Færsluflokkur: Saga
20.8.2013 | 16:22
Frelsi í 22 ár
Í dag eru liðin 22 ár síðan hernámi Sovétríkjanna lauk í Eistlandi. Heil kynslóð Eistlendinga hefur náð að vaxa úr grasi laus við ok sósíalismans.
Það eru 95 ár síðan Eistland lýsti yfir sjálfstæði sínu, en enn hefur þjóðin ekki náð því marki að hafa verið frjáls í meira en helming þess tímabils. Hernám kommúnismans varði í yfir 50 ár.
Tvisvar þurftu Eistlendingar að sækja frelsi sitt í hendur Sovétsins. Í hvorugt skiptið án fórna, en í það síðara þó án blóðsúthellinga.
En hernámið var ekki án þjáninga, ekki án þess að blóði væri úthellt. Tugum ef ekki hundruða þúsunda var fórnað á altari kommúnismans. Lestarferðir án endurkomu var hlutskipti sem í "alræði öreiganna" var það eina sem var í boði fyrir tugþúsundir Eistlendinga.
Sovétríkin, bæði sem bandamenn Nazista og sigurvegarar þeirra notuðu tækifærin sem buðust til að brjóta niður og myrða Eistlendinga sem og aðra íbúa Eystrasaltslandanna.
En 20. ágúst 1991 lýstu Eistlendingar því yfir að þeir hefðu endurheimt sjálfstæði sitt, að frelsið væri þeirra á ný.
Þann 21 ágúst., daginn eftir, viðurkenndu Íslendingar, fyrstir ríkja sjálfstæði Eistlendinga, sem og Lettlands og Litháen.
Mér er það til efs að utanríkisstefna Íslendinga hafi risið hærra en þann dag.
Íslendingar stóðu með lítilmagnanum, þorðu að standa með sjálfsákvörðunarréttinum og frelsinu.
Ég óska Eistlendingum hvar sem þeir eru staddir til hamingju með daginn.
P.S. Ég naut þess að labba á meðal Eistlendinga í dag, þar sem þeir fögnuðu deginum. Herinn var áberandi og það var einnig eftirtektarvert hve hátt hlutfall talaði Rússnesku. En dagurinn var ánægjulegur. Set ef til vill inn myndir hér fljótlega.
Saga | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2013 | 14:54
3. þingmenn sem greiddu atkvæði um bjórinn enn á þingi
Ef ég man rétt, eru enn á Alþingi 3. þingmenn sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið svokallaða árið 1988.
Þeir eru: Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra sem sagði já. Steingrímur J. Sigfússon, núverand allsherjarráðherra, sem sagði Nei. Og Einar Kr. Guðfinnsson, sem sagði já. Ef ég man rétt sat hann sem varaþingmaður er atkvæðagreiðslan fór fram.
Atkvæði skiptust á já og nei, algerlega óháð stjórnmálaskoðunum, fyrir utan ef mig misminnir ekki að allir þingmenn Alþýðubandalagsins sáluga sögðu nei.
Merkilegt nokk, held ég að allir ráðherrar núverandi (og Árni Páll, núverandi formaður Samfylkingarinnar) ríkisstjórnar, að Jóhönnu Sigurðardóttur undanskilinni, hafi hafið pólítísk afskipti sín í því sama Alþýðubandalagi.
Bjóða þingmönnum einn ískaldan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.3.2012 | 16:05
24. febrúar
Á föstudaginn var, 24ja febrúar hélt fjölskyldand "niður í bæ". Erindið var að vera viðstödd þegar Eistneska fánanum væri flaggað við Ráðhúsið hér í Toronto. Það er býsna gömul hefð og nær lengra aftur en endalok hersetu Sovétríkjanna í Eistlandi.
24. febrúar er dagurinn sem Eistland lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 1918. Í kjöfarið hófst blóðugt stríð við Sovétríkin sem lauk ekki fyrr en með friðarsamningi árið 1920, og viðurkenningu Sovétríkjanna á sjálfstæði Eistland. Sjálfstæði sem Sovétríkin höfðu svo að engu 20 árum síðar og hersátu landið í 51. ár.
Veðrið var frekar slæmt þennan dag, slagveður og hálfgerð slydda. Þó var þó nokkur fjöldi fólks mætt til að horfa á fánann dregin að húni. Að stærstum hluta var um að ræða eldra fólk, sumt sem hafði komið á hverju ári svo áratugum skipti. Sumir þeirra höfðu flúið Eistaland sem ungt fólk. Eldri maður sagði frá því er hann hafði grafið Eistneska fánann í jörð árið 1940, og vitjað hans aftur árið 1993.
Þar sem börnin okkar voru einu börnin sem voru viðstödd, varð það úr að þau drógu fánann að húni. Þau voru að vonum stolt yfir heiðrinum og fórst verkið vel úr hendi. Þjóðsöngurinn var leikinn og síðan hélt hver í sína áttina. Seinna um kvöldið var svo fagnaður í Eistneska húsinu hér í Toronto.
Myndin hér að neðan er frá athöfninni. Fyrir neðan hana má lesa sjálfstæðisyfirlýsingu Eistlendinga frá 1918 á ensku.
MANIFESTO TO THE PEOPLES OF ESTONIA
In the course of centuries never have the Estonian people lost their desire for independence. From generation to generation have they kept alive the hidden hope that in spite of enslavement and oppression by hostile invaders the time will come to Estonia "when all splinters, at both end, will burst forth into flames" and when "Kalev will come home to bring his children happiness."
Now that time has arrived.
An unprecedented fight between nations has crushed the rotten foundations of the Russian Tsarist Empire. All over the Sarmatian plains ruinous anarchy is spreading, threatening to overwhelm in its wake all the nations living in the former Russian Empire. From the West the victorious armies of Germany are approaching in order to claim their share of Russia's legacy and, above all, to take possession of the coastal territories of the Baltic Sea.
In this hour, the Estonian National Council, as the legal representative of our land and people, has, in unanimous agreement with Estonian democratic political parties and organizations, and by virtue of the right of self-determination of peoples, found it necessary to take the following decisive steps to shape the destiny of the Estonian land and people.
ESTONIA,
within his historical and ethnic boundaries, is declared as of today an
INDEPENDENT DEMOCRATIC REPUBLIC.
The independent Republic of Estonia shall include Harjumaa, Läänemaa, Järvamaa, Virumaa, with the city of Narva and its surroundings, Tartumaa, Võrumaa, Viljandimaa, and Pärnumaa with the Baltic islands of Saaremaa, Hiiumaa, Muhumaa, and others where the Estonians have settled for ages in large majorities. Final determination of the boundaries of the Republic in the areas bordering on Latvia and Russia will be carried out by plebiscite after the conclusion of the present World War.
In the aforementioned areas the only supreme and organizing authority is the democratically supported Estonian Salvation Committee created by the Estonian National Council.
The Republic of Estonia wishes to maintain absolute political neutrality towards all neighbouring states and peoples and expects that they will equally respond with complete neutrality.
Estonian military troops shall be reduced to the extent necessary to maintain internal order. Estonian soldiers serving in the Russian military forces will be called home and demobilized.
Until the Estonian Constituent Assembly, elected by general, direct, secret, and proportional elections, will convene and determine the constitutional structure of the country, all executive and legislative authority will remain vested in the Estonian National Council and in the Estonian Provisional Government created by it, whose activities must be guided by the following principles:
1. All citizens of the Republic of Estonia, irrespective of their religion, ethnic origin, and political views, are going to enjoy equal protection under the law and courts of justice of the Republic.
2. All ethnic minorities, the Russians, Germans, Swedes, Jews, and others residing within the borders of the republic, are going to be guaranteed the right to their cultural autonomy.
3. All civic freedoms, the freedom of expression, of the press, of religion, of assembly, of association, and the freedom to strike as well as the inviolability of the individual and the home, shall be irrefutably effective within the territory of the Estonian Republic and based on laws, which the Government must immediately work out.
4. The Provisional Government is given the task of immediately organizing courts of justice to protect the security of the citizens. All political prisoners shall be released immediately.
5. The city, county, and township local governments are called upon to immediately continue their work, which has been violently interrupted.
6. For maintenance of public order, people's militia, subordinated to local governments, shall be immediately organized and citizens' self-defence organizations established in the cities and rural areas.
7. The Provisional Government is instructed to work out, without delay, on a broad democratic basis, bills for the solution of the agrarian problem, and the problems of labor, of food supply, and of finances.
ESTONIA!
You stand on the threshold of a hopeful future in which you shall be free and independent in determining and directing your destiny! Begin building a home of your own, ruled by law and order, in order to be a worthy member within the family of civilized nations! Sons and daughters of our homeland, unite as one man in the sacred task of building our homeland! The sweat and blood shed by our ancestors for this country demand this from us; our forthcoming generations oblige us to do this.
May God watch over thee
And amply bless
Whatever thou undertake
My dear fatherland!
Long live the independent democratic Republic of Estonia!
Long live peace among nations!
The Council of Elders of the Estonian National Council
Tallinn, 21 February 1918
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2012 | 00:33
Stjórnmálaskoðanir rithöfunda
Það virðist ýmsum finnast það merkilegra að rithöfundar hafi stjórnmálaskoðanir en aðrir Íslendingar.
Það er ef vill ekki úr vegi að hafa það í huga að merkilegir og háverðlaunaðir rithöfundar hafa í gegnum tíðina haft stjórnmálaskoðanir og predikað þær af ákafa.
Sumir þeirra hafa jafnvel verið það stórar persónur að þeir hafa beðist afsökunar á þeim síðar á lífsleiðinni. Aðrir hafa látið það ógert.
Ég get því ekki fundið nokkra ástæðu til að taka pólítísk skrif rithöfunda alvarlegar en skrif annarra Íslendinga.
Vissulega er þau oft betur færð í stílinn, en einhverra hluta vegna hef ég tamið mér að hafa vara á gagnvart þeim.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2012 | 21:53
Tri-X og Kodachrome
Það má örugglega telja það tímanna tákn þegar Kodak er komið í gjaldþrotaskipti. Kodak er eitt af þessum vörumerkjum sem allir þekkja, eða í það minnsta þekktu.
Fyrstu myndir sem ég tók tók ég á Kodak myndavél og þegar ég fékk áhuga á ljómyndum fyrir alvöru var það oftast Kodak sem varð fyrir valinu, aðallega Tri-X, stundum Plus-X eða Kodacolor, en þegar einstaklega mikið var við haft Kodachrome.
Núna er ég auðvitað eins og allir aðrir og tek því sem næst eingöngu stafrænar myndir, þó að ég hafi sankað að mér mýmörgum filmuvélum. Það er þó teljandi á fingrunum þau skipti sem að ég læði filmu í þær.
En ég hef ekki trú á að Kodak hverfi, einhver mun sennilega kaupa vörumerkið og framleiðslurétt á helstu filmunum.
Kodak er gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2012 | 00:59
Saga Borgarættarinnar - á Eistnesku
Í morgun áskotnaðist mér eintak af Sögu Borgarættarinnar, á Eistnesku. Það sem er þó ef til vill hvað merkilegast við þessa útgáfu af bók Gunnars Gunnarssonar, er að hún er prentuð og gefin út hér í Toronto. Nánar tiltekið árið 1961. Heitir sagan á Eistnesku Borgi Rahvas.
Útgáfan virðist vera hluti af útgáfu bókaklúbbs og er bók næsta mánaðar auglýst innan á kápunni. Líklegast er að útgáfan sé að mestu leyti endurprentun á Eistneskri útgáfu sem kom út árið 1939. Útgáfan frá 1939 hefur líklega verið nokkuð vönduð, m.a. eru gerðar sérstakar grafíkmyndir fyrir útgáfuna af Eistneska listamanninum Ernst Kollom. Sömu myndirnar eru að öllum líkindum í Toronto útgáfunni, en ég hef ekki hugmynd um hvort að þær eru allar. En þær eru merktar EK þannig að líklega er óhætt að draga þá ályktun að þær séu þær sömu.
Það sem er þó ef til vill merkilegast í þessu samhengi, er að þetta litla samfélaga Eistlendinga sem var hér í Toronto skuli hafa gefið út bók Gunnars. Þá bjuggu hér í borginni líklega einhvers staðar á milli 12 og 15.000 Eistlendingar, þannig að markaðurinn hefur ekki verið stór. Eitthvað hefur hugsanlega verið selt til Bandaríkjanna því þar bjuggu einhverjir tugir þúsunda af Eistlendingum.
En þessi fyrsta kynslóð Eistneskra innflytjenda, sem kom hér eftir seinna stríð, lagði mikið á sig til að viðhalda tungu sinni og menningu. Að mörgu leyti er ótrúlegt hvað ekki stærra samfélag hefur komið í verk.
Nú þarf ég að reyna að grafa upp hvort að einhverjar fleiri Íslenskar ættaðar bækur hafi verið á meðal þess sem hér var gefið út.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2012 | 05:09
Letter in Icelandic from the Ninette San
Kunningi minn sendi mér þetta lag í kvöld. Taldi að þetta hlyti að vera eitthvað fyrir mig. Iceland í titlinum eins og hann orðaði það. En flytjandi lagsins er John K. Samson og lagið heitir Letter in Icelandic from the Ninette San. Þess má geta að Káið í nafni flytjandans stendur fyrir Kristjan.
Ég þekki ekkert til hans en hann ku vera þekktur tónlistarmaður hér í Kanada, aðallega fyrir veru sína í hljómsveitinni Weakerthans, sem er frá Manitoba og nýtur vinsælda hér í Kanada.
En lagið er af væntanlegri sólóplötu John K. Samson, sem mun heita Provincial.
Texti lagsins mun vera saminn upp úr bréfum sem sjúklingur á berklasjúkrahúsi í bænum Ninette (Ninette Sanitorium) í Manitoba skrifaði og voru á Íslensku. Þegar hlustað er á textann má heyra minnst á Gretti Ásmundsson, Drangey, sem og elliheimilið Betel, sem líklega er elliheimilið í Gimli.
Ef einhver vill frekar hlusta á endanlegu útgáfuna eins og hún er á hljómplötunni, sem er væntanleg þann 24. janúar næstkomandi, þá er hún hér fyrir neðan.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2011 | 13:07
Staðreyndir úr ýmsum áttum.
Stundum þegar ég þvælist um internetið rekst ég á alls kyns staðreyndir sem vekja athygli mína, ýmist vegna þess að ég hef haft vitneskju um um viðkomandi hlut, eða þá að framsetningin er á einhvern hátt nýstárleg. Stundum sker ég og skeyti og safna þessum staðreyndum saman, hér fyrir neðan eru nokkrar staðreyndir sem hafa vakið athygli mína í þessari viku.
Í Frakklandi hefur hvert einasta fjárlagafrumvarp verið með halla síðan 1973.
U.þ.b. 45% ungs fólks (16 til 24ja ára) er atvinnulaust á Spáni.
Á Íslandi fær einstaklingur með meðallaun ekki nóg útborgað til að greiða kostnað við dagheimilisdvöl tveggja barna. (Þetta á reyndar við um fjöldamörg lönd).
Í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi, Belgíu, Hollandi, Luxemborg og Spáni er aðeins heimilt að þjóðhöfðingjar komi úr einni fjölskyldu. Í gegnum Bretland gildir þetta einnig um t.d. Kanada, Ástralíu og fleiri ríki.
3. milljarðar dollara (u.þ.b. 340 milljarðar króna) er sú upphæð sem áætlað er að Kanadabúar greiði meira fyrir landbúnaðarafurðir en þeir þyrftu ef verslun, framleiðsla og innflutningur væri frjáls.
Upprunaleg merking borgarheitisins París, er talin vera Borg hins vinnandi fólks. Margir vilja halda því fram að það sýni best hvað það er gamalt.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2011 | 20:09
Eru öll pólítísk "kerfi" hrunin?
Þeir eru ófáir sem hafa talað hátt um það að bankahrunið á Íslandi megi rekja til þess sem þeir kalla "nýfrjálshyggju". Þetta hentar þeirra pólítíska málstað.
Þeir hinir sömu hafa líklega ályktað að hin alvarlega bankakreppa sem herjaði á Svíþjóð, Noreg og Finnland seint á síðust öld hafi verið hinu blandaða norræna velferðarkerfi að kenna. Þeir hljóta að hafa talið það óðs manns æði að halda áfram á svipuðum nótum í uppbyggingunni eftir það hrun. Hvað þá að fara að nota það "model" í öðrum löndum.
Líklega þekkja líka flestir hrun kommúnismans sem sömuleiðis varð fyrir u.þ.b. 20 árum.
Eru þá ekki öll kerfi fullreynd?
En auðvitað er þetta ekki svona. Bankahrunið á Íslandi varð ekki vegna nýfrjálshyggju (lengi má líklega rífast um hvort að frjálshyggja hafi nokkru sinni verið veruleg á Íslandi, bankakreppa Svía, Finna og Norðmanna varð ekki vegna hins blandaða hagkerfis sem þeir bjuggu við og búa við enn.
Líklega verður þó ekki deilt um að hin kommúníska mara sem lögð var yfir stærstan hluta A-Evrópu dróg sitt eigið skipulag til dauða.
Þeir eru þó enn býsna margir sem telja það skipulag ekki fullreynt.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2011 | 17:41
Sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 20 árum síðar og stolnar fjaðrir
Sá það á Eyjunni að eitthvað hefur sumum fundist Jón Baldvin Hannibalsson ekki hafa fengið þá viðurkenningu sem hann á skilið, nú 20 árum eftir að Eystrasaltslöndin endurheimtu sjálfstæði sitt og Íslendingar viðkenndu hið sama sjálfstæði og tóku upp stjórnmálasamband við þau. Sjá má skoðanaskipti hér, hér og hér.
Í ferðum mínum um Eistland hef ég oft fundið fyrir gríðarlegu þakklæti í garð Íslendinga, sérstaklega hjá aðeins eldra fólki sem man vel þessa spennuþrungnu daga. Sumir muna eftir Jóni Baldvin og minnast á hann, en flestir tel ég að líti svo á að þetta hafi verið gjörð Íslenskra stjórnvalda, en ekki Jóns persónulega
Þetta segi ég ekki til að gera lítið úr þætti Jóns, hans framganga í þessu máli var til fyrirmyndar og af fullum skörungsskap.
En því var eðlilegt að Eistlendingar byðu þjóðhöfðingja Íslendinga til að setja Íslandsdaginn. En þeir gleymdu ekki Jóni, hann var í pallborði á fundi á vegum Eistneska utanríkisráðuneytisins, en þann fund hef ég séð minnst á bæði í Íslenskum og Eistneskum fjölmiðlum, þó að þar hafi ef til vill ekki komið fram nein stór tíðindi. Myndir af fundinum má sjá hér. Myndir frá Íslandsdeginum má einnig sjá hér.
En viðurkenning Íslendinga á sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna gerðist ekki í tómarúmi á örfáum dögum, heldur átti sér býsna drjúgan aðdraganda og komu þar ýmsir við sögu. það þarf ekki að fletta blöðum þessa tíma lengi til að finna fréttir um baráttu þessarra þjóða sem var með stigvaxandi þunga frá 1988, þó ef til vill megi segja að hún hafi staðið sleitulaust frá upphafi hernáms, árið 1940.
En margir minnast ferðar Jóns Baldvins til Litháens snemma árs 1991, eftir árás Sovéska hersins á sjónvarpsturninn í Vilnius. Það þurfti dirfsku og hugrekki í þá ferð og ekki að undra að Litháar minnist Jóns með mikilli hlýju og virðingu.
En Íslendingar fylgdust vel með baráttu Eystrasaltsþjóðanna og ég held að hugur flestra Íslendinga hafi verið með þeim í þessari baráttu. Málið var rætt í fjölmiðlum og á Alþingi og ekki var því sem næstu einhugur á þingi um að Íslendingar styddu þessar þjóðir til að endurheimta sjálfstæði sitt. Um það má til dæmis lesa í þessarri frétt, sem segir frá skýrslu utanríkisráðherra (Jóns) á Alþingi í Janúar 1991. Þarna kemur fram því sem næst einróma stuðningur Alþingis.
Og Íslenskir þingmenn höfðu ferðast til Eystrasaltsríkjanna, Árni Gunnarsson fór ásamt öðrum Íslenskum þingmönnum (eins og kemur fram í grein hans) og Þorsteinn Pálsson fór ásamt Kjartani Gunnarssyni til Eistlands og Litháen, í júlí áríð 1990, eins og lesa má um í þessarri frétt.
Í þessarri frétt má svo lesa um það þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra tilkynnir Sovéska sendiherranum að Íslendingar hyggist viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og koma á stjórnmálasambandi við þau.
Ekkert af þessu sem kemur hér fram dregur úr þætti Jóns Baldvins, hans þáttur var stór og mikilvægur, en það er engin ástæða til að firtast við þó að Eistlendingar hafi fyrst og fremst ákveðið að heiðra Íslensku þjóðina, en ekki einstaklinga og fréttir hafi meira snúist um Íslandsdaginn en persónur.
Ótal aðilar á Íslandi börðust fyrir sjálsftæði Eystrasaltsþjóðanna og er á engan hallað þó að sagt sé að þar hafi Jón Baldvin farið fremstur meðal jafninga, en ekki voru alltaf allir sammála um hvaða skref ætti að stíga og hve hratt ætti að fara, þannig mátti til dæmis lesa þennan texta í leiðara Alþýðublaðsins í apríl árið 1990:
Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins, hefur sýnt fullan stuðning þingsályktunartillögu
Þorsteins Pálssonar formanns flokksins og nokkurra annarra þingmanna um að ísland
viðurkenni formlega fullveldi Litháens. Alþýðublaðið birti leiðara fyrir viku þar sem
umrædd þingsályktunartillaga var gagnrýnd, þar eð full viðurkenning
á fullveldi Litháens getur að mati blaðsins orsakað erfiðari
tíma fyrir Litháa. Alþýðublaðið er ekki eitt um þessa
skoðun. Þetta er opinberleg stefna allra Vesturlanda með
Bandaríkin í broddi fylkingar. Það verður því að teljast einstæður
atburður að forysta Sjálfstæðisflokksins og málgagn
flokksins, Morgunblaðið, skuli fara beint gegn aðildarríkjum
okkar í NATO og þvert gegn stefnu Bush Bandaríkjaforseta.
Þessa afstaða Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins verður
að túlka sem sinnaskipti flokks og málgagns í utanríkismálum.
Þetta var í apríl, en síðan gerðust hlutirnir hratt og líklega var valdaránstilraunin í Moskvu svo dropinn sem fyllti mælinn og Eistland, Lettland og Litháen endurheimstu sjálfstæði sitt eftir ríflega 50 ára hersetu.
Það er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera stolta af framgöngu Íslenskra stjórnvalda þá daga.
Saga | Breytt 12.2.2021 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)