Að lokinni Íslandsferð

Fjölskyldan að Bjórá fór eins og ýmsum er kunnugt til Ísland nú í apríl og skilaði sér heim aftur stuttu fyrir mánaðarmótin.

Húsfreyjan hélt reyndar lengra, því hún fór alla leið til Eistlands, en eyddi síðustu vikunni með fjölskyldunni á Íslandi.

Þessi ferð var eins og aðrar Íslandsferðir ákaflega ánægjuleg, það er enda alltaf gleðiefni að heimsækja uppeldisstöðvarnar (svona eins og laxinn) og skemmta sér með vinum og ættingjum.  Í þessarri ferð gat síðuskrifari notað tækifærið og kosið, þó að ekki hafi úrslitin í þeim kosningum orðið honum að skapi.

En stærsti munurinn á þessarri ferð og þeim Íslandsferðum sem áður hafa verið farnar var verðlagið á Íslandi.  Kreppan hefur gert það að verkum að munurinn á verðlagi á Íslandi og hér í Toronto er ekki mikill og getur jafnvel lagst með Íslandi á stundum.

Að fara með fjölskylduna á kaffihús kostar svipaða upphæð, skartgripir og annað slíkt sem unnið er á Íslandi er á mjög samkeppnishæfu verði (líklega ódýrara ef reynt er að taka tillit til gæða) og svo mætti lengi telja.  Ísland býður þó enn þá upp á afgerandi dýrara bensín, en munurinn er þó minni en oft áður.

Það er líka rétt að hafa í huga að þó að mér hafi fundist það ógnarhá upphæð að borga 6400 fyrir okkur hjónin ofan í Bláa lónið, þá rukka gufubaðsstofur hér í borg gjarna u.þ.b. 30 dollara fyrir innganginn.  Í þeim samanburði er aðgangseyrir Bláa lónsins ekki aðeins sanngjarn, heldur hreint og beint gjafverð.

Það er því ljóst að semkeppnisstaða Íslands sem ferðamannalands hefur sjaldan ef nokkurn tíma verið betri.

Enda hefur mikill fjöldi Kanadabúa hug á Íslandsferð í sumar, jafnvel einstaklingar sem hafa látið sig dreyma um það árum saman.  Nú segjast þeir hafa efni á þvi að fara til Íslands. 

Nokkrir hafa meira að segja haft samband við mig á undanförnum mánuðum og spurt hvar þeir gæti keypt krónur.  Þeir vilja "festa gengið", kaupa á meðan gengið er lágt, því í það minnsta sumir þeirra hafa fulla trú á því að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband