Færsluflokkur: Saga
9.10.2014 | 07:04
Vesturfararnir
Ég hef verið örlítið slappur til heilsunnar undanfarna daga og eyddi því gærdeginum að miklu leyti í rúminu.
Til að stytta mér stundir ákvað ég að horfa á Vesturfarana, þætti Egils Helgasonar um byggðir Vestur Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum.
Horfði á alla 7 þættina nokkurn veginn í striklotu.
Það er skemmst frá því að segja að ég hafði verulega gaman af. Þættirnir eru vel gerðir og skemmtilega framsettir.
Ef ég ætti að gagnrýna eitthvað, er það ef til vill sá ofurþungi sem er á menningarlíf vesturfarana, en yfir hið efnahagslega er farið í fljótheitum. Áhorfandinn er litlu nær um þá erfiðleika sem blöstu við bændum á Nýja Íslandi í upphafi.
Annað atriði sem mér þykir að hefði mátt minnast á, er Kinmount og sorgarsaga þeirra sem þangað fóru, áður en þeir komu til Manitoba. Kinmount var nefnt einu sinni, í "Fjallkonuþættinum", en það var allt og sumt, í það minnsta að ég tók eftir.
Reyndar hefur mér oft verið sagt að Íslendingarnir sem fóru frá Kinmount, hafi lítið sem ekkert viljað tala um þá reynslu. Þar létust margir tugir Íslendinga, að stórum hluta börn og voru skilin eftir í ómerktum gröfum. Því er sagt að þeir hafi reynt að gleyma þeim kafla eins og auðið var.
Nú stendur þar minnismerki, sem fólk af Íslensku bergi brotið í Ontario, safnaði fyrir og reisti. Ég birti hér örfáar myndir af því sem ég tók fyrir all nokrum árum.
,
Eins kemur mér reyndar í huga, að Winnipeg Falcons, hefðu átt skilið að fá örlitla umfjöllun, þegar talað um um Íslendinga í Mantitoba. Ef til vill verður minnst á þá í ókomnum þáttum.
En þessi atriði sem ég minnist á hér, sýna hve mikil vöxtum og víðfeðm saga Íslendinga er í Vesturheimi, og auðvitað er það vonlaust að gera henni full skil í fáum þáttum.
Þau breyta því ekki heldur að ég naut þáttanna og hafði af þeim bæði gagn og gaman.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2014 | 09:58
Eiga allar þjóðir og þjóðarbrot sama rétt til sjálfsákvörðunar?
Það hefur mikið verið rætt um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, þjóðarbrota og minnihlutahópa undanfarna mánuði.
Hæst hefur borið þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi í síðustu viku, en sjálfsákvörðunarrétturinn hefur einnig borið á góma varðandi baráttu svokallaðra "aðskilnaðarsinna í A-Ukraínu og í kringum hinar undarlegu kosningar sem haldnar voru í Krím héraði.
En eiga allar þjóðir, þjóðarbrot og minnihlutahópar sjálfsákvörðunarrétt í sama mæli? Eru ekki fleiri þættir sem taka þarf tillit til?
Jú, ég er þeirrar skoðunar og þar vegur líklega þyngst sagan.
Tökum dæmi.
Narva er þriðja stærsta borg Eistlands, liggur við eins austarlega og verða má í landinu, við landamærin að Rússlandi.
Narva hefur skipt um hendur ótal oft í gegnum söguna, lotið yfirráðum Dana, Svía, Rússa og var borg Hansa kaupmanna.
Borgin var í gegnum aldirnar nokkuð alþjóðleg ef svo má að orði komast, en stærstur hluti íbúanna þó það sem síðar var skilgreint sem Eistlendingar.
Þegar Eistland varð sjálfstætt ríki árið 1918, voru Eistlendingar í yfirgnæfandi meirihluta og árið 1939 voru þeir 88% af íbúum landsins. Stærstu minnihlutahóparnir voru Rússar, Þjóðverjar, Svíar, Lettar, Gyðingar, Finnar, Pólverjar og Ingríar.
Rússar voru taldir um 8% íbúanna.
Sovétríkin hertóku Eistland ásamt hinum Eystrasaltsríkjunum árið 1940. 1941 hófust umfangsmiklir Síberíuflutngar og voru þúsundir einstaklina á öllum aldri fluttir á brott, þar á meðal fjöldinn allur frá Narva, sem var helsta iðnaðarborg Eistlands.
Síðan kom hernám Þjóðverja og urðu all nokkrar skemmdir í bardögum um borgina, en hún varð þó fyrir tiltölulega litlu tjóni. Það breyttist árið 1944, þegar harðir bardagar voru háðir um Narva, og var borgin að miklu leyti jöfnuð við jörðu. Mesta einstaka tjónið varð líklega í miklum loftárásum Sovéska flughersins í mars 1944. Fáir íbúar borgarinnar týndu þó lífi í þessum hildarleik, enda höfðu Þjóðverjar rýmt borgina í janúar.
En eftir að Sovétmenn náðu valdi yfir Narva og náðu Eistlandi á sitt vald, var fyrrum íbúum Narva meinað að snúa aftur til heimkynna sinna. Sovétmenn höfðu uppi ráðagerðir um að byggja þar leynilega uraníumvinnslu, sem hefði þýtt að Narva yrði "lokuð borg" (all mikið uraníum finnst í Eistlandi).
Þó að horfið væri frá þessum ráðagerðum, og uraníumvinnslan í stað þess byggð í bænum Sillamäe, ekki langt þar frá, hafði þessi aðgerð mikil áhrif að framþróun Narva.
Eftir stríð hófst önnur hrina Síberíuflutninga (engin veit hve hve margir voru drepnir og fluttir á brott frá Eistlandi í þessum hreinsunum, en nefndar eru tölur allt að 110.000), en mikill fjöldi Eistlendinga hafði einnig notað tækifærið fyrir og í kringum stríðslok og flúið land. Þessir þættir ásamt mannfalli í stríðinu leiddu af sér talsverða fólksfækkun í Eistlandi.
En Sovétmenn hófu umfangsmikla iðnaðaruppbyggingu í Narva. Jöfnðuðu rústirnar við jörðu (þó að ýmsir teldu að hægt væri að byggja þær upp) og byggðu fjöldan allan af íbúðarblokkum og fluttu inn vinnuafl frá Sovétríkjunum, að stórum hluta Rússa.
Þetta gilti þó ekki eingöngu um Narva, heldur Eistland sem heild.
Til að gera langa sögu stutta féll hlutur Eistlendinga í íbúatölu Eistlands jafnt og þétt niður á við og var kominn niður í 61% árið 1989. Það gerðist þrátt fyrir að stór hluti af þeim svæðum þar sem Rússar voru hvað fjölmennastir fyrir hernám, höfðu verið flutt yfir til Rússlands, með breyttum landamærum, þar á meðal borgin Novgorod, sem hafði verið hluti Narva (þau landamæri má sjá á kortinu sem er hér með, en merkilegt nokk hefur Putin og Rússar, engan áhuga á því að hverfa til fyrra horfs þar).
Langmestur fjöldi innflytjendanna kom til svæðisins í kringum Narva og svo höfuðborgarinnar Tallinn.
Á árunum 1945 til 1990, jókst fjöldi Rússa í Eistlandi úr u.þ.b. 23.000 í 475.000. Heildarfjöldi innfluttra frá Sovétríkjunum var talinn 551.000.
Þess vegna er staðan sú að í Narva nútímans eru u.þ.b. 94% íbúanna Rússneskumælandi, þar af u.þ.b. 82% Rússar.
Samsvarandi hlutfall fyrir Tallinn er talinn u.þ.b. þriðjungur.
Þessi er staðan þrátt fyrir að Rússum hafi fækkað mikið, þeir fluttu margir á brott þegar Eistland endurheimti sjálfstæði sitt 1991, og svo fækkaði þeim verulega þegar síðustu liðsmenn Sovéska hersins yfirgáfu landið 1994.
Staðan er því nú að Eistlendingar eru u.þ.b. 70% íbúanna, en þeir sem eru af Rússnesku bergi brotnir eru u.þ.b. 24%, en eins og áður sagði að mestu leyti í kringum Tallinn og Narva.
Síðan Eistland endurheimti sjálfstæði sitt hefur íbúum að sama skapi fækkað um ríflega 300.000 og fækkar enn.
Hér hefur verið farið hratt yfir sögu um íbúaþróun Eistlands, og er þetta auðvitað ekki tæmandi frásögn.
En svipaða sögu, með mismunandi tilbrigðum má segja af öllum Eystrasaltsþjóðunum, Ukraínu (þar með talið Krím héraði) og fjölmörgum öðrum fyrrverandi Sovét "lýðveldum".
En þá komum við að upphaflegu spurningunni. Eiga allar þjóðir, þjóðarbrot og minnihlutahópar (ef þeir eru í meirihluta á ákveðnu svæði) sama rétt til sjálfsákvörðunar?
Persónulega held ég að það verði að meta það með hliðsjón af sögunni, og hvernig það er komið til að viðkomandi þjóð, þjóðarbrot eða minnihlutahópur er í meirihluta á viðkomandi svæði.
Það er engan veginn hægt að bera saman kringumstæður sem valda því t.d. að Rússar eru í meirihluta á svæðinu í kringum Narva, og svo aftur sjálfstæðiskröfur Skota eða Katalóníubúa.
Að sama skapi eru kringumstæður Rússa (aðskilnaðarsinna) í A-Ukraínu orðnar til með allt öðrum hætti en þær sem lögðu grunninn að friðsamlegum aðskilnaði Tékka og Slóvaka, eða Norðmanna og Svía (sem ég held að sé í fyrsta sinn sem ríkið varð sjálfstætt án bardaga eða blóðsúthellinga).
Allt tal Putins og Rússa um að þeir þurfi að "vernda" minnihlutahópa af Rússneskum uppruna, er í raun ekkert annað en áframhaldandi ofbeldi og ógnanir af hendi Rússa, rétt eins og þeir hafa beitt í árhundruð gagnvart nágrannaríkjum sínum.
Það er ótrúlegt að heyra og sjá hvað margir eru þeirrar skoðunar að það sé "réttur" þeirra og sjálfsagt sé að þeir hlutist til um innanríkismál nágranna sinna.
Og þá er ég ekki að tala um Rússa.
Sjálfsákvörðunarréttur er göfugt hugtak og góð stefna, en það verður að taka mið af kringumstæðum og sögunni.
Saga | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.8.2014 | 05:51
Á Flæmskum völlum
Ef það er eitthvað sem stendur fyrir heimstyrjöldina fyrri í mínum huga, er það ljóð hins Kanadíska John McCrae, "In Flanders Field".
Áhrifamikið ljóð, ort í stríðinu miðju.
En það er svo, að þó að heimstyrjöldin fyrri sé oft talin "tilgangslaust stríð", og það má vissulega til sanns vegar færa, hún leysti ekki vandamál, hún varð ekki "stríðið sem endaði öll stríð", öðru nær. Hún kostaði ótaldar milljónir lífið og skapaði ótal vandamál, sem þurfti annað stríð til að leysa úr og dugði þó ekki til.
En ljóðið minnir líka á það að nauðsynlegt er að einhver standi gegn þeim sem fara með ófriði og hótunum, einstaklingar og þjóðir þurfa að hefja kyndil á loft og berjast gegn þeim.
Sá sannleikur er jafngildur, í dag sem fyrir 100 árum.
In Flanders fields the poppies grow
Between the crosses, row on row,
That mark our place; and in the sky
The larks, still bravely singing, fly
Scarce heard amid the guns below.
We are the Dead. Short days ago
We lived, felt dawn, saw sunset glow,
Loved and were loved, and now we lie
In Flanders fields.
Take up our quarrel with the foe:
To you from failing hands we throw
The torch; be yours to hold it high.
If ye break faith with us who die
We shall not sleep, though poppies grow
In Flanders fields.
Minnast aldarafmælis stríðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 06:52
Er einhver ástæða til þess að hatast við hakakrossinn?
Því verður ekki á móti mælt að hakakrossinn var tákn einhverrar fyrirlitlegustu hreyfingar sem mankynið hefur hefur þekkt, flokks þjóðernis sósíalista í Þýskalandi á síðustu öld.
En er það ástæða til þess að hatast við, eða banna jafn gamalt tákn og hakakrossinn er?
Ég er ekki þeirrar skoðunar.
Það er engin að réttlæta nazisma, en það þýðir ekki að aldagamalt tákn sem nazisminn tók upp eigi að vera bannfært um aldur og ævi. Það má líka draga mun á milli hakakrossins og fána nazista.
Fánar eða tákn fremja ekki ódæðisverk, það gera einstaklingar og hópar þeirra.
Það hefur enda engin bannað (að best ég veit) t.d. stjörnu, hamar, sigð, hálfmána eða sirkil, en þó hafa ýmis af viðurstyggilegustu ofbeldisverkum sögunnar verið framin undir merkjum með slíkum táknum.
Krosssinn, sem m.a við Íslendingar höfum í fána okkar, er heldur ekki undanskilin þegar ofbeldisverk og viðurstyggð eru annars vegar.
En auðvitað lifum við með þesum öldnu táknum. Og hakakrossinum líka.
Þau eru partur af sögu okkar, menningu og líka þjáningu.
Flugu með hakakross yfir New York | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2014 | 06:50
Dvalarstaður Gorbachevs í Reykjavík, rifinn í Kína
Þeir eru líklega býsna margir sem muna eftir leiðtogafundi Reagans og Gorbachevs í Reykjavík 1986. Nýlega las ég að til stæði að gera kvikmynd um atburðinn.
En nú nýverið var dvalarstaður Gorbachevs á meðan á Reykavíkurdvölinni stóð, rifinn í Kína, ef marka má frétt Eistneska ríkisútvarpsins.
Skipið Georg Ots, nefnt eftir frægum Eistneskum söngvara á býsna merka sögu, og á sinn stað í minningum margra Eistlendinga, bæði á meðan Sovéska hernáminu stóð og fyrstu árum endurheimts sjálfstæðis.
En líklega hefur saga skipsins risið hvað hæst, þegar því var siglt til Íslands og hýsti leiðtoga Sovétríkjanna á meðan á fundum hans með Reagan stóð, árið 1986.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2014 | 19:18
70 ár. Innrás sem breytti gangi stríðsins og veraldarsögunnar
Það eru 70 ár síðan þessi stærsta innrás yfir sjó átti sér stað. Líklega verður þetta síðasta stórafmælið þar sem enn verður nokkur fjöldi af þeim sem voru í innrásarhernum verða með í hátíðarhöldunum.
Enn það er rík ástæða til þess að minnast innrásarinnar um ókomna tíð og þeirra sem tóku þátt í henni.
Það voru ekki mörg lýðræðisríkin í Evrópu sem voru frjáls á stríðsárunum, það mátti telja þau á fingrunum.
Við öll eigum þeim stóra skuld að gjalda sem tóku þátt í innrásinni og börðust til að frelsa hin hernumdu lönd Evrópu, ekki síst þeim sem enduðu ævina, oft ekki langa, á ströndum Normandy.
En þó að það sé ekki mikið um það fjallað, voru það ekki bara hermenn bandamanna og Þjóðverja sem létu lífið þessar örlagaríku daga í júni1944. Þúsundir heimamanna, óbreyttir borgarar létu lífið í loftárásum dagana á undan innrásinni og í bardögunum sem fylgdu í kjölfarið.
Frelsið kom ekki án blóðs, beiskju og fórna. En það var nauðsynlegt að láta markmið hernaðarins ganga fyrir, lokatakmarkið, skilyrðislaus uppgjöf Þýskalands, frelsun hinna hernumdu landa.
Ég velti því stundum fyrir mér hvernig fjallað yrði um þetta í fjölmiðlum dagsins í dag. Hvernig þetta allt liti út í "beinni"?
Og hvernig þetta bergmálar, þó veikt sé í nútímanum, þegar Bandaríkjamenn hafa enn og aftur ákveðið að auka útgjöld sín til varnar Evrópu, þó aðeins sé um milljarð dollara enn sem komið er.
Það er rétt að enda þessa færslu með söng Veru Lynn, sem flytur lagið We´ll Meet Again. En Vera Lynn hafði á árum síðari heimsstyrjaldarinnar viðurnefnið, "The Forces´ Sweatheart." Hún var óþreytandi, og kom fram á skemmtunum hermanna um víða veröld, Egyptalandi, Indlandi, Burma og að sjálfsögðu í Bretlandi og Frakklandi.
Innrásarinnar minnst í Normandí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2014 | 11:41
Fyrir 65 árum síðan
Fyrir 65 árum síðan voru tugir þúsunda íbúa Eystrasaltslandanna fluttir á brott í gripavögnum. Í Eistlandi einu saman voru ríflega 10.000 einstaklingar fluttir nauðugir á brott 25. mars 1949.
Sá yngsti var eins dags gömul stúlka, sá elsti 95 ára gömul kona.
Þetta var hluti af Sovéskri herferð sem var kölluð "Priboi", eða "Brim" upp á Íslensku.
Á næstu dögum fór fjöldinn yfir 20.000 sem voru fluttir á brott. Þó náðu yfir 8000, af þeim sem voru á "listanum" að flýja. 7500 fjölskyldur voru fluttar á brott í mars mánuði fyrir 65 árum síðan. U.þ.b. helmingur af fjöldanum var konur, ríflega 6000 börn undir 16 ára aldri og 4300 karlmenn.
Samanlagður fjöldinn var ríflega 2.5% af Eistnesku þjóðinni. Rétt tæplega 100.000 einstaklingar voru fluttir á brott í Eystrasaltslöndunum þremur.
Þau voru dæmd, án réttarhalda, til Síberíuvistar. Hersetin af Sovétríkjunum áttu þau sér enga vörn.
Síberíuflutningar stóðu yfir frá 1941 til 1956.
Í dag kveikja Eistlendingar á kertum á Frelsistorginu (Vabaduse Väljak) í Tallinn (og víðar um landið) til að minnast þeirra sem voru fluttir á brott.
Nú sem endranær í skugga Rússneska "bjarnarins", en hætt er við að sá skuggi sé stærri en undanfarin ár í kertaljósinu.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2014 | 14:34
Rússar láta finna fyrir sér
Rússar eru að láta Finna vita að þeir séu ennþá með Finnland undir þumlinum og það sé betra fyrir þá að hafa sig hæga.
Þeir vilja láta Finna vita að betra sé að vera ekkert að velta því fyrir sér að ganga í NATO, betra sé að hlutirnir séu eins og þeir eru.
Finnum er enda í fersku minni yfirgangur Sovétsins/Rússa. Finnar þurftu að láta af hendi landssvæði og gríðarleg verðmæti, bæði fyrir og eftir heimstyrjöldina síðari.
Þetta situr enn í mörgum og Finnsk kunningjakona mín, er líklega einhver einlægasti Rússahatari sem ég þekki.
Faðir hennar, ungur þá að árum, var einn af þeim sem þurfti að yfirgefa heimili sitt, en það var á landsvæði sem afhent var Sovétinu.
Aukin hernaðarumsvif Rússa á þessum slóðum, ásamt aðgerðum þeirra á Krímskaga/Ukraínu, vekja eðlilega ugg nágranna þeirra, en minna þá jafnframt á að birnir eru aldrei hættulegri, en þegar þeir vakna af dvala.
Á meðfylgjandi korti má sjá þau landsvæði sem Finnar urðu að sjá á eftir, í síðari heimstyrjöld.
Opna herstöð nálægt Finnlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2014 | 19:15
Í ljósi (eða skugga) sögunnar
Það er ekki að undra þó að hrollur fari um íbúa í hinum ýmsu löndum A-Evrópu þegar þessi áform er tilkynnt.
Þegar saman fara tilkynningar um "vernd" sem þarf að veita þjóðernishópum og kosningar þess efnis að ganga í eina sæng með Rússlandi, rifjast upp fyrir mörgum sagan.
Það rifjast upp hvernig Sovétið innlimaði lönd og landsvæði og hvernig kosningar voru skipulagðar í skugga vopnavalds og fals, á árunum fyrir og eftir síðari heimstyrjöld.
Íbúar Eystrasaltslandanna vita hvernig staðið var að innlimun landa þeirra í Sovétið og hvernig staðið var að kosningum í skugga vopnavalds.
Hvernig staðið var að kosningum í A-Evrópu eftir heimstyrjöldina síðari, má til dæmis lesa um hér, dæmið er frá Póllandi.
Það er því ekki að undra að ýmsar bollaleggingar um framvindu mála fari af stað, rétt eins og má lesa t.d. hér og hér.
Margir óttast að útþennsla Rússlands stöðvist ekki á Krímskaga.
Í Eystrasaltslöndunum ýtir hinn stóri Rússneski minnihluti undir áhyggjurnar. Þar eins og í Krím, voru hundruðir þúsunda fluttir á brott í gripavögnum og tugir þúsunda myrtir og hundruðir þúsunda komu frá Rússalandi og öðrum ríkjum Sovétsins.
Þessir Rússnesku talandi hópar, sem oft voru settir skörinni hærra en þeir innfæddu, hafa oft átt erfitt með að samlagast þeim samfélögum sem þeir búa í og margir þeirra sakna horfinna "velmegunartíma".
Flestir þeirra ákváðu þó á sínum tíma að hverfa ekki aftur "heim", enda beið þeirra þar ekkert nema eymd og vesöld og gerir að miklu leyti enn.
Það er ekki ólíklegt að spenna og ýfingar á milli þjóðernishópa aukist á næstunni og auki vandræðin og óróann sem margir íbúar fyrrum Sovétsins finna. Þá vill stundum verða stutt í tal um Kvíslinga og sagan stendur ljós sem aldrei fyrr.
Það er því viðbúið að spenna og núningur aukist hratt í A-Evrópu og ekki ólíklegt að upp úr sjóði, þó vonandi verði það aðeins einangruð tilvik.
En það kemur til með að reyna mikið á einstök Evrópuríki, sem og Evrópusambandið.
En það er áberandi að ríki A-Evrópu horfa til Bandaríkjanna og NATO þegar þeim þykir sér ógnað og þaðan kemur fyrsta táknið um auknar varnir þeim til handa.
Rússar virða niðurstöðu atkvæðagreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2014 | 13:20
Ef Obama hefði verið forseti....
Skákmanninn Gary Kasparov þekkja líklega flestir, en ekki er víst að eins mörgum sé kunn afskipti hans af pólítík og mannréttindabaráttu.
Nýlegt tíst hans fer nú víða um netheima og hefur það komið pósthólfið mitt úr mörgum mismunandi áttum.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)