Færsluflokkur: Íþróttir

Obrigado Michael

Það var gaman að horfa á Brazilíska kappaksturinn í dag. Það var eins og svo oft áður fyrst og fremst Michael Schumacher sem sá okkur fyrir skemmtuninni.  Hann ók snilldarlega, sýndi og sannaði að það er engin tilviljun að hann er 7faldur heimsmeistari og árangursríkasti ökumaður í Formúlunni fyrr og síðar. 

En heppnin var ekki með honum í dag, frekar en í Japanska kappakstrinum.  Eftir að hafa unnið sig upp í 5ta sætið úr því 10unda, sprakk hjá honum dekk þannig að hann varð að breyta áætlun sinni.

Eftir það var engin spurning.  "Tígulgosarnir" gátu ekið rólega og voru nokk öruggir með báða titlana, sem og varð raunin.

Ljósi punkturinn til viðbótar við frábæran akstur "Skósmiðsins" var góður sigur Massa, sem átti eftirminnilegan sigur á heimavelli.  Það verður fróðlegt að fylgjast með Massa á næsta ári og hvernig hann stendur sig gagnvart Raikkonen. 

En auðvitað óska ég Reunault aðdáendum til hamingju með titlana, þeir eru vel að þeim komnir og höfðu öruggasta bílinn þetta tímabil, það er það sem landar titlum.

En kappaksturinn í gær markaði tímamót, Schumacher hættir, Michelin þreytti sína síðustu formúlu, í það minnsta um nokkurn tíma, sömuleiðis Cosworth.

En auðvitað verður tímabilsins fyrst og fremst minnst fyrir tvennt, Alonso sigraði annað árið í röð og Schumacher dró sig í hlé.

En Formúlan heldur áfram, það verða vissulega kaflaskipti þegar ökumaður af kalíberi Schumachers hættir, en það koma alltaf menn í manna stað, Massa sýndi það um helgina. 

En ég er þakklátur fyrir þá skemmtun sem Schumacher hefur veitt, þau 12 ár sem ég hef fylgst með Formúlunni.


mbl.is Alonso heimsmeistari ökuþóra og Renault vann einnig titil bílsmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

O que Está

Það er ekki allt í standi í Ferrari bílskúrnum þessa dagana.  Aðra keppnina í röð er eitthvað að í bíl "Skósmiðsins".  Á Suzuka kostaði það hann sigurinn og líklega sjálfan heimsmeistaratitilinn, persónulega hef ég enga trú á því að Alonso glopri titlinum úr höndum sér.

Nú á Interlagos þarf hann að hefja keppnina í 10 sæti, gerir honum erfitt fyrir að sigra og enda ferillinn með stæl.  Það þarf augljóslega að taka til höndunum í þessari deild, eftir langa sögu áreiðanleika, virðist nú allt á niðurleið.  Það er engu líkara en seinheppni Raikkonen hafi komið til liðsins á undan honum.

En Massa sýndi góða takta, tók pólinn á heimavelli og hélt uppi heiðri Ferrari.  Raikkonen náði öðru sætinu, Trulli kom nokkuð á óvart og náði því 3. og svo er "Tígulgosinn" í því fjórða.  Ég hef enga trú á öðru en að Alonso aki varlega, honum nægir 1. stig.  En vissulega gæti hann lent í óhappi, en það verður að teljast ólíklegt.  En svo ólíklega vildi til að einhver myndi lenda í því að keyra hann út úr brautinni, eða lenda í samstuði við hann, væri þeim hinum sama líklega hollast að elta Schumacher uppi og gera slíkt hið sama, ella yrði allt vitlaust.  En það verður gaman að fylgjast með hvort að aðrir ökumenn verði aðgangsharðir við Alonso, vitandi að hann getur ekki tekið mikla áhættu?

En hvernig sem allt fer á morgun fær Michael Schumacher bikar.  Honum verður afhentur bikar, nokkurs konar "Lifetime Achievement" bikar fyrir frábæran árangur sinn í Formúlunni.  Það verður Pele sem afhendir hann og er sagt að þar afhendi heimsins mesti fótboltamaður mesta ökumanninum bikar.


mbl.is Massa á ráspól, bílbilun aftraði Schumacher sem leggur tíundi af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Titrandi "Tígulgosi"

Það er ekki laust við að ég fái á tilfinninguna að taugarnar séu ekki upp á hið besta hjá Alonso þessa dagana.  Ef til vill er ekki við öðru að búast, "poor old Schumacher" "flengdi" hann, Fisichella og allt Renault liðið í Shanghai um síðustu helgi.

Ég verð þó að viðurkenna að það kemur mér verulega á óvart að sjá hann væla svona, gagnrýna liðið, taka liðsfélaga sinn sérstaklega út og halda því fram að Renault hafi ekki áhuga á því að hann verði heimsmeistari.  Þvílík firra.

Vissulega hefðu þeir ábyggilega kosið að halda honum, en auðvitað vilja þeir að sá sem ekur á Renault verði heimsmeistari.  Það er þeim ábyggilega mun sárara að sjá titilinn fara til Schumacher og Ferrari, heldur en að Alonso taki númer "1" með sér yfir til MacLaren.

Hér má sjá útskrift á blaðamannafundi á Suzuka á fimmtudag, takið sérstaklega eftir því að Jenson Button reynir að koma Alonso til hjálpar þegar blaðamennirnir sækja á hann. Hér eru frekari fregnir af Alonso af F1.com og hér og hér eru fréttir ruv.is af ágreininingi "Tígulgosanna".

Það stefnir allt í hörkuspennandi keppni á Suzuka brautinni, en vissulega eru sigurlíkur "Skósmiðsins" meiri, þegar "Tígulgosarnir" eru að rífast sín á milli og Alonso virðist vera að slæmur og taugum, og vilja kenna öllum öðrum um ósigur sinn.

En það rigndi í á fimmtudag á Suzuka, það rigndi í dag, föstudag, þó kom sól seinnipartin og liðin náuðu að fara nokkra hringi á "þurrdekkjum", spáð rigningu fyrrpart laugardags, líklega styttir þó upp fyrir tímatökurnar og spáð er sól og heiðskýru veðri fyrir keppnina á sunnudag.

Ökumenn hafa því ekki haft mikinn tíma til að stilla upp bílunum ef tímatakan verður þurr, það gæti haft einhver áhrif, en við ættum að sjá Ferrari og Renault í framlínunni, spái að Raikkonen verði þar einnig, McLaren þyrstir í fyrsta sigur tímabilsins.


mbl.is Alonso leið sem yfirgefnum manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína - Ferrari rautt

Kínverski kappaksturinn var frábær skemmtun.  Drama, útafakstur, framúrakstur og bilanir og síðast en ekki síst frábær akstur "Skósmiðsins" til sigurs.  "Poor old Schumacher" eins og "Tígulgosarnir" kölluðu hann í gær sýndi að það er ekki aldurinn sem skiptir máli og hann er ekki að hætta vegna þess að hann sé ekki samkeppnishæfur.  Hann fór fram úr bæði Alonso og Fisichella með frábærum hætti.

Frábær akstur og hárréttar ákvarðanir skópu þennan óvænta sigur Schumacher og Ferrari. Mistök Renault lögðu reyndar líka í púkkið. Nú skipar Schumacher fyrsta sætið í keppni ökuþóra (einum fleiri sigur fram yfir Alonso) í fyrsta sinn á keppnistímabilinu, stal sigrinum frá Renault og tók afgerandi forystu í "sálfræðikapphlaupinu", það sást best á stemningunni á verðlaunapallinum. 

Alonso og Reunault liðið gat ekki einu sinni komið kampavínsflöskunni skammlaust niður af pallinum, heldur braut hana.  Þeim tókst þó að láta liðskipanirnar líta eðlilega út, þannig að það ætti ekki að hafa nein eftirköst.

Slæmu fregnirnir voru slæmt gengi Massa, þannig að Renault náði 1. stigs forystu í keppni bílsmiða.  En eftir þennan kappakstur tel ég þó yfirgnæfandi líkur á því að Ferrari taki báða titlana, en það verður ekki ljóst fyrr en í síðast kappakstrinum, í Brasilíu.

Kimi "seinheppni" Raikkonen, datt fyrstur út, það virðist eitthvað ekki vera í lagi hjá þeim dreng, dettur mun oftar úr keppni en eðlilegt getur talist. Honda átti góðan dag og Toyota að sama skapi afleitan.  Toyota er sönnun þess að það er ekki nóg að eyða peningum til að ná árangri.

Svo verður fróðlegt að sjá hvaða niðurstaða kemur úr árekstrinum sem varð á síðasta hring.

En nú er bara vika í Suzuka, ég er þegar farinn að hlakka til. 


mbl.is Schumacher jafn Alonso að stigum í keppni ökuþóra með sigri í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaut tímataka

Ég var hálf þreyttur og syfjaður þegar ég horfði á tímatökurnar um miðja síðustu nótt.  Úrslitin í þeim gerðu heldur ekki mikið til að hressa mig við.

Ferrari átti einfaldlega ekki séns í nótt.  Hvað mikið það er vegna dekkjanna er erfitt að segja nákvæmlega en þó er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að fyrir utan og Schumacher og Massa eru allir þeir sem aka á Michelin á undan Bridgestoneökumönnum.

"Der Reinmeister" átti einfaldlega ekki möguleika.  Það verður því ekki að búast við miklum árangri hjá þeim Ferrariökumönnum, sérstaklega ekki ef að rignir, í nótt.  En ég get samt ekki annað en vonað að þeir aki af hörku og geri tapið eins lítið og mögulegt er.  Það má eitthvað mikið ganga á ef "Tígulgosarnir" taka ekki afgerandi forystu í keppni bílsmiða og Alonso auki forystu sína drjúgt.

Venjulega hafa aðdáendur "Skósmiðsins" ekki óttast rigningu, en það þurfum við þó að gera núna. 

Ef að þurt verður þá gæti annað orðið upp á teningnum, en ég bíð spenntur eftir keppninni.


mbl.is Alonso á ráspól í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

I regni del re a Monza - La conclusione di un'era

Monzakappaksturinn var ágætlega líflegur, en verður þó líklega ekki minnst fyrir aksturinn í framtíðinni.  Yfirlýsing Schumacher um að hann dragi sig í hlé að tímabilinu loknu mun yfirskyggja allt annað. 

Það er auðvitað aldrei svo að keppnisgreinar standi og falli með einum einstakling, en í langan tíma hefur Schumacher verið "viðmiðið", maðurinn sem menn keppa til að sigra.  Það verður því vissulega nokkuð skarð fyrir skildi þegar hann hættir, en ég er þess fullviss að þar verða menn til að "hlaupa í skarðið".

Raikkonen tekur við hjá Ferrari, og verður það vonandi "breikið" sem hann þarfnast, hann er góður ökumaður, en hefur verið með eindæmum seinheppinn, eins og ég hef áður skrifað vonast ég til að hann skilji þá seinheppni eftir í bílskúrnum hjá McLaren og sýni virkilega hvað í honum býr.

Nú eru stigakeppnirnar opnar upp á gátt, Ferrari hefur tekið forystuna í keppni bílsmiða og "Skósmiðurinn" er aðeins tveimur stigum á eftir "Tígulgosanum" í keppni ökumanna.  Það er því ljóst að keppnirnar þrjár sem eftir eru verða spennandi.  Alonso átti reyndar góðan dag, framan af í dag, en endaði svo með sprungna vél og engin stig.  Það er erfitt að tjá sig um þá refsingu sem hann hlaut, þegar hann var færður aftur um 5 stöður á ráslínu, persónulega gat ég ekki séð að hann hafi átt það skilið, en vissulega hafa dómarnir aðgang að viðameiri gögnum heldur en ég.  Hins vegar finnst mér svo ökumenn fá að "skauta" nokkuð frjálsleg í gegnum sumar beygjurnar t.d. Alonso í dag, og því sýna dómarnir nokkuð mísvísandi hörku í mismunandi tilvikum.

Það er ekki hægt annað en að minnast á frábæra frammistöðu Kubica i dag, að enda á palli í sínum 3ja kappakstri er ekkert minna en stórkostlegur árangur, og var ekki neinu öðru að þakka en stórgóðum akstri.  Það er ljóst að þar er framtíðar ökumaður á fullri ferð.

Þá er það bara Kína, Japan og Brasilía, og vonandi sjáum við "Skósmiðinn" hampa titlinum í vertíðarlok, það er viðeigandi endir á glæsilegum ferli hans.

P.S. Bæti því við hér að ég var að hlusta á stutt viðtal við Alonso, hann virtist vera dálítið úr jafnvægi, þó að hann reyndi að bera sig vel.  Það er því spurning hvernig sálfræðistríðið verður.  Hann taldi Renault standa betur að vígi fyrir Kína og Japan, en Ferrari hefði forskot í Brasilíu, við fylgjumst með hvað gerist.


mbl.is Schumacher vinnur í Monza og styrkir stöðu sína vegna brottfalls Alonso
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raikkonen forte a Monza, la sua nuova sede?

Tímatökurnar í morgun voru ágæt skemmtun.  Auðvitað hefði ég viljað hafa "Skósmiðinn" á pól, en annað sætið er ekkert til að nöldra lengi yfir.  Massa stóð sig líka ágætlega og getur hjálpað til að halda aftur af Alonso sem er því 5.

En eins og áður er það keppnisáætlunin sem kemur til með að ráða úrslitum, hvað eru bílarnir með mikið á tankinum og svo framvegis.  Vegna óhappsins ók Alonso færri hringi en flestir hinna ökuþóranna, þannig að það er ekki ólíklegt að hann sé með heldur meira á tankinum.  Hlutverk Massa er því mjög mikilvægt.  Svo er það líka spurningin hvernig Alonso gengur í ræsingunni, eða hvort hann yfirleitt tekur stóra áhættu þar, en fyrir hann er líklega mikilvægara að koma í mark, heldur en að fá flest möguleg stig.  Það er því margt sem spilar inn í.

Raikkonen stóð sig vel og er vel að pólnum kominn, hann ók hins vegar flesta hringi ökuþóranna ef ég tók rétt eftir og er því líklega með frekar lítið á tanknum, ég tel að það því að öllu óbreyttu að Schumacher bíði með að fara fram úr honum, þangað til hann tekur þjónustuhlé, þ.e.a.s. ef hann fer ekki fram úr honum í ræsingunni.

Það er óskandi (í það minnsta ef Raikkonen er að koma til Ferrari) að Monza marki þáttaskil hjá Raikkonen og seinheppni hans eigi ekki við lengur (eða öllu heldur að hann sýni, að hún var McLaren megin, en ekki hans). 

En nú bíð ég spenntur eftir keppninni á morgun og niðurstöðunni um ökumenn Ferrari.


mbl.is Räikkönen á ráspól í Monza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Türkçe Sevindirmek

Ég get ekki neitað því að mér fannst tyrkneski kappaksturinn frábær skemmtun, úrslitin voru ekki alveg eins og ég hefði kosið, en það vantaði ekkert upp á aksturinn.

Það var frábært að sjá Felipe Massa vinna sinn fyrsta sigur, enda þótt hann væri reyndar miklu minna í mynd en hann ætti skilið, en skiljanlega var myndavélunum beitt meira á kappakstur þeirra Schumacher og Alonso, sérstaklega í lokin.  En Massa var vel að sigrinum kominn og keyrði fantavel og án sjáanlegra mistaka.

Alonso var heppinn, náði 2. sætinu, en þannig er það oft með meistara, þeim fylgir einhver óútskýrð heppni.  Ef öryggisbíllinn hefði ekki komið út, er mjög líklegt að Ferrari hefði unnið 1 - 2 og Massa hefði hleypt "Skósmiðnum" fram úr, þannig er það.  En það þýðir ekkert að sýta þetta, öryggisbíllinn kemur út eftir ákveðnum reglum, stundum tapa ökumenn stunda græða þeir á því. 
Það verður heldur ekki af "tígulgosanum" tekið að hann varðist vel, keyrði skemmtilega undir lokin þegar Schumacher sótti sem harðast að honum. 

Það réði ekki síður úrslitum að Schumacher missti bílinn út af á mjög mikilvægu augnabliki, ef það hefði ekki komið til, hefði hann nær örugglega náð að fara fram úr Alonso í seinna þjónustuhléinu.  Þessi keppni var því númer 2 í röðinni yfir "keppnir glataðra tækifæra" fyrir Schumacher.

Mistök hans í tímatökunum og svo aftur í keppninni í dag, kosta hann möguleikann á að sækja á Alonso, sem í staðinn eykur forskot sitt um 2. stig.  Jákvæði punkturinn er að nú munar aðeins 2. stigum á Ferrari og Renault í keppni bílsmiða.

En ennþá er keppnin galopin, nú eru 4. keppnir eftir, en Schumacher verður að gera betur en um þessa helgi, ef hann á að hampa titlinum.

Að lokum sendi ég mínar samúðarkveðjur til aðdáenda Kimi "seinheppna" Raikkonen.  Það er með eindæmum hvað óheppnin eltir hann.  Mér lýst ekki nema mátulega á að fá hann yfir til Ferrari eins og oft er talað um, þessi óheppni er ekki einleikin.

En nú bíð ég bara eftir Monza eftir 2 vikur, þá er krafan Schumacher 1 og Massa 2, og engar refjar.


mbl.is Massa vinnur jómfrúarsigur sinn í formúlu-1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræða um að felgur Ferrari séu ólöglegar.

Umræður hafa átt sér stað í dag um að felgur Ferrari bílanna séu ólöglegar.  Þær eru sagðar breyta loftflæðinu og auka kælingu bremsudiskana.  Um þetta má meðal annars lesa á vef Ruv.  Þeir sem vilja skoða þetta frekar bendi ég á F1.com .

 En það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað verður úr þessu máli, og hvort að eitthvert liðanna kemur til með að kæra þennan búnað, eða hvort FIA tekur hann til nánari skoðunar.

Það gæti ráðist á því hvort að Ferrari fer með sigur eður ei á morgun.

 

 


Felipe mükemmel içinde Türkiye

Ég vaknaði örlítið of seint í morgun og missti þar af leiðandi af fyrsta parti tímatökunnar, 7 er náttúrulega hræðilegur tími til að vakna til að horfa á sport.

En það er hér um bil þess virði, til þess að sjá Ferrari 1-2 á ráslínu fyrir morgundaginn.  Það var líka gaman að sjá Massa vinna sinn fyrsta "pól".  Hann átti þetta svo sannarlega skilið og það er þetta sem Ferrari þarf til að vinna titil bílsmiða, báða bíla á topnum og það er hjálp frá Massa sem "Skósmiðurinn" þarf til að hrifsa titilinn úr höndum "tígulgosanna".  Það sem þarf er að þessi árangur skili sér í kepnninni á morgun.

En annars verður keppnin morgun ábyggilega verulega spennandi, Ferrari á fyrstu ráslínu og Renault á annari.  Eitthvað voru þulirnir hér að tala um að Fisichella hefði verið að kvarta undan vélinni, en ég heyrði það ekki nógu vel í talstöðinni hjá þeim.  Það verður fróðlegt að sjá.  "Litli" Schumacher færist aftur um 10 sæti, þannig að Heidfeld og Button verða á 3ju línu, vonandi ná þeir að hrella Renóana aðeins.  Kimi "seinheppni" Raikkonen er svo 7undi og Kubica undirstrikar árangur sinn og getu BMW með því að vera í 8.

En nú er þetta spurningin um "taktíkina" og hvað bílarnir hafa mikið bensín á tönkunum.  Um það er erfitt að spá, en þetta verður örugglega hörku keppni á morgun.  Hvorugur þeira Schumacher eða Alonso má við neinum áföllum og það er spurning hvort að keppinautar þeirra reyni að notfæra sér það? 

En það er ljóst að þó að tímatökurnar séu ekki nema rétt svo þess virði að rífa sig upp klukkan sjö, þá verður keppnin á morgun það örugglega.


mbl.is Massa vinnur sinn fyrsta ráspól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband