Færsluflokkur: Saga

Tapa Kommunist

Börnin mín hafa lengi hrifist af Tapa og Viljandi. Það ásamt "mannasúpunni" hafa lengi verið aðhlátursefni þeirra á milli.

Ekki má heldur gleyma littla þorpinu "Ape", sem er í Lettlandi, rétt við landamæri þess og Eistlands.

En Tapa hefur verið í byggð í óratíma, en þó að enginn viti 100% hvernig nafnið er til komið en fyrst var þar "herragarður" með svipuðu nafni.

En bærinn á seinni tíma tilveru sína að þakka járnbrautarlest sem lögð var í gegnum bæinn og svo einnig flugvelli/herflugvelli.

En goðsögnin um "Tapa Kommunist" í líka góðan stað í hjörtum margra Eistlendinga.

En Tapa er ein beygingarmynd Eistnesku sagnarinna að drepa. Goðsögnin segir að stuttu eftir hernám Sovétríkjanna á Eistlandi hafi deild Kommúnistaflokksins í Tapa gefið út blaðið "Tapa Kommunist", sem getur á Eistnesku hvoru tveggja þýtt, "Tapa kommúnistinn" eða "Drepum kommúnistann".

Tartu KommunistÞví miður er ekkert sem bendir til þess að goðsögnin sé sönn, en góð er hún eigi að síður. En t.d. var til blað sem hét "Tartu Kommunist".

Eldvatnið í Tapa (Tapa põlev vesi) er einnig vel þekkt í Eistlandi.

Þá nafngift má rekja til þeirrar staðreyndar að eftir Sovétmenn höfðu verið með MIG23 flugsveitir sínar um árabil á flugvellinum við Tapa, hafði lekið svo mikið eldsneyti niður í jarðveginn, að oft mátti kveikja í vatninu sem kom úr krananum hjá þorpsbúum.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Taparar unnu Viljandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sovétið, sagnfræðin, ártölin og landamærin

Það er auðvelt að sjá að það hafi verið umdeild ákvörðun að leyfa Putin að ávarpa gesti minningarathafnar um Helförina.

Því þó að Putin sé Rússi, er hann líka "Sovíetmaður" (homo soveticus), en þá má ennþá finna nokkuð víða, líklega einnig á Íslandi. Sumir vilja meina að "Sovíetmaðurinn" hafi þróast yfir í "Putinmanninn".

En "Sovíetmenn" vilja að sjálfsögðu fyrst og fremst láta minnast þátttöku sinnar í heimstyrjöldinni síðari sem  hetjulegrar framgöngu hins "mikla frelsara". Þeirri ímynd hafa þeir haldið stíft á lofti, og reyndar gerðu Vesturveldin slíkt hið sama lengi vel, til að réttlæta fyrir þegnum sínum samstarf sitt við hina "Sovíesku kommúnista".

Það var á meðan á því samstarfi stóð, sem goðsögninni um "Jóa frænda" (uncle Joe), sem í raun var einn afkastamesti fjöldamorðingja sögunnar, var komið á flot og kommúnistar um víða veröld kynntu undir.

En þó að þátttaka Sovíetríkjanna í Seinni heimstyrjöldinni hafi alls ekki verið án hetjulegrar framgöngu, var hún mun flóknari en svo.

Ef frá er talinn hernaður Japana í Kína, er rökrétt að líta á svo að upphaf þess hildarleiks hafi verið svokallaður "Molotov-Ribbentrop samningur" á milli Sovíetríkjanna og Þýskalands Hitlers.

Með þennan samning að leiðarljósi gerðust Sovíetríki árásaraðili og voru upphafsaðili að hinum Evrópska hluta hildarleiksins.

Með samninginn að leiðarljósi réðust þau inn í Pólland þann 17. september 1939, þann 30. nóvember sama ár inn í Finnland (Vetrarstríðið), 1939-40 hertu Sovíetríkin svo snöruna hægt og rólega að Eystrasaltsríkjunum (sem "Molotov-Ribbentrop samningurinn" hafði "úthlutað" þeim) og tóku þó alfarið yfir um miðjan júnímánuð 1940.

Þeirra tíma "Rússadindlar" litu alltaf svo á að Eistland, Lettland og Litháen hefðu ákveðið af fúsum og frjálsum vilja að ganga inn í Sovíetríkin. Íslenskir kommúnistar voru (rétt eins og segja má um svo gott sem alla kommúnista, hvar sem þeir voru) fylgdu þessari línu og vildu t.d. gera lítið úr venslum Íslendinga og Finna.

Rétt eins og nútíma "Rússadindlar" trúa því að kosningarnar á Krímskaga hafa verið frjálsar og lýðræðislegar.

Sagan á það til að bergmála, enda báðar yfirtökurnar, ef svo má að orði komast, leiknar eftir sömu KGB handbókinni.

En það skiptir vissulega máli til hvaða landamæra er litið þegar talað er um hvað margir ríkisborgarar Sovíetríkjanna létu lífið, eða hvað stór hluti af þeim gyðingum sem voru myrtir í útrýmingarherferð Þjóðverja tilheyrðu Sovíetríkjunum.

Eru þau landsvæði sem Sovíetríkin höfðu tekið með hervaldi af Póllandi, Eistland, Lettland og Lítháen talin með Sovíetríkjunum?

Ég veit að íbúar Eystrasaltsríkjanna líta ekki svo á og þykir líklegt að svo geri Pólverjar ekki heldur.

Þannig eru Rússar/Sovíetmenn bæði "hetjan" og "skúrkurinn" að svo mörgu leyti hvað varðar Seinni heimstyrjöldina.

Þeir neyddu fjölmarga íbúa Eystrasaltsríkjana í Rauða herinn (Þjóðverjar beittu marga þeirra einnig nauðung hvað þeirra her varðar) og marga þeirra sem þannig gengdu hermennsku óviljugir voru myrtir af Sovíetríkjunum vegna þjóðernis síns.

Þá erum við ekki byrjuð að tala um framferði þeirra eftir að styrjöldinni lauk og þeir höfðu "frelsað" risa stór landsvæði.

Því ferðalagi gripavagnanna í Evrópu lauk ekki með stríðinu, heldur hurfu hundruðir þúsunda einstaklinga í mið og austur Evrópu í "Gulagið" Sovíeska, þaðan sem stór hluti átti ekki endurhvæmt.

En eftir því sem ég hef lesið lætur það nærri sem sagt er í fréttinni að u.þ.b. 16% af þeim gyðingum sem voru myrtir í helförinni hafi verið Sovíeskir ríkisborgarar, þ.e.a.s. ef miðað er við landamærin sem voru við gildistöku "Molotov-Ribbentrop samningsins".

En það tók Sovíetríkin/Rússland langan tíma að viðurkenna "leynihluta" þess samnings.

En engin þjóð sem Sovíetríkin "frelsuðu" hlaut frelsi, nema ef til vill Austurríki.

En það er svo margt sem gerðist í aðdraganda/í Seinni heimstyrjöldinni/eftirmála hennar, sem er þarft að ræða um.

Til dæmis:  Hvers vegna töldu Bretland og Frakkland sig umkomin að semja við Þjóðverja um Tékkóslóvakíu?

Hvers vegna var Sovíetríkjunum leyft að að halda öllu þeim landsvæðum sem Þýskaland Hitlers hafði lofað þaim (Eystrasaltsríkjunum og austurhluta Póllands) að Finnlandi undanskildu?

Putin virðist telja það Rússland sem hann ríkir yfir réttmætan arftaka Sovíetríkjanna þegar kemur að því sem telst jákvætt hvað varðar framgöngu þeirra í Síðari heimstyrjöldinni.

Til að gera tilkall til þess verður hann að gangast við því skelfilega sem þau einnig gerðu.

Það er það sem vantar upp á.


mbl.is Sagnfræðingar segja staðhæfingar Pútíns fáránlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallinn er frá snillingur

Þeir verða ekki yngri, frekar en við hin, en það er sjónarviptir að Terry Jones, og Monty Python meðlimanna allra, sumir á lífi, aðrir eins og Terry gengnir á vit feðranna.

En þeir eiga svo marga "sketsa", og svo margar góðar "línur" að það er engu líkt.

Horfið á síðustu klippuna í fréttinni sem þessi færsla er hengd við.

Slík snilld er ekki á hvers manns færi og því miður ekki algeng.

Enda hefur setningin:  "He is not the Messiah, he is a very naughty boy", oft verið kosinn fyndnasta setning kvikmyndasögunnar.  En vissulega er smekkurinn misjafn eins og mennirnir eru margir.

En kvikmyndin "Life Of Brian", sem Terry Jones leikstýrði, er að mínu mati ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Líklega sú mynd sem ég hef oftast horft á.

Það var ekki tilviljun að myndin var meðal annars auglýst, sem "So funny, it was banned in Norway".

Það verður hlegið af verkum Terry Jones, svo lengi sem lönd eru í byggð.

 

 

 

 

 


mbl.is Terry Jones látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsku vinur ábyggilega áhugavert, en ekki gleyma Gjugg í borg og Honey Will You Marry Me..

Mér lýst vel á þetta samstarf, verður líklega áhugavert lag.

En þó að fyrsta LP plata Stuðmanna hafi verið "Sumar á Sýrlandi" sem kom út árið 1975.

En á undan "Sumrinu" kom smáskífan "Gjugg í borg" og "Draumur okkar beggja", ég man ekki hvor var talin "A hliðin", og reyndar minnir mig að "A hlið" hafi verið beggja megin á ÁÁ records útgáfunni.

En líklega var "Honey Will You Marry Me"(ég man ómögulega hvað hitt lagið heitir), jafnvel á undan þeirri smáskífu, sömuleiðis á ÁÁ records.  Getur verið að "Honey" hafi verið númer 12 og "Gjugg í borg" númer 13?

Ég man þetta ekki og á ekki þessar plötur, en man eftir að hafa meðhöndlað þær eins og dýrgripi í eigu annarra.

En ég er þess fullviss að "Sumar á Sýrlandi" var ekki fyrsta plata Stuðmanna, þó að hún hafi verið fyrsta LP platan.

En það er auðvelt að fyrirgefa blaðamönnum nútímans að  vita ekki um 7", EP plötur og svo framvegis.

En það er líklega jafnt í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni.

En hér sem ég er staddur, er alltaf á einni útvarpsstöðinni, það sem þeir kalla "Vinyl Countdown", en Stuðmenn koma þar því miður aldrei við sögu, en dagskráliðurinn er skemmtilegur eigi að síður.


mbl.is Stuðmenn og Auður í eina sæng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kommúnismi og sovíet einræði eru ekki fagnaðarefni

Lýðræðið er ekki fullkomið, en þó skársta stjórnarfarið, og í raun líklega það eina sem mannskepnan hefur fundið upp til þess að skipta um stjórnarfar án blóðsúthellinga eða mikilla vandræða.

Því er það gott að ennþá skuli vera til nóg af flokkum og einstaklingum sem bjóða fram til kosninga, þannig að heilbrigt val standi kjósendum til boða að kjósa á milli.

En ég verð að segja að ég fagna ekki væntanlegu framboði stjórnmálaflokks sem kýs að standa að baki "hátíðarfundi" til að minnast afmælis "Soviet byltingarinnar".

Þeir stjórnmálaflokkar sem kjósa að heiðra kommúnísku byltinguna og hafa hana í heiðri eru mér ekki að skapi og ég hvet alla kjósendur til að hafna þeim.

Októberbyltingin fæddi af sér einhverja þá verstu ógnarstjórn sem veröldin hefur þekkt. Ég hef í gegn um tíðina kynnst mörgum einstaklingum sem hafa lýst fyrir mér sinni persónulega reynslu í þeim efnum.

En fleiri en einn af þeim hafa einmitt sagt við mig, að þeir geti skilið hvers vegna að landar þeirra aðhylltust kommúnisma. En síðan hafa þeir bætt við:, ... en á Íslandi og hinum vestræna heimi, einstaklingar sem höfðu aðgang að frjálsum fjölmiðlum, bókum og allra handa upplýsingum, hvers vegna urðu þeir einstaklingar kommúnistar?"

Og því miður hafa ýmsir forystumenn Sósíalistaflokksins sem og aðrir Íslendingar kosið að skreyta sig með táknmyndum hins Sovíeska kommúnistaflokks.

Hvað veldur?

Löngunin eftir blóðugri byltingu? Eða er það eitthvað annað?

Ég held að það sé alltaf gott að líta til sögunnar og hafna þeim sem lofsyngja kommúnisma, jafnt sem aðrar öfgastefnur.

 


mbl.is Bera út boðskap — ekki foringjadýrkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Alþingi missti virðingu mína

Það hefur mikið verið rætt um virðingu Alþingis undanfarin ár, ef til ætti frekar að segja að rætt hafi verið um skort á virðingu Alþingis.

Ég hygg að umræddur skortur sé staðreynd, og skoðanakannir virðast staðfesta að svo sé.

En það er alls ekki svo að í umræðunni sé samstaða um hvers vegna virðingu þingsins fari svo þverrandi, enda er líklega um margar samþættar ástæður að ræða.

Ég ætla heldur ekki að draga það í efa að margir hafa margar mismunandi ástæður fyrir því að Alþingi hafi misst virðingu þeirra.

Líklega ekki eins margar og þeir eru sem hafa misst virðingu fyrir Alþingi, en samt margar ólíkar ástæður.

En hjá mér var það fyrst og fremst einn atburður sem varð þess valdandi að virðing mín fyrir Alþingi þvarr eiginlega gjörsamlega, og þó hún hafi náð sér á strik síðan, hefur hún eiginlega ekki borið sitt barr.

Það gerðist í miðju "IceSave" karpinu.

Meirihluti alþingismanna virtist þá reiðubúinn til þess að samþykkja "IceSave I" án þess að fá að sjá samninginn.

Það er varla hægt að gefa Alþingi mikið stærra högg.

Ekki löngu síðar samþykkti síðan meirihluti alþingismanna, í einstaklega fláræðri atkvæðagreiðslu, að halda pólítísk réttarhöld yfir Geir H. Haarde.

Ég held að Alþingi hafi aldrei sokkið lægra en í þessum tveimur tilfellum, en öðru þeirra tókst þó að afstýra.

Enn sitja þó nokkrir af þeim sem svo um véluðu á þingi og hafa sumir þeirra vegtyllur góðar og jafnvel auknar.

Þetta vegur mun þyngra í mínum huga en nokkuð málþóf, illmælgi á öldurhúsum, klæðaburður eða skóleysi.

Sjálfsagt hafa aðrir svo allt aðrar ástæður og sumir bera líklega, en samkvæmt skoðanakönnunum, fjölgar þeim hægt. 

Og málið er þess efnis að það segir lítið að skipa nefnd um málið.  Það segir þó ef til vill eitthvað um alþingismenn að einmitt það skuli hafa verið gert.

Gleðilega þjóðhátíð.

 

 

 


Hugrekki, herstyrkur og hugkvæmni

6. júní er merkisdagur í sögunni, innrásin í Normandy var ótrúlegt afrek, byggt á herstyrk, hugkvæmni en ekki síst hugrekki, bæði þeirra sem skipulögðu og þeirra sem stóðu í fremstu víglínu.

Eftir að Bandamenn náðu fótfestu í Normandy, var það spurning um hvenær, en ekki hvort Þjóðverjar biðu ósigur.

Margir voru fullir bjartsýni og töldu stríðinu ljúka fyrir jól, en aðrir sáu fyrir sér lengri baráttu.

Sagan hefði líklega þróast á annan veg, hefði sigur ekki unnist í Normandy.

En það var barist af hörku og öllu beitt sem finna mátti í vopnabúrum.

Og baráttan kostaði fjölda mannslífa, Bandaríkjamanna, Kanadamanna, Breta, Þjóðverja og síðast en ekki síst Frakka.

Talið er að fleiri óbreyttir borgarar (Frakkar) en hermenn Bandamanna hafi látið lífið á fyrstu dögum innrásarinnar.

Hernaður er hvorki "heiðarlegur" eða nákvæmur.

En stundum er "gjaldið" sem þarf að greiða hátt, en engu að síður réttlætanlegt.

 

 

 


mbl.is Dagurinn sem réði örlögum Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn mun gera yður frjálsa

Einhvern veginn finnst mér að hvert tækifæri sé notað til að hneykslast, finna einhverju til foráttu, ata einhvern auri, eða hrekja einhvern úr starfi.

Það er nú svo að býsna margt, til dæmis mörg tákn tengjast einhverju miður þekkilegu í fortíðinni.

Það sama má segja um alls kyns orðalag og "kvót". Skemmti- og eftirminnileg orðnotkun er ekkert endilega bundin við "gott fólk".

Að segja að "hagnaður gerir yður frjálsa", er ef til vill ekki eftirbreytnivert, en því má ekki síður líkja við þá bíblíutilvitnun sem ég setti hér í fyrirsögn, eins og hina illa þokkuðu yfirskrift hliða fangabúða nazista.

Reyndar á þetta "kvót" nazistanna, eins og margt annað sem þeir gerðu að sínu, lengri sögu, í það minnsta eitthvað aftur á 19. öldina og hefur verið notað á ýmsum tungumálum.

Það sama má segja um t.d. rúnir og hakakrossinn, eins og flestir þekkja líklega.

Hitt er svo, að það er ekkert að því að koma því á framfæri, ef einhverjum mislíkar orðanotkun, og benda kurteislega á að slíkt kunni að vekja óþægileg tilfinningatengsl.

Málfrelsi virkar best þegar það er í allar áttir.

En það er ómaklegt að mínu mati að fara fram með kröfur um starfs- og helst ærumissi.

 

 

 

 

 


mbl.is „Fáránleg“ vísun til nasista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grandmaster Flash er ekki rappari

Það skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli, nema að því marki að ávallt ber að reyna að hafa það sem sannara reynist, en Grandmaster Flash er ekki rappari.

Hann er plötusnúður, eða DJ.

Stundum á enskunni einnig nefndir "turntablist".

Og sem slíkur lagði hann grunninn, ásamt nokkrum öðrum, að þvi sem kallað er Hip-Hop, en ég man ekki eftir að hafa heyrt Íslenska þýðingu á nafni þeirrar tónlistarstefnu, oft er hún  kölluð rapp, en rapp er vissulega fyrirferðarmikill þáttur hennar.

Upprunalega byggðist hún fyrst og fremst á plötusnúð (DJ) og rappara (MC). En seinna fóru hljóðfæri og "sömpl" að spila stærri rullu. Hér eru tvö tóndæmi. Hið fyrra er The Adventures of Grandmaster Flash on the Wheels of Steel. Þar blandar Grandmaster saman ólíkum hljómplötum frá hljómsveitum eins og Blondie, Queen, Chic, Incredible Bongo Band og fleirum. Sagt er að þetta hafi allt verið gert "live" í studíói. Nokkuð sem hafði ekki heyrst á plötu áður árið 1981.

Seinna dæmið er svo líklega þekktasta lag Grandmaster Flash and The Furious Five, en þar er rappið í fyrir rúmi, en í raun leggur Grandmaster Flash lítið til lagsins. En lagið þótti marka ákveðin tímamót hvað rapp varðar, þar sem fjallað er um þjóðfélagsmál, en ekki fyrst og fremst um rapparann sjálfan eða "party" hegðun.


mbl.is Rappari og fiðluleikari fá Polar-verðlaunin í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær eru margar tilviljanirnar, eða hvað?

Oft hafa menn að orði að þeir trúi ekki á tilviljanir, ég er einn þeim.

En það þurfti engar innherjaupplýsingar eða misnotkun á trúnaði til þess að ákveða að innleysa eignir sínar í verðbréfasjóðum á Íslandi í byrjun október 2008.  Í raun má segja að það væri skrýtið ef einstaklingar hafi ekki gert það, eða í það minnsta hugleitt slíkt.

Ríkið tók yfir Glitni þann 29. september, þannig að það þurfti ekkert sérstakt innsæi eða spádómsgáfu, hvað þá innherjaupplýsingar, til að sjá að það hrikti verulega í Íslenska bankakerfinu, fyrsti bankinn var fallinn, og N.B. ekki annar af þeim sem var einkavæddur 2003.

Það er því að sjálfsögðu ekki tilviljun að menn voru að innleysa eignir í hlutabréfasjóðum á þessum dögum.

Það var heilbrigð skynsemi.

En svo er líka heilbrigt að velta því fyrir sér hvort að það sé tilviljun að þessar "merku" upplýsingar skjóti allt í einu upp kollinum nú að segja má nákvæmlega 9 árum síðar?

Ég veit ekki hvaða "skjalfestingar" búa að baki en það er ótrúlegt að það sé tilviljun að þær séu á "boðstólum" nú.

Eða hafa "fjölmiðlar" ef til vill legið á þeim þangað til rétta stundin rann upp?

Það er vissulega stundum rétt að velta því fyrir sér hvort að fjölmiðlar bregði sér í hlutverk "geranda" frekar en sögumanns.

Það hefur gerst þörf æ oftar upp á síðkastið.

 

 


mbl.is Ekkert sem bendir til lögbrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband