðu og riti á Íslandi.  Það er enda hornsteinn þingmennskunar að þingmennirnir eigi að fylgja eigin samvisku, eða þannig.

Það er ekkert nýtt að þingmenn gangi gegn því sem ætla má að sé vilji kjósenda þeirra.  Eitthvert þekktasta dæmið um það er líklega myndum ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen.  Þó varast beri fullyrðingar, þá er að ég tel óhætt að kjósendur lista Sjálfstæðisflokksins víða um landið voru ekki að kjósa menn á þing til að kljúfa þar flokkinn og mynda ríkisstjórn með vinstri flokkunum.  Finnst þá þeim sem segja að flokkarnir "eigi" þingsætin að Sjálfstæðiflokkurinn hefði átt að eiga úrræði til að víkja þeim af þingi?

Ég segi nei, og ég reikna með því að það geri flestir.  Hversu óviðeigandi sem okkur kann að þykja framganga einstakra þingmanna hvað þetta varðar, tel ég að þeir eigi fullan rétt á að halda þingsæti sínu.

Hitt er svo annað mál, að kjósendur eiga að öllu jöfnu síðasta orðið hvað varðar þingsetu, og það er þeirra að dæma, hvernig þingsæti skipast, það gera þeir í kosningum, en á milli kosninga verðum við að treysta þeim þingmönnum sem eru kosnir og hvernig þeir fara með traust kjósenda.

Að lokum verð ég þó að minnast á viðbrögð Samfylkingarmanna sem mér finnst sum nokkuð skondin, margir keppast við að "skrifa" hann inn í aðra flokka í "hvítabandinu", svona rétt eins og um leikmannaskipti séu að ræða, en hvort að það verður til að skapa sterkari liðsheild, skal ósagt látið.  Aðrir sjá svo á ögurstundu að líklega hefur pólítísk vigt þingmanns Samfylkingarinnar ekki verið mikil.  Má ekki segja um það, betra seint en aldrei.


mbl.is Harma ákvörðun Valdimars um úrsögn úr Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband