Hvað gerir Íslending að Íslendingi?

Þegar ég var að þvælast um bloggið hér á blog.is, eftir að hafa komið konunni og börnunum í bólið, þá rakst ég á blogg, Tryggva Gíslasonar fyrrverandi skólameistarara, þar sem hann veltir fyrir sér spurningunni, hvað gerir Íslendinga að Íslendingum?

Ef ég skil niðurstöðu hans rétt, þá telur hann að svarið við þessu sé tungumálið, það að tala Íslensku geri okkur að Íslendingum.  Eins og títt er um góðar spurningar og skemmtileg blogg, fékk þetta mig til að hugsa.  Reyndar hef ég oft verið að velta svipuðuðum spurningum fyrir mér.  Ég var  að hugsa um að setja inn stutt svar, en sá fljótt að betra væri að setja þetta hér inn á mínum eigin vegum, enda óx svarið eins og skuggi þegar sólin tekur að setjast.

Ekki ætla ég að mótmæla því að tungumálið er mikilvægt í sjálfsvitund hvers einstaklings.  En ég held að þjóðarvitund, eða það sem fær okkur til að líta svo að að við tilheyrum einhverri þjóð sé mun flóknara, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum nú.

Persónulega mun ég líklega aldrei hætta að hugsa um mig sem Íslending. Þó að árin sem ég hef dvalið erlendis séu að nálgast tuginn, breytist það ekki.  Ég tala tungumálið, ein af meginástæðum þess að ég byrjaði að blogga hér var að mér fannst að ég þyrfti á vettvangi að halda  þar sem ég notaði Íslensku, hugsaði á Íslensku og skrifaði á Íslensku, en er það nóg til að gera mig að Íslending?  Dags daglega nota ég málið eingöngu þegar ég tala við börnin mín.  Þó að börnin séu skemmtileg viðræðu, þá bjóða þær samræður ekki upp á Íslenskan veruleika, eða verulega "flóknar" samræður, enda börnin ung að aldri.

En eru þau Íslendingar?

Bæði tala ágætis Íslensku, þó að stundum eigi þau erfitt með að finna Íslensk orð til að lýsa upplifunum sínum.  En þau tala jafnhendis Eistnesku, Ensku og því sem næst Frönsku.  Það gerir þau ekki að Eistlendingum, Kanadamönnum eða Quebecbúum, ef svo mætti að orði komast.

Líklega mætti segja að þau séu Kanadamenn, enda upplifun þeirra og lífreynsla eðilega líkust og hjá þeim sem hér hafa alist upp í nágrenninu.

Ef till vill eru minningarnar, upplifunin og samkenndin það sem fær okkur til að líta svo á að við tilheyrum tiltekinni þjóð, þó að vissulega spili tungumál þar inn í.

Í þessu sambandi kemur mér líka oft í hug þegar við heldum vestur á bóginn til Manitoba árið 2007.  Þar á ég, eins og svo margir Íslendingar, nokkuð stóran frændgarð.  Þar hittum við fyrir ættingja á ýmsum aldri, en sá eftirminnilegasti var frændi minn ríflega níræður.  Hann talaði reiprennandi Íslensku (þó að hann ætti í erfiðleikum með orð yfir tækninýjungar og annað slíkt) og bakaði handa okkur pönnukökur af mikilli list.   Hann var fæddur í Kanada en hafði margsinnis ferðast til Íslands og enginn vafi var á þvi hve vænt honum þótti um landið.  Samt fannst mér augljóst að hann hugsaði um sjálfan sig sem Kanadamann, þó að ræturnar toguðu í hann.

En hvað gerir okkur þá að Íslendingum?

Er nóg að sakna fjallanna og heita vatnsins hér á flatlendinu?  Telur það að horfa á Íslenskar fréttir og hvetja börnin sín til að horfa á Stundina okkar á netinu?  Eða kemur fleira til?

Ég held að ég verði aldrei Kanadamaður.  Það má til dæmis merkja á því að þegar ég er staddur í samkvæmum með þeim og sagðar eru gamansögur sem ég skil ekki.  Ekki vegna þess að ég skilji ekki það sem sagt er, heldur vegna þess að ég hef ekki upplifað "samfélagið" sem býr að baki.  Grínið tengist t.d. einhverju sem "allir" Kanadamenn á mínum aldri hafa upplifað í "High school".

Þess vegna held ég að það sumu leyti breytist það, hvað það er að vera Íslendingur með hverri kynslóð.  Rétt eins og tungumálið, það breytist sömuleiðis með hverri kynslóð.  Ekki þannig að um nýtt tungumál sé að ræða, heldur hefur það þróast.

Það að vera Íslendingur fyrir mína kynslóð er því margbreytilegt, allt frá því að muna eftir bröndurunum sem Glámur og Skrámur sögðu, eða að hafa dansað við Can´t Walk Away (hveru óíslendingslegt er það nú að hafa enskan titil) með Hebba, að hafa staðið eftir ball í biðröð við bæjarins bestu, eða að muna hvar maður var staddur þegar Íslenska handboltalandsliðið vann silfur á Ólympíuleikunum (persónulega hef ég ekki hugmynd), og svona mætti lengi telja.  En það er örugglega hægt að vera Íslendingur án þess að eiga nokkra slíkar minningar.

Ég held að það að vera Íslendingur sé upplifun.  Það sama gildir auðvitað um aðrar þjóðir.  Það eitt að flytja á milli landa og/eða skipta um ríkisborgararétt gerir þig ekki "þarlendan".

Þess vegna er ekki hægt að kenna neinum að vera Íslendingur, en ef honum finnst það sjálfum og segir "ég er Íslendingur", og virkilega meinar það,  þá er hann það.

En auðvitað er þetta allt tengt eigin upplifunum og vonum.  Í mínu tilfelli ef til vill ekki hvað síst þeirri von að börnin mín eigi einhvern tíma eftir að segja, land míns föður er líka landið mitt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég get engu við þetta bætt nema að þakka þér fyrir þessi einlægu og góðu skrif. Já fallegu skrif.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.12.2011 kl. 03:57

2 identicon

Mjög áhugaverð lesning fyrir mig. Börn okkar eiga tungumálin sameiginleg fyrir utan frönsku reyndar. 4 tungumál er nú ekki slæmt veganesti. Takk fyrir pistilinn

Gunnhildur (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 08:20

3 identicon

Ágætar hugleiðingar. Það er eðlilegt að þú véfengir að það sé bara Íslenskan sem geri okkur að Íslendingum, færir góð rök fyrir því. Svo má spyrja sig að þvi, hvað er að vera Íslendingur? Svona áður en maður veltir fyrir sér hvað gerir mann að Íslendingi. En þetta með sameiginlegar upplifanir er líka góður punktur. Það eru t.d. ekki nema Íslendingar (á vissum aldri) sem skilja tilvitnanir í Halla og Ladda! 

Takk fyrir góðan pistil.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 09:25

4 identicon

Fer þetta ekki einnig eftir því hvernig þjóðfélagið tekur við þér sem útlendingi?

Útlendingur getur talað málið en hann verður kanski aldrei einn af "innlendingunum" því hann er útlenskur.

Þá skiptir í raun litlur máli hvort útlendingnum finnst hann vera orðinn innlendingur.

Stefán (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 11:42

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Takk fyrir innlitin.  Það eru svo ótal margir þættir sem spila inn í held ég, en ég held persónulega að upplifunin sé hvað sterkust.

Þó að mótttökur heimamanna séu vissulega mikilvægar, þá held ég að þær dugi ekki til, hvorki til að gera einhvern að "heimamanni" eða til að neita einhverjum um það. 

Mér finnst ég sjá þetta mikið í kringum mig hér í Kanada.   Hér eru samankomnir einstakliingar hvaðan æva að og mýmörg sterk "átthagasamfélög".  Mér finnst ég sjá það mjög oft að það er einstaklingurinn sjálfur sem hefur ákveðið hvort að hann sé Kanadamaður eður ei. Upplifi hann sig sem slíkan verður það ekki tekið so auðveldlega í burtu.  En ég hygg að fæstir 1. kynslóðar innflytjendur nái þeirri upplifun og jafnvel að flestir þeirra sækist ekki eftir henni.

En Kanada er opið land, í fleiri en einum skilningi.  Að flytja til einlits og lokaðs land er ábyggilega öðruvísi og erfiðari upplifun.

En þegar rætt er um þjóðerni og tungumál er auðvitað gott að velta fyir sér spurningum eins og hvenær hættu Ástralíubúar að vera Bretar og urðu Ástralíumenn?  Og hvað olli muninum?  Hlýtur það ekki að stóru leyti að hafa verið umhverfi og sameiginlegar upplifanir sem ullu þeirri breytingu?

G. Tómas Gunnarsson, 4.12.2011 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband