Færsluflokkur: Menning og listir

Ef það kemur í ljós að eitthvað sé hugsanlega rangt...

Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af eða talsmaður þess sem gjarna er kallað "fjölmenningarsamfélag", allra síst hjá smáum og fámennum þjóðum.  Það er þó rétt að hafa í huga að skilgreining á "fjölmenningarsamfélagi" er nokkuð á reiki, og ekki alltaf ljóst hvort að einstaklingar séu að tala um  nákvamlega sama hlutinn.

Oft virkar þetta sem það sem kalla má illa skilgreindur "frasi".

Það er líka rétt að hafa í hug að þó að talað sé um "eina menningu", þýðir það ekki að ólíkir, framandi menningarstraumar og áhrif, séu ekki velkomnin og raunar nauðsynleg, nú sem endranær.  Og í flestum ef ekki öllum samfélögum finnast mismunandi "menningarkimar" og hafa alltaf gert.

En mér finnst ég verða var við nokkra hugarfarsbreytingu, hér og þar á netinu undanfarna daga og ýmsir sem hafa talað fyrir "fjölmenningarsamfélagi" séu orðnir efins, eða vilji að meiri "aðlögun" eigi sér stað.

Þó að vissulega rétt að taka mið af slíkum sinnaskiptum, er rétt að hafa eftirfarandi í huga.

Þegar tveir eða fleiri skiptast á skoðunum, og í ljós kemur að ein skoðunin sé röng, eða sá sem hefur haldið henni fram viðurkennir það, þýðir það ekki að hin, eða hinar skoðanirnar séu sjálfkrafa réttar.

Stundum þarf að hugsa málið alveg upp á nýtt.

 

 


Takk fyrir mig: Loksins las ég Spegilinn. Ábyrgðarmenn blaðsins hefðu vissulega mátt eiga von á lögsókn, en ...

Er er ekki vantrúarmaður, hvorki með litlum eða stórum staf.  Það er enda ekkert "van" við mína trú, hún einfaldlega er ekki.  Ég hef aldrei fundið hvöt hjá mér til að bindast neinum félagsskap um það.

En ég hef vissulega heyrt af félagsskapnum Vantrú. Oft hef ég haft gaman og stundum gagn af því sem þeir hafa sagt og tekið sér fyrir hendur.

Og þó að ég sé ekki endilega alltaf sammála þeim, finnst mér barátta þeirra í heildina af hinu góða.  Málstaður samtakanna er oftar en ekki jafnrétti (jafnrétti snýst um mikið meira en kyn) og réttlæti, alla vegna svo að ég hafi séð til.

Og nú birtu þeir "bannaða Spegilinn" á blogginu sínu og kann ég þeim bestu þakkir fyir það.  Ég hafði aldrei séð það áður og hefði líklega, eins og gengur, ekki sýnt því mikinn áhuga, ef ekki hefði komið til bannsins.  Það er líka umhugsunarvert.

Nú er ég auðvitað búinn að hlaða því niður.  Það er líklega ekki refsivert af minni hálfu, enda bý ég erlendis, en vissulega gæti Vantrú lent í vandræðum vegna dreifingar.  Líklega eru þeir undir það búnir.

Ég er ekki búinn að lesa blaðið spaldanna á milli, en glugga í það og lesa margt.

Persónulega get ég ekki séð neina ástæðu til að gera mikið veður út af efni blaðsins.  Það er sumt fyndið, sumt ef til vill rætið, sumt smekklítið eða laust og svo fram eftir götunum. 

Það er þó auðvelt að sjá að hægt sé að beita "guðlastslögunum" gegn blaðinu.

En, í blaðinu er mikið um nafn eða myndbirtingar af þekktum aðilum og skopast af því af miklum móð. Slíkt er í sjálfu sér ekki óeðlilegt en getur verið afar móðgandi og jafnvel særandi.

Einstaklingur sem verður fyrir slíku á að sjálfsögðu rétt á því að kæra til dómstóla ef hann telur sig verða fyrir ærumeiðingum.  Það er réttur hvers og eins.

En það kann að líta út fyrir að vera nokkuð "smásálarlegt".  Og fyrir marga er sálin mikilvæg og jafnvel mikilvægara að hún sé ekki talin lítil.

Því var það að mér flaug strax í hug eftir að hafa gluggað í Spegilinn að líklegasta atburðarásin í málinu hefði verið sú að móðgaður einstaklingur, hefði viljað forðast að líta út sem smásál, og frekar kosið að kæra fyrir guðlast.

Er reynt er að hugsa 30 ár aftur í tímann, tel ég yfirgnæfandi líkur á því að margir af nafngreindum einstklingum hefðu getað unnið meiðyrðamál gegn Speglinum. 

En það er ólíklegt að reisn eða orðspor viðkomandi hefði aukist.

Sé litið til nýjasta meiðyrðamáls sem ég hef lesið um á Íslandi, verður hins vegar að teljast líklegra að Spegillinn hefði verið sýknaður.

En þó af ólíkum ástæðum sé, ættu allir að geta sammælst um að lögin um guðlast eru óþörf.  Trúleysingar af augljósum ástæðum, en þeir sem trúa, telja sig líklega vita að guð dæmir alla, bæði lifendur og dauða, þó að síðar verði.

Það ætti því að vera óþarfi að skjóta móðgunum í hans garð til jarðneskra dómstóla.

Þeir eru hins vegar meðal annars fyrir þá sem telja sig verða fyrir meiðyrðum eða mannorðsárásum.

 

 

 

 


Fullur sómi

Mér sýnist af þessari frétt, að fullur sómi hafi verið af þessari samkomu, bæði fyrir Sjallann og Stuðmenn, sem og alla aðra sem að henni komu og lögðu fram krafta sína.

Eini mínusinn, fyir mig persónulega, er að hafa ekki verið þar :-)

En það getur í kosmísku samhengi, ekki talist stór, ef nokkur galli á samkomunni.

En mikið væri ég til í að lesa allan bálkinn sem Valgeir flutti til Sjallans.  Og ekki væri verra, ef einhver hefði tekið upp þegar þeir fluttu hann með sínu eðalborna undirspili.

En það er ef til vill til of mikils mælst og óþarfa bjartsýni.

 

 


mbl.is Sjallinn lifir áfram í Akureyrarhjörtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur einhver útskýrt þennan texta fyrir mig?

Kunningi minn sendi mér eftirfarandi texta, sem hann hafði séð á vefsíðu DV.  Þar er fjallað um breytingar á höfundaréttarlögum.  Textinn er svohljóðandi:

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu stendur nú yfir vinna um breytingar á höfundaréttarlögum. Í umræðum um gagnasafn Ríkisúvarpsins á Alþingi í síðustu viku upplýsti Illugi Gunnarsson að til stæði að lengja gildistíma höfundaréttar: „Meðal annars vegna þess að listamennirnir eru farnir að lifa lengur en áður, þeir eru farnir að lifa heilbrigðara lífi og nauðsynlegt að tryggja það að höfundarétturinn hverfi ekki á meðan að listamennirnir eru á lífi.“ Samkvæmt 43. grein gildandi höfundalaga helst höfundaréttur gildur uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar.

Það er gott að listamenn séu farnir að lifa heilbrigðara lífi.  Því fagna allir og höfðu beðið eftir í ofvæni.  En hvernig það veldur því að þurfi að lengja gildistíma höfundaréttar, sem er bundinn við ákveðinn árafjölda eftir andlát listamannsins, er mér hulinn ráðgáta.

Er einhver ástæða til að breyta því, eða er of lítið að gera í ráðuneytunum?

 


Vesturfararnir

Ég hef verið örlítið slappur til heilsunnar undanfarna daga og eyddi því gærdeginum að miklu leyti í rúminu.

Til að stytta mér stundir ákvað ég að horfa á Vesturfarana, þætti Egils Helgasonar um byggðir Vestur Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum.

Horfði á alla 7 þættina nokkurn veginn í striklotu.

Það er skemmst frá því að segja að ég hafði verulega gaman af.  Þættirnir eru vel gerðir og skemmtilega framsettir.

Ef ég ætti að gagnrýna eitthvað, er það ef til vill sá ofurþungi sem er á menningarlíf vesturfarana, en yfir hið efnahagslega er farið í fljótheitum.  Áhorfandinn er litlu nær um þá erfiðleika sem blöstu við bændum á Nýja Íslandi í upphafi.

Annað atriði sem mér þykir að hefði mátt minnast á, er Kinmount og sorgarsaga þeirra sem þangað fóru, áður en þeir komu til Manitoba.  Kinmount var nefnt einu sinni, í "Fjallkonuþættinum", en það var allt og sumt, í það minnsta að ég tók eftir.

Reyndar hefur mér oft verið sagt að Íslendingarnir sem fóru frá Kinmount, hafi lítið sem ekkert viljað tala um þá reynslu.  Þar létust margir tugir Íslendinga, að stórum hluta börn og voru skilin eftir í ómerktum gröfum.  Því er sagt að þeir hafi reynt að gleyma þeim kafla eins og auðið var.

AUT 0104AUT 0106

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nú stendur þar minnismerki, sem fólk af Íslensku bergi brotið í Ontario, safnaði fyrir og reisti.  Ég birti hér örfáar myndir af því sem ég tók fyrir all nokrum árum.

AUT 0107AUT 0108

 

 

,

 

 

 

 

 

 

 

AUT 0109

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eins kemur mér reyndar í huga, að Winnipeg Falcons, hefðu átt skilið að fá örlitla umfjöllun, þegar talað um um Íslendinga í Mantitoba.  Ef til vill verður minnst á þá í ókomnum þáttum.

En þessi atriði sem ég minnist á hér, sýna  hve mikil vöxtum og víðfeðm saga Íslendinga er í Vesturheimi, og auðvitað er það vonlaust að gera henni full skil í fáum þáttum.

Þau breyta því ekki heldur að ég naut þáttanna og hafði af þeim bæði gagn og gaman.

 


Að eiga orðin, er það hægt?

Ég velti því fyrir mér í kringum þá frétt að B og L hefði í heimildarleysi notað línur úr söngtexta, hvort að hægt væri að eiga orðin, og hvernig sá eignaréttur væri tilkominn?

Þurfa orðin eða orðnotkunin t.d. að vera ákveðinn orðafjöldi óbreyttur, eða getur það jafnvel bara verið eitt orð?  Varla er hægt að eigna sér eitt orð, en hvað þurfa á orðin að vera mörg svo að eignaréttur myndist?

Og mér datt í hug þegar ég sá þessa frétt um frumsýningu á Gullna hliðinu, eiga erfingjar Davíðs Stefánssonar, stóra óinnheimta skuld hjá hinni sívinsælu og gleðigefandi hljómsveit Sálinni Hans Jóns míns?

Þó að ekki væri greidd nema 100 krónur fyrir hvert skipti sem "Sálin hans Jóns míns"  hefur sést á prenti, væri ekki ólíklegt að sú skuld hlypi á milljónum, ekki síst ef greiða þyrfti fyrir hvert eintak.

Og er "mér finnst rigningin góð", eign Vilborgar Halldórsdóttur?

Önnur frétt af svipuðum toga sem vakti athygli mína er um deilur tveggja Danskra veitingastaða.  Þar er deilt um notkun hins algenga nafns Jensen.  Jensen Bøfhus, virðist eftir fréttinni að dæma telja sig eiga notkunina á nafninu Jensen í veitingageiranum.

Mörgum Dananum finnst þetta eðlilega býsna langt gengið.

En er ekki málið svipað á Íslandi?

Nýlega féll úrskurður þar sem einn aðili virðist eiga orðið fabrikka í veitingageiranum, meðal annars vegna þess að það er "frumlegt".

Þó þekkjast bæði "hamborgara fabrikur", eða "factories" um víða veröld og sömuleiðir "Pizzafabrikkur".  

Af sama meiði er tilraunir Íslensks fyrirtækis til þess að eigna sér orðið "gull" í bjórframleiðslu, sem er í notkun um víða veröld.  En ef til vill þykir það "frumlegt" að hafa dottið slík notkun í hug á Íslandi.

Og ef ég man rétt, var einu fyrirtæki gefin einkaeign á hinu almenna orði "bónus" í verslunarrekstri á Íslandi.

Og af því að ég er nafni eins þekktasta veitingamanns á Íslandi, verð ég líklega að gefa upp á bátinn þann draum að geta opnað veitingastað á Íslandi, sem héti "Tomma Pizzur", eða "Hjá Tomma".   :-)

Það getur bara verið einn Tómas í þeim bransa á Íslandi.

Gætu "Kentucky Fried Chicken" og "Southern Fried Chicken" bæði hafa verið stofnuð á Íslandi, eða hefði verið hætta á "ruglingi"?

Þessar vangaveltur eru ekki settar fram í neinni illgirni, eða það að ég hatist við höfundar eða vörumerkjarétt.

En ég held að það sé hollt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvernig við viljum að sé staðið að þessum málum og á hverju er rétt að gefa einkaleyfi eða notkun.  Hvað skapar höfundarétt og hvað ekki?

Það þarf að reyna að eyða "gráum svæðum" eins og kostur er, þó að líklega sé það aldrei að fullu hægt.

Það má til dæmis nefna til samanburðar að "Wal Mart" hefur að sjálfsögðu varinn rétt á því nafni, en ekki á orðinu "Mart", það er of almenns eðlis.

Þess vegna hafa Amerísk fyrirtæki í vaxandi mæli gerst "skapandi" í stafsetningu og reyna þannig að búa til eitthvað "einstakt" sem hægt er að skrásetja og fá vernd á.

"General Electric", hefur vernd fyrir nafn sitt, en hvorki "general" eða "electric", alla vegna eftir því sem ég kemst næst.

Ef til vill verður það lausnin í framtíðinni að notast við Ensku, þar sem of margar orðasamsetningar í Íslensku verða höfundavarðar.

Góðar stundir.  (Skyldi nú ekki einhver eiga þann "frasa"?)

P.S.  Til að hafa "allt upp á borðum" (á ekki einhver þennan frasa?), er rétt að taka fram að ég á mjög góða kunningja á meðal skyldmenna Davíðs Stefánssonar, en færslan er ekki skrifuð að þeirra frumkvæði, né vita þau af henni.  Samskipti mín við liðsmenn Sálarinnar hans Jóns mín (sem m.a. hefur innifalið fyrrverandi starfsfélaga) hafa öll verið góð og hef ég ekkert upp á þá að klaga. 

Ég hef ekki snætt á neinum þeim veitingastöðum sem nefndir eru í greininni, nema KFC, þau viðskipti fóru eðlilega fram, skipt á mat og fé.  Ég tengist engum þeirra á neinn hátt.

Ég hef drukkið drjúgt magn af "gull" bjór um víða veröld, en tengist framleiðslu þeirra ekki á neinn hátt eða hef af henni hagsmuni.

 


mbl.is Skemmtu sér á Gullna hliðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagar söngva og dansa

Á 5 ára fresti skunda Eistlendingar á sinn "þingvöll" og slá um söng og dans hátíð.  Þessi hefð er orðin 145 ára gömul, þó að í upphafi hafi eingöngu verið um söng að ræða, ef ég hef skilið rétt.

En þetta er mikil hátíð, yfir 30.000 þáttakendur og mér er til efs að víða sé hægt að hlusta á yfir 20.000 einstaklinga syngja saman.

Sönghátíðin hefst með heljarinnar skrúðgöngu frá Frelsis torginu (Vabaduse Väljak) að Söngva torgi (Laulu Väljak), þar sem risastórt svið er og sönghátíðin fer fram.

Í skrúðgöngunni eru flestir Eistnesku þátttakendurnir í þjóðlegum búningum og ganga undir merki síns kórs og sveitarfélags.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá skrúðgöngunni í gær, en fleiri má finna á Flickr síðunni minni.

Meiri upplýsingar um hátíðina má finna á  http://2014.laulupidu.ee/en/

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Algjör snilld

Þetta er með betri "sketsum" sem ég hef séð lengi.  Sjón er sögu ríkari.

 


Gott að fá úrskurð, en undanþágur eru vandmeðfarnar

Það er auðvitað gott að fá úrskurð í álitamálum sem þessum.  En það sýnir líka hve mikil vandræði skattaundanþágur geta skapað.

Líklega verða skattayfirvöld að búa til, eða kaupa skilgreiningu á list, hvernig svo sem það gengur.

Mörk á milli lista og nytjahluta eru oft óljós og ekki er að efa að mörg álitamál eiga eftir að koma upp í framtíðinni.

Ef til vill væri einfaldast að lögum yrði breytt á þann veg að list yrði virðisaukaskattsskyld eins og flest annað.

Væri það ekki einnig sanngjarnast? 

 


mbl.is Listaverk en ekki smíðavara til bygginga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

Auðvitað eiga Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að taka sig saman og styðja útgáfu þessarar bókar.

Upphæðin er ekki há, og áhættan því lítil. Kynningin gæti hins vegar orðið umtalsverð.  Ekki eingöngu í formi bókarinnar, heldur einnig í umfjöllun um að Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafi brugðist skjótt og vel við.

Hér á ekki að vera nein þörf fyrir opinbera sjóði, eða inngrip stjórnvalda.  Ferðaþjónustufyrirtækin eiga einfaldlega að ganga í málið.


mbl.is Jaðrar við ástarbréf til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband