Eiga allar þjóðir og þjóðarbrot sama rétt til sjálfsákvörðunar?

Það hefur mikið verið rætt um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, þjóðarbrota og minnihlutahópa undanfarna mánuði.

Hæst hefur borið þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi í síðustu viku, en sjálfsákvörðunarrétturinn hefur einnig borið á góma varðandi baráttu svokallaðra "aðskilnaðarsinna í A-Ukraínu og í kringum hinar undarlegu kosningar sem haldnar voru í Krím héraði.

En eiga allar þjóðir, þjóðarbrot og minnihlutahópar sjálfsákvörðunarrétt í sama mæli?  Eru ekki fleiri þættir sem taka þarf tillit til?

Jú, ég er þeirrar skoðunar og þar vegur líklega þyngst sagan.

Tökum dæmi.

Narva er þriðja stærsta borg Eistlands, liggur við eins austarlega og verða má í landinu, við landamærin að Rússlandi.

Narva hefur skipt um hendur ótal oft í gegnum söguna, lotið yfirráðum Dana, Svía, Rússa og var borg Hansa kaupmanna.

Borgin var í gegnum aldirnar nokkuð alþjóðleg ef svo má að orði komast, en stærstur hluti íbúanna þó það sem síðar var skilgreint sem Eistlendingar.

Þegar Eistland varð sjálfstætt ríki árið 1918, voru Eistlendingar í yfirgnæfandi meirihluta og árið 1939 voru þeir 88% af íbúum landsins.  Stærstu minnihlutahóparnir voru Rússar, Þjóðverjar, Svíar, Lettar, Gyðingar, Finnar, Pólverjar og Ingríar.

Rússar voru taldir um 8% íbúanna.

Sovétríkin hertóku Eistland ásamt hinum Eystrasaltsríkjunum árið 1940.  1941 hófust umfangsmiklir Síberíuflutngar og voru þúsundir einstaklina á öllum aldri fluttir á brott, þar á meðal fjöldinn allur frá Narva, sem var helsta iðnaðarborg Eistlands.

Síðan kom hernám Þjóðverja og urðu all nokkrar skemmdir í bardögum um borgina, en hún varð þó fyrir tiltölulega litlu tjóni.  Það breyttist árið 1944, þegar harðir bardagar voru háðir um Narva, og var borgin að miklu leyti jöfnuð við jörðu.  Mesta einstaka tjónið varð líklega í miklum loftárásum Sovéska flughersins í mars 1944.  Fáir íbúar borgarinnar týndu þó lífi í þessum hildarleik, enda höfðu Þjóðverjar rýmt borgina í janúar.

En eftir að Sovétmenn náðu valdi yfir Narva og náðu Eistlandi á sitt vald, var fyrrum íbúum Narva meinað að snúa aftur til heimkynna sinna. Sovétmenn höfðu uppi ráðagerðir um að byggja þar leynilega uraníumvinnslu, sem hefði þýtt að Narva yrði "lokuð borg" (all mikið uraníum finnst í Eistlandi).

Þó að horfið væri frá þessum ráðagerðum, og uraníumvinnslan í stað þess byggð í bænum Sillamäe, ekki langt  þar frá, hafði þessi aðgerð mikil áhrif að framþróun Narva.

Eftir stríð hófst önnur hrina Síberíuflutninga (engin veit hve hve margir voru drepnir og fluttir á brott frá Eistlandi í þessum hreinsunum, en nefndar eru tölur allt að 110.000), en mikill fjöldi Eistlendinga hafði einnig notað tækifærið fyrir og í kringum stríðslok og flúið land.  Þessir þættir ásamt mannfalli í stríðinu leiddu af sér talsverða fólksfækkun í Eistlandi.

En Sovétmenn hófu umfangsmikla iðnaðaruppbyggingu í Narva.  Jöfnðuðu rústirnar við jörðu (þó að ýmsir teldu að hægt væri að byggja þær upp) og byggðu fjöldan allan af íbúðarblokkum og fluttu inn vinnuafl frá Sovétríkjunum, að stórum hluta Rússa.

Þetta gilti þó ekki eingöngu um Narva, heldur Eistland sem heild.

Til að gera langa sögu stutta féll hlutur Eistlendinga í íbúatölu Eistlands jafnt og þétt niður á við og var kominn niður í 61% árið 1989. Það gerðist þrátt fyrir að stór hluti af þeim svæðum þar sem Esto Russian borderRússar voru hvað fjölmennastir fyrir hernám, höfðu verið flutt yfir til Rússlands, með breyttum landamærum, þar á meðal borgin Novgorod, sem hafði verið hluti Narva (þau landamæri má sjá á kortinu sem er hér með, en merkilegt nokk hefur Putin og Rússar, engan áhuga á því að hverfa til fyrra horfs þar).

Langmestur fjöldi innflytjendanna kom til svæðisins í kringum Narva og svo höfuðborgarinnar Tallinn.

Á árunum 1945 til 1990, jókst fjöldi Rússa í Eistlandi úr u.þ.b. 23.000 í 475.000.  Heildarfjöldi innfluttra frá Sovétríkjunum var talinn 551.000.

Þess vegna er staðan sú að í Narva nútímans eru u.þ.b. 94% íbúanna Rússneskumælandi, þar af u.þ.b. 82% Rússar.

Samsvarandi hlutfall fyrir Tallinn er talinn u.þ.b. þriðjungur.

Þessi er staðan þrátt fyrir að Rússum hafi fækkað mikið, þeir fluttu margir á brott þegar Eistland endurheimti sjálfstæði sitt 1991, og svo fækkaði þeim verulega þegar síðustu liðsmenn Sovéska hersins yfirgáfu landið 1994.

Staðan er því nú að Eistlendingar eru u.þ.b. 70% íbúanna, en þeir sem eru af Rússnesku bergi brotnir eru u.þ.b. 24%, en eins og áður sagði að mestu leyti í kringum Tallinn og Narva.

Síðan Eistland endurheimti sjálfstæði sitt hefur íbúum að sama skapi fækkað um ríflega 300.000 og fækkar enn.

Hér hefur verið farið hratt yfir sögu um íbúaþróun Eistlands, og er þetta auðvitað ekki tæmandi frásögn.

En svipaða sögu, með mismunandi tilbrigðum má segja af öllum Eystrasaltsþjóðunum, Ukraínu (þar með talið Krím héraði) og fjölmörgum öðrum fyrrverandi  Sovét "lýðveldum".

En þá komum við að upphaflegu spurningunni.  Eiga allar þjóðir, þjóðarbrot og minnihlutahópar (ef þeir eru í meirihluta á ákveðnu svæði) sama rétt til sjálfsákvörðunar?

Persónulega held ég að það verði að meta það með hliðsjón af sögunni, og hvernig það er komið til að viðkomandi þjóð, þjóðarbrot eða minnihlutahópur er í meirihluta á viðkomandi svæði.

Það er engan veginn hægt að bera saman kringumstæður sem valda því t.d. að Rússar eru í meirihluta á svæðinu í kringum Narva, og svo aftur sjálfstæðiskröfur Skota eða Katalóníubúa.

Að sama skapi eru kringumstæður Rússa (aðskilnaðarsinna) í A-Ukraínu orðnar til með allt öðrum hætti en þær sem lögðu grunninn að friðsamlegum aðskilnaði Tékka og Slóvaka, eða Norðmanna og Svía (sem ég held að sé í fyrsta sinn sem ríkið varð sjálfstætt án bardaga eða blóðsúthellinga).

Allt tal Putins og Rússa um að þeir þurfi að "vernda" minnihlutahópa af Rússneskum uppruna, er í raun ekkert annað en áframhaldandi ofbeldi og ógnanir af hendi Rússa, rétt eins og þeir hafa beitt í árhundruð gagnvart nágrannaríkjum sínum.

Það er ótrúlegt að heyra og sjá hvað margir eru þeirrar skoðunar að það sé "réttur" þeirra og sjálfsagt sé að þeir hlutist til um innanríkismál nágranna sinna.

Og þá er ég ekki að tala um Rússa.

Sjálfsákvörðunarréttur er göfugt hugtak og góð stefna, en það verður að taka mið af kringumstæðum og sögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Spurningin er: Þeir" Rússar" sem eru væntanlega afkomendur þeirra sem  þú skrifar um njóta þeir ekki fullrar réttinda sem íbúar Eistlands?

Snorri Hansson, 22.9.2014 kl. 17:24

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað svo að þeir sem ég kalla "Rússa" og gjarna líta á sig sem "Rússa", eru fyrsta, önnur, þriðja og jafnvel fjórða kynslóð innflytjenda.

Það er misjafnt hvort þeir njóta fullra réttinda sem ríkisborgarar í Eistlandi.  Þar sem lagalega skilgreininingin er sú, sem engan vegin er hægt að draga í efa, að 1991, stofnuðu Eistlendingar ekki nýtt ríki, heldur endurheimtu sjálfstæði sitt, voru þeir sem flutt höfðu sem hluti af hernámsliði ekki ríkisborgarar í Eistlandi.

Ef við reynum að setja það í Íslenskt samhengi, þá öðluðust þeir Bresku hermenn sem dvöldu á Íslandi á meðan hernámi Íslands stóð ekki Íslenskt ríkisfang.

Engum þeim Rússa sem búið hefur í Eistlandi, eða er fæddur þar og hefur sótt um Eistneskan ríkisborgararétt hefur verið synjað, hafi þeir uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir því að öðlast slíkan rétt.

Þar á meðal er lágmarkskunnátta í Eistnesku.

Þeir "Rússar" sem ákváðu að verða um kyrrt í Eistlandi og hafa ekki sótt um ríkisborgararétt, eða hafa ekki uppfyllt skilyrðin hafa ekki full réttindi í Eistlandi.  Þeir fá til dæmis ekki að taka þátt í kosningum til þings, en hafa atkvæðisrétt til sveitarstjórna og til Evrópusambandsþingsins.

Þessir einstaklingar hafa grátt vegabréf í stað rauðs, sem ríkisborgarar Eistlands hafa.  Þeir eru í raun án eiginlegs ríkisfangs.

Eftir því sem ég kemst næst, eru ennþá u.þ.b. 8 til 10 af þeim sem búa í Eistlandi með slíkt vegabréf, eða í kringum 100.000 einstaklingar.

En jafn flókið og það kann að hljóma, og eftir því sem ég kemst næst, þá eru þessir einstaklingar taldir "ríkisborgarar í Evrópusambandinu".

Þannig geta þeir ferðast á vegabréfsáritunar (ég held þó að takmörk séu fyrir lengd dvalar) innan Schengen, og hafa rétt til þess að vinna innan Evrópusambandsins.  Eftir því sem sagt er hafa margir af þeim yngri notfært sér það.

En þó að þetta ástand sé að mörgu leyti ekki ákjósanlegt, verður eins og annað að líta á það í ljósi sögunnar.

Eistland, og hin Eystrasaltsríkin töldu sig í nauðvörn.  Þjóðerni þeirra, tunga og menning var talin, og var í bráðri hættu.

70 ára hernám hafði leikið löndin grátt, og Rússar, sem höfðu vanist því að líta á sig sem "yfirstétt" í löndunum voru illa þokkaðir.

Það mátti heldur ekki miklu muna að allsherjar blóðbað yrði í þessum löndum þegar Rússar/Sovétmenn bjuggu sig undir að berja niður sjálfstæðisbaráttu þeirra.  Sú barátta var alls ekki án blóðsúthellinga eða morða af hendi Rússa/Sovétmanna.

Það má í raun teljast kraftaverk að þau hafi endurheimt sjálfstæði sitt án meiri blóðsúthellinga en raun ber vitni og að sambúð hinna hersetnu og hinna sem hersátu hafi verið jafn friðsamleg og raun ber vitni síðastliðin 23 ár.

G. Tómas Gunnarsson, 22.9.2014 kl. 18:33

3 Smámynd: Snorri Hansson

Þakka þér fyrir afar fróðlegan pistil.

Það er ekkert skrítið að það séu allskonar tilfinningar eftir allt sem á undan er gengið.

Samt sem áður er augljóst að Eistlendingar verða að fara í saumana á þessum

málum. Ég sé ekki að það sé svo glæpsamlegt af Rússum að benda á mismunun.

Snorri Hansson, 23.9.2014 kl. 01:17

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það eru auðvitað alls konar tilfinningar í spilinu, eins og þú bendir á.  Það er ekki óeðlilegt eftir rétt rúmlega 70 ára hersetu.

En lykilorðin hér eru herseta, hinir hersetnu og svo þeir sem í raun hersátu eða aðstoðuðu við það.

Hvaða skyldur bera þeir hersetnu til þeirra sem hersátu þá?

Báru Norðmenn einhverjar skyldur til þeirra Þjóðverja (og fjölskyldna þeirra) sem þar voru eftir í stríðslok?

Það verður vissulega að hafa í huga að tímalengdin er allt önnur, en verknaðurinn er sá sami.

Eistlendingar (og hin Eystrasaltslöndin að ég tel) féllust t.d. á það að þeir Sovésku hermenn sem hefðu sest þar að sem ellilífeyrisþegar (sem var vinsælt, vegna þess að þrátt fyrir allt var þetta talið einn besti staðurinn í Sovétríkjunum til að búa á) mættu búa þar áfram og Eistland myndi greiða þeim eftirlaun.  Þetta var hluti af samkomulagi sem gert var um brottför Sovéskra/Rússneskra hermanna.

Það má ef til vill teljast skrýtið að borga kúgurum sínum eftirlaun, en það er þó staðreynd, í það minnsta í Eistlandi.

Það hafa margir Eistlendingar bölvað því í mín eyru að í Tallinn búi fyrrverandi KGB foringjar og fái eftirlaun frá Eistneska ríkinu.

Það er að sjálfsögðu ekki glæpsamlegt af Rússum að benda á hina ríkisfangslausu, en að flestu leyti væri þeim hollara að líta í eigin barm, þar sem þeir líta á sig sem arftaka Sovétríkjanna.

Hverjir skópu þessar kringumstæður?  Hvað hafa þeir gert til þess að gera þær betri?  Hafa þeir reynt að axla ábyrgð á kringumstæðum þessa fólks?  Með hvaða hætti

Sumir ríkisfangslausir einstaklingar hafa t.d. aldrei sótt um að gerast Eistneskir ríkisborgarar vegna þess að "prívat og persónulega" hafa þeir aldrei viðurkennt Eistland sem sjálfstætt ríki og líta í raun ekki á sig sem Eistlendinga heldur sem Rússa, en þeir telja sig í fullum rétti til að búa í Eistlandi.  

Skrýtið ekki satt?

Ég hef hitt marga eintaklinga af hinum Rússneska minnihluta.  Flestir af yngri kynslóðinni líta jákvætt á hlutina, eru orðnir Eistneskir ríkisborgara og skera sig ekki frá öðrum ungmennum.

En margir af eldri kynslóðinni eru ennþá fullir hroka (þrátt fyrir misjafnar aðstæður) og virðast fara eins lítið og mögulegt er út fyrir "Rússnesku hverfin".

Vandamálið að hluta til er að sá hluti lifir lífinu að stærstum hluta í Rússlandi, ef svo má að orði komast.  Þeir lesa Rússnesk blöð, hlusta á Rússneskar fréttir, horfa á Rússneskt sjónvarp og svo framvegis.

En í raun má segja að ef einhverjir skuldi þessu fólki eitthvað þá eru það Rússar.

En ég hygg að fæstir þeirra myndu þiggja boð um að flytja heim til "papa Putin".

G. Tómas Gunnarsson, 23.9.2014 kl. 05:05

5 Smámynd: Snorri Hansson

Ég held að það sé mannlegt eðli að hópar sem skera sig úr,tala annað mál og finna fyrirlitninguna og ásökina á gerðum forfeðrana,  hópi sig saman.

 Þeir hafa sínar eigin söguskíringar og ríghalda í „sína“ menningu.  

Snorri Hansson, 23.9.2014 kl. 12:53

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er að ég hygg rétt hjá þér Snorri.

En hvaða rétt hafa þeir sem fyrrverandi "yfirstétt og kúgarar" til að gera kröfur á hendur þeim sem þeir kúguðu?

Það er stóra spurningin?

Hvort liggur ábyrgðin á "ástandinu" meira hjá Rússum eða Eistlendingum?  Hvorir hafa gert meira til þess að leysa úr málum?

Hluti vandamálsins nær svo aftur til áranna 1944-45.  Rússar líta svo á að þeir hafi komið sem frelsarar, Eistlendingar líta svo á að þeir hafi komið og hernumið landið og kúgað það í áratugi.

G. Tómas Gunnarsson, 23.9.2014 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband