Færsluflokkur: Íþróttir

Óheppni

Hingað hringdi fyrir skömmu kunningi minn.  Hann átti við mig skýrt og einfalt erindi. Erindið var að að bjóða mér á körfuboltaleik annað kvöld, nánar tiltekið á leik Toronto Raptors og 76'ers.

En ég varð að segja nei, vegna skuldbindinga og loforða sem voru gefin fyrir nokkru síðan hefði það verið því sem næst ómögulegt að komast, ef ekki alveg ómögulegt.

Lífið er ekki alltaf eins og best verður á kosið.

 


Væntingar

Það er gömul saga og ný að markaðir og verðlaga á þeim byggist á væntingum.  Fjárfestar spá í framtíðina, vöruskiptajöfnuð, verðbólgu og aðrar hagtölur.

Því velti ég því fyrir mér hvort að krónan hefði ekki átt að styrkjast meira í dag, vegna alls þess gulls sem væntanlegt er til landsins á sunnudaginn.


mbl.is Krónan styrktist um 0,90%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég horfi ekki

Þó að ég sé ekki mjög íþróttalega þenkjandi hef ég oft haft gaman af því að fylgjast með ýmsum stórmótum, alla vegna svona með öðru auganu.  Olympíuleikar hafa þar ekki verið undanskildir.

En nú hef ég misst áhugann.  Í ár ætla ég að sleppa því að horfa.

Eftir fréttahríð af mannréttindabrotum, blokkun á netsambandi og öðru slíku hef ég hreinlega ekki áhuga á því að horfa á leikana, þeir vekja ekki áhuga.

Gamla slagorðið að pólítík og íþróttir komi hvort öðru ekki við hljómar holt í mín eyru, enda pólítík verið fylgifiskur Olympíuleikanna um langt árabil.

En í ár horfi ég ekki.  Sé til eftir 4. ár.

 

 


Sá gamli

Þó að ég beri það ekki utan á mér, tók ég virkan þátt í íþróttum á yngri árum og hafði á þeim gríðarlegan áhuga.  Fótbolti var auðvitað aðalmálið en ég lagði gjörva útlimi á aðrar íþróttir svo sem handbolta og körfubolta.

En það er orðið býsna langt síðan ég hef horft a fótboltaleik.  Síðasti leikur sem ég sá var líklega Frakkland - Ísland á Stade de France í París.  Undanriðill í Evrópumótinu.  Tapaðist naumlega 3 -2.

En það gleður alltaf þegar ég heyri af afrekum "míns" liðs Manchester United og svo er það auðvitað í dag.

En ætli það séu ekki að verða 5. ár síðan að ég lét þau orð falla í "kaffistofu" spjalli um fótbolta að líklega væri það rétt að Ferguson gamli færi að setja gallann sinn og tyggigúmíið niður í tösku og hleypa öðrum að á Old Trafford.

En enn í dag er sá gamli að, enn að raða inn titlum og stendur keikur sem aldrei fyrr.

Það sannar það auðvitað að ég hef ekki hundsvit á fótbolta.

En nú hef ég auðvitað skipt um skoðun og tel réttast að sá gamli verði þarna sem lengst.


Hörku konur

Ég verð að viðurkenna að þó að ég búi í Kanada þá hef ég ekki mikið vit á íshokkí.  Það var ekki hokkíáhugi sem dró mig hingað.  Ég sé þó nokkuð af hokkíi þó, bæði villist ég stundum inn á íþróttarásirnar og svo er mikið fjallað um hokkí í almennum fréttum hér.

En það sem ég hef séð af hokkí, þá er ljóst að þetta er ekki íþrótt fyrir neindar kveifar, það þarf hörku, úthald, snerpu, lipurð og útsjónarsemi til á ná árangri í hokkí.

Einhverr myndi sjálfsagt segja að það sé ekki stórkostlegur árangur að ganga vel í fjórðu deildinni, en einhversstaðar byrjar velgengnin, og kvennahokkíið á Íslandi á ekki það langar rætur að þetta er eftirtektarverður árangur, sem fyllilega er vert að gefa gaum.

Nú þarf hinsvegar að klára þetta og vinna deildina, það að komast upp er auðvitað ekki nóg.

En þetta er frábær árangur.


mbl.is Fjórði sigurinn hjá konunum í Rúmeníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði í Malasíu

Ég get ekki neitað því að ég var bjartsýnn fyrir hönd okkar Ferrariaðdáenda fyrir kappaksturinn í Malasíu, en hvílík vonbrigði.

Frá fyrstu mínútu glutruðum Massa og Raikkonen þessu niður, Massa gerði slík mistök að það var með eindæmum, en það verður að horfa fram á við.

Það eina sem gladdi augað í þessum kappakstri var fantagóður akstur Hamilton, raunar með eindæmum hvað hann ekur vel, rétt eins og hann sé að keyra sinn 50 kappakstur en ekki 2.


Massa tímatökur

Það var óneitanlega nokkuð ljúft að horfa á Ferrari taka annan pólinn í röð, sitthvorn ökumanninn, nú rétt í þessu.

Það er heldur ekki ónýtt að sjá pólinn skipta 3. um hendur á síðustu sekúndunum.  Þannig á þetta auðvitað að vera.

En keppnin á morgun verður líklega hörkuspennandi, ráspóllinn segir lítið, það verða líklega keppnisáætlanirnar sem ráða úrslitum eins og oft áður.  Hver er með mest bensín og getur keyrt lengra inn í keppnina, heldur vélin hjá Kimi o.sv.frv.

En ég er bjartsýnn á Ferrari sigur.


Maðurinn sem féll til jarðar (úr 12.000 feta hæð)

Við kölluðum þá oft í gríni bakpokaskríl. Þannig töluðum við um fallhlífarstökkvarana þegar ég var í sviffluginu í gamla daga.  Sjálfur hef ég aldrei stokkið í fallhlíf, tók þó nokkur teygjustökk í "den".  Það er skrýtin tilfinning að sjá jörðina koma æðandi á móti sér.

En það er ábyggilega ekkert grín að lenda í því að fallhlífin opnist ekki og varafallhlífin virki ekki, og sjá jörðina æða á móti sér á u.þ.b. 130 km hraða.

En jafn ótrúlega og það hljómar þá er lifði Michael Holmes það af.  Hann lenti í berjarunna og slapp með ótrúlega lítil meiðsli.

Það má lesa viðtal við Michael í The Mail On Sunday, og hér má sjá myndbandsupptöku sem hann tók á leiðinni. 

Ótrúlegt en satt.


Til hamingju KSÍ

Ég verð nú reyndar að viðurkenna að mér var nokk sama hvern fulltrúar á þingi KSÍ myndu velja til forystu.  En ég er samt þeirrar skoðunar að þeir hafi valið rétt.

Fólk velur sér fulltrúa sem það treystir, ekki þann sem virðist hafa annan málstað heldur en samtökin sjálf.

Rakst á blog núna áðan sem mér fannst segja þetta skratti vel, líklega betur heldur en ég hefði gert það.  Tékkið á því.

Þar segir m.a.:

"Í stað þess að feministanir ryðjist nú fram á ritvöllin og styðji Höllu vil ég skora á þær að koma að vinna innan félaganna, vinna sig þannig upp.  Ég veit t.d. að staða formanns meistaraflokksráðs kvennahandbolta hjá Val er laus fyrir næsta tímabil.  Ég veit líka að Eva, sem er í mfl.ráði kvenna í fótboltanum, myndi þiggja hvaða hjálp sem er.  Sóley, Guðríður og þið sem hafið skrifað hvað mest, nú er tækifærið.  Ef þið hafið raunverulegan áhuga þá hlýtur einhver ykkar að bjóða sig fram til að vinna fyrir okkur stelpurnar í Val."

Þetta er nefnilega að ég tel málið, það þarf að vinna svona mál í gegnum "grasrótina".  Það vantar fólk til starfa í íþróttahreyfingunni um allt land.  Það er ekki erfitt að komast þar að.  Það er algengara að leitað sé að fólki heldur en að það sé kosið um fólk.

Þetta þekki ég af eigin raun, það er oft svo erfitt að fá fólk til að starfa í stjórnum, að það hefur jafnvel verið leitað til jafn óíþróttalegs manns og mín, og ég beðinn um að starfa í stjórn íþróttadeildar.  Sem ég reyndar, af minni alkunnu leti, hafnaði.  En ég starfaði þó fyrir deildina einn vetur í sjálfboðavinnu.

Þetta er málið, íþróttahreyfingin snýst ekki eingöngu um toppstörfin, það er hundruðir möguleikar til að setja mark sitt á hana.  Vonandi flykkjast allir þeir sem þykir ástæða til að "hrista upp" í hreyfingunni og bjóða fram krafta sína, möguleikarnir eru ótæmandi.

Ef svo yrði, væri íþróttahreyfingin sterkari en fyrr, og án efa kæmi fljótlega að því að frambjóðendur sem vilja breytingar fengju fleiri en 3 atkvæði.

P.S.  Verð að bæta þessu við.  Það hefur mikið verið notað í umræðunni um jafnréttismál innan KSÍ að kvennalandsliðið standi mun ofar á alheims styrkleikalista heldur en karlalandsliðið og það sýni að kvennalandsliðið sé miklu betra. 

Það er vissulega ekki hægt að neita þessu, enda styrkleikalistarnir óvéfengjanleg plögg ef svo má að orði komast. 

En það má líka nota þessa staðreynd til að halda því fram að þetta sýni hvað mikið betur sé búið að kvennaknattspyrnu á Íslandi en víðast hvar um heiminn, mörg lönd sýna henni því miður lítinn sem engan áhuga.

 

 


Hljómar ekki vel

Það hljómar ekki vel að Íslendingar tapi fyrir Spænskum sólstrandargæjum í hokkí.

Það er ljóst að ég mun ekki hafa hátt um þetta hér í Kanada, en hér eru flestir þeirrar trúar að Íslendingar hljóti að vera almennt frekar sleipir á skautum, enda á Íslandi kjöraðstæður fyrir íþróttina.  Sumir muna jafnvel eftir því að hafa heyrt minnst á Fálkana "'Íslensku" sem unnu fyrstu Olympíugullin sem í boði voru fyrir íshokkí, fyrir Kanada.

En merki ÍHÍ, Íshokkísambandans Íslands, er einmitt ætlað að minna á þá sögu.

En við verðum að vona að Íslendingarnir hressist, og taki til óspilltra málanna á ísnum.


mbl.is Tap gegn Spánverjum í íshokkí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband