Blessað gengið

Stundum finnst mér umræðan hér í Kanada og á Íslandi með eindæmum keimlík.  Það er verið að ræða sömu hlutina og sömu vandamálin.

Eitt af því sem Ísland og Kanada eiga sameiginlegt er að gjaldmiðillinn hefur verið gríðarsterkur undanfarin misseri og það svo að mörgum hefur þótt nóg um.  Nokkur merki eru þó um að krónan sé að gefa eftir, en lítill bilbugur virðist vera á Kanadíska dollaranum.

Þannig hefur Kanadíski dollarinn hækkað um 14% gagnvart þeim Bandaríska það sem af er árinu og stendur nú í rétt rúmlega 97 centum. 

Það er hæsta gengi C$ í um 30 ár, og fjármálaspekingar spá því að þeir standi á sléttu eða því sem næst seinna á árinu eða snemma á því næsta.  Það væri í fyrsta sinn sem það gerðist síðan 1976.

Þetta er hvorki meira né minna en 56% hækkun frá því að C$ stóð sem lægst árið 2002, en þá fengust aðeins 62 Bandarísk sent fyrir einn Kanadískan.

Rétt eins og á Íslandi hefur þetta valdið mörgum útflutningsfyirtækjum (en Bandaríkin eru lang stærsti viðskiptaaðili Kanada) miklum erfiðleikum og mörg þeirra hafa hreinlega lagt upp laupana.  Yfir 100 verksmiðjur lokuðu fyrir fullt og allt á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs.

Ferðamannaiðnaðurinn býr sömuleiðis við samdrátt, enda hefur komum Bandarískra ferðamanna fækkað gríðarlega, nú þegar gengismunurinn er þeim óhagstæðari.  Ferðum Kanadabúa suður á bóginn hefur hins vegar fjölgað, verslunareigendum til armæðu.

Það er sömuleiðis það sama upp á teningnum þegar kemur að vöruverði, en innflytjendur jafnt sem smásalar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að gengishækkunin skili sér illa í lækkuðu vöruverði.  Þeir sem vel þekkja til á markaðnum segja að nú greiði Kanadamenn að meðaltali 10%hærra verð heldur en Bandaríkjamenn fyrir sömu vöru.

Það sem sem veldur þessari gríðarhækkun C$ er tiltrú manna á kanadísku efnahagslífi, sterk staða ríkissjóðs, hátt verð á hrávörumarkaði t.d. olíu, gulli og hveiti.  Eða eins og sagði í grein í Globe and Mail nýlega:  ""Aside from lumber, newsprint and Celine Dion, practically everything Canada produces is now in piping hot demand."".   Vantrú á Bandaríska hagkerfinu spilar svo líka sína rullu.

Það hljómar líklega sömuleiðis kunnuglega að þrýstingurinn á hagkerfið og "góðærið" er ekki jafnt yfir landið.  Þennslan er í Alberta og Ontario, en á mörgum öðrum svæðum er jafnvel samdráttur.  Enda eru fólksflutningar miklir og algengir hér.

En ég hef engan heyrt tala um að það þurfi að skipt um gjaldmiðil, eða að tengja C$ við þann Bandaríska.

P.S. Þessi færsla er að mestu leyti byggð á frétt Globe and Mail, sem finna má hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband