Færsluflokkur: Viðskipti

Vesturfararnir II

Það er ekki hægt að neita því að það hefur farið nokkuð fyrir Íslenskum fyrirtækjum í Kanada á undanförnum misserum.

Bæði Landsbankinn og Glitnir eru með starfsemi hér (austurströndin og Winnipeg), Eimskip keypti fyrir nokkru Atlas Cold Storage og er nú að bæta við sig öðru kælifyrirtæki, Versacold.

Icelandair er stuttu búið að tilkynna um stóraukið flug til Kanada frá og með næsta vori, í það minnsta 5 til 7 flug á viku til Toronto og verið að athuga með fleiri staði.

Og eins og sjá má á meðfylgjandi frétt eru Íslendingar að taka þátt í þróun jarðvarmanýtingar hér (sem og í Kalíforníu).

Áður hafa Íslensk fyrirtæki starfað hér í fiski og plastframleiðslu og ekki má gleyma Rúmfatalagernum, sem hefur starfað hér (rekinn frá Íslandi) undir nafninu Jysk.  Sjálfsagt eru einhverjir fleiri hér sem ég þekki ekki til.

En ég held að það sé sérstakt ánægjuefni að Íslendingar séu að fjárfesta í jarðvarmafyrirtækjum hér (sem og víðar í heiminum), enda ekki vanþörf á því að nýta þessa auðlind, þekking Íslendinga getur komið hér að góðum notum og það er ekki nokkur spurning að þörf fyrir "græna" orku er gríðarleg hér í Kanada sem annars staðar.

En það vakti nokkra athygli mína hve mismunandi þær eru, fréttin sem þessi færsla er tengd við (og er skrifuð 30. júli) og fréttatilkynningin sem Geopower sendir frá sér (og er birt á föstudaginn 27. júli.).

Í fréttatilkynningunni kemur fram að Geysir sé að kaupa 20. milljón hluti og Glitnir 5. milljón og síðan er reyndar talað um "warranta" til viðbótar. 

Heildarverðmæti þessara 25. milljón hluta er 6,250,000 CAD (CAD .25 á hlut) sem er ca. 362,500,000 ef miðað er við að dollarinn sé 58 krónur.  Hlutur Geysis af þeirri upphæði væri þá ca. 290. milljónir.

Í fréttinni er hins vegar talað um 40. milljón hluti og að verðmætið sé um 600 milljónir ISK.

Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort að búið sé að taka "warrantana" með í frétt mbl.is, eða hvort eitthvað hafi breyst yfir helgina og kaupin verið stækkuð.

Ef ég er eitthvað að misskilja þetta, væri ég að sjálfsögðu glaður ef einhver útskýrði þetta í athugasemdum.


mbl.is Geysir Green kaupir 20% í kanadísku jarðhitafyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað lambakjötið

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir lambakjöt ágætt, ef til vill ekki jafn gott og vel valinn nautavöðvi, nú eða hreindýrakjöt, eða kjöt af villigelti, en samt finnst mér lambakjöt ákaflega gott.

Íslenskt lambakjöt er fínn matur, en sérstaklega hef ég þó hrifist af því þegar búið er að láta það hanga í reyk af þess eigin skít.  Það er "árstíðabundið lostæti" ef svo má að orði komast, enda erfitt að halda jól án þess, vöntun á því á þeim árstíma veldur andlegum erfiðleikum.

Það voru því góðar fréttir sem ég las á visir.is, þess efnis að nú hafi náðst samningar þess efnis að flytja megi umrætt lambakjöt til Kanada.

Það fylgir að vísu með í fréttinni að engin framleiðandi hafi áhuga á því að sinna Kanadamarkaði, en ætli sér að fylgjast með.

Þetta er líklega vandi Íslensks landbúnaðar í nokkurri hnotskurn.  Flestum þykir afurðirnar ágætar, sumar verulega góðar aðrar að vísu síðri, en fáir eru reiðubúnir til að greiða það verð sem Íslenskir bændur þurfa.  Því hefur flest árin verið tap á sölu lambakjöts til Bandaríkjanna og því eðlilegt að afurðastöðvum þyki ekki álitlegt að leggja í markaðssetningu í Kanada.

Það eru þeir sem stendur lítið annað til boða, vegna verndartolla og innflutningshafta, sem kaupa framleiðsluna, borga hana í tveimur hlutum, fyrst með sköttunum sínum og svo "seinnihlutann" við kassann.

Hitt er þó ljóst að alltaf yrði einhver sala í Íslensku lambakjöti, bæði vegna þess að vissulega eru gæðin til staðar og margir yrðu til þess að gera sér dagamun með slíku.  En oft yrði það líka buddan sem myndi ráða, ef ekki væri slík ofur neyslustýring eins og á sér stað í dag.

En það verður ágætt að geta kippt með sér einu og einu hangikjötslæri, svona ef auðvelt verður að verða sér út meðfylgjandi pappíra.  Jafn líklegt er þó að það verði flutt hingað að Bjórá á gamla mátann, þ.e.a.s. smyglað.


Sökudólgurinn?

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig stendur á því að það eru svo margir sem tala sem að ein mesta ógæfa "þriðjaheimsríkja", séu viðskipti við Bandaríkin og önnur Vestræn ríki sem "arðræni" þau og fari illa með þau á flestan máta.

Síðan heyri ég þá sömu jafnvel tala um hve það sé illa gert af Bandríkjunum að eiga ekki viðskipti við Kúbu, og hvað það bitni á efnahag landsins.

Mér finnst alltaf eins og hér sé eitthvað sem ekki gangi upp.


mbl.is Bandaríkjastjórn neitar viðræðum við Raul Castro
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákafur fögnuður

Ég verð að segja að þetta eru bestu fréttir sem ég hef fengið í þó nokkurn tíma.  Nú verður svo mikið auðveldara og þægilegra að ferðast "heim" og aftur "heim".

Það er nefnilega leiðinlegasti hluti hverrar ferðar til Íslands, þegar lagt er upp hér í Toronto, að fara yfir til Bandaríkjanna og upplifa vegabréfaeftirlitið.  Nú lítur út fyrir að bjartari tímar séu framundan.  Ég reikna líka með að Kanadabúar fagni þessari nýjung, enda er þó nokkur áhugi fyrir Íslandi hér.

Ég veit þó ekki hvort að markaður verði til að fljúga til margra borga hér í næsta nágrenni (Ottawa og/eða Montreal) sömuleiðis, en þó er vissulega hægt að gera þetta í "einu flugi", en ég veit þó nokkur dæmi þess að flugfélög millilendi í Montreal á báðum leiðum til og frá Toronto.  Þó að það sé ef til vil örlítið pirrandi, vega önnur þægindi það upp.  Það væri líka möguleiki að millilenda eingöngu suma daga.

En ég fagna þessari ákvörðun Icelandair ákaflega og mun án efa útbreiða fagnaðarerindið á næstu dögum og vikum.

Nú verður einfalt að skreppa til Íslands sem og Evrópuborga með "stop over".

Ég efa heldur ekki að beinu flugi til Winnipeg yrði fagnað ákaflega, enda "þéttleiki" "Íslendinga" líklega hvergi meira en þar, að Íslandi frátöldu.


mbl.is Icelandair hefur áætlunarflug til Toronto næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnaðir Íslendingar

Það telst ekki til tíðinda lengur að Íslendinga sé að finna á listum yfir hina og þessa ríkustu menn heims.

En Kanadískum kunningja mínum fannst þó nokkuð mikið til koma að finna mætti 2(eða 3) Íslendinga á topp 60 yfir ríkustu menn Bretlands.

Hann fylgist örlítið með Íslensku viðskiptalífi (hefur þó að ég held ekki þorað að reyna að fjárfesta á Íslandi enn) og kannast við nokkur nöfn.  Hann sendi mér þessa tengla á "Thor Bjorgolfsson (23)" og þá "Bakkavararbræður (53) ".

En það er líklega rétt hjá honum, það hefði fáum órað fyrir þessu fyrir áratug eða svo, en þetta sýnir kraftinn sem kemur úr Íslensku viðskiptalífi

 


Vogar Alcan sér

Það er gott að fólkið í Vogum er jákvætt.  Það verður fróðlegt að fylgjast með staðarvali Alcan en þeir virðast eiga betri möguleika víðast hvar annars staðar en í Hafnarfirði.

Uppbygging á landfyllingu í Hafnarfirði þykir mér ekki líkleg, en ber vott um nokkra örvæntingu af hálfu Samfylkingarmeirihlutans þar.

Þó að vissulega muni það kosta Alcan meira að loka og byggja annars staðar, heldur en uppbygging í Hafnarfirði kostar, kann það að vera mun fýsilegri kostur til lengri tíma litið, enda vilji fyrirtæki yfirleitt vera þar sem íbúar jafnt sem stjórnendur bæjarfélaga eru jákvæðir gagnvart starfsemi þeirra og hefta ekki stækkunarmöguleika þeirra.

Í ljósi þess má álykta að bæði Vogar og Þorlákshöfn séu álitlegri fyrir Alcan en Hafnarfjörður.


mbl.is Borgarafundur í Vogum veitir bæjarstjórn umboð til viðræðna við Alcan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spakmæli

Spakmælið er að þessu sinni fengið af blogsíðu hér á Moggablogginu, nánar tiltekið af blogsíðu JAX.  Mér finnst þessi setning skemmtilega hnitmiðuð og þó að segja megi að hún sé ekki algild frekar en nokkuð annað, felst í henni mikill sannleikur.

Ég verð í það minnsta kosti að segja að mér þykir þetta vel orðað.

"... fólk hættir ekki hjá fyrirtækjum, það fer frá yfirmönnum!"


Bleikar fjárfestingar

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér þykir það verulega vond hugmynd að setja kynjakvóta fyrir stjórnir fyrirtækja og er í raun hneykslaður að nýr viðskiptaráðherra skuli ljá þeirri hugmynd máls. 

Þar er það líklega Alþýðubandalagsuppruninn sem segir til sín.

Slíkar aðgerðir sem svifta menn í raun ráðstöfunarrétti yfir eigum sínum finnst mér stórvarasamar og ekki eiga neinn rétt á sér.  Þeir sem hætta fé sínu með hlutabréfakaupum eiga að hafa óskoraðan rétt til þess að kjósa sér þá til stjórnarsetu sem þeim sýnist, óháð kyni, aldri eða öðrum skilyrðum af hendi stjórnvalda.

Hitt er svo annað mál, að ef fjárfestar kjósa að hafa eitthvað annað að leiðarljósi við kjör á stjórnarmönnum er þeim það að sjálfsögðu heimilt.

Ég er því með hugmynd fyrir þá sem eru sérstkt áhugafólk um að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. 

"Put your money where your mouth is" og stofnið fjárfestingarsjóð sem hefur það sem yfirlýst markmið að koma konum í stjórnir fyrirtækja.  Notið ykkar eigið fé en reynið ekki að stjórna fjármunum annara.

 Varla þarf að efa að hinn nýji viðskiptaráðherra myndi fjárfesta sinn sparnað í slíkum sjóði.

Sjóðurinn gæti sem best heitið "Bleikar fjárfestingar".

 


Eðlilegt

Það verður að teljast eðlilegt að Alcan velti þeim möguleika fyrir sér að flytja álver sitt úr Hafnarfirði.  Fyrirtæki vilja jú undir flestum kringumstæðum starfa þar sem íbúarnir eru sáttir við að viðkomandi fyrirtæki sé.

Því virðist ekki að heilsa nú um stundir í Hafnarfirði.

Mér þætti ekki ólíklegt að þetta mál eigi eftir að verða Samfylkingunni afar erfitt í næstu bæjarstórnarkosningum í Hafnarfirði, gæti trúað því að þetta yrði til að fella meirihluta þeirra.

Ef álverið ákveður að flytja úr Hafnarfirði þurfa starfsmenn auðvitað að leita sér að nýrri vinnu og það mætti segja mér að það sama gilti um einhverja af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar.

En þeir liggja líklega undir feldi þessa dagana og reyna að finna "eitthvað annað".


mbl.is Alcan á Íslandi skoðar möguleika á að færa álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingasvindlararnir - Blessaður Swindler

Auðvitað er það skiljanlegt að framleiðendur hafi áhyggjur af því að áhorfendur horfi ekki á auglýsingar, það er jú þær sem oft standa undir stærstum hluta framleiðslukostnaðarins. 

Sjálfur kann ég ákaflega vel að meta að horfa á sjónvarpsefni á netinu  (t.d. Silfrið og Kastljós) og geta þannig sleppt því að horfa á auglýsingarnar.  Af sömu ástæðu kaupi ég gjarna þær kvikmyndir sem ég hef áhuga á á DVD (við Bjórárhjónin förum ákaflega sjaldan í kvikmyndahús, sáum síðast Bjólfskviðu), því að horfa á í sjónvarpi er hrein hörmung og hreinlega tímaþjófur.

En það var þó þessi setning eða öllu heldur mannsnafnið sem kemur fram í henni sem vakti mesta athygli mína í þessari frétt.

Við þurfum öll að verða meira skapandi í því hvernig við komum kostun inn í sjónvarpsefni okkar,” segir Ed Swindler, ..."

 Þetta hlýtur að vera erfitt nafn að bera, sérstaklega þó í sjónvarps og auglýsingabransanum, og þó, það vekur vissulega athygli.

En það er gott að hann fór ekki í herinn, Major Swindler hefði eiginlega verið "overkill", General Swindler sömuleiðis.


mbl.is Reynt að koma í veg fyrir að áhorfendur sniðgangi auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband