Færsluflokkur: Viðskipti

Neytendur eiga rétt á ...

Ég get ekki gert að því að mér finnst umræðan um hvort að neytendur eigi rétt á því að geta "verslað á Íslensku á Íslandi" nokkuð skondin og um leið á all nokkrum villigötum.

Þó að vissulega megi halda því fram að á Íslandi sé eðlilegast að töluð sé Íslenska í viðskiptum, þá finnst mér þetta með "réttindin" vera illskiljanlegt.

Frá mínum sjónarhóli eiga neytendur aðeins ein réttindi.  Þeir hafa réttinn til þess að velja hvar þeir versla og sá réttur verður vonandi aldrei aftur tekin af Íslendingum.

Ef neytandi er óánægður með þjónustuna, hvort sem það er á Íslensku eða einhverju öðru tungumáli þá er eðlilegast að hann leiti annað, nema að það sé partur af upplifuninni við verslunarferðina að vera ónægður og geta kvartað.

Hér í Toronto er ekki óalgengt að innflytjendur starfi í eða reki verslanir eða aðrar þjónustustofnanir og vissulega er enskan þeirra misjöfn eins og þeir eru margir, sumir stóla enda á útlendinga sem viðskiptavini.

En ég hef aldrei fundið ástæðu til að láta þetta fara í taugarnar á mér.  Ef varan sem þeir bjóða er jafngóð eða betri og á jafngóðu eða betra verði, þá hef ég aldrei orðið var við að smá tungumálaörðugleikar stæðu í vegi fyrir viðskiptum.

Hinu er þó ekki hægt að neita að ef verslanir vilja standa undir því að veita 100% þjónustu, þá bjóða þær upp á starfsfólk sem talar tungumál viðkomandi þjóðar þar sem verslunin er staðsett og gjarna auðvitað fleiri. 

En þetta er auðvitað eitthvað sem verslunareigandinn verður að vega á meta á móti staðreyndum s.s. framboði starfsfólk og öðru því um líku.

Neytendur verlja sér svo verslun þar sem þeim finnst þjónustan góð, allt eftir smekk hvers og eins.


mbl.is Neytendur eiga ekki lögvarinn rétt á að versla á íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himbriminn enn á uppleið

Jamm, þá náðist það í dag.  Jöfnuður.

Kanadadollarinn náði hinum Bandaríska að verðmæti og reyndar örlítið betur.  Hærra hefur sá Kanadíski ekki staðið gegn Bandarískum "starfsbróður" sínum síðan 1976.  Sjá frétt Globe and Mail hér.   Hér má svo sjá hæðir og lægðir í lífi Kanadíska dollarans síðastliðin 30 ár.

En aðalfyrirsögnin á prentútgáfu blaðsins var:  "Prices staying put despite dollar´s climb", og undirfyrirsögnin "Loonie has appreciated 15 per cent this year, study finds, but benefits of stronger currency are not being passed on to consumers."

Fyrir þá sem ekki vita, er Kanadíski dollarinn gjarna kallaður "Loonie" eftir Himbrimanum (Common Loon) sem prýðir 1. dollara peningin.  Við Íslendingar ættum auðvitað að tala um Kanadíska Himbrimann.

En þetta var nú útúrsnúningur, en fréttin í prentútgáfunni fjallar um hve lítið að styrkingu C$ hefur skilað sér til neytenda.  Hljómar kunnuglega ekki satt.

En síðan var önnur frétt um hve illa Kanada stæði gagnvart öðrum löndum hvað varðaði skattheimtu á fyrirtæki.  Sagðir reka lestina af 80 þjóðum.  Þá frétt má lesa hér.

Þegar ég las þessar fréttir kom upp í hugann að talað var um það fyrir nokrum misserum að fyrirtæki ætluðu að fara að flytja sig frá Íslandi yfir til Kanada, aðallega að mér skyldist vegna þess hve krónan væri sterk.

Skrýtið ekki satt?

 


Blessað gengið

Stundum finnst mér umræðan hér í Kanada og á Íslandi með eindæmum keimlík.  Það er verið að ræða sömu hlutina og sömu vandamálin.

Eitt af því sem Ísland og Kanada eiga sameiginlegt er að gjaldmiðillinn hefur verið gríðarsterkur undanfarin misseri og það svo að mörgum hefur þótt nóg um.  Nokkur merki eru þó um að krónan sé að gefa eftir, en lítill bilbugur virðist vera á Kanadíska dollaranum.

Þannig hefur Kanadíski dollarinn hækkað um 14% gagnvart þeim Bandaríska það sem af er árinu og stendur nú í rétt rúmlega 97 centum. 

Það er hæsta gengi C$ í um 30 ár, og fjármálaspekingar spá því að þeir standi á sléttu eða því sem næst seinna á árinu eða snemma á því næsta.  Það væri í fyrsta sinn sem það gerðist síðan 1976.

Þetta er hvorki meira né minna en 56% hækkun frá því að C$ stóð sem lægst árið 2002, en þá fengust aðeins 62 Bandarísk sent fyrir einn Kanadískan.

Rétt eins og á Íslandi hefur þetta valdið mörgum útflutningsfyirtækjum (en Bandaríkin eru lang stærsti viðskiptaaðili Kanada) miklum erfiðleikum og mörg þeirra hafa hreinlega lagt upp laupana.  Yfir 100 verksmiðjur lokuðu fyrir fullt og allt á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs.

Ferðamannaiðnaðurinn býr sömuleiðis við samdrátt, enda hefur komum Bandarískra ferðamanna fækkað gríðarlega, nú þegar gengismunurinn er þeim óhagstæðari.  Ferðum Kanadabúa suður á bóginn hefur hins vegar fjölgað, verslunareigendum til armæðu.

Það er sömuleiðis það sama upp á teningnum þegar kemur að vöruverði, en innflytjendur jafnt sem smásalar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að gengishækkunin skili sér illa í lækkuðu vöruverði.  Þeir sem vel þekkja til á markaðnum segja að nú greiði Kanadamenn að meðaltali 10%hærra verð heldur en Bandaríkjamenn fyrir sömu vöru.

Það sem sem veldur þessari gríðarhækkun C$ er tiltrú manna á kanadísku efnahagslífi, sterk staða ríkissjóðs, hátt verð á hrávörumarkaði t.d. olíu, gulli og hveiti.  Eða eins og sagði í grein í Globe and Mail nýlega:  ""Aside from lumber, newsprint and Celine Dion, practically everything Canada produces is now in piping hot demand."".   Vantrú á Bandaríska hagkerfinu spilar svo líka sína rullu.

Það hljómar líklega sömuleiðis kunnuglega að þrýstingurinn á hagkerfið og "góðærið" er ekki jafnt yfir landið.  Þennslan er í Alberta og Ontario, en á mörgum öðrum svæðum er jafnvel samdráttur.  Enda eru fólksflutningar miklir og algengir hér.

En ég hef engan heyrt tala um að það þurfi að skipt um gjaldmiðil, eða að tengja C$ við þann Bandaríska.

P.S. Þessi færsla er að mestu leyti byggð á frétt Globe and Mail, sem finna má hér.


En hver er raunkostnaðurinn?

Mér er sagt að mjólk eigi eftir að hækka í verði víðast hvar um heiminn, vegna þess að nú vilja Kínverjar að börnin þeirra fari líka að drekka mjólk.

En það sem vantar í þessa frétt er hver raunkostnaðurinn er í hvoru landi um sig.  Hvert er raunverulega verðið?  Hvað nemur niðurgreiðsla á mjólk háum upphæðumá lítra á Íslandi og hvað í Bretlandi.

Á þeim grunni á að ræða málin.

Hitt er svo annað mál að mjólk er ekki sama og mjólk.  Mér stendur til boða að kaupa "venjulega" mjólk hér á u.þ.b. 70 kr lítrann.  En ég vel að kaupa mjólk sem kostar u.þ.b. 150 kr lítrinn.

"Venjuleg" mjólk hér í Kanada hefur aðeins 3.25% fituinnihald eða minna.  Þess vegna vel ég að kaupa "lífræna" mjólk sem hefur 3.8% fituinnihald og bragðast mun betur. 

Hlutirnir eru aldrei eins einfaldir og þeir sýnast.


mbl.is Mjólk ódýrari hérlendis en í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græna grasið

Mér hefur alltaf þótt það nokkuð merkilegt hvað stór hópur Íslendinga virðist sannfærður um hve slæmt sé að lifa á Íslandi og að meginþorri landsmanna hafi það skítt. 

Það má líka skilja á mörgum að víðast hvar annars staðar hafi menn það betra en á Íslandi. 

Þrátt fyrir þetta "skorar" Ísland gríðarlega hátt í öllum samanburðarrannsóknum á lifsgæðum sem ég hef séð.

Núna rétt áðan rakst ég svo á blog hjá Pálma Gunnarssyni, sem ég hlustaði einu sinni á um hverja helgi í Sjallunum, en það er önnur saga.  Þar kveður einmitt við þennan tón og er tíundað hve gott sé að búa í Kanada og að jafnvel sé þörf á "léttvopnaðri" byltingu á Íslandi.

Það er þó rétt að hafa í huga að Kanada er öllu jöfnu á svipuðum slóðum og Ísland í lífskjarasamanburðinum, gjarna þó nokkrum sætum neðar.

Ekki ætla ég að neita því að að ágætt er að lifa í Kanada, enda líður mér ágætlega hér.  Hér má fá, líkt og Pálmi nefnir dáyndis steikur á góðu verði (ég keypti í dag, beint frá kjötvinnslu, nautalund á ca. 1020 kr Íslenskar kílóið.  Svínalundir kosta hér gjarna um 600 kr kg.), hér kostar bensínlítrinn tæpar 60 krónur Íslenskar, hér er miklu hlýrra á sumrin (en að sama skapi miklu kaldara en á Íslandi á veturna), hér á hægt að kaupa sér föt fyrir lítinn pening, bílar kosta ekki nema brot af því sem þeir kosta á Íslandi, tölvur, sjónvörp og önnur rafmagnstæki kosta sama og ekki neitt og svo mætti lengi telja.

Heilbrigðiskerfið er ágætt og rétt eins og á Íslandi að mestu leyti frítt, en biðraðirnar plaga Kanadamenn, rétt eins og Íslendinga.

Húsnæðisverð (bæði kaup og leiga) er mun ódýrara hér í Toronto en í Reykjavík, en gæði húsnæðis eru hins vegar miklu meiri á Íslandi.

Þetta hljómar ljómandi ekki satt?  En hlutirnir eru ekki svona einfaldir. 

Fyrst ber að nefna að almennt eru laun lægri í Kanada en á Íslandi (best er auðvitað að hafa Íslensk laun og kaupa í matinn í Kanada).  Skattar eru svipaðir hér og á Íslandi (þó er kerfið flóknara og ekki eins auðvelt að átta sig á því).  Líklega eru skattar á meðallaun heldur hærri hér í Kanada en á Íslandi.  Sjá hér á Wikipedia.

Fasteignaskattar eru víðast mun hærri en á Íslandi (enda ein af fáum tekjulindum sem sveitarfélögin hafa, þau fá ekki að leggja skatta á tekjur íbúanna), en eru verulega mismunandi eftir sveitarfélögum.

En viljirðu læra t.d. verkfræði við háskólann í Toronto, kostar það þig um það bil 440.000 á ári.  Langi þig til að læra lögfræði er gjaldið ríflega milljón á ári og þeir sem fara í tannlækningar borga ríflega 1200.000 á ári. Kostnaðinn er hægt að sjá hér.  Þetta eru tölur fyrir heimamenn.

Gjald fyrir dagvist hér í Toronto er ekki óalgengt á bilinu 70 til 95.000 fyrir hvert barn.  Þó myndi ég telja að gæði dagvistarinnar stæði langt að baki því sem gerist á Íslandi.

Bílatryggingar eru líklega þó nokkuð hærri en á Íslandi, ekki er óalgengt að borgað sé  fast að 200.000 fyrir kaskó og ábyrgðartryggingu á meðalstórum bíl (verðmæti bíls um 1.5 milljón).  Ef unglingur er í fjölskyldunni og keyrir bílinn er tryggingin yfirleitt mun hærri.

Yfirdráttur á bankareikningum er ekki svo algengur hér, en þess í stað eru tekin neyslulán á kreditkortin, sem segja má að svo sami eða svipaður hlutur.  Vextir á þeim eru algengir á bilinu 18 til 23%.  Verðbólga í Kanada er ca. 2%.

Það er hægt að halda lengi áfram með samanburðinn, sumt er Íslandi í hag, annað Kanada. 

Bæði löndin hafa stórkostlega náttúru, en það má heldur ekki gleyma lífsgæðum eins og að geta drukkið vatnið úr krananum (ekki það að það gera margir hér í Toronto, en ég get ekki fellt mig við klórbragðið) og nota bene, það er selt inn í eftir mæli. 

Ekki má heldur gleyma heitavatninu.  Það gerir það að verkum að mun ódýrara er að hita hús á Íslandi en hér í Kanada, að ógleymdum þeim lúxus að geta verið eins lengi í sturtu og manni þóknast, en hafa ekki bara hitavatnsdúnk.  Hitinn á sumrin er heldur ekki bara blessun, því að þó að tómatarnir og baunirnar spretti vel í garðinum, þá kostar stórar fjárhæðir að halda lífvænlegu innandyra þegar hitinn er um og yfir 30 stig.

Þannig er að það er misjafnt hvernig litið er á hlutina og hvort að "glasið er hálfullt eða hálftómt", lífið skítt eða hreinlega bærilegt.

Hitt er svo auðvitað rétt að það er engin ástæða til að gefast upp á því að berjast fyrir lægra matvöruverði á Íslandi og gera Ísland þannig að enn betra landi. 

Það væri auðvitað lang best að hafa Íslensk laun, matarverð eins og í Kanada eða bara Brasílíu, vexti eins og í Japan, atvinnuleysi eins og á Íslandi, vínverð eins og í Frakklandi og Spáni, vatn eins og á Íslandi og þar fram eftir götunum, en því miður er það líklega ekki raunhæft.

Að lokum má ég til með að minnast á símamálin sem Pálmi minnist á í blogginu sínu.  Það er alveg rétt að hér eru gjöld fyrir síma og internetnotkun mun lægri en á Íslandi, en að nota tölvuforrit til og borga mun minna fyrir símanotkun, t.d. um 10 evrur fyrir nokkra mánuði, er hægt að gera víðast hvar um heiminn og bæði á Íslandi og í Kanada.

 


3. metrar

Þá er Bjórárfjölskyldan búin að ákveða hvernig borðstofuborð framtíðarinnar verður.  Það var lagður grunnur að mögnuðum "erfðagrip" á föstudaginn.

Þá gengum við frá vali á við og lakki, lengd og breidd og hvernig framlengingarnar væru.

Eins og oft áður þá skoluðust hugmyndirnar sem farið var með af stað, aðeins til, en auðvitað til hins betra.

Upphaflega var meiningin að fá borð ca. 40" á breidd og ca. 90" á lengd, hugsanlega aðeins 72" og þá með 18" framlengingu.

Niðurstaðan, pantað var borð um 1 1/2" furuplönkum, 40" (1 m) á breidd), 80" á lengd (2 m) og með fylgja 2. framlengingar 20" hver (50 cm) sem gerir það að verkum að þegar á þarf að halda hefur fjölskyldan yfir að ráða 3ja metra borði.  Síðan voru pantaðir 4 stólar (við ætlum að nota eldri stóla sem að hluta til, svona til að byrja með). Allt þetta verður svo lakkað í dökkum valhnetulit.

Líklega kemur þetta allt saman heim að Bjórá eftir 6 til 8 vikur, ja nema blessaðir Mennonitarnir láti hendur virkilega standa fram úr ermum, en verkefnalistinn er víst víðast hvar langur hjá þeim.


Það þarf að virkja....

.... til þess að selja raforku til netþjónabús.

Það er hins vegar fagnaðarefni að þeir sem reka slík bú skuli hafa augastað á Íslandi, enda gott mál að dreifa orkusölunni til fleiri atvinnugreina.

En það er hins vegar sitt hvað að íhuga og framkvæma.

Það hefur oft heyrst að hinn eða þessi aðilinn hyggi á starfsemi á Íslandi en lítið orðið úr.  Það á jafnt við álver sem ýmsa aðra starfsemi og "kratískir" iðnaðarráðherrar kannast vel við að lítið hafi orðið úr baráttu þeirri að fá erlend stórfyrirtæki til að fjárfesta á Íslandi.

En það er óskandi að þetta komist á legg, en hitt er líka ljóst að til að selja raforku þarf að virkja.

Það er því áríðandi að það komi skýrt fram hverju menn eru á móti.  Eru menn á móti álverum, "stóriðju", eða almennt á móti virkunum?

Ef þessi fyrirtæki vilja hefjast handa, verða að vera til svör, hvaðan orkan á að koma?

Er ekki best að hefjast handa við að undirbúa fleiri virkjanir?

 

 


mbl.is Væntanleg netþjónabú þurfa álíka raforku og 250 þúsund tonna álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saving Germany

Svona til að fyrirbyggja allan misskilning, þá vil ég taka að fram að ég gleðst ákaflega yfir fréttum sem þessari.  Bæði vegna Íslendinga og ekki síður Þjóðverja.

Íslendingar eiga án efa eftir að gera það gott með því að flytja út sérþekkingu sína hvað varðar jarðvarmavirkjanir og Þjóðverjar geta fagnað að fá nokkrar vistvænar virkjanir.

Ég geng eiginlega út frá því og vona svo sannarlega að ítarlegt umhverfismat hafi farið fram og engin lýti verði af virkjununum í Þýskalandi.

Ég vona líka að iðnaðarráðherra geri sér grein fyrir því að "okkar framlag" til loftlagsmála getur einnig náð yfir háhitavirkjanir á Íslandi.

Loftslagið er jú alþjóðlegt fyrirbrigði.

Spurningin er svo hvort að þurfi að stofna samtökin "Saving Germany" til að sporna gegn þeirri vá sem svona orkuver geta verið.


mbl.is Orkuútrás í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíta blómakör

Það má ábyggilega nýta skít mun betur en gert er í dag.  Ekki bara kúaskít heldur svínaskít sömuleiðis.  Kindaskítur er auðvitað best nýttur til reykingar.  Gefur sérlega geðfellt bragð.

Orkuframleiðsla úr skítnum er bæði eðlileg og sjálfsögð (hver man ekki eftir Mad Max), en það er ábyggilega margt fleira sem má nýta skít í.

Flest blóm og tré sem við keyptum hingað að Bjórá í vor, voru í kerjum eða pottum sem mér er sagt að búin séu til að mestu leyti úr kúaskít.  Hafa þann kost að það má setja trén niður í þeim, eða hreinlega brytja þau niður í beðin.

Sömuleiðis keyptum við "kompóstaðan" (hér man ég ekki Íslenska orðið) kúaskít í pokum.  "Bag of bullshit" eins og ég er vanur að kalla það, enda vandfundnari betri áburður og óþarfi að vera að kaupa eitthvert kornarusl.  Þessi skítur er því sem næst algerlega lyktarlaus og ákaflega þægilegur viðreignar.

Nú er bara spurningin hvort að Íslenskir "skítaframleiðendur" séu of smáir og of dreifðir til að framleiðsla af þessu tagi borgi sig? 

 


mbl.is Kúamykju breytt í raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af álhausum, kálhausum og viðskiptaráðherra

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að skiptar skoðanir hafa verið um uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi.  Hafa þeir sem hafa verið hlynntir slíkri uppbyggingu oft verið kallaðir "álhausar" svo að ég hafi séð.

En það hafa líka reglulega komið fram hugmyndir um að það þurfi að tryggja garðyrkjubændum hagstæðara orkuverð og er þá oft miðað við að það eigi að vera sambærilegt og er til álvera.

Jafnvel hefur heyrst slagorðið, "Sömu kjör fyrir ál og kál". 

Fylgjendur þess yrðu þá líklega kallaðir "kálhausar" ef sami stíllinn yrði notaður.

Fyrir nokkru kom svo fram að viðskiptaráðherra er mjög áfram um að tryggja garðyrkjubændum lægra raforkuverð.  Ráðherranum er líklega nokkur vorkunn þegar byrjað er að fjalla um þetta mál, enda garðyrkjubændur margir í hans kjördæmi, en persónulega get ég ekki skilið hvers vegna þetta sé mál sem ríkisstjórnin ætti að sjá um.

Raforkuverð er samningsatrið á milli seljenda (Landsvirkjun eða aðrir) og kaupenda (í þessu tilviki garðyrkjubændur).  Ef garðyrkjubændur vilja fá sama eða svipað verð og stóriðja fær í dag, þurfa þeir líklega að kaupa svipað magn og stóriðjuver.  Og ekki bara á daginn, eða aukið magn á veturna, heldur sama magnið, allan sólarhringinn allan ársins hring.

Nú veit ég ekki hver orkuþörf garðyrkjubænda er, eða hvort hún samanlagt slagar upp í orkuþörf eins stóriðjuvers, en ef svo er ekki er þetta auðvitað tómt mál að tala um.  En ef svo er er auðvitað lang best að garðyrkjubændur sameinist um að kaupa rafmagnið af frameliðenda.  Þeir geta svo annað hvort byggt upp sitt eigið dreifikerfi, eða samið um dreifingu við þá sem eiga kerfi fyrir.

En ríkið á ekki að koma að því að tryggja einum hópi neytenda betri kjör en öðrum.

Svo er það líklega umdeilanlegt hvort að það sé Íslenskum neytendum til hagsbóta að hvetja garðyrkjubændur til að framleiða meira, með því að tryggja þeim betri kjör.  Meiri framleiðsla gæti hæglegar endað með því að niðurgreiðslur á framleiðslunni þyrfti að auka, nóg greiðir almenningur samt.

Best væri fyrir neytendur að auka innflutning og lækka þannig verð, enda keppir jafnvel lágt raforkuverð seint við kostnað hjá þeim sem nægir sólarljósið.

Það væri sömuleiðis óskandi að viðskiptaráðherra beitti sér fyrir viðskiptafrelsi, jafnt í raforkusölu sem annars staðar, þar með talið grænmetissölu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband