Færsluflokkur: Saga

Það er þetta með meint tap samstarfsflokka í ríkisstjórnum

Það virðist nokkuð vinsælt að ræða meint tap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum. Það virðist þó vera lítið annað en þrálát mýta, samanber færslu mína fyrir all nokkrum árum.

Þetta barst svo nokkuð í tal í athugasemdum við færsluna hér á undan.

En þó að reynsla annara flokka af ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkingu og Vinstri græn sé umtalsvert minni, enda flokkarnir á nýlegum kennitölum, væri ef til vill ekki úr vegi að skoða hvernig samstarfsflokkum þeirra hefur vegnað.

Hvernig hefur þeim tveimur flokkum sem hafa myndað ríkisstjórn með Samfylkingu vegnað í kosningum þar á eftir?

Svo er varla hægt að minnast ógrátandi á útreið þess eina flokks sem hefur verið í ríkisstjórnarsamstarfi við Vinstri græn.  Þar á bæ hafa Íslandsmetin tapfallið í fylgistapi, reyndar einnig þegar flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu.

Stundum nægir að vera einn í liði til að tapa fylgi, rétt eins og um sjálfsónæmi sé að ræða.

En það virðist líka hafa verið raunin undanfarin ár, að þeir flokkar sem harðast berjast fyrir "Sambandsaðild", tapi hvað hraðast fylginu.


Að hafa og leyfa skoðanir

Það hefur oft komið fram á þessu bloggi að ég er ekki hrifinn af því að setja tjáningarfrelsi margar skorður, eða að banna með öllu tilteknar skoðanir.  Þær skoðanir hafa ekki yfirgefið mig.

Það gladdi mig því þegar ég rakst á grein eftir Stephen Pollard, sem er ritsjóri Jewish Chronicle, sem styður skoðanfrelsi og rennir góðum rökum þar undir.

Eins og flestir gera sér líklega greinn fyrir er Pollard gyðingur, en þeir þekkja ofsóknir og hatursáróður líklega betur en flestir ef ekki allir aðrir hópar.

Í greininni segir Pollard m.a.:

Should you choose to believe what has been written about me on social media, you will think I am a paedophile who threatens to rape women who disagree with me. I suppose I should point out that these are lies.

Unfortunately for me, so too is the assertion that I control the media, which is also said about me. That’s not just Jews generally controlling the media – but me, personally.

According to some posts on Twitter and Facebook, I determine not only what other Jews write, taking orders from my Israeli masters – I also order around the many non-Jews in my (heavily moneyed) pocket.

So the accusations contained in a now infamous video by the former Grand Wizard of the Ku Klux Klan, David Duke, titled “Jews admit organising white genocide”, are pretty standard fare to anyone who has ever seen what Jew hate looks like.

The video was posted on YouTube in 2015 but has only attracted attention this week when it was used as a stick by the Home Affairs Select Committee with which to beat Google, which owns YouTube.

Giving evidence to the committee on Tuesday, Peter Barron, Google’s vice-president for communications, said that the video was certainly antisemitic but that YouTube nonetheless had no intention of removing it.

...

It’s clear that the video is indeed antisemitic. In it, Mr Duke says: “The Zionists have already ethnically cleansed the Palestinians, why not do the same thing to Europeans and Americans as well? No group on earth fights harder for its interests than do the Jews. By dividing a society they can weaken it and control it.” So there’s no debate that this is Jew hate in all its traditional poison.

And I’m sure Ms Cooper is right when she says: “Most people would be appalled by that video and think it goes against all standards of public decency in this country.”

But the near universal assumption among politicians and policymakers that because the video promotes repellent views it should therefore be banned takes us into very dangerous territory. Had the video told viewers that their duty was to seek out Jews and attack them – as many posts on social media do – then clearly it should be banned. Incitement to violence is an obvious breach of any coherent set of standards.

...

In some countries, such as Germany and Austria, it is illegal to deny the Holocaust. Given their particular histories, one can understand why.

But understanding why a view might be banned is not the same as accepting it should be. Silencing the Holocaust-denier David Irving and his ilk through the law achieves nothing except a larger prison population. Silencing them through the destruction of their reputation and the exposure of their lies actually defeats them.

It was not Irving’s incarceration in an Austrian cell that destroyed his reputation. It was his lost libel action against the legitimate historian, Deborah Lipstadt.

Hér get ég tekið undir hvert einasta orð. Við eigum að berjast gegn og fordæma skoðanir sem okkur þykja miður geðslegar eða hreinlega rangar, en lausnin fellst ekki í því að banna þær. Með því, rétt eins og Pollard segir er farið inn á varasamar brautir.

 

 

 


99 ár

Í dag, 24. febrúar eru liðin 99 ár síðan Eistlendingar lýstu yfir sjálfstæði sínu. Áður hafði ekkert eistneskt ríki þekkst, þó að þjóðin og tungumálið hafi verið til staðar.

Yfirlýsing þess efnis hafði verið samin þann 21., lesin upp í Pärnu þann 23., en prentuð og lesin upp í Tallinn (stærsta borg Eistlands og síðan þá höfuðborg) þann 24.

Sá dagur er síðan þjóðhátíðardagur Eistlendinga.

En sjálfstæðið kom ekki baráttulaust. Eistlendingar þurftu bæði að berjast við Sovétið og svo einnig þýskar herdeildir (landeswehr) sem urðu eftir í landinu eftir uppgjöf Þýskalands.

En hið nýstofnaða ríki naut stuðnings. Mesti réði líklega stuðningur Breta, en sjálfboðaliðar frá Finnlandi og stuðningur frá hvítliðum og Lettlandi skipti einnig máli.

En friðarsamningur var undirritaður við Sovétríkin árið 1920.  Þá féllu löndin frá öllum landakröfum á hendur hvort öðru.

Nokkuð sem Sovétríkin áttu alla tíð erfitt með að standa við. 16. júni 1940 settu Sovétríkin svo Eistlandi úrslitakosti, og í kjölfarið komu sér upp herstöðvum í landinu.  Það tók svo ekki nema nokkra mánuði áður en Eistland (og Eystrasaltslöndin öll) var innlimað í Sovétríkin.

Þannig var Eistland hernumið af Sovétríkjunum þangað til í ágúst 1991 (ef frá eru talin þau ár sem landið var hernumið af Þjóðverjum í seinni heimstyrjöldinni).

Og leið landsins sem lýsti yfir fullveldi sínu snemma árs 1918 og Íslendinga sem öðluðust fullveldi sitt 1. desember sama ár, lá aftur saman í ágúst 1991, þegar Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna endurheimt Eistlendinga á sjálfstæði sínu.

Til fróðleiks má geta þess að 1. desember er oft minnst í Eistlandi, en þó með neikvæðum formerkjum, því þann dag 1924, reyndu eistneskir kommúnistar með stuðningi Sovétríkjanna valdarán í Eistlandi, sem mistókst.

 

 

 

 


Falskar fréttir eiga sér langa sögu

Falskar fréttir eiga sér líklega jafn langa sögu og fréttir, ef ekki heldur lengri.  Alla vegna hafa kvik og flökkusögur farið víða og skjóta oft upp kollinum aftur og aftur.

En falskar fréttir fá kraft sinn og styrk frá þeim fjölmiðlum sem birta þær. Því áreiðanlegri fjölmiðill, því áreiðanlegri fréttir - ekki satt?

Og af því að nafn New York Times er nefnt þarna sem fjölmiðils sem flytur falskar fréttir, þá er það ekki eins dæmi að blaðið sé sakað um slíkt, þrátt fyrir að margir telji það einn áreiðanlegast fjölmiðil veraldar.

Skemmst er að minnast hálfgerðrar afsökunar blaðsins sjálfs eftir forsetakosningarnar, sem og afsökunar "umboðsmanns lesenda" yfir þeim fréttum sem ekki birtust af Hillary Clinton.

En að New York Times hafi birt "falskar fréttir" eða þurft að biðjast afsökunar á þeim á sér býsna langa sögu.

Eitthvert frægasta dæmi um "falskar fréttir" sem birtar hafa verið er einmitt af síðum New York Times og það sem meira er, fréttamaðurinn sem þær skrifaði hafði stuttu áður hlotið Pulitzer verðlaunin.

Til að rifja þær upp þurfum við að fara aftur til fjórða áratugs síðustu aldar (sem er reyndar furðu vinsælt núna).

Þá var Walter Duranty fréttaritari blaðsins í Sovétríkjunum. Hann fullyrti að vissulega væru einhverjir þegnar þar svangir, en harðneitaði að þar ríkti hungursneyð.

Hann gekk það langt að fullyrða að allar fréttir um hungursneyð væru ýkjur eða illkvittinn áróður.

New York Times birti einnig fullyrðingar Duranty´s um að fréttir sem hefðu breskir blaðamenn hefðu skrifað um hungursneyðina í Ukraínu væru falskar og hluti á áróðursstríði Bretlands gegn Sovétríkjunum.  Deildi hann harkalega á hina bresku blaðamenn sem dreifu falsi.

En Duranty var ófeiminn við að lofa Stalín og Sovétríkin og eins og áður sagði fékk hann Pulitzer verðlaunin fyrir greinarflokk þaðan.

Þó varasamt sé að fullyrða um slíkt, vilja margir meina að greinarflokkur Duranty´s og fullyrðingar hans um ástandið í Sovétríkjunum hefi gert Franklin D. Roosevelt, pólítískt kleyft að viðurkenna Sovétríkin, sem hann gerði á sínu fyrsta ári í embætti forseta, 1933.

Það var síðan ekki fyrr en eftir valdatöku Gorbachevs sem fyrir alvöru var farið að huga að hversu alvarlegar rangfærslur Duranty hafði sett fram.

Þegar samtök Kanadabúa af Ukraínskum uppruna höfu svo herferð árið 2003 til að svipta Duranty Pulitzer verðlaunum, lét New York Times óháðan aðila loks rannsaka "fréttamennskuna".

2003 birti New York Times svo langa afsökunarbeiðni vegna falskra og hálf falskra frétta skrifaðar af Jayson Blair sem birst höfðu í blaðinu.

Þetta eru bara tvö dæmi sem ég datt um af tilviljun.

Sjálfsagt má finna fjöldan allan til viðbótar.

Falskar fréttir eru ekki nýtt fyrirbrigði og munu seint hverfa.

En sjálfsagt er það til bóta að þær komist meira í umræðuna og við lærum að lesa fréttir með gagnrýnu hugarfari og halda okkur ekki við eina eða tvær fréttaveitur.


mbl.is Falskar fréttir fara á flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningarit íslenskra hermanna

Ég var að þvælast um netið og rakst á þessa ágætu grein á Vísi. Þar er fjallað um hermenn frá Íslandi, eða af íslenskum ættum sem börðust með herjum Bandaríkjanna og Kanada í fyrri heimstyrjöld.

Þá rifjaðist upp fyrir mér bók sem ég fann á netinu fyrir all löngu og heitir Minningarit íslenskra hermanna 1914 - 1918 og var gefið út í Kanada, stuttu eftir heimstyrjöldina fyrri.

Í bókinni er stutt æviágrip í það minnsta flestra þeirra sem tóku þátt í hildarleiknum og voru Íslendingar eða af íslenskum ættum.

Mynd er af flestum þeirra og einnig eru í bókinni ritgerðir um sögu stríðsins og þátttöku Kanada.  Öll bókin er á íslensku.

Það er fróðlegt að fletta bókinni og ég yrði ekki hiss þó að margir Íslendingar finndu þar jafnvel ættingja, rétt eins og ég gerði.

En bókin hefur veri skönnuð inn og er aðgengileg öllum á netinu endurgjaldslaust.

 

 

 


Frelsi eða dauði breyttist í dauða frelsisins

Bylting Fidels Castro og félaga á Kúbu var undir slagorðinu "Frelsi eða dauði". En eitt það fyrsta sem dó eftir að Castro tók við völdum var frelsið.

Þannig lýsti einn af fyrrum félögum Castros þróun byltingarinnar á Kúbu.

Í upphafi var enda ætlunin að halda frjálsar kosningar, en bylting Castros, rétt eins og margar aðrar byltingar, þurfti að éta börnin sín til að halda sér gangandi.

Fangelsanir, kúganir, ofríki og fátækt varð hlutskipti þegnanna.

Hvað best hafa þeir það sem eru seldir í vinnu hjá erlendum stórfyrirtækjum, þó þeir fái í eigin hendur aðeins brotabrot af þeim launum sem fyrirtækin greiða.

En fæstir eru alslæmir. Menntun og heilsugæsla voru á meðal helstu baráttumála byltingarinnar, og þó að menntunin hafi að hluta til snúist um innrætingu og heilsugæslan hafi á síðari árum mátt sín lítils vegna skorts á nauðsynlegum lyfjum og tækjum, þá voru það vissulega framfarir.

En án utanaðkomandi stuðnings gat byltingin ekki gengið áfram, ekki á Kúbu, hvað þá að Kúbumenn gætu tekið að sér að vera "verktakar byltingarinnar" í fjarlægum löndum.

Þeim fer óðum fækkandi "sæluríkjum sósíalismans", ríki eins og Kúba og Venuzuela eru í raun á heljarþröm.

Íslendingar þekkja í samtímanum Kúbu líklega helst út frá notkun landsins í hræðsluáróðri.

Það er svo ef til vill tímanna tákn, að margir af þeim sem töldu það versta sem gæti komið fyrir ríki þriðja heimsins væri að vera í viðskiptum við Vesturlönd, sem mergsygu þau og arðrændu.

Nú jafnvel kenna sumir hinna sömu viðskiptabanni Bandaríkjanna um vesöldina á Kúbu.


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikararnir og hin "óspjölluðu".

Það hefur alltaf verið athyglisvert að fylgjast með umræðum á "vinstri vængnum" þegar kemur að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Þar snýst umræðan fyrst og fremst um "svikarana".

Þannig hefur það alltaf verið.

Alþýðuflokkurinn hefur oft þurft að bera þennan stimpil, Framsókn ekki síður, þó að hann hafi reyndar skilgreint sig sem miðjuflokk, þá hefur hann í gegnum tíðina verið frekar vinstrisækinn.

Og svikari, sem hefur ekki skirrst við að snúa baki við "sögulegum tækifærum".

Og svo sveik Samfylkingin, og þaðan má rekja allar hennar raunir, eða svo má skilja á mörgum af hennar trúu félögum.

Það eru bara Alþýðubandalagið/Vinstri græn sem hafa aldrei svikið (nema ef við kjósum að taka ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen með (en það er í sjálfu sér fyrirgefanlegt, enda Thoroddsen ættin eins og rauður þráður í gegnum hreyfingu íslenskra sósíalista og svo klauf þessi ríkisstjórnarmyndun Sjálfstæðisflokkinn), að öðru leyti hefur getur "villta vinstrið" talist "óspjallað" hvað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn varðar.

En vissulega er stjórnmálastarf þess eðlis að stundum þarf að gefa eftir, og þvi hafa Vinstri græn vissulega kynnst.

Þannig hafa þau þurft að sætta sig við ýmsar málamiðlanir, þó þau hafi vissulega aldrei kvikað frá grunngildunum.

Þannig var það ekki svo erfitt að sætta sig við að skuldir einkafyrirtækja væru flutt yfir á almenning með samningum við Breta og Hollendinga.

Það flaut enda með því að Vinstri græn féllust á það að Ísland yrði aðlagað að Evrópusambandinu, þótt að þau væru vissulega algerlega andsnúin aðild að því sama bandalagi.

Og samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eitthvað sem Vinstri græn voru vissulega á móti (svona í stjórnarandstöðu) en "kapítitalistarnir" þar eru nú ekki svo slæmir, og þegar þeir klappa manni á bakið og segja að þeir myndu óska þess að hafa svona góða drengi að störfum í Grikklandi, þá er ekki eins og að hægt sé að segja nei við alþjóðlegu lofi.

Og þó að Vinstri græn hafi alltaf verið andsnúin aðild Íslands að NATO, er ekki eins og það eitt sé rík ástæða til þess að setja einhverjar hindranir í vegi bandalagsins í því að varpa sprengjum á Lýbíu.  Vissulega þarf alltaf að gefa eitthvað eftir fyrir pólítískt samstarf, en það eru vissulega málefnin sem gilda.

Bæði félagsmenn og kjósendur Vinstri grænna geta altént alltaf leitað huggunar í því að það er ekki eins og að flokkurinn sé reiðubúinn að ræða neitt við Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki frekar en hann var reiðubúinn til þess að veita olíuleitarleyfi á "Drekasvæðinu".

Því pólítík snýst um málefni og "prinsipp".

Og hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn eru Vinstri græn algerlega "óspjölluð". 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eiga Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn sameiginlegt?

Gamall kunningi minn spurði mig þessarar spurningar yfir netið:   Hvað eiga Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn sameiginlegt?

Þó að sjálfsagt megi finna ýmislegt fannst mér þó það ekki liggja í augum uppi. Eftir að ég viðurkenndi að hafa ekki svarið kom það um hæl.  Þeir hafa báðir haft 6 formenn á þessari öld.

 

 

 


Flokkakerfið, hægri og vinstri

Eins og eðlilegt má teljast er mikið rætt, spáð og spegúlerað bæði fyrir og eftir kosningar. Alls kyns spámenn, sérfræðingar og fræðimenn spá í spilin, rifja upp söguna og reyna að rýna í framtíðina.

Það er alltaf eitt og annað sem mér finnst orka tvímælis í umfjöllun fjölmiðla.

Sem dæmi um það er þegar talað er eins og Samfylkingin sé aðeins arftaki Alþýðuflokksins (sem er víst að nafninu til ennþá). Sannleikurinn er að Samfylkingin er samsteypa og áframhald fjögurra flokka.

Það er: Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Þjóðvaka, og Kvennalista.  Auðvitað má segja að Þjóðvaki hafi verið klofningur úr Alþýðuflokki, en það er þó viss einföldun, rétt eins og með flesta "klofninga".

En Samfylkingin tók við kefli frá öllum þessum flokkum, og tók yfir skuldir þeirra og eignir. Þannig eru sjóðir Alþýðubandalagsins (sem þeir erfðu frá gömlu sósíalista/kommúnistaflokkunum) í vörslu Samfylkingarinar, en ekki Vinstri grænna (í það minnsta ef ég hef skilið rétt).

Og fjölmargir félagar og frammámenn úr Alþýðubandalagi, Þjóðvaka (sem höfðu ekki allir komið úr Alþýðuflokknum) og Kvennalista gengu í Samfylkinguna.

Ég held að þegar saga Samfylkingar séu skoðuð, sérstaklega hin síðari ár, sé niðurstaðan að forystufólk flokksins hafi jafnvel frekar átt sinn pólíska "uppruna" í Alþýðubandalaginu en Alþýðuflokknum.

Mér þykir stórundarlegt hve margir fræðimenn kjósa svo gjarnan að líta fram hjá þessu.

Reyndar má auðveldlega halda því fram upprunalega séð, að Vinstri græn séu klofningur úr Alþýðubandalagi eða Samfylkingu. Svona eftir við hvaða tímapunkt er miðað.

Það er auðvitað langt frá lagi að Vinstri græn hafi fengið í "heimanmund" allt fylgi Alþýðubandalagsins.

Einnig kemur mér það spánskt fyrir sjónir að heyra æ oftar talað um Framsóknarflokkinn sem hægriflokk.  Vissulega eru hægri og vinstri óskýr hugtök, og jafnframt má segja að í Framsóknarflokknum finnist fleira en ein "vistarvera", ef svo má að orði komast.

En í mínum huga hefur Framsóknarflokkurinn verið vinstrisækinn miðjuflokkur.  Raunar oft nær því að teljast vinstriflokkur en miðju.

Vissulega hefur flokkurinn gjarna átt í samarfi við Sjálfstæðisflokkinn allar götur síðan 1995. Síðan þá hefur flokkurinn ekki átt ríkisstjórnarsamstarf við aðra flokka, og verið með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn ríflega 15 ár af þessum 21.

En það gerir Framsóknarflokkinn ekki að hægriflokki. Þó að flokkurinn hafi talið Sjálfstæðisflokkinn betri samstarfskost en vinstriflokkana, færir það flokkinn ekki yfir ásinn frá vinstri til hægri.

Ekki má til dæmis gleyma því að Framsóknarflokkurinn starfaði í R-listanum frá upphafi til enda.  Hann ennfremur veitti minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hluleysi sitt 2009, en líklega má segja að það "samstarf" hafi ekki verið gott og margir Framsóknarmenn ósáttir við það viðmót sem þeir fengu.

Mér þykir því skrýtið þegar svo algengt er að tala nú um "hægriblokk" (DB) og "vinstri blokk" (VASP) með Viðreisn sem flokkinn á "miðjunni".

Persónulega finnst mér að ekki rétt.

Em ef til vill er ekki síst að leita skýringa á þessum "skringilegheitum" í þeirri staðreynd að af þeim stjórnmálafræðingum sem fjölmiðlum þykir hvað oftast henta að leita til, er óeðlilega hátt hlutfall af fyrrverandi varaþingmönnum Samfylkingar og einnig stuðningsmönnum Evrópusambandsins.

Það tvennt skekkir líklega all verulega þá mynd sem haldið er að almenningi í fjölmiðlum.

Svo er það spurningin hvað er vinstri, hvað er hægri og hvað er miðja í íslenskum stjórnmálum?

Það má halda því fram að miðjan sé síkvik, færist til og sé erfitt að henda reiður á. Einnig skiptir sjónarhorn þess sem talar (eins og mín) líklega einnig einhverju máli.

En það er vert að hafa í huga að þó að einhver flokkur sé til hægri við einhvern annan flokk, gerir það hann ekki að hægri og flokki, nú eða öfugt.

Hin klassíska íslenska skilgreining frá vinstri til hægri, væri Alþýðubandalag/Vinstri græn (ásamt forverum alþýðuubandalagsins), Alþýðuflokkur/Samfylking, Framsóknarflokkur, og loks Sjálfstæðisflokkur.  Framsóknarflokkur var talinn miðjuflokkur, A-flokkarnir (VG og S) voru taldir vinstri flokkar Sjálfstæðisflokkurinn hægri flokkur.

Þetta var þó vissulega einföldun, enda í flestum flokkum hinir ýmsu "armar" sem sköruðust svo að mörkin á milli flokka voru ákaflega óljós.

Það var enda ekki út af engu sem hugtök eins og "framsóknarkommar" urðu til, en það vísaði bæði til hluta Framsóknarflokks og hluta Alþýðubandalags/Vinstri grænna.

Sjálfstæðisflokkurinn átti einnig sinn "framsóknararm" eins og það var stundum kallað, en ef til vill má segja að stærstur hluti flokksins hafi verið og sé "kristilegir íhaldsmenn".  Frjálshyggjuarmur varð nokkur áberandi (þó að deila megi um hvað stór hluti flokksins hann hafi verið) á 9. áratug síðustu aldar og enn eimir eitthvað eftir af honum

Alþýðuflokkurinn skiptist í vinstri og hægri krata, og svo mátti einnig finna afbrigði sem margir kusu að kalla "steinsteypukrata" (ef til vill má segja að sá síðasti af þeim hafi horfið nú, alla vegna úr framlínunni, með Kristjáni Möller).

Kratarnir sköruðust þannig bæði við Alþýðubandalag/Vinstri græn og svo aftur Sjálfstæðisflokk og mátti jafnvel á stundum segja að þeir sóttu að honum frá hægri.

"Bjúrókrata" mátti svo að sjálfsögðu finna í öllum flokkum.

En hvernig horfir þetta í dag?

Lengst til vinstri eru Vinstri græn (nema auðvitað að við hlustum á Alþýðufylkinguna, þá eru þau líklega auðavaldsflokkur og stéttarsvikarar), síðan kemur Samfylkingin (hún færði sig því sem næst alfarið af miðjunni eftir 2009), síðan Píratar (þeir byrjuðu sem býsna blandaður flokkur, en og það horfði við mér, tók vinstri hlutinn því sem næst algerlega yfir all löngu fyrir þessar kosningar, þegar valdabaráttan jókst í réttu hlutfalli við gengið í skoðanakönnunum).

Þá kemur Framsóknarflokkurinn og á eftir þeim Björt framtíð, og nota bene, við erum enn á vinstri vængnum.

Loks koma svo Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn og mál líklega deila um hvor er meira eða minna til hægri, það færi líklega mest eftir hvaða vigt væri sett á hina mismunandi málaflokka.

Frá mínum bæjardyrum séð erum við rétt farin að snerta hægrikantinn.

En svo getum við líka hreinlega leitað að "íslensku miðjunni" og þá finnum við að hún liggur einhverstaðar á bilinu Píratar/Framsóknarflokkur/Björt framtíð.

Að sjálfsögðu er um all mikla einföldun að ræða, það er erfitt að meta hluti eins og stjórnlyndi (sem finna má í öllum flokkum), frjálslyndi (sem er sömuleiðis að finna í öllum flokkum), alþjóðahyggju (sem sumir halda að þýði að vilja ganga í "Sambandið", en aðrir skilgreina á allt annan hátt), og svo má lengi áfram telja.

Eitt af vandamálunum við nútíma stjórnmálaumræðu, er að hugtök eru á reiki, og það er ekki óalgengt að margir aðilar noti sömu slagorðin, frasana og hugtökin, en séu í raun að tala um ólíka hluti.

Og ef til dæmis eitthvert hugtak er óumdeilt, eða því sem næst, er algengt að reynt sé að toga það yfir eins margt og mögulegt og jafnvel ómögulegt er.

P.S. Bara til að frýja mig frá augljósum "yfirhellingum" argra og "pólítískt réttsýnna" einstakling, er rétt að taka fram að pistilinn byggir ekki á neinum vísindalegum eða félagslegum rannsóknum, heldur eingöngu minni og tilfinningu höfundar.

 

 


mbl.is Kosningaþátttaka aldrei minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um tap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins

Enn á ný er byrjað að tönglast á þeirri mýtu að flokkar tapi á því að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Yfirleitt eru þó engin rök færð fyrir þeiri skoðun. Ég skoðaði þetta og bloggaði árið 2007. Hér að neðan má finna þá færslu:

Mýtan um fylgistapið

Hún hefur lengi og víða heyrst sú mýta að flokkar tapi á því að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Þetta hefur verið fært upp á Alþýðuflokkinn sáluga og einnig Framsóknarflokk.

En ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur 1.7% en Alþýðuflokkur tapaði 1%.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% en Alþýðuflokkur vann á, 1.5%.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2%. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2%.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5%.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5%, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4%, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% en Sjálfstæðisflokkur tapar 10%.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6%, en Framsóknarflokkur vinnur á 8%.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3%, en Framsóknarflokkur tapar 5.9%.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5%, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1%.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4%.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3%.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% af fylgi sínu. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst það ríkisstjórnarsamstarf sem enn er við lýði.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6%.  Hvor flokkurinn er að tapa meira?

Síðan þá hefur leið Framsóknarflokks legið stöðugt niður á við, það er að segja í skoðanakönnunum og ekki er ólíklegt að það verði hlutskipti hans í kosningunum í vor.  En ég held að skýringanna fyrir því gengi sé að leita í öðrum hlutum heldur en samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.  Líklegra er að finna orsakirnar hjá flokknum sjálfum og svo þeim breytingum sem hafa verið að gerast á Íslandi, sérstaklega í búsetumálum.

En ef rennt er yfir þessa samantekt, get ég ekki fundið nokkur rök fyrir þeim fullyrðingum sem heyra má síknt og heilagt, jafnvel á virðulegum fréttastofum að þeir flokkar sem séu í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn tapi á því fylgi umfram samstarfsflokkinn.

 

Já, þetta var skrifað snemma árs 2007.

Og Framsóknarflokkurinn tapaði í kosningum árið 2007. Ef ég man rétt tapaði Framsókn í kringum 6% stigum og Sjálfstæðisflokkurinn vann á í kringum 3.  En þá, eins og nú, hafði Framsóknarflokkurinn átt í löngu basli og formannsskiptum sem ekki gengu eða virkuðu vel.

Þá tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  Ekki er hægt að segja Samfylkingin hafi riðið lakari hesti en Sjálfstæðisflokkurinn frá þeirri ríkisstjórn í kosningunum 2009.

Og nú er árið 2016, og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa verið í ríkistjórn í tæplega þrjú og hálft ár.  Og já, Framsóknarflokkur tapar fylgi, reyndar eftir mjög eftirminnilegan sigur í kosningunum á undan.

En ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það tap skrifast ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband