Færsluflokkur: Íþróttir

Þá er það komið á hreint...

Það er auðvitað fyrir mestu að þetta sé komið á hreint.  Að vafanum sé eytt.

Það er ljóst að það er aldrei hægt að setja saman reglur sem liðin finna ekki "göt" og reyna að "smeygja" sér í þau.  Það er hins vegar áríðandi að dómar falli eins fljótt og auðið er.

Renault hafði vonast eftir því að geta notað þennan búnað í Tyrklandi, og það hafa líklega fleiri lið gert.

En ég held og vona að kappaksturinn um helgina verði góður, brautin er skemmtileg og býður upp á betri möguleika á framúrakstri en margar aðrar.  Schumacher og Alonso eru báðir kokhraustir, gefa ekkert eftir í stríðinu, en það er næsta víst að Button, Barrichello, Raikkonen og margir fleiri hugsa sér einnig gott til glóðarinnar.

Í fyrra voru það McLaren og Renault sem skinu en ég hef fulla trú á Ferrari þetta árið.


mbl.is Dómstóll FIA dæmir fjöðrunarbúnað Renaultbílanna ólöglegan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegur endir, en samt réttur og kætandi

Samkvæmt F1.com, er þetta staðfest.  Kubica er dæmdur úr leik vegna þess að bíllinn (og hann) reynast 2. kg of léttur. 

Þetta er auðvitað leiðinlegur endir á "debut" keppni Kubica, keppni sem hann stóð sig frábærlega í.  Það er samt auðvitað engin önnur leið fyrir dómara keppninar, reglurnar eru skýrar að þessu leyti.

Hinu get ég ekki neitað, að jafnvel þó að ég samhryggist Kubica (og allri pólsku þjóðinni ef út í það er farið), þá gleðst ég yfir aukastigunum sem þetta færir Ferrari ökumönnunum.

Þetta þýðir að munurinn bílsmiða keppninni minnkar í 7 stig, og Schumacher er aðeins 5 stigum á eftir Alonso í ökuþórakeppninni.  Það getur munað um það þegar upp er staðið.


mbl.is Kubica hugsanlega dæmdur úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tett töltött óra

Það er langt síðan ég man eftir formúlukeppni sem bauð upp á jafn mikinn æsing og læti og þessi keppni sem nú er nýlokið í Budapest.  Eins og stundum er sagt, "það var allt að gerast".

Kaldara en búist var við og í þokkabót rigning, Schumacher og Alonso áttu báðir frábært start, Alonso þó sýnu betra, Michelin dekkin virtust gera sig miklu betur í upphafinu og þangað til rétt eftir miðja keppni.  Button átti líka fantagóðan akstur.  Alonso notaði fyrri helmingin og var með það góða forystu að fátt virtist geta ógnað sigri hans.

Svo falla þeir einn af öðrum úr keppni, Fisichella, Raikkonen, ekki heppinn frekar en venjulega.  Svo fell Alonso úr leik og ég fór að vona að "Skósmiðurinn" sækti verulega á í titilslagnum, en svo fellur kappinn úr leik þegar 3. hringir eru eftir, eftir hetjulega baráttu við de la Rosa og Heidfeld.  Þegar hann renndi inn í bílskúrinn var lítið nema striginn eftir af dekkjunum sem hann hafði notað alla keppnina.

Mikil vonbrigði einnig með Massa sem hafnaði í 8. sæti, þannig af afraksturinn hjá Ferrari varð aðeins 1. stig.

En auðvitað er þetta stórkostlegt fyrir Button, fyrsti sigurinn og hann búinn að bíða lengi (130 keppnir), einnig mikilsverður áfangi fyrir Honda, að ná sigri og Barrichello í 4. er eitthvað sem þá hefur lengi vantað.

Pedro de la Rosa og Heidfeld kunnu líka vel við sig á pallinum og Kubica á einnig skilið gott hrós, Villeneuve hlýtur að finna hita í afturendanum.

En í heild var þessi kappakstur hin besta skemmtun, auðvitað hefði ég viljað að afraksturinn væri meiri en 1. stig, en það eru enn 5 mót eftir, allt getur gerst, en hins vegar verður það að teljast slæmt að geta ekki notað það sjaldgæfa tækifæri sem gefst þegar Alonso fellur úr leik til að sækja á.


mbl.is Button vinnur jómfrúarsigur í ótrúlegum kappakstri í Búdapest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mi van haladó -ra?

Það virðist vera svo að það megi ekki missa af nokkurri stund hvað varðar Formúluna þessa dagana.

Vaknaði örlítið seint í morgun í tímatökuna, kem inn í hana miðja eða svo, og viti menn, þulurinn byrjar að tala um að "Skósmiðurinn" sé líka búinn að fá tímavíti, allir tímar færðir aftur um 2 sec.

Ef marka má fréttir er þessi refsing engan vegin óeðlileg.  Aksturshegðan hans bauð ekki upp á annað en honum yrði refsað.  En það er verulega skrýtið að þessi reynslubolti skuli hegða sér svona.

Það er rétt eins og hann hafi viljað sýna Alonso að hann myndi vinna hann, hvernig sem allt væri, hann þyrfti ekki neina "forgjöf".  En slíkt er ábyggilega ekki raunin, enda veit Schumacher að það eru stigin sem telja, ekkert annað skiptir máli.

En kappaksturinn á morgun verður vonandi skemmtilegur, það verður tilbreyting að sjá "aðra" ökumenn í forystunni.  Raikkonen kemur sterkur inn og Massa fær tækifæri til að vinna keppni.  Barrichello hungrar einnig í sigur.  Svo verður að sjálfsögðu skemmtilegt að fylgjast með hvernig þeim "félögum" Schumacher og Alonso gengur að krafla sig upp í stigasæti.  Brautin býður ekki upp á auðvelda framúrakstra, en þetta eru jú toppökumenn.


mbl.is Räikkönen á ráspól í Búdapest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru taugarnar að bila?

Venjulega hef ég ekki gefið mikinn gaum að því sem gerist á föstudagsæfingunum, enda ökumenn og lið að prufa hitt og þetta og safna upplýsingum.

En nú ber nýrra við, Alonso virðist hafa misst stjórn á skapi sínu og fær tímavíti fyrir vikið.  Ég bíð spenntur eftir frekari upplýsingum um þetta atvik, svo og tímatökunni í fyrramálið og ekki síður keppninni á sunnudag.

Það er engu líkara en Alonso þoli ekki mótlætið, skapið sé farið að hlaupa með hann í gönur.  Líkurnur á að Ferrari og Schumacher hampi titlunum báðum, aukast með hverjum deginum.

Það leiðist mér ekki.

Sjá hér aðeins ítarlegri frásögn af þessum atburði á ruv.is

P.S. Bæti hér við smá útskýringu, frétt mbl.is, var svo stutt þegar ég las hana fyrst, en nú hefur verið bætt verulega við hana, sem er auðvitað til mikilla bóta, enda hún öll ítarlegri.


mbl.is Alonso refsað með tímavíti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endalausa, I, II og III

Verður Schumacher með að ári, hvar ekur Raikkonen, þetta er að verða eins og sagan endalausa.  Það er mikið spáð og spegulerað.

Sjálfum líst mér sem Ferrari aðdáenda ekki illa á að fá Raikkonen til liðsins.  Hann er hörkuökumaður, en hefur verið einstaklega seinheppinn.  Ef af verður verð ég að vona að hann skilji þá seinheppni eftir hjá McLaren, best auðvitað að hann skelli henni í fangið á Alonso.

Hvað Schumacher varðar fer auðvitað vel á því að hann hætti eftir að hafa unnið heimsmeistaratitilinn í haust (krosslagðir fingur).  En burtséð frá því hvort að titillinn næst, eður ei, þá er allt annað að hætta eftir gott gengi í ár, heldur en eftir hálfgert hneysutímabil í fyrra.

Annað og persónulegra sem vinnst ef að ráðningu Raikkonen verður til Ferrari, er að konan og ég förum hugsanlega að halda með sama liði, en hún hefur alltaf verið Hakkinen/Raikkonen manneskja, enda sterk tengsl á milli Finnlands og Eistlands, þau deila meira að segja þjóðsöng.

Þegar(ef) Raikkonen fer að raða inn sigrum fyrir Ferrari, kemur hún því til með að heyra eistneska þjóðsönginn reglulega.  Nema auðvitað hún fari að halda með Rosberg, svona til að móta sér sérstöðu, Keko er ennþá "þjóðhetja" hjá "úgríonum".


mbl.is Räikkönen sagður hafa samið við Ferrari til fimm ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gute Nachrichten von Hockenheim, Der Meister ist zurück

Ekki er ég sammála því að keppnin í Hockenheim hafi verið hundleiðinleg eins og upphafleg fyrirsögn þessarar fréttar hljóðaði, ja, nema ef til vill fyrir þá sem láta fátt fara meira í taugarnar á sér í Formúlunni en Ferrari og Michael Schumacher.

Það er líka skrýtin röksemdafærsla að stúkurnar hafi verið tómar vegna þess hve kappaksturinn er leiðinlegur, því varla hefur formúluaðdáendum verið það ljóst fyrirfram að svo yrði, eða hvað?

En vissulega voru yfirburðir Ferrari miklir, það var ekki nema rétt fyrst, þá með mun minna eldsneyti innanborðs sem Kimi Raikkonen gat veitt þeim virkilega keppni, og leiddi fyrstu 10 hringina.  En Kimi verður seint talinn með heppnari ökumönnum í Formúlunni, og skemmdi vandræði í fyrsta þjónustuhléinu nokkuð fyrir honum, þó að það hafi varla ráðið úrslitum hvað varðar sætaskipan í þessum kappakstri.

Barrichello og Webber áttu líka nokkuð góðan dag framan af, en vegna óhappa heltust þeir úr leik, en stigasætin hefðu nokkuð örugglega verið öðruvísi skipuð hefðu þeir náð að klára keppni.

En þó að við fengjum að sjá nokkra netta framúrakstra var ekkert "spectacular" sem við fengum að sjá í þessarri keppni, en það er því miður ekkert einsdæmi, enda hefur sætaskipan oftar en ekki breyst í þjónustuhléum upp á síðkastið.

Stóru tíðindin í þessari keppni, sérstaklega fyrir okkur Ferrari aðdáendur er sú staða sem er komin upp í báðum keppnunum, einstaklinga og liða.  Schumacher er nú aðeins 11 stigum á eftir Alonso og Ferrari aðeins 10 stigum á eftir Renault.  Því má segja að nú séu báðar kepnnirnir opnar upp á gátt.  Ungverjalandskeppnin um næstu helgi gæti hæglega skilað þeim báðum því sem næst á pari inn í fríið sem kemur þar á eftir.

Spennan í mótaröðinni er því að aukast og er það vel.  Ferrari og Bridgestone virðast hafa feykilega sterka blöndu eins og er, en Renault og Michelin þurfa að spýta í lófana, McLaren, Honda og Toyota geta líka átt eftir að hafa þó nokkur áhrif á lokaniðurstöðuna.

Ég bíð því spenntur eftir næstu helgi og keppninni í Ungverjalandi.


mbl.is Schumacher ósnertanlegur í óspennandi keppni í Hockenheim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hockenheim gibts gut

Mér fannst tímatökurnur meira spennandi en oft áður, það var eins og það lægi eitthvað óvænt í loftinu.

Kimi kom skemmtilega á óvart og náði 1. sætinu, það ætti að hafa kætt alla þá ríflega 6000 starfsmenn Mercedes sem jafnan mæta á svæðið.  "Skósmiðurinn" stóð sig vel, er í 2. sæti og Massa gaf ekkert eftir og náði því 3.

Alonso, en auðvitað er það fyrst og fremst hann og Michael sem eru að berjast eins og staðan er nú, er aðeins í 7. sæti og kom það nokkuð á óvart.  Nú fara í hönd miklar "spegúlasjónir" um hvað bensínmagnið er mikið hjá hverjum og einum, og hvernig keppnin muni fara, hvað hver tekur mörg þjónustustopp og svo framvegis.

Sjálfur tel ég að Schumacher komi til með að hafa það á heimavelli, líklega fara fram úr Raikkonen í þjónustuhléi, sem því miður virðist vera orðin vinsælasta aðferðin til framúraksturs.  Massa og Raikkonen munu berjast um annað sætið.  Alonso er svolítið erfiðara að spá um.  Hann er fantaökumaður, en gæti lent í erfiðleikum með að fara fram úr til að berjast um toppsætin, sérstaklega vegna þess að hann mun fara varlega, þar sem hann aðaltakmark er að koma í mark í stigasæti, til að minnka "tjónið" í stigakeppninni, hann má ekki við því að detta út.

Sömu sögu er að segja af Michael, hann mun ekki taka neina stór "sjensa", hann má ekki láta þetta tækifæri fram hjá sér fara með einhverjum mistökum.  Það gæti því farið svo að hann léti sér 2. sætið nægja, ef svo bæri undir, frekar en að hætta keppninni.

En það er ljóst að það verður spennandi kappakstur á morgun.


mbl.is Räikkönen á ráspól í Hockenheim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjaðrandi deiluefni

Það hefur verið nokkuð skringilegt að fylgjast með þessari deilu um fjöðrunarbúnaðinn í formúlunni.  Hann er ýmist löglegur eða ólöglegur.

Það virðist samt allt benda til þess að hann verði ekki notaður á Hochenheim um helgina.  Það gæti breytt ýmsu um úrslitin og jafnframt stöðunni í mótinu öllu.  En það er ljóst að ég ríf mig á fætur eldsnemma bæði laugardag og sunnudag, af þessu má ég ekki missa.

Set hér inn link á F1 síðuna, en þar má sjá útskýringarmynd af búnaðinum.

Meira síðar.


mbl.is Renault fjarlægir framsækna fjöðrun úr bílunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggað að Bjórá

Þá er bloggið farið að berast frá Bjórá.  Tæknimaður kom hér í gær og lagði lagnir um allt hús, boraði og hamaðist í eina 5 tíma.  Lagði nýjan streng úr staurnum og gerði allt sem ég bað um.  Lagði eina 3 nýja símatengla, færði sjónvarpstengilinn, lagði nýjan internettengil og tékkaði á því að þetta virkaði allt saman. 

Ég var frekar "impóneraður" með upphafið á þjónustunni og vona að þetta haldi áfram með þessum hætti.  Gaukaði að manninum einni "rauðri" og annari "hvítri" bara til að þakka fyrir mig.

Fínn hraði á netinu, og ekki yfir neinu að kvarta, alla vegna ekki enn.  Nú þarf ég bara að fara að kaupa mér nýja vél og þá verður allt eins og blómstrið eina í þeim efnum.

Annars er allt bærilegt af okkur að frétta, stór hluti af dótinu er þó enn í kössum, en það lagast vonandi á næstu dögum.  Búinn að setja upp hillur og skrúfa þær við vegginn, þannig að engin hætta sé að foringinn velti þeim um koll.  Næsta skref verður líklega að setja ljós þar sem vantar, á stofuna og ganginn, þá fer þetta að líta þokkalega út.

Fengum nýja dýnu senda heim fyrir nokkrum dögum, hún er engu lík sem ég hef sofið á áður, hreint einstök, gæðavara frá Stearns & Foster, get svo sannarlega mælt með þessari, dýr en vel þess virði.

Svo þurfti auðvitað að kaupa sláttuvél, sænsk gæðaframleiðsla frá Flymo varð fyrir valinu.  Handknúin sláttuvél er rétta græjan fyrir mig, gott að reyna örlítið á sig stöku sinnum.  Merkilegt nokk fann ég ekkert um græjuna á heimasíðu Flymo, þar er eingöngu fjallað um vélknúnar græjur.

Keyptum líka nýtt pottasett, með "einstakri húð" sem ekkert brennur við á, blanda af keramiki og titanium segja framleiðendurnir, en það virkar, er virkileg "non stick".

Svona hlaða svona flutningar utan á sig, sérstaklega þegar flutt er í stærra húsnæði.

Svo þurfi ég að fara til tannlæknisins í dag. Eftir strangan yfirlestur um notkun tannþráðs var krónunni sem ég var búinn að bíða nokkuð eftir smellt í kjaftinn á mér og lítur bara ljómandi út.

Vegna anna bloggaði ég ekkert um frábæran sigur "Skósmiðsins" á Magny Cours, þetta er allt á réttri leið.  Svo bíð ég auðvitað spenntur eftir að fylgjast með kappakstrinum á Hochenheim.  Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að fjöðrunarbúnaður sá sem Renault og Ferrari hafa þróað (Renault var á undan) hefur verið bannaður.  Flestir virðast þeirrar skoðunar að það hafi meiri áhrif á Michelin dekkin.

Það er nokkuð ljóst að ef Schumacher nær að sigra á heimavelli, opnast mótið enn frekar. 

Vissuð þið annars að Michael Schumacher var fyrsti þjóðverjinn til að vinna þýska kappaksturinn, það gerði hann árið 1995, þá fyrir Benetton, með Renault vél ef ég man rétt. Númer 2, var svo bróðir hans, Ralf árið 2001, akandi Williams.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband