Græna grasið

Mér hefur alltaf þótt það nokkuð merkilegt hvað stór hópur Íslendinga virðist sannfærður um hve slæmt sé að lifa á Íslandi og að meginþorri landsmanna hafi það skítt. 

Það má líka skilja á mörgum að víðast hvar annars staðar hafi menn það betra en á Íslandi. 

Þrátt fyrir þetta "skorar" Ísland gríðarlega hátt í öllum samanburðarrannsóknum á lifsgæðum sem ég hef séð.

Núna rétt áðan rakst ég svo á blog hjá Pálma Gunnarssyni, sem ég hlustaði einu sinni á um hverja helgi í Sjallunum, en það er önnur saga.  Þar kveður einmitt við þennan tón og er tíundað hve gott sé að búa í Kanada og að jafnvel sé þörf á "léttvopnaðri" byltingu á Íslandi.

Það er þó rétt að hafa í huga að Kanada er öllu jöfnu á svipuðum slóðum og Ísland í lífskjarasamanburðinum, gjarna þó nokkrum sætum neðar.

Ekki ætla ég að neita því að að ágætt er að lifa í Kanada, enda líður mér ágætlega hér.  Hér má fá, líkt og Pálmi nefnir dáyndis steikur á góðu verði (ég keypti í dag, beint frá kjötvinnslu, nautalund á ca. 1020 kr Íslenskar kílóið.  Svínalundir kosta hér gjarna um 600 kr kg.), hér kostar bensínlítrinn tæpar 60 krónur Íslenskar, hér er miklu hlýrra á sumrin (en að sama skapi miklu kaldara en á Íslandi á veturna), hér á hægt að kaupa sér föt fyrir lítinn pening, bílar kosta ekki nema brot af því sem þeir kosta á Íslandi, tölvur, sjónvörp og önnur rafmagnstæki kosta sama og ekki neitt og svo mætti lengi telja.

Heilbrigðiskerfið er ágætt og rétt eins og á Íslandi að mestu leyti frítt, en biðraðirnar plaga Kanadamenn, rétt eins og Íslendinga.

Húsnæðisverð (bæði kaup og leiga) er mun ódýrara hér í Toronto en í Reykjavík, en gæði húsnæðis eru hins vegar miklu meiri á Íslandi.

Þetta hljómar ljómandi ekki satt?  En hlutirnir eru ekki svona einfaldir. 

Fyrst ber að nefna að almennt eru laun lægri í Kanada en á Íslandi (best er auðvitað að hafa Íslensk laun og kaupa í matinn í Kanada).  Skattar eru svipaðir hér og á Íslandi (þó er kerfið flóknara og ekki eins auðvelt að átta sig á því).  Líklega eru skattar á meðallaun heldur hærri hér í Kanada en á Íslandi.  Sjá hér á Wikipedia.

Fasteignaskattar eru víðast mun hærri en á Íslandi (enda ein af fáum tekjulindum sem sveitarfélögin hafa, þau fá ekki að leggja skatta á tekjur íbúanna), en eru verulega mismunandi eftir sveitarfélögum.

En viljirðu læra t.d. verkfræði við háskólann í Toronto, kostar það þig um það bil 440.000 á ári.  Langi þig til að læra lögfræði er gjaldið ríflega milljón á ári og þeir sem fara í tannlækningar borga ríflega 1200.000 á ári. Kostnaðinn er hægt að sjá hér.  Þetta eru tölur fyrir heimamenn.

Gjald fyrir dagvist hér í Toronto er ekki óalgengt á bilinu 70 til 95.000 fyrir hvert barn.  Þó myndi ég telja að gæði dagvistarinnar stæði langt að baki því sem gerist á Íslandi.

Bílatryggingar eru líklega þó nokkuð hærri en á Íslandi, ekki er óalgengt að borgað sé  fast að 200.000 fyrir kaskó og ábyrgðartryggingu á meðalstórum bíl (verðmæti bíls um 1.5 milljón).  Ef unglingur er í fjölskyldunni og keyrir bílinn er tryggingin yfirleitt mun hærri.

Yfirdráttur á bankareikningum er ekki svo algengur hér, en þess í stað eru tekin neyslulán á kreditkortin, sem segja má að svo sami eða svipaður hlutur.  Vextir á þeim eru algengir á bilinu 18 til 23%.  Verðbólga í Kanada er ca. 2%.

Það er hægt að halda lengi áfram með samanburðinn, sumt er Íslandi í hag, annað Kanada. 

Bæði löndin hafa stórkostlega náttúru, en það má heldur ekki gleyma lífsgæðum eins og að geta drukkið vatnið úr krananum (ekki það að það gera margir hér í Toronto, en ég get ekki fellt mig við klórbragðið) og nota bene, það er selt inn í eftir mæli. 

Ekki má heldur gleyma heitavatninu.  Það gerir það að verkum að mun ódýrara er að hita hús á Íslandi en hér í Kanada, að ógleymdum þeim lúxus að geta verið eins lengi í sturtu og manni þóknast, en hafa ekki bara hitavatnsdúnk.  Hitinn á sumrin er heldur ekki bara blessun, því að þó að tómatarnir og baunirnar spretti vel í garðinum, þá kostar stórar fjárhæðir að halda lífvænlegu innandyra þegar hitinn er um og yfir 30 stig.

Þannig er að það er misjafnt hvernig litið er á hlutina og hvort að "glasið er hálfullt eða hálftómt", lífið skítt eða hreinlega bærilegt.

Hitt er svo auðvitað rétt að það er engin ástæða til að gefast upp á því að berjast fyrir lægra matvöruverði á Íslandi og gera Ísland þannig að enn betra landi. 

Það væri auðvitað lang best að hafa Íslensk laun, matarverð eins og í Kanada eða bara Brasílíu, vexti eins og í Japan, atvinnuleysi eins og á Íslandi, vínverð eins og í Frakklandi og Spáni, vatn eins og á Íslandi og þar fram eftir götunum, en því miður er það líklega ekki raunhæft.

Að lokum má ég til með að minnast á símamálin sem Pálmi minnist á í blogginu sínu.  Það er alveg rétt að hér eru gjöld fyrir síma og internetnotkun mun lægri en á Íslandi, en að nota tölvuforrit til og borga mun minna fyrir símanotkun, t.d. um 10 evrur fyrir nokkra mánuði, er hægt að gera víðast hvar um heiminn og bæði á Íslandi og í Kanada.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir áhugaverða færslu, ekkert er hvítt og svart í þessum efnum. Við fjölskyldan erum nýflutt aftur til Íslands eftir tveggja ára dvöl í Montréal og finnum að sjálfsögðu fyrir hærra matarverði hér og ýmsu öðru. En við erum ekki heldur búin að gleyma því að á meðan dvöl okkar ytra stóð þá mærðum við lágan húshitunarkostnaðinn á Íslandi, kerfi sem var léttara í vöfum, góða vatnið úr krananum o.fl. Vissulega er þó nauðsynlegt að halda umræðunni gangandi, það gerir sitt gagn og ég er ekki frá því að auðveldara sé núna að gera hagstæðari kaup á Íslandi en fyrir tveimur árum. 

Hins vegar eigum við dálítið erfitt með að sætta okkur við veðrið hér á ný enda er Ísland fast í lægðasúpu, það hefur verið rok og rigning hér nánast látlaust í tvær vikur. Við söknum kanadíska haustsins...  

Jóhanna Björk Guðjónsdóttir (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 10:54

2 Smámynd: Sigga

Mikið til í þessu hjá þér! Grasið er alltaf grænna hinumeginn, sama hvorum megin við girðinguna maður stendur! Sjálf bjó ég í London í 4 ár þannig að ég hef verið báðum megin en ísland hefur vinninginn í þetta skiptið þó svo að ég sakni mikið að geta keypt "pint of beer" fyrir 350 krónur og það sem meira er, endurnýjað fataskápinn minn fyrir 10 þúsund krónur! - þannig að "thank god" fyrir "low cost airlines" segi ég nú bara :)

hafið það gott í kanada

Sigga, 12.9.2007 kl. 17:45

3 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Tómas þetta er fróðleg og skemmtileg bloggfærsla hjá þér

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 12.9.2007 kl. 17:48

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það sem ég var nú fyrst og fremst að meina er að málið er ekki klippt og skorið. Það er margs að gæta.  Sjálfur hef ég búið í 4 löndum og á öllum stöðum voru kostir sem og gallar.  Það gefst auðvitað best að horfa frekar á kostina.

Hitt er svo að ég held að það sé flestum ákaflega holt að prufa að búa annars staðar, í það minnsta kosti um tíma.  Öll reynsla skilar sér.

Svo er hið fornkveðna, að það sem hentar einum, hentar ekki öðrum og svo framvegis.

Margt er ábyggilega gott í Danmörku, þó að hún hafi aldrei heillað mig, en það hefur líka reynst mörgum gott að byrja á nýjum stað, frá núlli ef svo má að orði komast.

Það er líka sömuleiðis ábyggilega auðveldara fyrir marga að kúpla sig út úr kapphlaupinu, ef svo má að orði komast með því að flytja frá heimahögunum, því margur vandinn er "heimatilbúinn", einfaldlega vegna þess að það verður að taka þátt í "geiminu".

G. Tómas Gunnarsson, 13.9.2007 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband