Færsluflokkur: Menning og listir

Pólítísk rétthugsun og sjálfsritskoðun

Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að þetta er eingöngu skoðun einstaklings, sem líklega er engin leið að dæma hvort að sé rétt eða röng. En sú skoðun Salman Rushdie að skáldsaga hans, Sðngvar Satans fengist ekki útgefin í því andrúmslofti sem ríkjandi er í dag, er ástæða til að staldra við.

Staðan í dag virðist vera sú að það eru ekki margir sem eru reiðubúnir til að standa gegn ofbeldisfullum tilraunum til ritskoðunar og takmarkana á mál og tjáningarfrelsi.

Pólítískur réttrúnaður og sjálfritskoðun virðast vera "möntrur" dagsins.  Taugaveiklun og löngun til að friða þá er beita ofbeldi og hótunum virðist ráðandi.

Ofbeldið ryður bæði réttrúnaðinum og sjálfsritskoðuninni veg.

Að sjálfsögðu er lélegar kvikmyndir engin glæpur, skop og grínmyndir eru það ekki heldur.  Rangar skoðanir eiga heldur ekki að þurfa að kalla fram ofsafengnar skoðanir.  Auðvitað á að vera jafn sjálfsagt að gera grín að trúarbrögðum og öllu öðru.  Gagnrýni á þau á að vera jafn sjálfsögð. Trúarbrögð eru hvorki utan né ofan við lífið.

Við eigum ekki að reyna að friðþægja og þóknast þeim sem kjósa að beita ofbeldi og hótunum.

Ég læt fylgja hér með brot úr tveimur kvikmyndum sem hafa skemmt mér í gegnum tíðina, bæði oft og lengi.

  

 


mbl.is Fengist ekki gefin út í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðsöngurinn í bjór og moll

Þjóðhátíðardagur Kanada var í gær. Því er frí hér í dag (hljómar svolítið skringilega ekki satt?). Af tilefni dagsins lét Molson bjórframleiðandinn gera auglýsingu, þar sem Kanadíski þjóðsöngurinn er leikinn á hljóðfæri sem eru öll smíðuð úr bjórumbúðum.

Skemmtilega "orginal" auglýsing.

Til þess að allt sé upp á borðum, er rétt að taka fram að ég hef hér engra hagsmuna að gæta, á engin hlutabréf í Molson, né drekk þá tegund af bjór.

Hitt má líka koma fram að vinur minn og ættingi, Kyle Guðmundson, sem er nýfluttur aftur til Kanada eftir að hafa búið á Íslandi um nokkurra ára skeið, vann að auglýsingunni.


Inspired by Iceland

Það er búið að vera hljótt á þessu bloggi um nokkra hríð.  Annir og þvælingur hefur aftrað skriftum hér.  En ég hitti nokkuð af fólki á þessum þvælingi.

Meðal þeirra sem ég hitti var kunningi minn, kona ríflega sjötug, af Íslenskum ættum í 4ja eða fimmta lið.  Hún hefur oft farið til Íslands á undanförnum árum og hrifist af landi og þjóð.  Meðal þess sem hún hefur notið er að fara í sundlaugarnar og sitja í pottunum.

En næst vildi hún geta stigið skrefið til fulls og fara í laugina.  Því er þessi eldri kona, borin og barnfædd hér á Kanadísku sléttunum komin á sundnámskeið í fyrsta sinn.  Til að geta farið í laugina næst þegar hún fer til Íslands.

"Inspirasjónin" getur verið með ýmsu móti.

 


Stjórnmálaskoðanir rithöfunda

Það virðist ýmsum finnast það merkilegra að rithöfundar hafi stjórnmálaskoðanir en aðrir Íslendingar.

Það er ef vill ekki úr vegi að hafa það í huga að merkilegir og háverðlaunaðir rithöfundar hafa í gegnum tíðina haft stjórnmálaskoðanir og predikað þær af ákafa.

Sumir þeirra hafa jafnvel verið það stórar persónur að þeir hafa beðist afsökunar á þeim síðar á lífsleiðinni.  Aðrir hafa látið það ógert.

Ég get því ekki fundið nokkra ástæðu til að taka pólítísk skrif rithöfunda alvarlegar en skrif annarra Íslendinga.

Vissulega er þau oft betur færð í stílinn, en einhverra hluta vegna hef ég tamið mér að hafa vara á gagnvart þeim.


Letter in Icelandic from the Ninette San

Kunningi minn sendi mér þetta lag í kvöld.  Taldi að þetta hlyti að vera eitthvað fyrir mig.  Iceland í titlinum eins og hann orðaði það. En flytjandi lagsins er  John K. Samson og lagið heitir Letter in Icelandic from the Ninette San.  Þess má geta að Káið í nafni flytjandans stendur fyrir Kristjan.

Ég þekki ekkert til hans en hann ku vera þekktur tónlistarmaður hér í Kanada, aðallega fyrir veru sína í hljómsveitinni Weakerthans, sem er frá Manitoba og nýtur vinsælda hér í Kanada.

En lagið er af væntanlegri sólóplötu John K. Samson, sem mun heita Provincial.

Texti lagsins mun vera saminn upp úr bréfum sem sjúklingur á berklasjúkrahúsi í bænum Ninette (Ninette Sanitorium) í Manitoba skrifaði og voru á Íslensku.  Þegar hlustað er á textann má heyra minnst á Gretti Ásmundsson, Drangey, sem og elliheimilið Betel, sem líklega er elliheimilið í Gimli.

Ef einhver vill frekar hlusta á endanlegu útgáfuna eins og hún er á hljómplötunni, sem er væntanleg þann 24. janúar næstkomandi, þá er hún hér fyrir neðan.


Stekkjastaur er útrásarvíkingur

Hann, ásamt bræðrum sínum hefur komið við hér í Kanada undanfarin ár við mikinn fögnð innfæddra hér að Bjórá.  Hér fá allir íbúar litlar gjafir í skó eða glugga ef hegðun þeirra hefur verið með ágætum.

Sem reyndist niðurstaðan í morgun.


mbl.is Stekkjarstaur kominn til byggða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Íslending að Íslendingi?

Þegar ég var að þvælast um bloggið hér á blog.is, eftir að hafa komið konunni og börnunum í bólið, þá rakst ég á blogg, Tryggva Gíslasonar fyrrverandi skólameistarara, þar sem hann veltir fyrir sér spurningunni, hvað gerir Íslendinga að Íslendingum?

Ef ég skil niðurstöðu hans rétt, þá telur hann að svarið við þessu sé tungumálið, það að tala Íslensku geri okkur að Íslendingum.  Eins og títt er um góðar spurningar og skemmtileg blogg, fékk þetta mig til að hugsa.  Reyndar hef ég oft verið að velta svipuðuðum spurningum fyrir mér.  Ég var  að hugsa um að setja inn stutt svar, en sá fljótt að betra væri að setja þetta hér inn á mínum eigin vegum, enda óx svarið eins og skuggi þegar sólin tekur að setjast.

Ekki ætla ég að mótmæla því að tungumálið er mikilvægt í sjálfsvitund hvers einstaklings.  En ég held að þjóðarvitund, eða það sem fær okkur til að líta svo að að við tilheyrum einhverri þjóð sé mun flóknara, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum nú.

Persónulega mun ég líklega aldrei hætta að hugsa um mig sem Íslending. Þó að árin sem ég hef dvalið erlendis séu að nálgast tuginn, breytist það ekki.  Ég tala tungumálið, ein af meginástæðum þess að ég byrjaði að blogga hér var að mér fannst að ég þyrfti á vettvangi að halda  þar sem ég notaði Íslensku, hugsaði á Íslensku og skrifaði á Íslensku, en er það nóg til að gera mig að Íslending?  Dags daglega nota ég málið eingöngu þegar ég tala við börnin mín.  Þó að börnin séu skemmtileg viðræðu, þá bjóða þær samræður ekki upp á Íslenskan veruleika, eða verulega "flóknar" samræður, enda börnin ung að aldri.

En eru þau Íslendingar?

Bæði tala ágætis Íslensku, þó að stundum eigi þau erfitt með að finna Íslensk orð til að lýsa upplifunum sínum.  En þau tala jafnhendis Eistnesku, Ensku og því sem næst Frönsku.  Það gerir þau ekki að Eistlendingum, Kanadamönnum eða Quebecbúum, ef svo mætti að orði komast.

Líklega mætti segja að þau séu Kanadamenn, enda upplifun þeirra og lífreynsla eðilega líkust og hjá þeim sem hér hafa alist upp í nágrenninu.

Ef till vill eru minningarnar, upplifunin og samkenndin það sem fær okkur til að líta svo á að við tilheyrum tiltekinni þjóð, þó að vissulega spili tungumál þar inn í.

Í þessu sambandi kemur mér líka oft í hug þegar við heldum vestur á bóginn til Manitoba árið 2007.  Þar á ég, eins og svo margir Íslendingar, nokkuð stóran frændgarð.  Þar hittum við fyrir ættingja á ýmsum aldri, en sá eftirminnilegasti var frændi minn ríflega níræður.  Hann talaði reiprennandi Íslensku (þó að hann ætti í erfiðleikum með orð yfir tækninýjungar og annað slíkt) og bakaði handa okkur pönnukökur af mikilli list.   Hann var fæddur í Kanada en hafði margsinnis ferðast til Íslands og enginn vafi var á þvi hve vænt honum þótti um landið.  Samt fannst mér augljóst að hann hugsaði um sjálfan sig sem Kanadamann, þó að ræturnar toguðu í hann.

En hvað gerir okkur þá að Íslendingum?

Er nóg að sakna fjallanna og heita vatnsins hér á flatlendinu?  Telur það að horfa á Íslenskar fréttir og hvetja börnin sín til að horfa á Stundina okkar á netinu?  Eða kemur fleira til?

Ég held að ég verði aldrei Kanadamaður.  Það má til dæmis merkja á því að þegar ég er staddur í samkvæmum með þeim og sagðar eru gamansögur sem ég skil ekki.  Ekki vegna þess að ég skilji ekki það sem sagt er, heldur vegna þess að ég hef ekki upplifað "samfélagið" sem býr að baki.  Grínið tengist t.d. einhverju sem "allir" Kanadamenn á mínum aldri hafa upplifað í "High school".

Þess vegna held ég að það sumu leyti breytist það, hvað það er að vera Íslendingur með hverri kynslóð.  Rétt eins og tungumálið, það breytist sömuleiðis með hverri kynslóð.  Ekki þannig að um nýtt tungumál sé að ræða, heldur hefur það þróast.

Það að vera Íslendingur fyrir mína kynslóð er því margbreytilegt, allt frá því að muna eftir bröndurunum sem Glámur og Skrámur sögðu, eða að hafa dansað við Can´t Walk Away (hveru óíslendingslegt er það nú að hafa enskan titil) með Hebba, að hafa staðið eftir ball í biðröð við bæjarins bestu, eða að muna hvar maður var staddur þegar Íslenska handboltalandsliðið vann silfur á Ólympíuleikunum (persónulega hef ég ekki hugmynd), og svona mætti lengi telja.  En það er örugglega hægt að vera Íslendingur án þess að eiga nokkra slíkar minningar.

Ég held að það að vera Íslendingur sé upplifun.  Það sama gildir auðvitað um aðrar þjóðir.  Það eitt að flytja á milli landa og/eða skipta um ríkisborgararétt gerir þig ekki "þarlendan".

Þess vegna er ekki hægt að kenna neinum að vera Íslendingur, en ef honum finnst það sjálfum og segir "ég er Íslendingur", og virkilega meinar það,  þá er hann það.

En auðvitað er þetta allt tengt eigin upplifunum og vonum.  Í mínu tilfelli ef til vill ekki hvað síst þeirri von að börnin mín eigi einhvern tíma eftir að segja, land míns föður er líka landið mitt.

 


Milljón dollara peningur

Fyrir mörgum árum las ég söguna um milljón punda seðilinn eftir Mark Twain og hafði gaman af.  Hér og þar um heiminn hafa verið búnir til seðlar með milljón eða meira að nafnvirði en það hafa að ekki verið merkilegir pappírar ef svo má að orði komast.

En hér í Kanada er hefur myntsláttan framleitt gullpening sem er milljón dollarar að nafnvirði.  100 kíló af gulli fer í hvern og einn, eða 3.215 únsur.  Verðmæti gullsins eins og sér er því u.þ.b. 5 og hálf milljón dollara.  Framleiðlsla þeirra hófst árið 2007 og eru 5 eintök seld.

En fyrir þá sem eiga ekki alveg nógu mikið aflögu til að kaupa 100 kg pening, þá eru eru einnig framleiddir 10. kg peningar.  Nafnvirði þeirra er 100.000 dollarar og verðmæti gullsins væri ekki nema 550.000 dollarar.  Ekki verða framleiddir nema að hámarki 15. eintök.

En það verður að segjast eins og er að þessir peningar eru listasmíði.


Bara að eyða nóg, þá streymir féð inn og allt verður í himnalagi

Það líður varla sú vika held ég að ég sjái ekki fullyrðingar svipaðar þeim sem hér eru settar fram.  Það þarf eingöngu að auka opinbera styrki í þetta nú eða hitt, þá streyma peningar inn og ríkið og þegnarnir ættu að geta lifað hamingjusamir æ eftir.

En þrátt fyrir að nokkuð sé langt um liðið frá því að ég heyrði slíkar fullyrðingar fyrst og framlög til hinna ýmsu listgreina og "góðra málefna" hafi í mörgum tilfellum stóraukist, þá lætur "blómaskeiðið" af einhverjum orsökum standa á sér.

Kvikmyndir eru vissulega allra góðra gjalda verðar, veita bæði vinnu og ánægju (margar hverjar alla vegna).  En ég er þó hræddur um að það dugi skammt að stórauka framlög til kvikmyndagerðar og bíða svo eftir því að fjármunir sprautist í hagkerfið og ríkiskassann.

Það sem vantar að tala um í þessum útreikningum, er hve mikill hluti af kvikmyndageiranum hyrfi ef engir væru ríkisstyrkirnir?  Nú eða ef styrkirnir yrðu dregnir saman um 20%, nú eða 50%? Hvaða tölur eru inn í útreikningum um veltu kvikmyndageirans og hvernig skiptast þær?  Hve stór hluti af kvikmyndageiranum felst t.d. í auglýsingagerð?  Varla er ástæða til að styrkja hana, eða telja hana til margfeldisáhrifa af ríkisstyrkjunum, eða hvað?

Varla hyrfi kvikmyndageirinn, ef ríkisstyrkir hyrfu, þó að vissulega sé líklegt að umsvifin yrðu eitthvað minni. 

En líklega verða þessir útreikningar núverandi ríkisstjórn hvatning til þess að stórauka framlag til kvikmyndagerðar sem og annarrar listsköpunar, ríkið þarf svo sannarlega á fimmföldun peninga sinna að halda.


mbl.is Hver króna kemur fimmfalt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bernaise borgarar - 30 ára gömul nýjung?

Sá á netinu að verið var að tala um Bernaise sósu á hamborgara sem merkilega nýjung.

Ætli það séu ekki u.þ.b. 30 ár síðan ég keypti fyrst hamborgara með bernaise á veitingastað á Íslandi.  Það var auðvitað á Bautanum á Akureyri, en Smiðjuborgarinn sem þar var lengi á matseðlinum (er ef til vill enn), var með sveppum og bernaisesósu.

Akureyringar enda löngum staðið framarlega í nýjungum hvað hamborgarna varðar, sbr. franskar á milli o.s.frv.

En ég gæti alveg torgað einum Smiðjuborgara akkúrat núna, svona getur netið vakið hungur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband