Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006
18.11.2006 | 05:25
Slagkraftur "Sleggjunnar" mældur og léttvægur fundinn
Þá er ljóst orðið að "Sleggjan" er að öllu óbreyttu á leið út af þingi.
Magnús Stefánsson Félagsmálaráðherra vinnur öruggan sigur. Þó verður því ekki mótmælt að Kristinn fær nokkuð viðunandi atkvæðafjölda í 1. sætið (ca. 40%), en það er áberandi hvað hann fær fá atkvæði í heild.
Nú er að sjá hvort að Kristinn fari í sérframboð, en spádóma í þá átt má finna víða á netinu. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Kristinn fari í þann slag, ég held að þeir einu sem virkilega myndu fagna því og hagnast á því væru sjálfstæðismenn. Kristinn myndi fyrst og fremst sækja stuðning sinn til óánægðra framsóknarmanna og svo stjórnarandstöðunnar, jafnvel meira til stjórnarandstöðunnar en Framsóknar. Margir vilja svo sem meina að í þeim herbúðum hafi hann verið megnið af yfirstandandi kjörtímabili.
En það er ljóst að slagkraftur "Sleggjunnar" innan Framsóknarflokksins var ekki nægur, "grasrótin" var ekki með honum, framsóknarmenn í Norð-Vestur hafa fellt dóm sinn. Líklega verður þetta að teljast nokkuð góður listi fyrir Framsókn, í það minnsta á "pappírnum" Herdísi þekki ég ekki til, en auðvitað gæti kona sópað til þeirra í kjördæminu, gamla Norð-Vesturland hefur líka verið þeim gjöfult í gegnum tíðina, þannig að þetta gæti gert sig ágætlega hjá þeim. En eins og staðan er akkúrat í dag, verða þeir að vera heppnir til að halda sínum 2. mönnum.
En það sem flestir bíða eftir er að heyra viðbrögð Kristins og hvort hann komi til með að sitja í 3. sætinu.
Taflan hér að neðan sem sýnir atkvæðaskiptingu er fengin af vef framsóknarmanna í Skagafirði, http://www.krokur.is/framsokn/
Lokatölur: | 1. | 1.-2. | 1.-3. | 1.-4. | 1.-5. |
1.Magnús Stefánsson | 883 | 1.079 | 1.207 | 1.293 | 1.362 |
2.Herdís Sæmundardóttir | 41 | 979 | 1.155 | 1.273 | 1.380 |
3.Kristinn H. Gunnarsson | 672 | 773 | 879 | 932 | 986 |
4.Valdimar Sigurjónsson | 9 | 99 | 732 | 1.024 | 1.235 |
5.Inga Ósk Jónsdóttir | 3 | 118 | 320 | 830 | 1.172 |
Magnús í 1. sæti þegar helmingur atkvæða var talinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2006 | 05:07
Slæmur atburður - Slæm fréttamennska
Ekki ætla ég að afsaka atburðina í Beit Hanoun, það er illa gerlegt. En mig langar þó að leggja orð í belg varðandi fréttaflutning af svæðinu og heimsókn sendiherra Ísraels til Íslands. Sumt sem ég hef séð varðandi þá heimsókn, vekur mér undrun og furðu á vinnbrögðum sumra íslenskra fréttamanna.
Hér má sjá umfjöllun í "Ísland í dag", um heimsókn Ísraelska sendiherrans og mótmæli sem voru fyrir framan Utanríkisráðuneytið. Í þessu samhengi er auðvitað ekki hægt að reikna með að fjallað sé um málið frá sjónarhóli beggja deiluaðila, enda stór partur af fréttinni mótmælin. En það er ekki nóg fyrir fréttamanninn, það þarf að ganga lengra.
Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvaða fréttalega tilgangi örstuttur bútur úr "Hiroshima", lagi Bubba Morthens þjónar? "Ekkert svar, ekkert hljóð, bara blóð og eftirköstin frá Híróshima", hljómar undir myndunum. Tengist Hiroshima fréttinni á einhvern hátt?
Fyrst ég er byrjaður á að skrifa um þetta verð ég að benda á það sömuleiðis að viðbrögð Íslenskra stjórnmálaleiðtoga hafa verið frekar skrýtin. Sendiherrann kom fyrir í áðurnefndri frétt sem ákaflega góður diplómat, hófsöm og útskýrði mál sitt án ofsa. Samt sjá Íslenskir stjórmálaleiðtogar sér ekki fært að ræða við sendiherra erlends ríkis, jafnvel ekki þeir sem hæst hafa talað um "umræðustjórnmál". Steingrímur J. má eiga það að hann skiptist á skoðunum við hana á fundi utanríkismálanefndar, ef ég hef skilið rétt. Þær umræður voru nokkuð harðar eftir því sem ég hef frétt, en það er ekkert út á það að setja, það er allt í lagi að tala tæpitungulaust, en ég hef sjaldan heyrt um deilu, eða ósamlyndi sem færist til betri vegar án þess að málin séu rædd, eða eingöngu afhentar einhliða yfirlýsingar.
Bæði Valgerður Sverrisdóttir og Sólveig Pétursdóttir komu á framfæri mótmælum, eins og eðlilegt er, og ræddu við sendiherrann, það er jú yfirleitt þannig sem samskipti á milli ríkja fara fram.
Ekki gerir fréttamaðurinn nokkrar athugasemdir við þetta eða spyr leiðtogana óþægilegra spurninga, en það er svo sem ekki algengt í íslenkri fréttamennsku, en enn síður þegar fréttamaðurinn sat á lista sama flokks og einn stjórnmálamaðurinn sem hann ræðir við og bauð sig fram til varaformanns á sama tíma og stjórnmálaleiðtoginn var kjörinn formaður. Er ekki sagt: Já, svona er Ísland í dag!
En man einhver eftir ályktun frá Íslenskum stjórnmálaflokkum þar sem sprengjutilræði hryðjuverkasamtaka Palestínumanna er fordæmd, eða að þeir krefjist að Hamas viðurkenni tilvist Ísraelsríkis og setjist að samningaborðinu?
Nú eða krefjast þess að yfirvöld í Palestínu haldi uppi lögum og reglu á sínum svæðum og stöðvi árásir hryðjuverkasamtaka eins og lesa má í þessari frétt. Þau eru reyndar að hugsa um að hætta að skjóta eldflaugum. Í fréttinni kemur fram að Jihad séu ein af mörgum samtökum sem hafa staðið fyrir eldflaugaárásum á Ísrael. Sýnd er mynd frá bænum Sderot sem hefur samkvæmt fréttinni orðið fyrir nær daglegum eldflaugaárásum.
Það er svo, að þessi deila er eins og svo margar deilur, hatrömm og margslungin og báðir deiluaðilar eru vissulega sekir um mörg voðaverk. Það leggur ekkert til lausnar deilunnar að neita að ræða við sendiherra Ísraels og er að mínu mati einfaldlega rangt að leggja alla ábyrgð á þeirra hendur eins og sumir Íslensku stjórnmálaleiðtogana virðast vilja gera. Margir fréttamenn mættu líka skoða málið betur.
Hér sem oft áður gildir hið fornkveðna, sjaldan veldur einn þá tveir deila.
Ítrekað að Hamas muni ekki viðurkenna Ísrael | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2006 | 02:14
Jóhanna vegin og metin
Heimasætan að Bjórá fór til læknis í dag, 3ja mánaða skoðun. Stúlkan stendur sig með prýði (hér er freistandi að bæta við, eins og hún á kyn til), er orðin 6.72kg og 62cm. Læknirinn var ánægðu með þroskan hjá stúlkunni og hafði ekki út á neitt að setja.
Það er því ekki hægt annað að segja en þetta sé nokkuð vel að verki staðið hjá 3ja mánaða snót.
Það eru því engar stórar fréttir af Bjórá, en þær eru góðar.
17.11.2006 | 20:07
Kæri Hlynur
Hlynur Hallsson, 15.11.2006 kl. 22:28"
Neðanritað byrjaði sem svar við athugasemd sem mér barst á blog mitt, en ég sá að þetta væri betur komið sem sjálfstæð færsla.
Kæri Hlynur,
Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir athugasemdina og umhyggjuna fyrir atkvæði mínu.
Vissulega hef ég lýðræðislegan rétt til að ráðstafa atkvæði mínu, það enda dýrmætur réttur, í raun alltof dýrmætur til að skila auðu, eins og þú mælir þó með sem öðrum valkost.
Ég sagði það í bloggi mínu að ég væri ekki einn af þeim sem fagnaði endurkomu Árna Johnsen til endurkomu á alþingi, en þar stóð líka að svo væri um marga aðra þingmenn.
Það er nú svo að þeir eru ekki margir þingmennirnir sem ég get sagt að hrífi mig, þó að þeir hafi sjálfsagt eitthvað til síns ágætis flestir hverjir. Því er það svo að oft verður fyrir valinu sá kostur sem mér þykir skástur, en ekki endilega sá kostur sem ég tel fullkomin, þegar kemur að því að ráðstafa áðurnefndu atkvæði.
Mér hugnast ekki endurkoma Árna, en mér hugnast heldur ekki að þingmenn sem lýsa því yfir að því sé fórnandi að íslensku bankarnir flytji úr landi, svo hér sé hægt að "jafna niður á við". Það gerði flokksbróðir þinn Ögmundur Jónasson.
Mér hugnast það heldur ekki vel að þú sjálfur, Steingrímur J. Sigfússon, Róbert Marshall, svo einhverjir séu nefndir, komist til valda og áhrifa, og mynduð ákveða að hleypa úr Hálslóni næsta sumar. Persónulega er ég þeirrar skoðunar halda beri áfram að nýta orkuauðlindir Íslands. Því myndi ég seint nota atkvæði mitt til að styrkja Vinstri græna.
Ég myndi ekki gráta það þó að þingflokkur Frjálslyndra þurkaðist út, ég er ágætlega sáttur við núverandi fiskveiðstjórnarkerfi, og hugnast ekki áherslur, í það minnsta sumra þeirra í innflytjendamálum, hef ekki séð að þeir hafi mikið til viðbótar fram að færa.
Ég myndi ekki nota atkvæði mitt til að þingmenn sem hafa lýst þeirri skoðun að til greina komi að snúa við sönnunarbyrði í sakamálum, þannig að ákærðir gætu þurft að sanna sakleysi sitt, komist til valda. Þó hef ég ekki getað skilið betur af málflutningi flokkssystur þinnar, hennar Kolbrúnar Halldórsdóttur, hvað varðar kynferðisafbrot.
Þetta er nú svona aðeins stuttlega farið yfir sviðið, en ætti að nægja til að þú sjáir "úr hvaða átt" ég kem, ef svo má að orði komast.
Ég hef áður lýst því yfir að ég myndi ekki kjósa Árna Johnsen, og hefði ekki gert það í prófkjörinu hefði ég haf þar atkvæðisrétt.
Hinu er ekki hægt að neita, að ef mitt utankjörfundaratkvæði ætti þátt í því að koma Ragnheiði Ríkarðsdóttur á Alþingi sem 6. þingmanni Sjálfstæðiflokksins í "Kraganum", þá mun svo sannarlega ekki verið til einskis farið á kjörstað.
Með kærri kveðju
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2006 | 19:44
Að gæta rússana
Þetta er athygliverð frétt. Líklega verð ég að kaupa Moggann á Sunnudaginn.
En það verður að teljast nokkuð merkilegt í ljósi sögunnar, ef Keflavíkurstöðin gengi að einhverju marki í endurnýjun lífdagana, til að verja skipaleiðir fyrir norsk og rússnesk skip. Eitt af meginmarkmiðum hinnar nýju stöðvar, ef af yrði, þá að vernda og vaka yfir viðskiptum Rússa og Bandaríkjamanna.
Þannig tekur heimurinn stöðugt á sig nýjar myndir.
En það þar líka að velta því fyrir sér hvernig Íslendingar muni taka í þessar hugmyndir, nú þegar herinn er rétt farinn?
Hernaðarlegt mikilvægi N-Atlantshafs vex á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2006 | 21:21
Vinna fram að kosningum?
Fékk sendan tölvupóst í dag, þar sem athygli mín var vakin á þessari blogfærslu Péturs Gunnarssonar.
Þetta leiðir hugann að vangaveltum sem ég sá í Silfri Egils, um hve erfitt það væri fyrir aðra en þingmenn að taka þátt i prófkjörum og vera hálf eða alveg atvinnulausir fram að kosningum.
Þetta er líka athyglisvert "púsl" fyrir þá sem hafa gaman af "armapólítík".
Hitt er svo annað mál að heimasíða stofnunarinnar má alveg við yfirhalningu, en þetta sýnir auðvitað að menn þurfa ekki að vera í ríkistjórn svo að skemmtilegar tilviljanir komi upp í mannaráðningum.
15.11.2006 | 21:06
Af iðrun, auðmýkt og tæknilegum mistökum
Ég er ekki einn þeirra sem fagna líklegri endurkomu Árna Johnsen á þing. Það sama get ég svo sem sagt um nokkuð marga aðra þingmenn, en það er önnur saga.
En ástæðan fyrir því að mér hugnast ekki endurkoma Árna er ekki bundin þeim afbrotum sem Árni framdi á meðan hann gengdi þingmennsku, þó að þau hafi vissulega ekki verið fallin til þess að auka traust mitt á honum sem þingmanni.
Ég myndi ekki kjósa Árna, ég hefði ekki kosið hann í prófkjörinu um liðna helgi. En það breytir því ekki að nógu margir sunnlenskir sjálfstæðismenn gerðu það til þess að hann náði öðru sætinu í prófkjörinu. Það er ljóst að Árni nýtur trausts til þess.
Og síðast þegar ég vissi var traust kjósenda eina virkilega skilyrði sem sett er fyrir setu á Alþingi, auk þess jú að hafa óflekkað mannorð, en eftir uppreist æru Árna er það skilyrði fyrir hendi. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að það ákvæði eigi að fella úr gildi. Fyrrverandi sakamenn eiga rétt á því, að mínu mati, að sitja á þingi, burtséð frá því hvernig æru þeirra er háttað, ef kjósendur vilja senda þá þangað.
Það er mergurinn málsins að mínu mati. Ef sjálfstæðismenn á Suðurlandi velja Árna á lista, og kjósendur í Suðurkjördæmi velja hann á þing, þá skiptir álit mitt og margra annara engu máli, sunnlendingar velja sína fulltrúa.
Að sjálfsögðu eigum við rétt á því að láta skoðun okkar í ljós, og það eigum við að gera, en þeir sem kalla eftir einhverjum aðgerðum til að stöðva þetta, bera að mínu mati full litla virðingu fyrir þeim lýðræðislegu aðferðum sem færa okkur þessa niðurstöðu.
Sunnlendingar velja sína menn, þeirra er valið og ábyrgðin, lýðræðið sér um valið, kjósendur hafa aldrei rangt fyrir sér.
Það er all oft sem mér líkar ekki þær niðurstöður sem lýðræðið færir, en ég hef lært að sætta mig við það. Þetta er hvorki eina né versta dæmið þar um.
Stjórn SUS hvetur Árna til að sýna auðmýkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyrirsögnin hér að ofan er ekki sönn, hún á ekki við nein rök að styðjast, alla vegna ekki það ég veit best. En þeim vex þó stöðugt fiskur um hrygg sem vilja banna slátrun hrossa til kjötneyslu.
Hreyfingin sem berst fyrir þessu mun vera sterkust í Bandaríkjunum, flestir telja hana upprunna í Kalíforníu, en margir vilja auðvitað flytja þessa framtíðarsýn sinna til annara landa, enda hross alls staðar hross, ef svo má að orðið komast.
Ekki verður hjá því komist að skipa starfshóp á Íslandi um hvernig eigi að bregðast við þessari ógn og ekki væri úr vegi að setja nokkur hundruð milljónir í landkynningu og til að kynna gildi hrossakjötsáts. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, enda hafa útlendingar margir dálæti á íslenska hestinum, dást að þeim er þeir keyra um landið og þúsundir komast í snertingu við íslenska hesta þegar þeir kaupa sér reiðtúra, en fjöldi íslenskra fyrirtækja starfa á þeim vettvangi og má rétt ímynda sér þá vá sem þeim er búin ef hrossakjötsáti fer ekki að linna á Íslandi.
Þegar hafa stórstjörnur eins og Willie Nelson og Bo Derek tekið hrossin upp á arma sína og mun án efa fleiri stjörnur leggja þessu máli lið.
Því má svo bæta við að svín ku vera ákaflega greind dýr og hefur frést af nokkrum stórstjörnum sem halda þau sem gæludýr.
Ég hef safnað saman nokkrum fréttum af þessu máli, sem finna má hér, hér, hér og hér.
Að lokum, í fréttinni sem er áföst þessari bloggfærslu kemur fram að japönsk skip hafi lagt úr höfn til að veiða 850 hrefnur og 10 langreyðar, allt í nafni vísindanna. Hefur eitthvað heyrst af því að alemenningur í Bretlandi, Bandaríkjunum, nú eða Evrópusambandinu ætli sér að sniðganga japanskar vörur, eða beita sér fyrir herferð þar að lútandi?
Japanski hvalveiðiflotinn heldur til veiða á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2006 | 22:44
Af varaþingmannsefni og takmörkunum á komu útlendinga
Fyrir nokkru bloggaði ég um blog varaþingmannsefnis Samfylkingar, Guðmundar Steingrímssonar. Í bloggi sínu fjallaði Guðmundur um uppgang Frjálslynda flokksins í nýrri skoðanakönnun og barði sér á brjóst yfir því hve jákvæðir stuðningsmenn Samfylkingar væru og ekki "svag" fyrir takmörkunum á komu útlendinga til Íslands. Taldi hann að allir flokkar nema Samfylkingin hefði misst fylgi til Frjálslyndra vegna þessara mála.
Það vakti því nokkra athygli mína þegar ég sá í Fréttablaðinu í morgun niðurstöðu skoðanakönnunar um afstöðu Íslendinga gagnvart komu útlendinga til landsins, og það sem meira er, niðurstöður flokkaðar eftir afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokka.
Það hlýtur að vekja varaþingmannsefninu ugg, að í engum stjórnmálaflokki að Frjálslyndum slepptum eru stuðningsmenn meira "svag" fyrir því að setja hindranir í komu útlending til Íslands en í Samfylkingunni.
Ef til vill er komin þar skýring á því hve illa þeim gekk í prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík, sem duglegastir voru að taka upp hanskann fyrir innflytjendur.
Framsóknarflokkur og Vinstri grænir koma best út í jákvæðni gagnvart útlendingum, en ef til vill má þó leyfa sér að draga þá ályktun að það sé vegna þess að kjósendur sem eru "svag" fyrir takmörkunum hafi þegar yfirgefið flokkinn, fyrir Frjálslynda, en Framsókn og VG töpuðu mestu fylgi í þessari könnun, en Frjálslyndir unnu gríðarlega á.
En í frétt Fréttblaðsins segir m.a.:
"Ef svarendur eru greindir eftir því hvaða flokk þeir segjast myndu kjósa, væri boðað til kosninga nú, kemur í ljós að áberandi margir stuðningsmenn Frjálslynda flokksins segja fjölda útlendinga hér á landi vera mikið vandamál, eða sextíu prósent af öllum stuðningsmönnum Frjálslynda flokksins. 26 prósent stuðningsmanna flokksins segja fjölda útlendinga vera lítið vandamál en fjórtán prósent segja fjöldann vera ekkert vandamál. Með þessum hlutföllum skera stuðningsmenn Frjálslynda flokksins sig frá stuðningsmönnum annarra flokka, sem ýtir undir þá kenningu að fylgisaukning flokksins samkvæmt þessari könnun sé vegna umræðu flokksmanna um innflytjendamál.
Stuðningsmenn eins annars flokks telja að fjöldi útlendinga sé í meira mæli en meðaltal bendir til. Það eru stuðningsmenn Samfylkingar en 38 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa flokkinn segja fjölda útlendinga vera orðinn mikið vandamál. 37,2 prósent telja vandamálið lítið og 24,8 prósent telja vandamálið ekkert, sem einnig er yfir meðaltali.""41,9 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokks telja fjölda útlendinga vera ekkert vandamál. Sama hlutfall segir fjöldann vera lítið vandamál. Þá telur 16,1 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn að fjöldi útlendinga sé mikið vandamál.Af stuðningsmönnum vinstri grænna segja 36,2 prósent að fjöldi útlendinga hér á landi sé ekkert vandamál. 46,6 prósent telja að vandinn sé lítill, en 17,2 prósent telja að fjöldi útlendinga sé orðinn að miklu vandamáli.Meirihluti sjálfstæðismanna segir útlendinga lítið vandamálMeirihluti sjálfstæðismanna, eða 51,4 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa flokkinn, segir að fjöldi útlendinga sé lítið vandamál nú. 18,1 prósent þeirra telur vandamálið ekkert, en 30,5 prósent segja að fjöldi útlendinga sé nú mikið vandamál."
Frétt Fréttablaðins má finna hér, feitletrun í fréttinni hér að ofan er bloghöfundar.
Það verður fróðlegt að fylgjast með hver viðbrögð Guðmundar og annara Samfylkinga verður við þessari könnun. Munu þeir breyta málflutningi sínum og taka tillit til skoðanna þessa hluta stuðningmanna flokksins, verður hafin fræðsluherferð til að uppfræða stuðningsmenn Samfylkingarinnar eða verður ekkert gert?
Það vekur mér vissulega ugg að sjá hve hátt hlutfall af heildinni vill takmarka aðgang útlendinga að Íslandi og telur fjölda þeirra sé mikið vandamál.
Hér held ég að allir flokkar þurfi að taka sér tak, en það kemur skemmtilega á óvart að mesta afturhaldið skuli vera í "Frjálslyndum" og "Samfylkingu" en "líberalismann" sé að finna í Framsókn og VG. Sjálfstæðisflokkurinn siglir svo miðjuna.
Þessu hefðu líklega fáir spáð, svona áður en þessi könnun birtist.
13.11.2006 | 14:02
Meira af hreppapólítík
Já, það er víða sem menn hafa áhyggjur af hlut síns byggðarlags hvað varðar þingmenn.
Nú er á vef ruv.is, haft eftir Árna Sigfússyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ að staða Suðurnesjanna sé áhyggjuefni.
Í fréttinni segir m.a.:
"Hlutur Suðurnesjamanna hefur verið rýr í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi. Líklegt er að þingmönnum af Suðurnesjum fækki eftir næstu kosningar. Tæpur helmingur íbúa kjördæmisins býr á suðurnesjum.
Á Suðurnesjum búa um 18.600 manns eða tæp 43% íbúa kjördæmisins."
"Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin fjóra menn í kjördæminu, Sjálfstæðisflokkurinn þrjá, Framsóknarflokkurinn tvo og Frjálslyndir einn. Verði þetta niðurstaða kosninganna í vor ætti aðeins einn Suðurnesjamaður möguleika á þingsæti, það er ef Suðurnesjamaður nær 2. sæti Framsóknarflokksins.
Ef miðað er við skiptingu þingsæta samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi fær Sjálfstæðisflokkurinn 4 menn, Samfylking 3, Vinstri grænir 3 og Framsókn 1. Þá kemst Suðurnesjakonan Björk Guðjónsdóttir á þing en hún er í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Þá er ekki hægt að útiloka að annar maður á lista Vinstri grænna verði af Suðurnesjum. Þingmönnum af suðurnesjum fækkar því samkvæmt þessu um einn til tvo og það segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, að sé áhyggjuefni."
Fréttina í heild sinni má finna hér.
Þetta er því sem næst "samrit" af umræðunni í Norð-Austur kjördæminu, þar sem akureyringar telja sig hafa hafa þá stöðu sem suðurnesjamenn óttast nú og ég bloggaði um í gær.
Óánægjan með kjördæmaskiptinguna kemur líklega ekki til með að gera neitt nema vaxa.
"Sæll Tómas,
nú hefur þú lýðræðislegan rétt til að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn. Ég mæli með VG en ef það er of stór biti fyrir diggan Flokksmann þá getur þú til vara bara skilað auðu!
Bestu kveðjur,