Á markaðnum í Tallinn

Lífið er frekar ljúft í Tallinn.  Þægilegt og náðugt.  Gærdeginum eyddum við Bjórárhjónin í gönguferð um gamla bæinn hér, eftir að hafa skilið ómegðina eftir í öruggri umsjá afa og ömmu, lúxus sem er því alltof sjaldan á boðstólum.

En gamli bærinn er alltaf jafn fallegur, þó að vissulega sé blettir þar sem annarsstaðar sem betrumbæta má, gott úrval af veitingastöðum, knæpum og kaffishúsum, þannig að ekki þarf að leita langt yfir skammt ef þorstinn gerir vart við sig.

Í gær var handverksmarkaður á torginu, flest sölufólkið klætt upp í samræmi og mikið úrval af handverki alls konar á boðstólum.  Konan keypti línsjöl og eitthvað annað smávegis, en ég var meira á nytsamlegri nótum og keypti villigaltar og dádýrapylsur.  Báðar algert lostæti.

Á markaðnum hittum við eldri hjón sem voru að skoða prjónlesið um leið og konan.  Þegar þau byrjuðu að spjalla saman og þegjandalegheitin í mér voru útskýrð með því að ég væri frá Íslandi og kynni ekkert í Eistnesku, vildu þau endilega taka í hendina á mér og þakka fyrir sig.  Stuðningur Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu Eistlands og að við skyldum vera fyrsta þjóðin til að viðurkenna endurheimt sjálfstæðis þeirra var þeim í fersku minni.  Þau sögðust ekki reikna með því að hitta neinn "offísíelt" Íslending, þannig að þakkirnir yrðu lagðar fram við mig.

Slíkar þakkir fékk ég oft þegar ég kom hér fyrst 2003, og fólkið hér gleymir ekki svo glatt því sem vel er við það gjört.

Síðan tók ég með með mér fasteignablað "heim" að lesa.  Fasteignamarkaðurinn hér hefur fallið um u.þ.b. 8 til 15%, mismunandi eftir hverfum, síðustu 12 mánuði.  Vissulega er það erfitt fyrir marga, en hér var verð orðið, og er að mörgu leyti enn, himinhátt og eiga flestir von á því að það falli meira.

Fólkið hér (alla vegna nágrannarnir sem ég hef hitt) virðist þó flest hafa skilning á því að það sé eðlilegt að leiðréttingar eigi sér stað og engan hef ég heyrt tala um að hið opinbera ætti að grípa inn í til að viðhalda háu verði.

En Bjórárfólkið hefur það allt ljómandi gott hér, börnin eltast við hunda og ketti nágrannana, sólin skín og grasið er grænt.  Ölið er líka ódýrt.

P.S.  Fljótlega reyni ég að setja eitthvað af myndum inn hér og/eða á Flickr síðuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband