Hver var kosinn, þingmaðurinn eða flokkurinn?

Það er ekki ný deila hvernig eigi að taka á því ef þingmaður ákveður að yfirgefa flokk og ganga í annan, hvernig honum beri að haga sér hvað varða þingsætið.

Þetta er ekki einfalt deiluefni og hægt að líta á það frá mörgum sjónarhornum.  Veltum nokkrum upp.  Tökum Valdimar sem dæmi.

1. Væri Samfylkingin betur sett ef Valdimar væri ennþá í flokknum, hverju breytir flokksaðildin í sjálfu sér, ef þingmaðurinn ákveður að "spila sóló"? 

2. Ef flokkurinn á þingsætið, ætti þá flokkunum að vera heimilt að víkja þingmönnum úr sæti, ef þeir framfylgja ekki samþykktum flokksins, eða ganga augljóslega gegn hagsmunum hans?

Hvað varðar 1. lið er það mitt mat að flokksaðildin geti varla verið úrslitaatriði, enda þekkt að margir flokkar kjósa að skreyta lista sína með orðunum "og óháðir".  Er ekki alveg jafn heiðarlegt að segja sig úr flokki, eins og að greiða atkvæði gegn honum aftur og aftur.  Það að vera í sífelldri andstöðu gegn flokki sínum kallar ekki á afsögn, því ætti þá úrsögn að gera það.  Er það flokksskírteinið eitt sem gerir þetta "allt siðlegt"?  Eða er eftirsjáin meiri eftir því fé sem þingflokkurinn fær fyrir hvert þingsæti, heldur en þingmanninum?

Hvað lið 2. varðar held ég að flestir sjái að það er "absúrd", enda svokallað "flokksræði" ekki vel þokkað, alla vegna ekki í ræðu og riti á Íslandi.  Það er enda hornsteinn þingmennskunar að þingmennirnir eigi að fylgja eigin samvisku, eða þannig.

Það er ekkert nýtt að þingmenn gangi gegn því sem ætla má að sé vilji kjósenda þeirra.  Eitthvert þekktasta dæmið um það er líklega myndum ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen.  Þó varast beri fullyrðingar, þá er að ég tel óhætt að kjósendur lista Sjálfstæðisflokksins víða um landið voru ekki að kjósa menn á þing til að kljúfa þar flokkinn og mynda ríkisstjórn með vinstri flokkunum.  Finnst þá þeim sem segja að flokkarnir "eigi" þingsætin að Sjálfstæðiflokkurinn hefði átt að eiga úrræði til að víkja þeim af þingi?

Ég segi nei, og ég reikna með því að það geri flestir.  Hversu óviðeigandi sem okkur kann að þykja framganga einstakra þingmanna hvað þetta varðar, tel ég að þeir eigi fullan rétt á að halda þingsæti sínu.

Hitt er svo annað mál, að kjósendur eiga að öllu jöfnu síðasta orðið hvað varðar þingsetu, og það er þeirra að dæma, hvernig þingsæti skipast, það gera þeir í kosningum, en á milli kosninga verðum við að treysta þeim þingmönnum sem eru kosnir og hvernig þeir fara með traust kjósenda.

Að lokum verð ég þó að minnast á viðbrögð Samfylkingarmanna sem mér finnst sum nokkuð skondin, margir keppast við að "skrifa" hann inn í aðra flokka í "hvítabandinu", svona rétt eins og um leikmannaskipti séu að ræða, en hvort að það verður til að skapa sterkari liðsheild, skal ósagt látið.  Aðrir sjá svo á ögurstundu að líklega hefur pólítísk vigt þingmanns Samfylkingarinnar ekki verið mikil.  Má ekki segja um það, betra seint en aldrei.


mbl.is Harma ákvörðun Valdimars um úrsögn úr Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Matthíasson

Samkvæmt stjórnarskránni (48. grein): "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum."

Það eru því mennirnir sem kjörnir eru á þing, en ekki flokkarnir. Að vísu var Valdimar Leó var aldrei kjörinn á þing, en það er önnur saga.

Árni Matthíasson , 21.11.2006 kl. 14:37

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sammála því að þingmennirnir "eigi" þingsætið.  Hitt er svo annað mál að ég efast um að það sé til bóta að færa prófkjörsbaráttuna inn í kosningarnar.  Ég er þó þeirrar skoðunar að þörf sé á að endurskoða kosningafyrirkomulag og sérstaklega núverandi kjördæmaskipan.  Hún er ekki að virka sem skyldi.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2006 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband