Færsluflokkur: Saga
8.3.2015 | 19:43
Fjöldamorðingi og hetja
Þeir eru ýmsir einstaklingarnir sem í gegnum söguna hafa áunnið sér að vera kallaðir bæði skúrkar og hetjur.
Líklega er óhætt að setja Joseph Stalín á meðal þeirra.
Annar á lista yfir "fjöldamorðingja" í sögunni, þó að persónulega hafi hann líklega ekki drepið marga, eru það milljónatugir sem hann þarf þó að hafa á samviskunni. Oft er sagt að hann beri ábyrgð á dauða í það minnsta 40 milljón einstaklinga, beint og óbeint.
En á hinn bóginn er hann virtur og dáður fyrir leiðtogahlutverk sitt í seinni heimstyrjöldinni, þar sem hann leiddi Sovétríkin, ásamt Bandamönnum, til sigurs gegn Þjóðverjum.
Þá gekk hann undir því vinalega nafni "Uncle Joe" á vesturlöndum.
Að sjálfsögðu má deila um hvað mikið hann lagði til sigursins, sem og vandræða Sovétmanna í upphafi árásar Þjóðverja.
En hann var óumdeilanlega sameiningartákn fyrir Sovétmenn tákn baráttu þeirra og þrautseigju. Slíkt er ómetanlegt á stríðstímum.
Þannig er arfleifð Stalíns skipt. Annars vegar er hann miskunarlaus fjöldamorðingi, á hinni hliðinni hetja móðurjarðarinnar (rodina á Rússnesku).
Var annar leiðtogi til sem hefði staðið sig betur en Stalín? Hefði stríðið ekki þróast á allt annan veg, ef Stalín hefði ekki verið búinn að láta myrða og fangelsa stóran hluta yfirmanna Rauða hersins? Átti hann ekki mikinn þátt í því að seinni heimstyrjöld hófst, með samningi Sovétríkjanna og Þýskalands?
Þegar Þýski herinn "rúllaði" yfir Niðurlönd og Frakkland, keyrði hann á Sovéskri olíu og hermennirnir átu brauð úr Sovésku korni.
Stalín sendi Hitler heillaóskaskeyti þegar Frakkland féll.
En Stalín og Sovétríkin voru líka árásaraðili. Réðust inn í Finnland, hernámu Eystrasalstríkin og réðust inn í Pólland.
Þannig má velta ótal hlutum fyrir sér.
En eftir stenda staðreyndirnar.
Að Stalín leiddi Sovétríkin fram til sigurs, þrátt fyrir hræðilegt gengi í upphafi. Líklega mátti ekki miklu muna að Sovétríkin féllu, þ.e.a.s. vestan Úralfjalla og hver veit hvað gerst hefði ef umfangsmikil aðstoð Bandaríkjanna og Breta hefði ekki komið til.
En ferill Stalíns, berandi ábyrgð á einhverjum umfangsmestu fjöldamorðum sögunnar er einnig staðreynd.
Þannig er Stalín hetja í augum margra, en skúrkur í hugum annara. Hjá sumum er hann jafnvel hvoru tveggja.
Sagan geymir fleiri dæmi um slíkt.
Minntust Stalíns á ártíð hans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.3.2015 | 13:18
Bjór löglegur í 26 ár
Fyrir ungt fólk kann það að hljóma lyginni líkast að bjór hafi um langa hríð verið bannaður á Íslandi.
Sú staðreynd að eingöngu þeir sem störfuðu við millilandasiglingar eða -flug máttu löglega flytja inn bjór til landsins, kann að hljóma enn ótrúlegri.
Svo var slakað á, og hinn almenni ferðamaður mátti kaupa bjór í Fríhöfninni, en enn var nokkuð í honum væri treyst til þess að gera slíkt í Ríkinu.
Og bjórlíkið, er í senn grátbroslegur, sorglegur og fyndinn kafli í sögu áfengismenningar á Íslandi.
En bjórinn "stökk" ekki inn í Ísland "án atrennu". Líkelga hafa á annan tug slíkra tillga verið lagðar fram á Alþingi, áður en sala bjórs var lögleidd á Íslandi.
Enn sitja að ég hygg tveir einstaklingar á þingi sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið.
Það eru Einar Kr. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sem ef ég man rétt var þá varaþingmaður og sagði já.
Hinn er Steingrímur J. Sigfússon, sem sagði nei.
Nú 26 árum síðar, er mikill fjöldi brugghúsa starfræktur á Íslandi, sem veita fjölda manns atvinnu og eru ótrúlega hugmyndarík. Ótölulegur fjöldi bjórtegunda eru bruggaðar og enn fleiri drukknar.
Útflutningur á bjór frá Íslandi fer vaxandi og Íslenskum bruggmeisturum fer stöðugt fram.
Til hamingu með daginn, í dag er við hæfi að fá sér einn "kaldan".
Saga | Breytt 2.3.2015 kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2015 | 17:55
Þegar ríkið átti bankana
Undanfarnar vikur hefur verið deilt um hvort að ríkið hafi á einhverjum tímapunkti átt "bankana", það er að segja Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka.
Svo langt gekk það að fyrrverandi fjármálaráðherra virtist ekki kannast við að ríkið hefði átt alla bankana þrjá.
Ég var nú reyndar að leita að allt öðru þegar þessi texti kom upp í leit hjá mér. En hann ætti að taka af allan vafa um hvernig litið var á eignarhald bankanna í maí 2009.
"... marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar."
Er ekki full ástæða til þess að rannsaka einkavæðingu þessara ríkisbanka frekar, eins og Brynjar Níelsson, Björn Valur Gíslason og fleiri hafa lagt til?
P.S. Þeir sem vilja lesa textann í upphaflega skjalinu, finna það hér.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.2.2015 | 15:21
97 ára afmæli sjálfstæðis
Eistland fagnar 97 ára afmæli sjálfstæðis síns í dag. Þann 24. febrúar 1918, lýstu Eistlendingar yfir sjálfstæði sínu. Þá var birt "Manifesto to the Peoples of Estonia".
Hið nýstofnaða lýðveldi þurfti að berjast fyrir tilveru sinni frá upphafi. Gegn Sovéskum her og einnig gegn vopnuðum flokkum Þjóðverja (Freikorps og Baltishce Landeswehr).
En sigur hafðist, þó að tæpt stæði á stundum, og mikilvæg aðstoð barst frá bæði Bretum og Finnum.
En Eistland hefur enn sem komið er notið þess að vera frjáls þjóð, í minna en helming tilveru sinnar.
17. júni 1940 var Eistland hernumið af Sovetríkjunum. Árið eftir var landið síðan hernumið af Þjóðverjum, og svo aftur af Sovétríkjunum árið 1944.
Hernáminu lauk ekki fyrr en Eistland endurheimti sjálfstæði sitt 1991, þann 21. ágúst.
Endurheimt frelsins var án blóðsúthellinga, þó að tæpt stæði. En hernámið, hvort sem rætt er um hernám Þjóðverja, eða fyrra eða seinna hernám Sovétríkjanna kostaði ótrúlegan fjölda mannslífa.
Það hefur oft verið sagt, að engin fjölskylda hafi verið ósnert eftir þær hörmungar.
Í Eistlandi starfaði í seinni heimstyrjöld og lengi eftir hana "frelsisher", svo kallaðir "Skógarbræður" (Metsevennad). Talið er að sá síðasti af þeim hafi látið lífið "á flótta", árið 1978.
En í dag fagna Eistlendingar, þó að vissulega séu skuggarnir sem nágranninn kastar, sé stærri nú, en hefur verið um hríð.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2015 | 18:57
Dresden: Hefnd eða hernaðarskotmark?
Það hefur vrið deilt um loftárasirnar á Dresden í áratugi. Skoðanir hafa sveiflast til og frá, en þó hefur líklega verið algengara sjonarmið undanfarin ár, að um tilgangslausa hefnd, eða "sýningu valds" hafi verið að ræða.
Margir vilja halda því fram að stríðið hafi í raun verið búið, þegar loftárásirnar á Dresden voru framkvæmdar. En blasti það við þá?
Er ekki rétt að hafa í huga að rétt rúmum mánuði áður höfðu Þjóðverjar framkvæmt gagnsókn um Ardennafjöll, sem þó að hafi runnið út í sandinn, kostaði Bandamenn verulegt mannfall.
Enn var rætt af fullri alvöru um "suður" eða "Alpavirki" og alls kyns sögusagnir, um "Varúlfa" (sem urðu jafnvel enn sterkari síðar) voru á kreiki.
Í hugum flestra, ef til vill ekki síst Þjóðverja, var stríðið langt í frá unnið af hálfu Bandamanna.
Og svo eru það mýturnar um að Dresden hafi á engan hátt verið hernaðarlegt skotmark, eða að borgin hafi lagt nokkuð til stríðsreksturs Þjóðverja.
Hvorutveggja myndi ég vilja kalla rangt, enda fer það nokkuð saman.
Hvað skyldi hafa verið framleitt í verksmiðjum í Dresden, síðustu mánuði stríðsins, ef ekki hergögn? Hvað annað var yfirleitt framleitt í Þýskalandi á þeim mánuðum?
Í Dresden voru verksmiðjur á vegum Zeiss, sem meðal annars framleiddu mið fyrir sprengjuflugvélar, í Dresden voru framleidd tundurskeyti, í Dresden voru framleidd skothylki, í Dresden voru framleiddar kveikjur fyrir sprengjur og svo má lengi telja.
Talið er að í það minnsta 70.000 einstklingar hafi unnið við hergagnaframleiðslu í Dresden.
Í Dresden var einnig mikilvæg járnbrautartenging, og má halda því fram að á þeim tíma hafi hún verið sú mikilvægasta í austurhluta yfirráðasvæðis Þjóðverja.
1. janúar 1945 hafði borgin enda verið skilgreind sem "varnarsvæði" af Þýska hernum.
Fjöldi lesta fór þar um á hverjum degi, flytjandi bæði menn og hergögn.
Miðað við kringumstæður var Dresden því í alla staða eðlilegt herfræðilegt skotmark.
Það breytir því ekki að okkur hryllir við að 25 til 40.000 einstaklingar hafi týnt lífinu þar á 2. til 3. dögum.
En það var í sjálfu sér ekki einsdæmi, og líklega létu fleiri lífið í loftárásum Bandamanna á Hamborg, svo og loftárusum Þjóðverja á Stalingrad.
Það er enda alger miskilningur að stríð af þeirri stærðargráðu sem seinni heimstyrjöldin var, sé á einhver hátt háð af "hetjuskap", heiðarleika, eða "tillitsemi". Stríðsreksturinn gengur út á það í stuttu máli, að valda andstæðingnum eins miklu tjóni, og þar með talið manntjóni, og hugsast getur, með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er.
Að því leiti til, er ekki ólíklegt að loftárásirnar á Dresden hafi náð tilgangi sínum.
Það er enda svo, í stríð eins og var háð þá, og er í raun það sem kallast nútíma stríð, eða eins og Goebbels nefndi það "total krieg", þá er ekki allur munur á hermanninum sem skýtur á þig, og verkamanninum sem framleiðir fyrir hann skotfæri, eða járnbrautarstarfsmanninum sem flytur þau til hans. Flutningatækni er enda talin lykilatriði í nútíma hernaði.
Sá sem fyrstur kom fram með mýtuna að engar hergagnaverksmiðjur hafi verið í Dresden er Joeseph Goebbels. Það hentaði vel í áróðri nazista.
Þeir sem hvað mestu gerðu svo til að halda álíka áróðri lifandi voru kommúnistar í A-Þýskalandi. Það hentaði þeim vel að halda því fram að "Engilsaxneskir" Bandamenn hefðu framið slíka glæpi.
Í seinni tíð hafa það svo verið nýnasistar sem hafa verið hvað duglegastir við að halda slíku á lofti.
Það er ekki erfitt að skilja aðdráttarafl slíks áróðurs fyrir "öxulinn" nazistar, kommúnistar, nýnasistar. Slíkt hentar þeirra málstað afar vel.
Það er mér hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna slíkar áróðursmýtur eiga jafn greiðan aðgang, og stuðning á meðal, margra Íslendinga og raun ber vitni.
Hér eru nokkrar greinar sem vert er að lesa um efnið:
http://www.newyorker.com/magazine/2010/02/01/embers-2 Sú besta af þeim ...
http://www.theguardian.com/world/2005/feb/13/secondworldwar.germany
https://answers.yahoo.com/question/index?qid=20100323213248AABBvkv
Og ekki má gleyma þessari bók:
http://www.amazon.ca/Dresden-Tuesday-February-13-1945/dp/0060006773
Umsögn: http://www.theguardian.com/books/2004/feb/07/featuresreviews.guardianreview2
70 ár frá loftárásinni á Dresden | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2014 | 18:00
Hugmyndafræði ríkisins
Hvað er hið opinbera? Hvað er ríkið? Getur það sett fram hugmyndafræði sína?
Er það nauðsynlegt að hið opinbera, eða ríkið geti sett fram hugmyndafræði sína? Sérstaklega hlýtur það að vera unhugsunarefni, í lýðræðisríkjum, þar sem almenningi ertreyst til þess að velja sér stjórnendur á til þess að gera fárra ára fresti.
Hingað til hefur það verið bannað í stjórnarskrá Rússlands, ég hygg að fá önnur ríki hafi séð sérstaka ástæðu til þess að setja slíkt í stjórnarskrá.
En vissulega er sagan slík í Rússlandi/Sovétríkunum að ef til vill er slíkt skynsamlegt.
Því bæði sporin og sagan hræða.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2014 | 10:35
Órannsakanlegar leiðir lýðræðisins - Vinstri öfgaflokkur?
Það eru margir hissa á því að "erfingjar" A-Þýska kommúnistaflokksins njóti vinsæla í Þýskalandi. En þeir hafa reyndar átt þokkalegu gengi að fagna í þeim hluta landsins sem var A-Þýskaland.
Römm er sú taug gæti einhver sagt.
Það er vissulega skiljanlegt að þeim sem sættu ofsóknum af hendir A-Þýskra stjórnvalda þyki það ónotaleg tilfinning þegar flokkur sem inniheldur fyrrum meðlimi A-Þýska kommúnistaflokksins og starfsmenn STASI, kemst til valda.
Talað er um að allt að 2/3 af félögum Linke séu fyrrverandi félagagar í A-Þýska kommúnistaflokknum.
Minningarnar eru ljóslifandi og sárar.
En lýðræðið skilar ekki alltaf niðurstöðum sem eru okkur "þóknanlegar", og þó að meirihlutinnn sé naumur í þessu tilfelli, er hann afleiðing lýðræðislegra kosninga og samsteypustjórnar.
Víða í erlendum fjölmiðlum er tala um Linke sem "far left" stjórnmálaflokk. Hver skyldi vera besta Íslenska þýðingin á því?
Vinstri öfgaflokkur?
En ég get ekki séð að Íslenskir fjölmiðlar hafi af því miklar áhyggjur, eða telji það mikillar umfjöllunar virði.
Mér til gamans fór ég á vefsíðu RUV, en gat ekki fundið neina frétt um málið. En líklega þykir það ekki fréttnæmt að "vinstri öfgaflokkur" leiði fylkisstjórn í Þýskalandi.
Ekki einu sinni þó að forseti Þýskalands lýsti því yfir að honum finndist erfitt að sætta sig við þessa niðurstöðu.
Sjálfur hef ég ekki af þessu stórar áhyggjur, ekki enn í það að minnsta kosti.
Ég hef trú á að lýðræðið standi þetta af sér.
Arftaki kommúnistaflokksins tekur við völdum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2014 | 14:49
Endir Sjallatímabilsins
Það er allt breytingum undirorpið eins og sagt er, en saga Sjallans og Akureyrar hefur verið samofin í ríflega 50 ár.
Ég get ekki neitað því að ég væri meira en tilbúinn til þess að vera í Sjallanum í kvöld.
Bara að vera í Sjallanum væri í sjálfu sér nóg, og staldra við á barnum, en að vera í Sjallanum þegar Stuðmenn eru að spila er allt annað og mikið meira.
Þetta er nokkuð sem ég myndi ekki missa af, ef ég væri nálægt Akureyri.
En nú fer "Sjallatímabilinu" að ljúka (lauk í sjálfu sér fyrir all löngu hjá mér persónulega), en allt fram streymir endalaust, eins og segir einhversstaðar.
Og alltaf er það eitthvað sem tekur við.
Mætir með Helenustokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2014 | 15:39
Óeðlileg upplýsingaöflun?
Ég held að fáum komi á óvart að einhverjum upplýsingum hafi verið safnað um starfsemi kommúnista á Íslandi, allra síst þeim sjálfum.
Eins og kemur fram í fréttinni, voru unnar skýrslur upp úr upplýsingunum og jafnframt birtar fréttir í Morgunblaðinu sem byggðu á upplýsingunum. Að hluta til var þetta því einfaldlega blaðamennska, líklega það sem kallað væri í dag rannsóknarblaðamennska.
Ég reikna með því að Íslenskir kommúnistar hafi sömuleiðis fundið það út sjálfir, að fylgst var með þeim að einhverju marki og einhverjir "heimildarmenn" hafi starfað innan þeirra raða. Þeim hlýtur að hafa verið það ljóst þegar fréttirnar birtust og jafnframt t.d. Rauða bókin - Leyniskýrslur SÍA, sem Heimdallur gaf út fyrst 1962, ef ég man rétt.
En að hluta til ber þetta auðvitað vitni um "veröld sem var". Samfélög voru meira "póleruð" og "samsærin" leyndust víða. Þannig man ég til dæmis eftir því að áttunda áratugnum að hafa heyrt af einum "hörðum vinstrimanni" sem gjarna stóð nálægt Frímúrarahúsi og skrifaði niður hverjir mættu, því það "þeim andskotum þurfit að fylgjast með".
En svo má líka velta því fyrir sér hvers vegna Íslendingar eru svo gjarnir á að telja sér trú um að allt það sem er að "gerast í útlöndum" gerist ekki á Íslandi.
Það á jafnt við "upplýsingaöflun" og "njósnir", sem og að sakleysi kommúnista á Íslandi hafi verið slíkt að þeir hafi verið eins og skátaflokkur í samanburði við kommúnisthreyfingar víða um lönd.
Enn enn eimir eftir af þessum hugsunarhætti. Auðvitað er engin hætta á því að hryðjuverk eigi sér stað á Íslandi, nú eða að Íslenskir múslimar gangi til liðs við "Islamic State", eða að njósnir eigi sér enn stað á Íslandi.
En Íslendingar eru langt í frá einir um slíkar hugsanir, og ég hygg að þær séu víðast hvar í hinum "smærri" ríkjum.
Leyniskýrslur um komma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.11.2014 | 08:47
Fjórðungur aldar án "Brjóstvarnar gegn fasisma"
Það er vert að fagna því að fjórðungur aldar skuli liðinn frá því að Berlínarmúrinn féll. Í ríflega 28 ár stóð hann og skipti Berlín og Þýskalandi í tvennt.
Enginn veit hvað margir létu lífið við að reyna að komast yfir eða undir hann. En talað er um allt að 1200 einstaklingar hafi týnt lífinu við múrinn (aðrar tölur og allt niður í 100 eru einnig nefndar).
Talið er að um og yfir 5000 flóttatilraunir hafi átt sér stað, en enginn veita þá sögu alla.
Ég held að segja megi að Berlínarmúrinn eigi sér enga hliðstæðu í sögunni, nema fangelsismúra. Hann var ekki byggður til að halda neinum "úti", heldur til að hindra að nokkur íbúanna gæti farið.
Útskýringar A-Þýskra stjórnvalda voru þó í þá átt að múrinn væri "Brjóstvörn gegn fasisma". (Antifaschistischer Schutzwall, á Þýsku, en Enska heitið var -, Anti-Fascist Protection Rampart).
Það er vert að hafa það í huga, nú þegar talað er um að nýtt kalt stríð sé yfivofandi eða þegar hafið. Svipað tungutak er nú þegar farið að heyrast. Allt er hægt að afsaka með "baráttunni gegn fasismanum".
En kalt stríð er líkast til hafið fyrir all löngu, þó að íbúum Ukraínu þyki það líklega full heitt. Þeir hafa þegar tapað ríki sínu að hluta og verður að teljast líklegt að Ukraína eins og við höfum þekkt hana sem sjálfstætt ríki sé verði hér eftir aðeins fundin á spjöldum sögunnar.
Hvernig ný og breytt Ukraína mun líta út á eftir að koma í ljós, og ekki víst að hún verði til.
En það er rétt að óska Þjóðverjum og í raun heimsbyggðinni allri til hamingju með daginn, sem vissulega markaði djúp spor í söguna.
Berlínarmúrinn á allra vörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)