Silfrið fundið

Þá hafði ég það loksins af að horfa á nýjasta "Silfrið".

Það var nokkuð áhugaverður þáttur, sérstaklega fyrir áhugamenn um "armapólítík" og undirölduna í Samfylkingunni.  Spjall Egils við Margréti Frímannsdóttur, Margréti Sverrisdóttur, Gísla Martein og Benedikt Sigurðarson var líflegt og skemmtilegt.  Það var nokkuð merkilegt að heyra Margréti Sverris verja uppþotin og afsökunarbeiðnir innan Frjálslynda flokksins og ekki síður merkilegt að heyra Benedikt senda félögum sínum í Samfylkingunni, þá sérstaklega forystu flokksins í Norð-Austri og Össuri  tóninn. 

Ég gat ekki betur séð en að Margrét Frímanns væri nokkuð sposk á svipinn undir þessum lestri Benedikts, hefur ef til vill hugsað að það væri ekki alslæmt að vera á útleið úr argaþrasinu.  En Margrét kannaðist þó ekki við lýsingar á innanflokksvandamálum í Samfylkingunni, og sagði þá leið að auðvitað stæðu þingmenn að baki formanni flokksins, sama hver hann væri.

Þeir sem hafa áhuga á því að lesa um skoðun Benedikts á Samfylkingunni og prófkjörinu í Norð-Austur finna hana hér.

Síðan komu í settið Ólöf Nordal og Kristján Hreinsson, Ólöf kom skemmtilega út og spái ég henni velgengni í prófkjörinu um helgina.  Hreinskilnislega þá fannst mér Kristján koma út sem dónalegur frasakall.  Sífelld frammíköll (Egill gat ekki einu sinni rætt um Margréti Frímanns um bókina hennar, án þess að Kristján þyrfti að grípa fram í) og frasarunur.  Líklega vantaði að hann færi með kveðskap í þættinum, því hann er lipur á því sviði og hef ég oft haft gaman af kveðskap hans, en ekkert af þeim húmor og gleði sem oft einkennir skáldskap Kristjáns skilaði sér í framkomu hans þessum þætti.

Síðan var komið að þætti Valdimars Leós, það var óneitanlega nokkuð sérstakt að sjá hann taka niður Samfylkingarprjóninn í beinni og gefa Agli. Spurning hvort að Egill verði ekki að opna safn "pólítískrar memorabilju".  Færi það ekki vel í glerskáp t.d. á Ölstofunni?

En það var ekki að heyra neitt sem sérstaklega réttlætti úrsögn Valdimars, nema auðvitað að fyrst að Samfylkingin vill hann ekki, vill hann ekki Samfylkinguna.  Að það gangi betur að berjast fyrir "óhreinu börnunum" eins síns liðs eru ekki rök sem ég kaupi.

En það eru óneitanlega atvik sem þetta, sem og uppgjör og yfirlýsingar Benedikts sem gefa þætti Egils vikt.  Þetta er þátturinn sem hluturnir heyrast í og gerast.

Það er ekki algengt að spjallþættir "skúbbi" sem þetta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband